Ferill 263. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 263 . mál.


445. Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1994.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin vísaði einstökum ákvæðum frumvarpsins til félagsmálanefndar, heilbrigðis- og trygginganefndar, landbúnaðarnefndar og menntamálanefndar. Þær umsagnir, sem bárust frá nefndunum, eru birtar sem fylgiskjöl með nefndarálitinu. Á fund nefndarinnar komu Björn Matthíasson frá fjármálaráðuneytinu, Guðmundur Luther Hafsteinsson og Magnús Skúlason frá Húsafriðunarsjóði, Heimir Steinsson útvarpsstjóri og Hörður Vilhjálmsson, fjármálastjóri Ríkisútvarpsins, Dögg Pálsdóttir frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þórður Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sigurgeir Þorgeirsson frá landbúnaðarráðuneytinu og Júlíus Vífill Ingvarsson formaður og Gunnar Gunnarsson, varaformaður Félags búvélainnflytjenda. Meiri hluti nefndarinnar hefur tekið upp í sínar breytingartillögur þær tillögur sem heilbrigðis- og tryggingamálanefnd lagði til að gerðar yrðu í umsögn sinni.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Þær breytingar eru eftirfarandi:
    Lagt er til að 7. gr. falli brott, en sú grein fól í sér álagningu sérstaks búvélagjalds. Þá er jafnframt lagt til að 10. gr. verði felld brott þar sem í nýsamþykktum lögum um félagslega aðstoð er veitt lagaheimild til að tengja greiðslu ekkjulífeyris við tekjur.
    Lagt er til að því markmiði, sem átti að ná með 16. gr. frumvarpsins, verði frekar náð með nokkrum lagfæringum á 5. mgr. 24. gr. laga nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar. Þannig verði tryggt að ekki komi til misnotkun á þessu ákvæði.
    Þá er lögð til sú breyting á 11. gr. að þátttaka hins sjúkratryggða í kostnaði sé afmörkuð við dvöl á sérhæfðum meðferðarstofnunum. Með þessu er reynt að gera ákvæðið skýrara hvað það varðar að bráðameðferð drykkjusjúklinga, t.d. á geðdeild Landspítala, falli ekki þar undir.
    Þá er lögð til sú breyting á 20. gr., í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga, að það fái einn fastan mann í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs á árinu 1994.
    Loks er lagt til að innheimtuhlutfall af búvörum til Bjargráðasjóðs lækki um helming á árinu 1994, eða úr 0,6% í 0,3%.

Alþingi, 18. des. 1993.



Rannveig Guðmundsdóttir,

Guðjón Guðmundsson.

Sólveig Pétursdóttir.


frsm.



Ingi Björn Albertsson,

Lára Margrét Ragnarsdóttir.


með fyrirvara.






Fylgiskjal I.


Umsögn meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.


(15. desember 1993.)



    Heilbrigðis- og trygginganefnd hefur, sbr. bréf efnahags- og viðskiptanefndar, dags. 11. desember 1993, fjallað um 10.–20. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1994, 263. máls.
    10. og 11. gr. frumvarpsins kveða á um breytingar á ákvæðum laga um almannatryggingar. Annars vegar er um að ræða heimild til að setja í reglugerð ákvæði um að tengja greiðslu ekkjulífeyris við tekjur og hins vegar heimild til setningar reglugerðar um gjaldtöku vegna dvalar á sjúkrastofnunum. 12.–20. gr. fjalla hins vegar um margþættar breytingar á lögum um atvinnleysistryggingar.
    Nefndin fékk á sinn fund til að fjalla um 11. gr. frumvarpsins Davíð Á. Gunnarsson, Tómas Helgason og Jóhannes Bergsveinsson frá Ríkisspítölum og Þórarin Tyrfingsson og Theódór Skúla Halldórsson frá SÁÁ. Þá komu á fund nefndarinnar til að fjalla um 12.–20. gr. Lára V. Júlíusdóttir og Gylfi Arnbjörnsson frá ASÍ, Jón H. Magnússon frá VSÍ, Pétur Sigurðsson og Margrét Tómasdóttir frá Atvinnuleysistryggingasjóði og Þórður Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þá studdist nefndin við gögn sem aflað var við yfirferð yfir málið og upplýsingar frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti.
    Meiri hluti nefndarinnar, Gunnlaugur Stefánsson, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Sólveig Pétursdóttir og Sigríður A. Þórðardóttir, leggur til við háttvirta efnahags- og viðskiptanefnd að eftirtaldar breytingar verði gerðar á 11. og 20. gr. frumvarpsins.
A.    11. gr. Við 2. mgr. greinarinnar bætist: á sérhæfðum meðferðarstofnunum. 2. mgr. hljóði því svo:
                  Þó er heimilt að ákveða í reglugerð að sjúkratryggður taki þátt í kostnaði vegna dvalar á sérhæfðum meðferðarstofnunum.
                  
