Ferill 432. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 432 . mál.


644. Tillaga til þingsályktun

ar

um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Ungverjalands.

(Lögð fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Ungverjalands sem gerður var í Genf 29. mars 1993.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Á árinu 1990 var ákveðið að hefja samningaviðræður um fríverslunarsamninga milli EFTA-ríkjanna og Póllands, Ungverjalands, Tékklands og Slóvakíu. Samningaviðræðum við öll þessi ríki er nú lokið með gerð fríverslunarsamninga. Samningurinn við Ungverjaland var undirritaður í Genf 29. mars 1993. Fríverslunarsamningar við önnur ofangreind ríki voru undirritaðir á árinu 1992 og hafa þegar tekið gildi gagnvart Íslandi. Samningurinn milli EFTA-ríkjanna og Ungverjalands er birtur sem fskj. I með þingsályktunartillögu þessari. Í fskj. II er birt bókun um samkomulag um framkvæmd ýmissa þátta samningsins og í fskj. III er að finna tvíhliða landbúnaðarsamning Íslands og Ungverjalands.
    Lagabreytingar vegna þessa samnings eru ekki nauðsynlegar, sbr. heimild í 6. gr. tollalaga, til að láta koma til framkvæmda ákvæði fríverslunar- og milliríkjasamninga.
    Fríverslunarsamningar EFTA-ríkjanna og Póllands, Ungverjalands, Tékklands og Slóvakíu eru mjög hliðstæðir. Fríverslunarsamningurinn við Ungverjaland tryggir fríverslun milli einstakra EFTA-ríkja og Ungverjalands með iðnaðarvörur (25.–97. kafla í samræmdri vörulýsingar- og vöruheitaskrá), að undanskildum þeim vörum sem skráðar eru í I. viðauka samningsins. Jafnframt nær hann til ákveðinna vara sem unnar eru að hluta til eða að öllu leyti úr landbúnaðarvörum. Þessar vörur eru sérstaklega tilgreindar og nánar kveðið á um meðferð þeirra í bókun A við samninginn. Einnig nær samningurinn til fisks og fiskafurða, sbr. C-lið 2. gr. og II. viðauka samningsins.
    EFTA-ríkin afnema alla innflutningstolla á vörum sem upprunnar eru í Ungverjalandi og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif frá og með gildistöku samningsins, að undanskildum fáeinum vörum sem tilgreindar eru í III. viðauka þar sem nokkur EFTA-ríkjanna hafa lengri aðlögunartíma til að afnema tolla. Hér er einkum um að ræða textílvörur. Ísland hefur ekki sérstakan aðlögunartíma hvað þessa tolla og gjöld varðar. Aðlögunartími Ungverjalands er til 1. janúar 2001, sbr. 4. gr. og IV.–V. viðauka samningsins. Sérstök ákvæði gilda um aðlögunartíma Ungverjalands varðandi afnám innflutningstolla á fiski og fiskafurðum og gjalda sem hafa samsvarandi áhrif. Meginreglan er sú að slíkir tollar og gjöld falli niður við gildistöku samningsins, sbr. 2. tölul. 1. gr. II. viðauka samningsins. Í allnokkrum tilvikum er um aðlögunartíma að ræða við niðurfellingu þessara tolla og gjalda, sbr. 7.–11. gr. II. viðauka samningsins.
    Sérstök bókun um samkomulag um framkvæmd ýmissa þátta samningsins var gerð samhliða samningnum. Í bókuninni eru ýmis túlkunaratriði og útfærslur á samningnum sem ekki þótti viðeigandi að hafa í megintexta hans.
    Varðandi viðskipti með landbúnaðarvörur lýsa samningsríkin sig reiðubúin, að því marki sem stefna þeirra í landbúnaðarmálum leyfir, að stuðla að samfelldri þróun viðskipta með landbúnaðarafurðir, sbr. 14. gr. samningsins. Til að ná þessu markmiði hafa EFTA-ríkin gert tvíhliða samninga við Ungverjaland til að greiða fyrir viðskiptum með landbúnaðarvörur. Hvað Ísland varðar er hér um að ræða vörur sem ekki eru framleiddar hér á landi, einkum ávexti. Að öðru leyti fellur landbúnaður fyrir utan samninginn.
    Viðskipti Íslands og Ungverjalands eru ekki mikil. Helstu útflutningsvörur á árinu 1990 voru loðsútuð skinn, síldarmjöl, kísilgúr, lagmeti og þorskmjöl. Það ár var verðmæti útflutnings tæplega 100 milljónir. Árið 1991–1992 var nær eingöngu fluttur út til Ungverjalands kísilgúr. Verðmæti útflutnings árið 1991 var 5,9 milljónir og árið 1992 13,5 milljónir. Hið sama gildir um önnur Mið- og Austur-Evrópuríki. Útflutningur þangað hefur dregist mjög saman undanfarin ár þó að horfur séu nú aftur að vænkast.
    Helstu innflutningsvörur frá Ungverjalandi eru fatnaður, spunagarn og vefnaðarvörur, rafmagnsvélar og tæki. Verðmæti innflutnings var árið 1990 52,5 milljónir, 1991 114,6 milljónir og árið 1992 56,5 milljónir.
    Ungverjaland og Tékkland eru þau ríki í þessum hluta Evrópu sem mestar væntingar eru bundnar við á næstu árum og fríverslunarsamningur þessi gæti orðið góður grunnur að aukningu viðskipta milli Íslands og Ungverjalands í framtíðinni.


TAFLA REPRÓ


Fylgiskjal I.

Samningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu


og lýðveldisins Ungverjalands.




SAMNINGUR REPRÓ

..........




    Með þingsályktunartillögu þessari voru birt þrjú fylgiskjöl.
    Auk samningsins voru á fskj. I prentuð eftirtalin gögn: bókun A um vörur sem um getur í b-lið 2. gr. samningsins, tafla VIII við bókun A, viðbætir við töflu VIII við bókun A, tafla IX við bókun A, II. viðauki sem um getur í c-lið 2. gr., IV. viðauki sem um getur í lið I b-liðar í 2. mgr. 4. gr., V. viðauki sem um getur í lið III b-liðar í 2. mgr. 4. gr., VI. viðauki, ákvæði sem um getur í 2. mgr. 6. gr., IX. viðauki sem um getur í 3. mgr. 9. gr., XII. viðauki sem um getur í 3. mgr. 10. gr., XIII. viðauki sem um getur í 13. gr. og XIV. viðauki sem um getur í 18. gr.
    Rétt er að geta þess að töflur I og VII við bókun A, sem birtar eru í þskj. 645 með samningnum við Rúmeníu, gilda einnig um samninginn við Ungverjaland, sbr. nefndarálit utanríkismálanefndar á þskj. 870.
    Á fskj. II var birt bókun um samkomulag um framkvæmd ýmissa þátta samningsins og á fskj. III tvíhliða landbúnaðarsamningur Íslands og Ungverjalands.
    Einnig voru öll framangreind gögn prentuð í enskri þýðingu með þingsályktunartillögunni.
    Um fylgiskjöl og fylgigögn vísast til þingskjalsins (lausaskjalsins). Enn fremur verður samningurinn ásamt bókunum og viðaukum prentaður í C-deild Stjórnartíðinda.