Ferill 406. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 406 . mál.


610. Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 1993.

    Þátttaka Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins í starfi sambandsins á árinu 1993 var með hefðbundnum hætti. Íslandsdeildin tók þátt í báðum reglulegum þingum sambandsins. Það fyrra var haldið í Nýju-Delhí á Indlandi (89. þing) í apríl og hið síðara í Canberra í Ástralíu (90. þing) í september. Ætla má að á hvort þing um sig hafi sótt 800–1.000 manns, þingmenn, ráðgjafar og aðrir starfsmenn auk fjölmiðlafólks.
    Þá sótti formaður Íslandsdeildar einnig samráðsfundi norrænu deildanna í Alþjóðaþingmannasambandinu sem haldnir voru fyrir bæði þingin.
    Stjórn Íslandsdeildarinnar skipa Geir H. Haarde, formaður, Ólafur Þ. Þórðarson, varaformaður, Gunnlaugur Stefánsson, Margrét Frímannsdóttir (Svavar Gestsson til vara) og Einar K. Guðfinnsson. Áheyrnarfulltrúi Kvennalistans er Anna Ólafsdóttir Björnsson.

A. ÞINGIÐ Í NÝJU-DELHÍ


I. Inngangur.


    Alþjóðaþingmannasambandið hélt sitt 89. þing í Nýju-Delhí dagana 12.–17. apríl 1993. Þingið sóttu fulltrúar 107 þjóðþinga, en á þinginu voru auk þess áheyrnarfulltrúar frá fjölmörgum alþjóðasamtökum, þar á meðal ýmsum stofnunum Sameinuðu þjóðanna og Evrópuþinginu.
    Fyrir hönd Íslandsdeildarinnar sóttu þingið alþingismennirnir Geir H. Haarde, formaður, Ólafur Þ. Þórðarson, varaformaður deildarinnar, Svavar Gestsson og Einar K. Guðfinnsson, auk Þorsteins Magnússonar, ritara Íslandsdeildarinnar.
    Alþjóðaþingmannasambandið gefur út greinargóða skýrslu, á ensku og frönsku, um hvert þing sambandsins og geta þeir sem þess óska fengið eintak af henni hjá ritara Íslandsdeildarinnar.

II. Störf og ályktanir þingsins.


    Að venju var fjallað um þrjú málefni á þinginu auk þess sem fram fóru almennar stjórnmálaumræður. Þau þrjú efni, sem fjallað var um, voru eftirfarandi:
    alþjóðleg skráning og eftirlit með sölu vopna,
    beiting mennta- og menningarstefnu sem lið í að efla virðingu manna fyrir lýðræði,
    ástandið í Júgóslavíu, einkum með hliðsjón af stöðu þjóðernisminnihluta og mannréttindamála.
Um öll þessi efni samþykkti þingið sérstakar ályktanir.
    Íslenska sendinefndin tók virkan þátt í störfum þingsins, bæði í umræðum og nefndastörfum. Nefna má m.a. að Geir H. Haarde talaði í umræðum um eftirlit með vopnasölu, Svavar Gestsson flutti ræðu í umræðunum um menntamál og lýðræði og Einar K. Guðfinnsson talaði í almennu stjórnmálaumræðunum. Allir í sendinefndinni tóku jafnframt þátt í nefndastörfum auk þess sem Svavar Gestsson var kjörinn í ellefu manna undirnefnd (drafting committee) sem falið var að gera tillögu að ályktun þingsins um menntamál og lýðræði. Þá kom það jafnframt í hlut formanns Íslandsdeildarinnar að gegna um tíma störfum þingforseta.

III. Störf og ákvarðanir ráðsins.


    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins fundaði tvívegis meðan þingið stóð yfir en á meðan lágu þingfundir niðri. Ráðið er hin formlega stjórn sambandsins og eiga í því sæti tveir fulltrúar frá hverri þjóðdeild. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sátu Geir H. Haarde og Ólafur Þ. Þórðarson fundi í ráðinu.
    Ráðið samþykkti að veita átta þingum aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu. Þessi þing voru: Tékkland, Slóvakía, Azerbaidjan, Burkina Faso, Kazakhstan, Marshall-eyjar, Nígería og Slóvenía. Auk þessa var Evrópuráðsþinginu og þingi rómönsku Ameríku veitt aukaaðild. Í allt eiga því nú 124 þing aðild að sambandinu og þrjú fjölþjóðaþing eiga aukaaðild að því.
    Að vanda var lögð fram ítarleg skýrsla þeirrar nefndar Alþjóðaþingmannasambandsins er hefur það verkefni að fylgjast með mannréttindabrotum gagnvart þingmönnum og reyna að fá þingmenn leysta úr haldi hafi þeir verið fangelsaðir án dóms og laga. Í skýrslu nefndarinnar var gerð grein fyrir fangelsunum, ofsóknum og morðum á þingmönnum í átta ríkjum sem nefndin hefur haft til rannsóknar. Ríkin, sem hér um ræðir, eru Búlgaría, Kólumbía, Haítí, Hondúras, Indónesía, Myanmar, Tógó og Tyrkland.
    Líkt og á fyrri fundum fjallaði ráðið um fjölmörg önnur atriði er varða innra starf sambandsins, svo sem fjármál og skýrslur forseta ráðsins, framkvæmdastjórnar, framkvæmdastjóra og sérnefnda svo og þátttöku sambandsins í kosningaeftirliti. Þess má geta að kosningaeftirlit á vegum sambandsins er orðið víðtækt, ekki síst í ýmsum fjarlægum ríkjum. Má nefna í því sambandi Kambódíu, El Salvador og Mósambik.

