Ferill 69. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 69 . mál.


620. Nefndarálit



um frv. til l. um dýravernd.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem ætlað er að leysa af hólmi núgildandi dýraverndarlög, nr. 21/1957. Sú breyting hefur orðið frá því þau lög voru sett að dýraverndarmál voru flutt frá menntamálaráðuneyti til umhverfisráðuneytis með lögum nr. 47/1990.
    Nefndin fékk á sinn fund við umfjöllun málsins Jón Gunnar Ottósson, skrifstofustjóra í umhverfisráðuneyti, og Sigurð Sigurðarson, Sigurð Richter og Sigríði Ásgeirsdóttur frá dýraverndarnefnd ríkisins. Þá studdist nefndin við umsagnir, flestar frá 116. löggjafarþingi, frá Búnaðarfélagi Íslands, dómsmálaráðuneyti, Dýralæknafélagi Íslands, rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfjafræði, rannsóknastofu Háskóla Íslands í veirufræði, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðarsvæðis, Kattavinafélagi Íslands, landbúnaðarráðuneyti, Lyfjafræðingafélagi Íslands, læknadeild Háskóla Íslands, Læknafélagi Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Rannsóknaráði ríkisins, rannsóknastofu Háskóla Íslands í ónæmisfræði, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Umferðarráði, veiðistjóraembættinu og yfirdýralækni. Einnig aflaði nefndin sér gagna um ýmsa þætti sem frumvarpið varðar og studdist m.a. við álitsgerð frá Eiríki Tómassyni hrl. Þá átti formaður nefndarinnar fund með Jóni Höskuldssyni, deildarstjóra í landbúnaðarráðuneyti, og Brynjólfi Sandholt yfirdýralækni.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Með breytingu sem lögð er til á 1. gr. er gert ráð fyrir að frumvarpið taki til allra dýra en einskorðist ekki við hryggdýr. Nefndin telur eðlilegt að löggjöfin taki til allra dýra enda þótt augljóst sé að ekki sé bókstaflega hægt að uppfylla öll ákvæði laganna, m.a. að því er varðar ýmsa hryggleysingja. Ákvæði frumvarpsins fela að nokkru leyti í sér siðferðisboðskap sem eðlilegt er að taki til umgengni við öll dýr, jafnvel þótt einhver dýr muni ætíð falla utan þeirra.
    Lagt er til að 2. gr. verði breytt verulega. Um er að ræða almennt ákvæði þar sem kveðið er á um ýmis grundvallaratriði í umgengni við dýr. Nefndin telur eðlilegt að slík almenn fyrirmæli séu sameinuð í texta. Þá telur nefndin orðunum „og forða þeim frá vanlíðan“ ofaukið í 2. gr. þar sem kveðið er á um hið sama í 3. mgr. 3. gr. Að öðru leyti eru ítrekuð þau sjónarmið sem nefnd eru í athugasemdum við 1. gr.
    Lagt er til að 3. og 4. gr. frumvarpsins verði sameinaðar og einfaldaðar svo að forðast megi endurtekningar. Þá er lagt til að fellt verði brott orðið „nægilegu“ þar sem vísað er til fóðurs, en með því vill nefndin leggja áherslu á að ekki sé síður verið að vísa til gæða fóðurs en magns. Einnig leggur nefndin til að í ákvæðinu sé talað um drykk en ekki vatn og er þá höfð í huga þörf ungviðis fyrir mjólk. Nefndin bendir á að hugtakið „tæknivædd stórbú“ hefur ekki verið skilgreint í löggjöf hér á landi. Það hefur hins vegar t.d. verið gert í löggjöf í Noregi og er þá miðað við tiltekinn fjölda búfjár. Þannig geta stór kúabú fallið undir skilgreininguna. Þá eru einnig dæmi um að miðað sé við bú sem eru svo tæknivædd að mannshöndin kemur lítið nærri við daglega umönnun búfjárins. Þær skilgreiningar eru hliðstæðar skilgreiningu sem felst í enska hugtakinu „intensive farming“ en það hugtak vísar til þess að um sé að ræða búskap sem hefur það markmið að ná sem mestri framleiðni, þ.e. sem mestum afurðum á sem stystum tíma. Nefndin telur æskilegt að landbúnaðar- og umhverfisráðuneyti skilgreini í reglugerð hvað átt sé við með hugtakinu „tæknivætt stórbú“. Að auki eru lagðar til orðalagsbreytingar sem ekki þarfnast skýringa.
    Lagt er til að orðin „látið ganga úti“ verði felld brott úr 5. gr. frumvarpsins (er verður 4. gr.) þar sem orðin að halda til beitar og láta liggja við opið ná yfir það sem segja þarf. Þá er lagt til að nýjum málslið verði bætt við 5. gr. þar sem sveitarstjórnum er heimilað að banna dýrahald á tilteknum stöðum að vetri til. Með því er einkum verið að vísa til afskekktra staða sem erfitt getur verið að komast til í ófærð að vetri til. Nefna má í þessu sambandi eyðisveitir og eyjar úti fyrir ströndum landsins.
