Ferill 302. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 302 . mál.


592. Nefndarálit



um frv. til l. um stöðvun verkfalls fiskimanna í aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands utan Vestfjarða, svo og Vélstjórafélagi Íslands, Vélstjórafélagi Suðurnesja og Vélstjórafélagi Vestmannaeyja.

Frá 2. minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Annar minni hluti sjávarútvegsnefndar telur að ein helsta ástæðan fyrir verkfalli fiskimanna sé sú staðreynd að stjórnvöld hafa haft lítið samráð við hagsmunaaðila um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Allt frá síðasta vori hefur legið ljóst fyrir að það stefndi í átök milli samtaka sjómanna og útgerðarinnar, einkum vegna þeirra áhrifa sem viðskipti með aflaheimildir hafa á kjör sjómanna. Samt var ekkert aðhafst af hálfu ríkisstjórnarinnar fyrr en allt var komið í hnút og verkfall skollið á.
    Deilur um svokallað „kvótabrask“ hafa einkennt umræðuna, en ekki hefur tekist að finna ásættanlega leið til lausnar. Yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og loforð einstakra ráðherra um tillögur eða frumvörp sem tryggi réttarstöðu sjómanna eru nú sannanlega einskis virði, sbr. bréf frá sjávarútvegsráðherra sem óskar eftir afgreiðslu málsins án þess að nokkur niðurstaða liggi fyrir.
    Annar minni hluti telur að þessi staða sem upp er komin sé alfarið á ábyrgð ríkisstjórnar og stuðningsmanna hennar. Stjórnarandstaðan hefur ekki átt aðild að endurskoðun laga um stjórn fiskveiða og lítið sem ekkert samráð haft við hana frekar en hagsmunaaðila.
    Annar minni hluti sjávarútvegsnefndar er andvígur setningu bráðabirgðalaga samkvæmt frumvarpi þessu og munu einstakir nefndarmenn gera nánari grein fyrir afstöðu sinni við umræðu um málið.

Alþingi, 15. febr. 1994.



Steingrímur J. Sigfússon,

Halldór Ásgrímsson.

Stefán Guðmundsson.


varaform., frsm.



Jóhann Ársælsson.