Samkvæmt upplýsingum sem nefndin aflaði sér hefur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra aldrei áformað að taka gjöld af áfengissjúklingum í svokallaðri bráðameðferð. Rætt hefur verið um að gjaldtaka ætti við gagnvart þeim sem stunda svokallaða eftirmeðferð, svo sem á þeim stofnunum SÁÁ og Ríkisspítala sem einungis veita eftirmeðferð. Þannig kæmi t.d. ekki til álita að taka gjald af áfengissjúklingum sem leita sér bráðaaðstoðar á geðdeild Landspítala vegna geðrænna vandamála. Þá skal bent á að hér er um að ræða heimild til viðkomandi stofnana til innheimtu sértekna, sem þær munu gera tillögur um og ráðherra staðfestir síðan. Með vísan til þess leggur meiri hluti heilbrigðis- og trygginganefndar til framangreinda breytingu á 2. mgr. 11. gr.
B.         20. gr. Lagt er til að ákvæðinu verði breytt til samræmis við samkomulag fjármálaráðherra, félagsmálaráðherra og fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 10. desember 1993 (sjá meðfylgjandi afrit). Meiri hlutinn leggur því til að 20. gr. hljóði svo:

                   Ákvæði til bráðabirgða IV verður svohljóðandi:
                  Á árinu 1994 skulu sveitarfélög greiða 600 m.kr. til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Sveitarfélög
með 300 íbúa eða fleiri greiði 2.312 kr. fyrir hvern íbúa, en sveitarfélög með færri en 300 íbúa greiði 1.387 kr. á hvern íbúa. Miða skal við íbúafjölda 1. desember 1993. Um innheimtu gjaldsins skal fjármálaráðherra setja reglugerð.
                  Þrátt fyrir ákvæði 37. gr. skal stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt á árinu 1994 að gera tillögur um ráðstöfun á þessu fjármagni sem sveitarfélögin greiða til sjóðsins, auk allt að 600 m.kr. af öðru ráðstöfunarfé sjóðsins á árinu 1994, til að styrkja sérstök verkefni á vegum sveitarfélaga til eflingar atvinnulífi, enda verði dregið samsvarandi úr greiðslum atvinnuleysisbóta á viðkomandi stað. Úthlutun styrkja skal vera í samræmi við reglur sem ráðherra setur að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Á árinu 1994 skal einn fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga taka sæti í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Tillögur sjóðstjórnar um styrkveitingu skulu staðfestar af ráðherra.

    Meiri hlutinn gerir að öðru leyti ekki athugasemdir við 10.–12. gr. frumvarpsins.

F.h. meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar,



Gunnlaugur Stefánsson, form.





Fylgiskjal II.


Umsögn minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.


(16. desember 1993.)



