Ferill 412. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 412 . mál.


617. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 29/1988, um Kennaraháskóla Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)



1. gr.


    4. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Sá er rétt kjörinn rektor sem hlotið hefur meiri hluta greiddra atkvæða. Ef enginn fær svo mörg atkvæði skal kjósa að nýju um þá tvo eða fleiri sem flest atkvæði fengu og er þá sá rétt kjörinn sem flest atkvæði fær. Séu atkvæði jöfn ræður hlutkesti. Í reglugerð skal kveða nánar á um tilhögun rektorskjörs.

2. gr.


    Síðari málsliður 2. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: Deildarráð getur leyft undanþágu frá tímamörkum ef til þess eru gildar ástæður.

3. gr.


    1. mgr. 14. gr. laganna fellur niður og tvær síðari málsgreinar orðast svo:
    Um námsgreinar í almennu kennaranámi, skiptingu þeirrra á svið og skipan æfingakennslu skal ákveða í reglugerð.
    Í námsskrá, er skólaráð setur að fengnum tillögum kennslustjóra, skal gerð grein fyrir námsskipan og kennsluháttum, svo og námsefni í einstökum greinum.

4. gr.


    Síðari málsliður fyrri málsgreinar 28. gr. laganna orðast svo: Deildarráð getur þó veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstaklega stendur á.

5. gr.


    30. gr. laganna orðast svo:
    Deildarráð metur, að höfðu samráði við kennslustjóra og hlutaðeigandi greinakennara, hvort viðurkenna skuli nám sem nemandi hefur lokið í öðrum háskóla eða sérkennaraskóla og að hvaða leyti.

6. gr.


    3. og 4. mgr. 32. gr. laganna falla niður og í stað þeirra kemur málsgrein sem orðast svo:
    Dómnefnd skal láta uppi rökstutt álit um það hvort af vísindagildi rita umsækjenda og rannsókna, svo og námsferli þeirra og störfum, megi ráða að þeir séu hæfir til að gegna embættinu eða starfinu. Skólaráð fjallar um umsækjendur sem dómnefnd telur hæfa og eiga fulltrúar stúdenta þá ekki atkvæðisrétt. Engum má veita prófessorsembætti, dósentsstarf eða lektorsstarf við Kennaraháskóla Íslands nema meiri hluti dómnefndar telji hann hæfan og meiri hluti viðstaddra á skólaráðsfundi greiði honum atkvæði í embættið eða starfið. Ef fleiri umsækjendur en tveir eru í kjöri við atkvæðagreiðsluna og enginn þeirra hlýtur meiri hluta við fyrstu atkvæðagreiðslu skal kosið á ný milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Nú fellst menntamálaráðherra ekki á tillögu skólaráðs og skal þá auglýsa embættið eða starfið að nýju.

7. gr.


    Ákvæði til bráðabirgða í XI. kafla laganna orðast svo:
    Ákvæði 13. gr. koma til framkvæmda innan 10 ára frá gildistöku laga nr. 29/1988 samkvæmt nánari ákvörðun menntamálaráðherra, nema annað hafi verið ákveðið með lögum.

8. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram í tvíþættum tilgangi: Annars vegar til að gera nokkrar minni háttar breytingar á lögunum að ósk skólaráðs Kennaraháskóla Íslands og hins vegar til að fresta gildistöku ákvæða er fela í sér lengingu almenns kennaranáms úr þremur árum í fjögur ár.
    Skólaráð Kennaraháskóla Íslands samþykkti á fundi sínum 12. janúar 1994 að óska eftir þeim breytingum er felast í 1., 2., 3., 4., 5. og 6. gr. þessa frumvarps. Þessar breytingar fela fyrst og fremst í sér að ákvæði laganna eru samræmd hliðstæðum ákvæðum laga nr. 131/1990, um Háskóla Íslands. Nánari grein er gerð fyrir þessum breytingum í athugasemdum við einstakar greinar.
    Samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða í XI. kafla gildandi laga nr. 29/1988, um Kennaraháskóla Íslands, skulu ákvæði 13. gr. um lengingu almenns kennaranáms við KHÍ koma til framkvæmda innan sex ára frá gildistöku laganna. Þar sem menntamálaráðherra skipaði nefnd til að undirbúa rammalöggjöf um kennaramenntun með bréfi 25. febrúar 1993 og með hliðsjón af því að sú nefnd fjallar m.a. um tímalengd námsins þykir eðlilegt að framangreindri breytingu á námsskipan við Kennaraháskóla Íslands verði frestað.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Sú skipan er nú gildir um rektorskjör felur í sér að til að ná kjöri þarf rektor að hljóta atkvæði meiri hluta atkvæðisbærra manna, enda hafi minnst tveir þriðju hlutar þeirra tekið þátt í atkvæðagreiðslunni.Við rektorskjör samkvæmt þessari skipan hefur komið í ljós að nánast er ógjörningur að kjör geti orðið gilt í fyrstu umferð. Stafar það fyrst og fremst af dræmri kosningaþátttöku nemenda utan Reykjavíkur sem skráðir eru í nám á vegum Kennaraháskólans. Þess vegna er ákvæði um lágmarksþátttöku í kosningum fellt brott. Greinin á sér efnislega hliðstæðu í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 131/1990, um Háskóla Íslands.