IV. Störf pólitískra svæðahópa á þinginu.


    Á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins er mikið um fundi pólitískra svæðahópa (nokkurs konar þingflokkar) sem þingfulltrúar skiptast í. Segja má að veigamesta framlag Íslandsdeildarinnar til þingsins í Delhí hafi verið formennska deildarinnar í hinum svokallaða 12-plúshópi sem skipaður er þingmönnum frá ríkjum Vestur- og Mið-Evrópu og Norður-Ameríku auk Ástralíu og Nýja-Sjálands. Formaður Íslandsdeildarinnar var á fundi hópsins í Stokkhólmi 1992 kjörinn til að fara með formennsku í hópnum á árinu 1993 og er þetta í fyrsta skipti sem Íslandsdeildin gegnir slíkum trúnaðarstörfum á vegum hópsins. Geir H. Haarde stýrði því störfum hópsins bæði helgina fyrir upphaf þingsins og síðan á hverjum morgni áður en þingfundir hófust. Á þessum samráðsfundum var tekin afstaða til einstakra mála, kosninga í trúnaðarstörf og þátttöku í nefndastarfi. Þá lagði Íslandsdeildin fram á þessum fundum tillögur um starfsreglur fyrir hópinn og voru þær samþykktar með smávægilegum breytingum. Almenn ánægja var með þetta frumkvæði Íslandsdeildarinnar. Jafnframt lagði Íslandsdeildin fram tillögur um endurbætur á skipulagi og starfsháttum Alþjóðaþingmannasambandsins sem unnar voru með hliðsjón af umræðum sem fram höfðu farið um málið innan hópsins á fyrri þingum sambandsins. Ákveðið var að ræða málið frekar á næsta þingi sambandsins. Í Nýju-Delhí var samþykkt að veita Búlgaríu aðild að hópnum og jafnframt að Ísrael fengi áheyrnaraðild. Með því voru fullgild aðildarríki orðin 30 auk áheyrnaraðila.
    Þá tók Íslandsdeildin einnig þátt í fundi Norðurlandahópsins sem fundaði einu sinni meðan þingið stóð yfir, en norrænu deildirnar hafa með sér náið samstarf innan Alþjóðaþingmannasambandsins og skiptast á um að stýra því samstarfi í eitt ár í senn.

V. Fundir með ræðismanni.


    Á meðan á dvölinni í Nýju-Delhí stóð átti íslenska sendinefndin viðræður við aðalræðismann Íslands í borginni, Nand Khemka, og aðstoðarmenn hans um athuganir sem áttu sér stað á vegum fyrirtækja hans um möguleika hans og íslenskra fyrirtækja á samstarfi í sjávarútvegsmálum. Þess má geta að sendinefndin naut framúrskarandi fyrirgreiðslu af hálfu ræðismannsins og starfsfólks hans á meðan á þinginu stóð, sem og við undirbúning þess.

B. ÞINGIÐ Í CANBERRA


I. Inngangur.


    Alþjóðaþingmannasambandið hélt sitt 90. þing í Canberra dagana 13.–18. september. Þingið sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar þingmennirnir Geir H. Haarde, formaður Íslandsdeildarinnar, Ólafur Þ. Þórðarson, varaformaður deildarinnar, Gunnlaugur Stefánsson og Anna Ólafsdóttir Björnsson, auk Þorsteins Magnússonar, ritara deildarinnar. Alls sóttu þingið fulltrúar 94 þinga.