    Heilbrigðis- og trygginganefnd hefur fjallað um bréf efnahags- og viðskiptanefndar, dags. 11. desember 1993, er fjallar um 10.–20. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1994, 263. máls. Nefndin fékk á sinn fund fjölmarga aðila er málinu tengjast, sbr. bréf meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar, dags. 15. desember 1993.
    Minni hlutinn, Finnur Ingólfsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ingibjörg Pálmadóttir og Margrét Frímannsdóttir, vill gera athugasemdir við eftirfarandi þætti er snúa að 10.–20. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum:
    1. Minni hlutinn hafnar því að tekjutengja ekkjulífeyri í þeim tilgangi að draga úr útgjöldum almannatrygginga. Ekkert hefur komið fram í starfi nefndarinnar sem rökstyður það að slík breyting sé skynsamleg, enda liggur ekkert fyrir um með hvaða hætti tekjutengingin eigi að verða. Hér er á ferðinni ein af mörgum breytingum sem gerðar hafa verið að undanförnu í þá átt að tekjutengja einstakar bætur almannatryggingalaga án þess að litið sé á hvaða áhrif slík tekjutenging hafi í för með sér.
    2. Í 11. gr. frumvarpsins er verið að opna fyrir almenna heimild til gjaldtöku af sjúklingum sem leggjast inn á sjúkrastofnanir, jafnvel þótt tilgreint verði í lagagreininni að þetta skuli aðeins gilda um þá sem leggjast inn á sérhæfðar meðferðarstofnanir en meiri hlutinn leggur til að greininni verði breytt á þann veg. Útilokað er að gera greinarmun á sérhæfðum meðferðarstofnunum og almennum sjúkrastofnunum þar sem einstakar deildir á almennum sjúkrastofnunum eru í mörgum tilfellum sérhæfðar meðferðardeildir. Verið er að stíga örlagaríkt skref í heilbrigðismálum þjóðarinnar með því að skipta sjúkdómum upp í velþóknunarflokka. Þó að í frumvarpinu sé fyrst og fremst talað um að gjaldtakan skuli ekki gilda fyrir áfengismeðferðarstofnanir er hér farið inn á varhugaverða braut þar sem flestir áfengissjúklingar eru haldnir öðrum geðsjúkdómum og/eða líkamlegum sjúkdómum þegar þeir leita meðferðar á sjúkrahúsum og verður áfengismeðferðin þá ekki aðskilin frá annarri læknismeðferð. Með þessari gjaldtöku verður það háð efnahag hvort fólk getur leitað sér læknismeðferðar. Þó að meðferð áfengissjúklinga beri ekki alltaf árangur, fremur en meðferð fjölda annarra sjúkdóma, er hún alltaf viss vörn gegn fylgikvillum sjúkdómsins og örorku og ótímabærum dauða.
    Það kom fram hjá fulltrúum SÁÁ og ríkisspítalanna, er mættu til fundar við nefndina, að gjaldtaka af þessum sjúklingum yrði erfið í framkvæmd ef ekki óframkvæmanleg. Það var mat þessara fulltrúa af reynslu þeirra af að innheimta göngudeildargjöld af áfengissjúklingum að aðeins 30% þeirra sem þangað koma geti greitt gjaldið. Sé gengið út frá því að aðeins 1 / 3 sjúklinga geti greitt gjaldið og þeir þurfi að standa undir öllum sértekjunum, sem krafist er, má áætla að innlagnargjaldið verði í kringum 30 þús. kr.
    3. Í 12.–20. gr. frumvarpsins er fjallað um Atvinnuleysistryggingasjóð. Það kom fram í máli fulltrúa ASÍ og VSÍ, sem mættu til fundar við nefndina, að samtök þeirra gerðu ekki efnislegar athugasemdir við frumvarpið. Fulltrúi VSÍ lagði þó áherslu á að þar sem atvinnurekendur greiða orðið helminginn af framlaginu í sjóðinn á móti ríkinu sé eðlilegt að Vinnuveitendasamband Íslands fái einn fulltrúa til viðbótar í stjórn sjóðsins.