    Breytingin, sem lögð er til á 6. gr. (sem verður 5. gr.), er til einföldunar og þarfnast ekki skýringar.
    Breytingin, sem lögð er til á 9. gr. (sem verður 8. gr.), er til einföldunar og þarfnast ekki skýringar.
    Lagt er til að lítillega verði dregið úr þeim kröfum sem gerðar eru í 10. gr. (er verður 9. gr.). Ekki þykir unnt að skylda menn afdráttarlaust til að aflífa dýr þegar svo stendur á eins og hér um ræðir. Ýmsar ástæður, þar á meðal siðferðilegar, kunna að torvelda mönnum að grípa í taumana með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Lagt er til að nokkrar breytingar verði gerðar á 11. gr. (er verður 10. gr.). Í fyrsta lagi er orðinu „villast“ talið ofaukið þar eð erfitt er að gera greinarmun á því hvort dýr hafi villst eða sloppið. Þá er lagt til að í stað orðsins „löggæslan“ komi „lögreglan“ þar sem orðið löggæsla vísar ekki til einstakra aðila heldur til starfsemi lögreglu almennt. Enn fremur er lagt til að styttur verði sá tími sem lögreglu ber að geyma dýr, en 10 daga frestur þykir of íþyngjandi. Þá er lagt til að felld verði brott úr frumvarpinu skylda lögreglu til að auglýsa dýr. Nefndin telur að svo afdráttarlaus skylda til auglýsinga sé ástæðulaus. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir að lögregla geri sér far um að hafa upp á eigendum dýranna.
    Lögð er til sú breyting á 12. gr. (er verður 11. gr.) að ráðherra hafi samráð við yfirdýralækni um setningu reglugerðar um flutning á dýrum. Í gildi eru reglugerðir um flutning á dýrum sem yfirdýralæknir hefur samið ásamt fleirum auk þess sem hann hefur haft umsjón með að framfylgt sé hér á landi Evrópusamningi sem Íslendingar hafa samþykkt að fullgilda og fjallar m.a. um þetta efni.
    Lagt er til að fellt verði brott í fyrirsögn 13. gr. (er verður 14. gr.) og í ákvæðinu sjálfu orðið „sérstakt“ sem ekki verður séð að hafi neina þýðingu. Þá er lagt til að röð málsgreina verði breytt þannig að uppsetning verði skýrari. Loks er lagt til að 3. mgr. ákvæðisins verði felld niður. Almenn ákvæði frumvarpsins um meðferð á dýrum ná til þeirra atriða sem þar eru tilgreind og er því óþarft að tiltaka þau sérstaklega í þessari grein. Þá leggur nefndin áherslu á að enda þótt umhverfisráðherra geti í undantekningartilvikum leyft dýrahappdrætti, t.d. happdrætti með folöld í tengslum við hestamannamót, verði ekki veitt leyfi til gæludýrahappdrættis þar sem dýr geta komið í hlut einstaklinga sem hafa hvorki áhuga né getu til að halda dýr.
    Lagt er til að í 14. gr. (er verður 13. gr.) megi aðrir en dýralæknar sjá um minni háttar aðgerðir og lyfjameðferð á dýrum, en þá að höfðu samráði við dýralækna. Þessi breyting er í samræmi við tillögur nokkurra umsagnaraðila, m.a. yfirdýralæknis. Í 3. mgr. 14. gr. er kveðið á um að umhverfisráðherra setji reglugerð um aðgerðir sem gera má á dýrum án læknisfræðilegra ástæðna. Nefndin telur rétt að í reglugerðinni verði kveðið á um takmarkanir á aðgerðum og lyfjameðferð sem áhrif hefur á útlit dýra svo sem rófustyttingu, taglbroti og hormónameðferð á skrautfiskum. Nefndin telur á hinn bóginn óeðlilegt að sett verði í reglugerð, á grundvelli laga þessara, ákvæði um erfðatæknilegar aðgerðir á dýrum og notkun hormóna eða annarra efna til að hafa áhrif á eiginleika dýra með öðrum hætti en að framan greinir. Frjósemisaðgerðir og notkun hormóna til að hafa áhrif á frjósemi telst hins vegar til læknisaðgerða skv. 1. mgr. 14. gr.
    Lagt er til að 2. mgr. 15. gr. (er verður 14. gr.) verði breytt með þeim hætti að umhverfisráðherra setji umrædda reglugerð að höfðu samráði við yfirdýralækni. Þá er lögð til orðalagsbreyting sem ekki þarfnast skýringar.
    Lögð er til orðalagsbreyting í 16. gr. (er verður 15. gr.) sem þarfnast ekki skýringar.
    Lagt er til að skipan tilraunadýranefndar í 17. gr. (er verður 16. gr) verði breytt. Nefndin telur mikilvægt eins og fram kemur í athugasemdum við 17. gr. frumvarpsins að tilraunadýranefnd sé skipuð sérfróðum mönnum. Nefndin telur ekki rétt að binda í lög að forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum eigi sæti í nefndinni heldur komi einnig til greina að skipa fólk sem hefur próf frá háskóla og reynslu og þekkingu á dýratilraunum svo sem þá sem starfa eða hafa starfað við læknadeild og raunvísindadeild Háskóla Íslands eða sambærilegar rannsóknastofnanir. Þá er lagt til að í 4. mgr. 17. gr. verði gerð krafa um að þeir sem noti dýr í tilraunaskyni hafi hlotið til þess þjálfun og menntun, en ekki verði látið nægja að krefjast að þessir aðilar hafi fengið upplýsingar um það svið sem hér um ræðir. Með orðinu menntun er ekki verið að vísa til þess að viðkomandi hafi sérfræðimenntun í meðferð tilraunadýra heldur menntun á sviði líffræði sem nýst geti í starfinu.