II. Störf og ályktanir þingsins.


    Að venju var fjallað um þrjú málefni á þinginu auk þess sem fram fóru almennar stjórnmálaumræður. Þau þrjú efni, sem fjallað var um, voru eftirfarandi:
    virðing fyrir mannúðarlögum og stuðningur við mannúðarstarf á stríðstímum,
    heilbrigði og velferð aldraðra,
    nauðungarflutningar í Bosníu og Herzegóvínu og öðrum stríðssvæðum.
Þingið ályktaði um öll þessi mál auk þess sem samþykkt var sérstök ályktun þar sem fagnað var friðarsamningum Ísraela og Palestínumanna.
    Íslenska sendinefndin tók virkan þátt í störfum þingsins. Geir H. Haarde talaði í almennu stjórnmálaumræðunum og fjallaði ræða hans um hvalveiðar út frá sjónarhóli Íslendinga. Einnig flutti hann ræðu sem áheyrnarfulltrúi Norðurlandaráðs og greindi m.a. frá niðurstöðum ráðstefnu þess í Reykjavík í ágúst um málefni norðurheimskautssvæðisins. Ólafur Þ. Þórðarson flutti ræðu í umræðunum um mannúðarlög og fjallaði um þau tilvik þar sem réttlætanlegt væri að ríki hlutuðust til um innanríkismál annarra ríkja. Gunnlaugur Stefánsson talaði í umræðunni um heilbrigði og velferð aldraðra og fjallaði um stöðu aldraðra í dreifbýli. Anna Ólafsdóttir Björnsson flutti ræðu bæði við umræðu um mannúðarlög og í umræðu um heilbrigði og velferð aldraðra. Í ræðu sinni um mannúðarlög ræddi hún m.a. um nauðganir og annað kynferðislegt ofbeldi sem konur hefðu mátt sæta í stríðinu í Bosníu-Herzegóvínu. Allir í sendinefndinni tóku jafnframt þátt í nefndastörfum.
    Á þinginu voru kosnir tveir nýir fulltrúar í 13 manna framkvæmdastjórn sambandsins og voru sjálfkjörnir Svíinn Sture Ericson og Slóveninn Zoran Thaler.

III. Störf og ákvarðanir ráðsins.


    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins fundaði tvívegis meðan þingið stóð yfir en á meðan lágu þingfundir niðri. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sátu Geir H. Haarde og Anna Ólafsdóttir Björnsson fundi ráðsins.
    Ráðið samþykkti umsókn Ghana um aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu og eru því nú 125 þjóðdeildir sem aðild eiga að sambandinu. Auk þessa eiga þrjú fjölþjóðaþing aukaaðild að þinginu: Evrópuráðsþingið, þing Andean-ríkjanna í rómönsku Ameríku og þing ríkja rómönsku Ameríku.
    Að vanda var lögð fram í ráðinu ítarleg skýrsla um mannréttindamál þingmanna en nefndin gerði grein fyrir málum 101 þingmanns í sjö ríkjum þar sem brotin höfðu verið mannréttindi á þingmönnum. Þau sex ríki, sem um var að ræða, voru Búlgaría, Kólumbía, Indónesía, Myanmar, Tógó, Tyrkland og Uzbekistan.
    Þá fjallaði ráðið að vanda um fjölmörg önnur atriði er varða innra starf sambandsins, svo sem fjármál og skýrslur forseta ráðsins, framkvæmdastjórnar, framkvæmdastjóra og sérnefnda, þátttöku sambandsins í kosningaeftirliti og ráðstefnu sambandsins um mannréttindamál í Búdapest í maí 1993.
    Ráðið ákvað einnig að send skyldi sendinefnd þriggja þingmanna á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins til fyrrum lýðvelda Júgóslavíu (Slóveníu, Króatíu og Serbíu, sem öll eiga aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu) á fyrri hluta ársins 1994. Á þessari stundu er óvíst hvort og hvenær af þessari ferð verður.
    Næstu regluleg þing sambandsins verða í París (mars 1994) og Kaupmannahöfn (september 1994). Ráðið samþykkti að þar á eftir yrðu þing í Madrid (mars 1995), Búkarest (september 1995), Istanbul (apríl 1996), Beijing (september 1996) og Seoul (apríl 1997).

IV. Störf pólitískra svæðahópa á þinginu.


    Líkt og á þinginu í Nýju-Delhí má segja að veigamesta framlag Íslandsdeildarinnar til þingsins í Canberra hafi verið formennska deildarinnar í 12-plúshópnum. Í Canberra var samþykkt að veita Slóveníu aðild að hópnum og eiga því 31 þjóðþing fulla aðild að hópnum auk þess sem Ísrael, Evrópuþingið og Evrópuráðsþingið eiga áheyrnaraðild að honum. Hópurinn fundaði bæði helgina fyrir upphaf þingsins og síðan á hverjum morgni áður en þingfundir hófust. Á þessum samráðsfundum var tekin afstaða til einstakra mála, kosninga í trúnaðarstörf og þátttöku í nefndastarfi. Við lok þingsins var Geir H. Haarde einróma endurkjörinn formaður 12-plúshópsins fyrir árið 1994 að tillögu kanadísku og bresku fulltrúanna.
    Konur úr hópi þingmanna héldu sérstakan fund daginn fyrir upphaf þingsins til að ræða málefni þess, sem og til að fjalla um stjórnmálaþátttöku kvenna. Anna Ólafsdóttir Björnsson sótti þennan fund af hálfu Íslandsdeildarinnar.
    Þá tók Íslandsdeildin einnig þátt í fundi norrænu þjóðdeildanna. Á þinginu létu Norðmenn af formennsku í norræna samstarfinu og Danir tóku við.

Alþingi, 17. febr. 1994.



Geir H. Haarde,

Ólafur Þ. Þórðarson.

Gunnlaugur Stefánsson.


form.



Margrét Frímannsdóttir.

Einar K. Guðfinnsson.