    Á árinu 1993 voru fjárveitingar til sjóðsins 1.464 millj. kr. auk 500 millj. kr. frá sveitarfélögunum. 7. desember sl. höfðu verið greiddar úr sjóðnum 2.300 millj. kr. og 300 millj. kr. höfðu verið greiddar til sveitarfélaganna. Áætlað er að heildarútgjöld sjóðsins verði um 2.800 millj. kr. á þessu ári og fari um 1.300 millj. kr. fram úr áætlun. Verðbréf, sem sjóðurinn á, eru í dag metin á rúmlega 1 millj. 750 þús. kr., en það eru að langmestu leyti bréf sem keypt hafa verið af Húsnæðisstofnun á undanförnum árum. Þegar sjóðurinn hefur farið fram úr fjárveitingum hefur það sem ekki hefur fengist með aukafjárveitingum verið brúað með því að ríkissjóður hefur leyst til sín bréf sjóðsins að nafnvirði sem svarar til mismunarins. Ekki reyndist unnt að fá tölu um áætlaða stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs í upphafi árs 1994. Gert er ráð fyrir að tekjur sjóðsins á næsta ári verði 3.000 millj. kr. og er þá miðað við áætlun Þjóðhagsstofnunar um 5% atvinnuleysi.
    Í 12 gr. frumvarpsins eru gerðar breytingar til samræmis við frumvarp til laga um breytingar á lögum um tryggingagjald. Lögbundið framlag ríkissjóðs í sjóðinn hækkar þannig úr 0,45% af stofni tryggingariðgjalds í 0,5% og er það um 100 millj. kr. hækkun.
    Í 13.–19. gr. frumvarpsins eru gerðar ýmsar breytingar á lögunum um Atvinnuleysistryggingasjóð. Þar er fyrst og fremst um minni háttar breytingar að ræða sem ýmist gera gildandi lög skýrari en áður eða tryggja betur bótarétt. Í 17. og 18. gr. er opnuð heimild til að fækka úthlutunarnefndum. Í 19. gr. er gert ráð fyrir að hætt verði að lána úr Atvinnuleysistryggingasjóði til stéttarfélaga og félaga atvinnurekenda til að koma upp húsnæði fyrir félagsstarfsemi sína og/eða orlofsheimili launþega. Ekki verður séð af þeim tillögum, er fram koma í frumvarpinu, að þær muni hafa í för með sér einhvern sparnað fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð. Það er í samræmi við umsögn fjármálaráðuneytisins þar sem sagt er að þær breytingar, sem gerðar eru á 13. og 19. gr. frumvarpsins, muni ekki hafa áhrif á heildarútgjöld sjóðsins þar eð áhrif breytinganna eru ýmist til hækkunar eða lækkunar.
    Í 20. gr. er gert ráð fyrir að sveitarfélögin leggi Atvinnuleysistryggingasjóði til framlag til atvinnuskapandi verkefna á árinu 1994 með sama hætti og 1993. Nú er gert ráð fyrir að framlagið hækki um 100 millj. kr., úr 500 millj. kr. í 600 millj. kr. Samkomulag hefur orðið á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisstjórnarinnar um að þetta fyrirkomulag skuli gilda á árinu 1994. Af þeim 500 millj. kr., sem þannig voru innheimtar hjá sveitarfélögunum á þessu ári, verða eftir í Atvinnuleysistryggingasjóði rúmar 200 millj. kr. Ekki verður annað séð en að sú ráðstöfun að innheimta hjá sveitarfélögunum sérstakan sveitarfélagaskatt til Atvinnuleysistryggingasjóðs og deila honum síðan aftur út til sveitarfélaganna til sérstakra átaksverkefna hafi talsvert óhagræði í för með sér, miðstýringu, og kostnaðarsaman tilflutning á peningum. Miklu eðlilegra væri að ætla sveitarfélögunum að sjá um þetta sjálf.
    Tilgangurinn með þessu frumvarpi er sá að treysta forsendur fjárlaga fyrir árið 1994 með því að ná 120 millj. kr. sparnaði í atvinnuleysistryggingum og rúmlega 20 millj. kr. sparnaði á áfengismeðferðarstofnununum. Af framangreindu verður ekki séð að með þessum aðgerðum náist slíkur sparnaður.

