Ferill 251. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 251 . mál.


482. Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breytingar í skattamálum.

Frá 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Þriðji minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar vísar til ítarlegs nefndarálits á þskj. 411 um afstöðu til málsins, svo og breytingartillagna sem þar eru útskýrðar.
    Milli 2. og 3. umræðu hefur sú breyting orðið að ríkisstjórnin hefur ákveðið að falla frá áformum um álagningu virðisaukaskatts á almenningssamgöngur og þjónustu ferðaskrifstofa. Þriðji minni hlutinn fagnar þessari niðurstöðu að sjálfsögðu en harmar að skrefið skyldi ekki stigið til fulls og virðisaukaskatturinn tekinn af allri ferðaþjónustunni. Eftir situr gistingin sem á nú um áramótin að fá á sig skattinn. Þegar þetta er skrifað er enn óljóst hvort einhver aðlögun fæst fyrir þann hluta gistiþjónustunnar sem fjárfest hefur á undanförnum árum og býr því við uppsafnaðan virðisaukaskatt.
    Þriðji minni hlutinn kallaði breytingartillögur sínar til baka við atkvæðagreiðslu eftir 2. umræðu en endurflytur þær nú að öðru leyti en því sem óþarft er í ljósi samkomulags um að hætta við skattlagninguna á almenningssamgöngur og ferðaskrifstofur.
    Að lokum vill 3. minni hlutinn taka fram að hann er aðili að samkomulagi um málefni stjórnmálaflokkanna og breytingartillögum sem því tengjast. Þriðji minni hlutinn bindur miklar vonir við að það nefndarstarf, sem í samkomulaginu felst, leiði til skynsamlegra reglna á þessu sviði sem löngu er tímabært að setja.

Alþingi, 20. des. 1993.



Steingrímur J. Sigfússon.