Um 2., 4. og 5. gr.


    Greinar þessar fela í sér að deildarráðum er falin framkvæmd ýmissa atriða er varða próf og mat á námi nemenda úr öðrum skólum sem áður voru í höndum skólaráðs. Að mati Kennaraháskóla Íslands samræmist þetta betur verkaskiptingu milli skólaráðs og deildarráða en núverandi skipan, enda þótt vísa megi þessum málum sem öðrum til skólaráðs.

Um 3. gr.


    Ákvæði þau sem felld eru úr 14. gr. fjalla um skiptingu kennaranáms í faglega þætti og vægi þeirra. Slík ákvæði eiga sér ekki hliðstæðu í nýrri lögum um sambærilegar stofnanir, sbr. 9. og 16. gr. laga nr. 131/1990, um Háskóla Íslands, og 9. gr. laga nr. 51/1992, um Háskólann á Akureyri. Ekki þykir ástæða til að binda slík ákvæði í lög.

Um 6. gr.


    Eftirfarandi nýmæli eru í þessari grein: Fulltrúar stúdenta skulu ekki hafa atkvæðisrétt er skólaráð fjallar um stöðu- eða embættisveitingar. Í stað þess að leitað skuli álits skólaráðs um umsækjendur er nú kveðið á um að engum megi veita stöðu eða embætti nema meiri hluti viðstaddra á skólaráðsfundi greiði honum atkvæði. Nýmæli er að séu fleiri umsækjendur en tveir í kjöri við atkvæðagreiðsluna og enginn þeirra hlýtur meiri hluta við fyrstu atkvæðagreiðslu skal kosið á ný milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Enn fremur er það nýmæli að fallist menntamálaráðherra ekki á tillögu skólaráðs skal auglýsa embættið eða starfið að nýju.
    Grein þessi er efnislega hliðstæð 11. gr. laga nr. 131/1990, um Háskóla Íslands, og þykir eðlilegt að samræmi sé milli stofnana í þessum efnum.

Um 7. gr.


    Almennt kennaranám við Kennaraháskóla Íslands er nú skipulagt sem þriggja ára nám. Grein þessi felur í sér að ákvæði 13. gr. um að slíkt nám skuli skipuleggja sem fjögurra ára nám komi til framkvæmda innan 10 ára í stað sex ára frá gildistöku laga nr. 29/1988.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga


um breyting á lögum nr. 29/1988, um Kennaraháskóla Íslands.


    Tilgangur frumvarpsins er tvíþættur, annars vegar að gera minni háttar breytingar á lögunum sem varða stjórn skólans, kjör rektors o.fl. og hins vegar að fresta gildistöku ákvæða sem fela í sér lengingu almenns kennaranáms úr þremur árum í fjögur ár.
    Með breytingum í 1.–6. gr. er verið að samræma ákvæði laga um Kennaraháskólann hliðstæðum ákvæðum í lögum nr. 131/1990, um Háskóla Íslands. Í greinum þessum er fjallað um kjör rektors, hlutverk deildarráða og fleira þess háttar. Ekki er talið að þetta muni hafa nokkrar útgjaldabreytingar í för með sér.
    Í ákvæði til bráðabirgða í núgildandi lögum um skólann er lengingu kennaranáms úr þremur árum í fjögur frestað um allt að sex ár frá gildistöku laganna. Í 7. gr. þessa frumvarps er lagt til að lengingin komi ekki til framkvæmda fyrr en allt að tíu árum frá gildistöku laga nr. 29/1988. Við þetta sparast útgjöld sem ella hefðu fallið til vegna lengingar náms en þetta hefur ekki áhrif á útgjöld skólans eins og þau eru núna.
    Að mati fjármálaráðuneytis hefur þetta frumvarp, verði það óbreytt að lögum, lítil sem engin áhrif á núverandi útgjöld ríkissjóðs.