F.h. minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar,



Ingibjörg Pálmadóttir, varaform.





Fylgiskjal III.


Umsögn meiri hluta félagsmálanefndar.


    Félagsmálanefnd hefur tekið til umfjöllunar ákvæði 8. og 9. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1994, 263. máls þingsins, sbr. bréf efnahags- og viðskiptanefndar frá 11. desember sl.
    Við umfjöllun um þann hluta fjárlaga, sem er á málefnasviði félagsmálanefndar, ræddi nefndin einnig þessi mál og lagði í þeirri umfjöllun sérstaka áherslu á málefni fatlaðra. Fékk hún fulltrúa félagsmálaráðuneytisins á sinn fund auk þess sem hún fór á fund forsvarsmanna Þroskahjálpar með fulltrúum Öryrkjabandalagsins. Í ábendingum meiri hluta nefndarinnar til fjárlaganefndar kemur fram að fjárveitingar til Framkvæmdasjóðs fatlaðra lækka um 30 millj. kr. vegna lækkunar tekna af erfðafjárskatti. Jafnframt tekur sjóðurinn að sér sérstök viðfangsefni (á sviði rekstrar) sem nema 42,2 millj. kr. Sérstök fjárveiting úr ríkissjóði til byggingar sambýla fyrir fatlaða er óbreytt, 20 millj. kr. Einu nýju stofnanirnar, sem framlag verður veitt til, eru sambýli sem fyrirhugað er að koma á fót vegna sölu Sólborgar á Akureyri, en Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur veitt framlög til Sólborgar á liðnum árum. Lagði meiri hlutinn áherslu á mikilvægi uppbyggingar í þessum málaflokki í framtíðinni.
    Eftir að efnahags- og viðskiptanefnd beindi 263. máli til félagsmálanefndar fékk nefndin á fund sinn til viðræðna frá félagsmálaráðuneytinu Húnboga Þorsteinsson skrifstofustjóra og Sturlaug Tómasson deildarstjóra. Til að fjalla um 9. gr. frumvarpsins komu frá Þroskahjálp Lára Björnsdóttir formaður og Ásta Þorsteinsdóttir og frá Öryrkjabandalagi Íslands Ásgerður Ingimarsdóttir framkvæmdastjóri og Helgi Seljan félagsfulltrúi.
    Með tilliti til þess sem fram hefur komið í viðræðum um þennan málaflokk gerir meiri hlutinn ekki athugasemdir við 9. gr. frumvarpsins.
    Til að fjalla um 8. gr. frumvarpsins fékk nefndin á fund sinn frá Alþýðusambandi Íslands Láru V. Júlíusdóttur framkvæmdastjóra og frá Vinnuveitendasambandi Íslands Hannes G. Sigurðsson hagfræðing. Meiri hlutinn gerir ekki athugasemd við 8. gr. frumvarpsins.     
    Jón Kristjánsson og Kristinn H. Gunnarsson voru ekki viðstaddir afgreiðslu þessa álits.

Alþingi, 14. des. 1993.



Rannveig Guðmundsdóttir, form.


Guðjón Guðmundsson.


Gísli Einarsson.


Einar K. Guðfinnsson.


Eggert Haukdal.





Fylgiskjal IV.


Umsögn landbúnaðarnefndar.


(14. desember 1993.)