    Lögð er til sú grundvallarbreyting að dýraverndarnefndir verði felldar brott úr frumvarpinu og að eitt ráð, dýraverndarráð, gegni því hlutverki sem nefndunum var ætlað. Til stuðnings þessari breytingu vill nefndin benda á eftirfarandi atriði. Óeðlilegt er að dýraverndarráð hafi engu eftirlitshlutverki að gegna eins og gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Þá er með breytingunni lagt til að dýraverndarráði sé veitt heimild til að hefjast handa að eigin frumkvæði. Umhverfisnefnd telur að vel athuguðu máli að ekki sé af efnislegum ástæðum skynsamlegt að setja á fót það nefndakerfi sem frumvarpið gerði ráð fyrir. Nefndin leggur hins vegar áherslu á að héraðsdýralæknar verði tengiliðir dýraverndarráðs um land allt.
    Lagt er til að 19. gr. verði felld brott í samræmi við breytingu sem gerð er grein fyrir við 18. gr.
    Lagt er til að 20. gr. (er verður 18. gr.) verði breytt að verulegu leyti. Að hluta til eru breytingar gerðar til samræmis við breytingar á 18. og 19. gr. Dýraverndarráð tekur við því hlutverki sem dýraverndarnefndum var ætlað. Þá er ákvæðinu breytt að tillögu sérfræðinga til samræmis við lög nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, og annarra réttarreglna, þar á meðal 66. gr. stjórnarskrárinnar, en hugtakið „húsleit“ í því ákvæði hefur verið skýrt svo rúmt að það nái ekki einungis til íbúðarhúsnæðis heldur einnig atvinnuhúsnæðis, farartækja o.s.frv. Einnig er með breyttu orðalagi kveðið skýrar á um að lögreglu beri að sjá til þess að lögunum sé framfylgt. Með því vill nefndin einnig leggja áherslu á að lögreglu beri skylda til að vera vakandi gagnvart illri meðferð á dýrum. Þá er kveðið á um að lögregla sé ávallt viðstödd aðgerðir á grundvelli ákvæðisins, enda samrýmist það hlutverki hennar og lögum um meðferð opinberra mála. Þá er lagt til að réttur eigenda dýra verði betur tryggður en gert var í frumvarpinu og að í 4. mgr. 20. gr. verði kveðið á um að sveitarstjórn beri að tilkynna eiganda eða umsjónarmanni dýra þegar svo stendur á sem í ákvæðinu greinir og að honum verði ekki einungis bent á að hann „geti borið ágreiningsefnið undir dómara“ eins og gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Jafnframt er eiganda eða umsjónarmanni dýra gefinn kostur á að setja viðhlítandi tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar. Aðrar breytingar, sem lagðar eru til, eru einungis orðalagsbreytingar sem gera ákvæðið einfaldara og skýrara.
    Lagt er til að í 21. gr. (er verður 19. gr.) verði einungis kveðið á um reglugerðir þar eð einungis er gert ráð fyrir setningu reglugerða á grundvelli ákvæða frumvarpsins, en ekki reglna.
    Breytingarnar, sem lagðar eru til á 22. gr. (er verður 20. gr.), eru einungis orðalagsbreytingar sem þarfnast ekki skýringa.
    Breytingarnar, sem lagðar eru til á 23. gr. (er verður 21. gr.), eru einungis orðalagsbreytingar sem þarfnast ekki skýringa.
    Lagt er til að kaflafyrirsögn IX. kafla verði breytt, enda virðist hún ekki vísa til meginefnis ákvæðisins. Þá er lagt til að hugtakið stjórnvaldsfyrirmæli verði notað í stað hugtaksins stjórnvaldsreglur bæði í fyrirsögn og í ákvæðinu sjálfu. Er það til samræmis við hugtakanotkun í stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, og 18. gr. frumvarpsins. Þá er lagt til að gildistímaákvæði í 25. gr. verði flutt í sérstaka grein er verður 24. gr. Einnig er lagt til að gildistími verði tilgreindur þannig að skýrt sé hvenær lögunum sé ætlað að ganga í gildi. Orðalagsbreyting þarfnast ekki skýringar.

Alþingi, 22. febr. 1994.



Kristín Einarsdóttir,

Tómas Ingi Olrich.

Jón Helgason.


form., frsm.



Árni M. Mathiesen.

Hjörleifur Guttormsson.

Petrína Baldursdóttir.



Árni R. Árnason.

Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Ólafur Ragnar Grímsson.