Ferill 446. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 446 . mál.


659. Frumvarp til

laga

um söfnunarkassa.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)1. gr.


    Dómsmálaráðherra er heimilt að veita Íslenskum söfnunarkössum (ÍSK), félagi í eigu Rauða kross Íslands, Landsbjargar, Samtaka áhugamanna um áfengis- og vímuefnavandann og Slysavarnafélags Íslands, leyfi til að starfrækja söfnunarkassa með peningavinningum. Samtökin, sem standa að félaginu, skulu gera með sér samstarfssamning um rekstur söfnunarkassanna, þar með talið um skiptingu tekna af söfnunarfénu sem dómsmálaráðherra staðfestir.
    Tekjum af söfnunarkössum samkvæmt lögum þessum skal varið til starfsemi þeirra samtaka, sem rétt hafa til reksturs þeirra.
    

2. gr.


    Með söfnunarkössum í lögum þessum er átt við handvirka og/eða vélræna söfnunarkassa sem ekki eru samtengdir og í eru sett peningaframlög er jafnframt veita þeim sem þau leggja fram möguleika á peningavinningi, allt að ákveðinni fjárhæð, og skal úthlutun vinninga byggjast á tilviljun. Söfnunarkassar samkvæmt lögum þessum skulu vera merktir Íslenskum söfnunarkössum.
    Reikningar fyrir innkomið söfnunarfé í söfnunarkössum samkvæmt lögum þessum og rekstur þeirra skulu endurskoðaðir af tveimur löggiltum endurskoðendum og skal annar tilnefndur sameiginlega af þeim félagasamtökum sem standa að rekstri söfnunarkassanna og hinn af dómsmálaráðherra. Að lokinni endurskoðun skal eintak af ársreikningi afhent dómsmálaráðherra.
    

3. gr.


    Vinningar úr söfnunarkössum samkvæmt lögum þessum eru undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum, öðrum en eignarskatti, á því ári sem þeir falla.
    

4. gr.


    Dómsmálaráðherra setur í reglugerð, að fengnum tillögum stjórnar Íslenskra söfnunarkassa, nánari ákvæði um staðsetningu, auðkenningu, fjölda og tegundir söfnunarkassa, eftirlit með þeim, notkun mynta og seðla við greiðslu framlaga, fjárhæð vinninga og aldur þeirra sem nota megi kassana til að leggja fram framlög. Með sama hætti getur ráðherra sett í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um greiðslu kostnaðar vegna eftirlits og endurskoðunar.
    

5. gr.


    Brot gegn lögum þessum varða sektum nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt öðrum lögum. Þá er heimilt með dómi að gera upptæk tæki og fjármuni sem notaðir hafa verið við brot á lögunum.

6. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á sl. ári beitti dóms- og kirkjumálaráðherra sér fyrir því að samkomulag náðist milli Happdrættis Háskóla Íslands annars vegar og hins vegar Rauða kross Íslands (RKÍ), Landsbjargar (LB), Slysavarnafélags Íslands (SVFÍ) og Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (SÁÁ), en þessi fern samtök hafa staðið að starfrækslu söfnunarkassa. Samkomulag þetta var gert í tilefni af deilum sem risu í framhaldi af beiðni Happdrættis Háskóla Íslands um að hefja rekstur á sérstökum samtengdum happdrættisvélum. Þessi beiðni og síðar afgreiðsla ráðuneytisins á henni varð m.a. tilefni deilna um lagagrundvöll undir rekstri söfnunar- og spilakassa á vegum Rauða kross Íslands og samstarfssamtaka þeirra. Við áðurnefnt samkomulag féllst ráðherra á að beita sér fyrir því að lagagrundvöllur undir rekstri söfnunar- og spilakassa RKÍ og samstarfssamtaka þeirra yrði treystur og er frumvarp þetta samið af því tilefni.
    Samhliða þessu frumvarpi er flutt annað frumvarp til breytinga á lögum um happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, með síðari breytingum, þar sem heimild þess til að nota samtengdar happdrættisvélar er afmörkuð.
    Rauði kross Íslands fékk á árinu 1972 í fyrsta sinn leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til að setja upp spilavélar til að afla fjár til starfsemi sinnar. Var þar um að ræða fyrirmynd frá Noregi og Finnlandi, en vélarnar gáfu peningavinninga og voru stilltar á fimmfaldan vinning. Í leyfisbréfinu var af hálfu ráðuneytisins tekið fram að áskilið væri að leitað yrði staðfestingar ráðuneytisins á fjárhæð vinninga og einnig var áskilið að settar kynnu að verða nánari reglur um eftirlit með starfrækslu spilavélanna, þar á meðal um eftirlit lögreglustjóra með staðsetningu þeirra. Tekið var fram að merkja yrði kassana RKÍ. Ráðuneytið veitti síðan á árunum 1972 til 1976 leyfi fyrir notkun tiltekinna mynta í spilavélarnar og breytingum á hlutfalli vinninga.
    Á árinu 1977 sótti Rauði kross Íslands um leyfi til að flytja inn og starfrækja í fjáröflunarskyni nýja tegund söfnunarkassa (spilavéla). Af hálfu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins var umbeðið leyfi veitt með bréfi, dags. 23. júní 1977, og þar voru sett sömu skilyrði og í fyrri leyfisbréfum, en bréfi ráðuneytisins lauk með þessum orðum: „Ráðuneytið vísar að öðru leyti til laga nr. 5 24. mars 1977, um opinberar fjársafnanir.“
    Á árunum 1986 og 1987 fékk RKÍ enn leyfi ráðuneytisins til að setja upp nýjar gerðir af söfnunarkössum og voru þau leyfi veitt með sömu skilyrðum og fyrri leyfi, svo sem um merkingar, tegund myntar, vinningshlutfall, eftirlit og annað.
    Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann fengu á árinu 1981 leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til að starfrækja í fjáröflunarskyni söfnunarkassa (spilakassa), enda yrðu kassarnir merktir SÁÁ. Kassarnir áttu að vera fyrir 1 krónu mynt og vinningar máttu vera allt að 9 krónum. Ákvæði voru í leyfisbréfinu um að leita þyrfti staðfestingar hlutaðeigandi lögreglustjóra á staðsetningu kassanna og áskilið var að þeir yrðu háðir eftirliti lögreglu og jafnframt að síðar kynnu að verða settar nánari reglur um starfrækslu kassanna, þar á meðal um vinningsmöguleika og þóknun til þeirra sem láta í té aðstöðu fyrir þá, svo og um eftirlit með kössunum. Ekki var í leyfisbréfinu vísað til laga eða reglugerða og leyfið var ótímabundið.
    SÁÁ nýttu ekki þetta leyfi en tóku hins vegar fyrir atbeina dómsmálaráðuneytisins á árinu 1989 upp samstarf við Rauða kross Íslands um rekstur söfnunarkassa á vínveitingastöðum. Veitti dóms- og kirkjumálaráðuneytið Rauða krossi Íslands þá sérstakt leyfi til að setja upp söfnunarkassa á vínveitingastöðum og var leyfið m.a. veitt með því skilyrði að samkomulag næðist milli stjórna RKÍ og SÁÁ um skiptingu tekna af þessum söfnunarkössum. Slíkt samkomulag var gert milli RKÍ og SÁÁ 23. maí 1989.
    Með bréfi, dags. 8. september 1989, veitti dóms- og kirkjumálaráðuneytið Slysavarnafélagi Íslands, Landssambandi hjálparsveita skáta og Landssambandi flugbjörgunarsveita sameiginlega leyfi til að setja upp og starfrækja tölvustýrða spilakassa, lukkuskjái, og var þessi sameiginlega starfsemi samtakanna nefnd Lukkutríó. Skilyrði var að vinningar máttu vera ákveðnir hlutir og ekki mátti setja þessa kassa upp á stöðum þar sem söfnunarkassar RKÍ voru þegar reknir.
    RKÍ og Lukkutríó gerðu 6. júlí 1990 með sér samstarfssamning um fjáröflun með spilakössum. Í framhaldi af þessu sótti RKÍ um leyfi til reksturs spilakassa, sem nefndir voru lukkuskjáir, í samvinnu við þau samtök sem stóðu að samningnum frá 6. júlí 1990. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið veitti RKÍ umbeðið leyfi með bréfi, dags. 21. febrúar 1991, og er tekið fram að leyfi sé háð nánar tilgreindum sex skilyrðum:
    Kassarnir verði greinilega merktir þeim samtökum sem afla fjár með rekstri þeirra.