    Landbúnaðarnefnd hefur tekið til umfjöllunar þann þátt frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1994, 263. máls, sem er á málefnasviði hennar (5.–7. gr.), sbr. bréf efnahags- og viðskiptanefndar frá 11. desember sl. Fékk hún á fund sinn til viðræðna frá landbúnaðarráðuneytinu Sigurgeir Þorgeirsson, aðstoðarmann landbúnaðarráðherra, og Guðmund Sigþórsson skrifstofustjóra.
    Í 5. og 6. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfest verði heimild til álagningar skólagjalda við bændaskólana á Hvanneyri og Hólum og Garðyrkjuskóla ríkisins. Þessi ákvæði eru hliðstæð sams konar ákvæði sem kemur fram í 8. gr. laga nr. 57/1988, um framhaldsskóla, auk þess sem sérskólar sem ekki falla undir þau lög en heyra undir menntamálaráðuneytið hafa einnig slíkar heimildir til gjaldtöku. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til þessa atriðis. Egill Jónsson, Gísli Einarsson og Eggert Haukdal telja eðlilegt að ákvæði 5. og 6. gr. verði lögfest þannig að fyrrgreindir þrír skólar sem falla undir landbúnaðarráðuneytið fái sams konar gjaldtökuheimildir, enda út frá því gengið að samræmis sé gætt milli hliðstæðra skóla um beitingu þessara gjalda. Kristín Ástgeirsdóttir, Jóhannes Geir Sigurgeirsson og Ragnar Arnalds eru ekki sammála framangreindri túlkun á ákvæði 8. gr. laga nr. 57/1988 og eru andvíg lögfestingu 5. og 6. gr.
    Nefndin leitaði álits Lárusar Ögmundssonar, lögfræðings Ríkisendurskoðunar, á því hvort gjaldtaka sú á allar seldar búvélar, sem lögð er til í 7. gr. frumvarpsins, væri í raun þjónustugjald eða skattur til ríkissjóðs. Í frumvarpinu er ekki að finna neina skírskotun til þess að Rannsóknastofnun landbúnaðarins muni veita þeim sem kann að flytja inn, framleiða eða selja búvélar tiltekna þjónustu vegna hverrar gjaldskyldrar vélar. Þar með liggur fyrir að ofangreint gjald uppfyllir ekki þau skilyrði að geta talist opinbert þjónustugjald heldur skattur sem á sér margar hliðstæður. Þetta er í samræmi við álit lögfræðings Ríkisendurskoðunar. Þá vill nefndin enn fremur geta þess að búvélasalar greiða gjald til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins vegna prófana á tækjum þeirra sem Rannsóknastofnun landbúnaðarins er í sjálfsvald sett að ákveða. Samkvæmt framansögðu eru þær forsendur gjaldtökunnar, sem byggt er á í 7. gr., ekki fyrir hendi og getur landbúnaðarnefnd þar af leiðandi ekki mælt með því ákvæðið verði lögfest.
    Einar K. Guðfinnsson, Árni M. Mathiesen og Guðni Ágústsson voru fjarverandi við afgreiðslu þessa máls.

F.h. landbúnaðarnefndar Alþingis,



Egill Jónsson, form.




Fylgiskjal V.

Umsögn meiri hluta menntamálanefndar.


(15. desember 1993.)



    Menntamálanefnd hefur, sbr. bréf efnahags- og viðskiptanefndar, dags. 11. desember 1993, fjallað um 1.–4. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1994, 263. máls.
    Umrædd ákvæði fela annars vegar í sér að framlengd er frestun á framkvæmd ákvæða grunnskólalaga um skólamáltíðir, lengingu kennslutíma, fækkun nemenda í bekkjardeildum og að komið skuli á skólaathvörfum við hvern grunnskóla, sbr. 1. og 2. gr. frumvarpsins. Hins vegar fjalla 3. og 4. gr. um heimild til handa Tækniskóla Íslands til að innheimta skólagjöld af nemendum. Nefndin fékk á sinn fund við umfjöllun málsins Guðríði Sigurðardóttur, ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneyti, og Örlyg Geirsson, skrifstofustjóra í sama ráðuneyti, Ásdísi Sigurjónsdóttur, deildarsérfræðing í fjármálaráðuneyti, og Guðbrand Steinþórsson, rektor Tækniskóla Íslands.
    Meiri hluti nefndarinnar, sem skipaður er Sigríði A. Þórðardóttur, Birni Bjarnasyni, Tómasi Inga Olrich, Petrínu Baldursdóttur og Árna Johnsen, telur að með tilliti til þeirra upplýsinga, sem fram komu við umfjöllun um framangreind ákvæði, séu ekki efni til að gera athugasemdir við frumvarpið.

F.h. meiri hluta menntamálanefndar,



Sigríður A. Þórðardóttir, form.




Fylgiskjal VI.


Umsögn minni hluta menntamálanefndar.


(16. desember 1993.)



