Ferill 251. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 251 . mál.


481. Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breytingar í skattamálum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Eftir afgreiðslu frumvarpsins við 2. umræðu hefur nefndin komið saman á ný til að ræða breytingu á frumvarpinu. Á fund nefndarinnar komu Indriði H. Þorláksson og Snorri Olsen. Meiri hluti nefndarinnar flytur breytingartillögur sem birtar eru á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagt er til að einstakar gjafir og framlög til stjórnmálaflokka verði frádráttarbær frá tekjum lögaðila.
    Lagt er til að þeir aðilar, sem taka lán vegna kaupa á eignarhluta í íbúð skv. 76. gr. laga nr. 97/1993, um Húsnæðisstofnun ríkisins, skuli njóta vaxtabóta af þeim sökum.
    Lagðar eru til þær breytingar varðandi lög um virðisaukaskatt að fólksflutningar og ferðaskrifstofur verði færðar undan skattskyldu. Í samræmi við þær breytingar er flutningur á ökutækjum með ferjum í beinum tengslum við fólksflutninga færður frá a-lið 18. gr. í b-lið 16. gr.
    Þá er lögð til hækkun tryggingagjalds á fólksflutninga, ferðaskrifstofur og veitingarekstur.
    Lagt er til að fjármálaráðherra geti heimilað þeim aðilum, sem fjárfest hafa í hótel- og gistirými frá því að virðisaukaskattur var tekinn upp, að framkvæma tiltekna leiðréttingu vegna innskatts sem í fjárfestingunni felst. Þetta er gert til að jafna aðstöðu þessara aðila gagnvart nýjum aðilum í atvinnugreininni sem leggja í fjárfestingu eftir að skattskyldan kemst á og geta dregið allan innskatt frá við uppgjör.
    Loks er lagt er til að steinull flytjist úr gjaldflokki B í gjaldflokk A eins og þegar hefur verið lagt til varðandi ýmsar aðrar byggingarvörur. Einnig er lagt til að upptalning tollskrárnúmera í gjaldflokkum A og E verði lagfærð af tæknilegum ástæðum.
    Ingi Björn Albertsson tekur fram að hann standi við sitt fyrra nefndarálit, sbr. álit 4. minni hluta á þskj. 427, en jafnframt lýsir hann sig reiðubúinn að standa að þeim breytingartillögum sem eru grundvöllur þessa framhaldsnefndarálits að undanskildum 1. lið þeirra tillagna varðandi það að framlög til stjórnmálaflokka verði talin frádráttarbær frá tekjum lögaðila.

Alþingi, 20. des. 1993.



Vilhjálmur Egilsson,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Guðjón Guðmundsson.


varaform., frsm.



Sólveig Pétursdóttir.

Ingi Björn Albertsson.