    Menntamálanefnd hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1994, 263. mál.
    Nefndin fjallaði á fundi sínum 14. desember sl. um 1.–4. gr. frumvarpsins sem kveða á um menntamál og eru því á málefnasviði menntamálanefndar. Á fundinn voru boðaðir fulltrúar frá menntamálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti og Tækniskóla Íslands.
    Minni hlutinn er algjörlega andvígur því að fresta ákvæðum grunnskólalaga, nr. 49 frá 1991, sem samþykkt voru með atkvæðum allra stjórnmálaflokka sem þá áttu sæti á Alþingi.
    Það sýnir skilningsleysi og áhugaleysi á mikilvægi grunnmenntunar og aðstæðum barna og fjölskyldna í landinu að leggja nú fram þriðja árið í röð frumvarp sem frestar þeim mikilvægu ákvæðum grunnskólalaganna sem kveða á um að komið skuli á máltíðum í skólum, lengingu kennslutíma og að komið verði upp skólaathvarfi við hvern grunnskóla. Auk þess er því frestað að nemendum skuli fækkað í bekkjardeildum og sú heimild fræðslustjóra að mega fjölga um allt að tvo nemendur í bekkjum, þegar sérstaklega stendur á, látin gilda áfram. Með þessum lagabreytingum ætlar ríkisstjórnin að spara 160 millj. kr. á árinu 1994 en lækkunin nemur 350 millj. kr. á skólaárinu 1994–95.
    Í máli embættismanna menntamálaráðuneytisins kom m.a. fram að ráðuneytið hefur ekki eftirlit með því hvernig fjölgun í bekkjum kemur niður á hinum ýsmu skólum og veit ekki hversu mikið rými nemendur hafa í kennslustofum sínum og hvernig það samræmist þeim reglum sem í gildi eru um það efni.
    Í gögnum, sem unnin voru í menntamálaráðuneytinu, kemur m.a. fram að á skólaárinu 1992–93 var heimild fræðslustjóra til að fjölga nemendum um allt að tvo í bekkjum nýtt í 34 tilfellum og að auki í 16 tilfellum á skólaárinu 1993–94. Þá kemur enn fremur fram að framlag á nemanda á verðlagi frumvarpsins hefur farið lækkandi á síðustu árum. Einnig hefur vikustundum á nemanda, þ.e. heildarfjölda vikustunda í umdæmi deilt með fjölda nema, fækkað.
    Nýleg könnun, sem gerð var á lestrarkunnáttu grunnskólabarna, sýnir að þar stöndum við Íslendingar ekki eins vel að vígi og vera skyldi, enda tala kennarar um að erfitt sé að koma öllu námsefninu fyrir í þeim kennslustundum sem íslensk stjórnvöld skammta grunnskólunum. Þetta leiðir til minni einstaklingskennslu og meiri hópkennslu.
    Þær breytingar hafa átt sér stað á kennslumagni að vikustundum hefur fækkað um 53 og fjöldi stöðugilda hefur nánast staðið í stað. Grunnskólakennurum fjölgar um 50 og leiðbeinendum hefur fækkað um 53 á milli skólaáranna 1992–93 og 1993–94. Það hefur borið á atvinnuleysi á meðal kennara auk þess sem þessar aðgerðir hafa valdið launalækkun hjá stéttinni.
    Í 3. og 4. gr. frumvarpsins er fjallað um Tækniskóla Íslands. Felld er niður málsgrein þess efnis að kostnað við stofnun og rekstur Tækniskóla Íslands skuli greiða að fullu úr ríkissjóði. Þá er kveðið á um það að skrásetningargjöld skuli tekin upp í sérgreinadeildum Tækniskóla Íslands og nemendagjöld í undirbúnings- og raungreinadeild skólans en hún telst vera á framhaldsskólastigi. Minni hlutinn er andvígur því að taka út ákvæði þess efnis að kostnaður við rekstur skólans skuli greiddur að fullu úr ríkissjóði þar sem það opni heimild til þess að skólinn fái engin bein framlög úr ríkissjóði.
    Fram kemur í fylgiskjali með frumvarpinu að Tækniskólinn skuli afla sértekna upp á 7 millj. kr. á næsta ári og greindi rektor skólans frá því að reiknað væri með skólagjöldum upp á 17.000 kr. á nemanda yfir veturinn.
    Minni hlutinn er andvígur þeim greinum frumvarpsins sem menntamálanefnd fjallaði um að beiðni efnahags- og viðskiptanefndar, þ.e. 1.–4. gr., og leggur til að þær verði felldar.

F.h. minni hluta menntamálanefndar,



Valgerður Sverrisdóttir.