    Leita skal staðfestingar hlutaðeigandi lögreglustjóra á staðsetningu kassanna. Miðað skal við að þeir verði á sömu eða sambærilegum stöðum og RKÍ starfrækir nú söfnunarkassa. Jafnframt er áskilið að söfnunarkassar skuli háðir eftirliti lögreglu eftir því sem nauðsynlegt kann að þykja hverju sinni og að settar kunni að verða nánari reglur um starfrækslu kassanna, þar á meðal um þóknun til þeirra sem láta í té aðstöðu fyrir þá, svo og um eftirlit með kössunum.
    Í kassana er einungis heimilt að nota 10 króna og 50 króna mynt.
    Heimilt er að nota tilgreinda átta leiki í söfnunarkössunum.
    Sett eru skilyrði um verð á hverjum leik og vinningshlutfall sem má vera allt að fertugfalt verð leiks. Hæsti vinningur í leik sem kostar að grunnverði 10 krónur verði 3.200 krónur og í leik sem kostar að grunnverði 25 krónur verði hæsti vinningur 8.000 krónur. Útborgunarhlutfall verði minnst 82% af verðmæti innborgaðra leikja miðað við hverja 100 leiki.
    Ráðuneytið áskilur sér rétt til að endurskoða reglur þessar að höfðu samráði við leyfishafa.
    Ekki er í leyfisbréfinu vísað til laga eða reglugerða og leyfið er ótímabundið.
    Frá 1990 hafa Rauði kross Íslands, Landssamband hjálparsveita skáta og Landssamband flugbjörgunarsveita, síðar Landsbjörg eftir sameiningu þessara tveggja landssambanda, Slysavarnafélag Íslands og Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandamálið, haft með sér samstarf um starfrækslu söfnunarkassa, sem jafnframt hafa veitt peningavinninga. RKÍ annaðist þennan rekstur fram til 1. janúar 1994, en aðilar sömdu um skiptingu tekna af kössunum.
    Hinn 19. október 1993 gerðu Rauði kross Íslands, Landsbjörg, Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann og Slysavarnafélag Íslands með sér samning um stofnun félags um rekstur söfnunar- og spilakassa og aðra fjáröflun. Heiti félagsins er Íslenskir söfnunarkassar (ÍSK) og tók það til starfa 1. janúar 1994. Stofnsamningur Íslenskra söfnunarkassa er birtur sem fskj. I með frumvarpi þessu. Í framhaldi af gerð stofnsamningsins hafa þau samtök, sem aðild eiga að Íslenskum söfnunarkössum, komið sér saman um skiptingu ágóða af rekstri söfnunarkassa, sjá töflu í viðauka nr. 1 með samningnum sem fylgir frumvarpinu.
    Verði frumvarp þetta að lögum hefur hinni sameiginlegu fjáröflun til starfsemi þessara fernra samtaka verið búinn lagagrundvöllur með hliðstæðum hætti og nú er varðandi rekstur getrauna og lottós, en tekjur af þeirri starfsemi renna til íþróttasamtaka og Öryrkjabandalags Íslands. Rekstur söfnunarkassa, sem jafnframt gefa möguleika á peningavinningum, hefur verið mikilvæg fjáröflun fyrir starfsemi RKÍ, Landsbjargar, SVFÍ og SÁÁ og hefur átt mikinn þátt í að gera þessum samtökum kleift að halda uppi öflugri starfsemi í þágu landsmanna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Rauði kross Íslands, Landsbjörg, Samtök áhugamanna um áfengis- og vímuefnavandann og Slysavarnafélag Íslands hafa eins og lýst var fyrr í greinargerðinni stofnað með sér sameignarfélag um rekstur söfnunar- og spilakassa og aðra fjáröflun. Lagt er til að dómsmálaráðherra fái heimild til að leyfa þessu félagi, Íslenskum söfnunarkössum, að starfrækja söfnunarkassa með peningavinningum. Verði þessi heimild lögleidd leiðir af henni að ráðherra getur ekki án sérstakrar lagaheimildar heimilað öðrum aðilum rekstur söfnunarkassa af því tagi sem frumvarpið tekur til.
    Lagt er til að það verði skilyrði fyrir leyfinu að dómsmálaráðherra hafi staðfest samstarfssamning þeirra samtaka sem standa að félaginu þar sem m.a. er kveðið á um skiptingu tekna af söfnunarfénu. Samkvæmt þessu er það verkefni samtakanna að semja sín í milli um skiptingu tekna af söfnunarfénu og það er aðeins hlutverk ráðherra að staðfesta slíkan samning, en í því felst að hann hefur eftirlit með að ákvæði samningsins séu í samræmi við ákvæði laga og þeirra reglna sem sett eru á grundvelli þeirra.
    Í frumvarpinu er ekki farin sú leið að binda heimildina til að veita leyfi við tiltekinn árafjölda eins og gert er í lögum um einstök happdrætti og lögum nr. 26/1986, um talnagetraunir (lottó). Hér er hins vegar farin hliðstæð leið og gert er í lögum nr. 59/1972, um getraunir. Það er því á valdi Alþingis að ákveða síðar með breytingu á lögunum hvort leyfið verður fellt niður og þá hvenær. Sé leyfið fyrir fram tímabundið kunna þeir aðilar, sem þess njóta, að eiga kröfu á bótum ef leyfið er fellt niður áður en leyfistíminn er á enda.
    Í 2. mgr. er tekið fram að tekjum af söfnunarkössum samkvæmt lögunum skuli varið til starfsemi þeirra samtaka sem rétt hafa til reksturs þeirra. Öll hafa þau fern samtök, sem standa að Íslenskum söfnunarkössum, það að markmiði að starfa að mannúðar-, líknar- og björgunarmálum. Þeim fjármunum, sem samtökin afla, er því varið til að sinna slíkum verkefnum og er ekki tilefni til þess að lögbinda frekar ráðstöfun á tekjum af söfnunarkössunum.
    

Um 2. gr.


    Starfræksla söfnunarkassa á vegum Íslenskra söfnunarkassa hefur það fyrst og fremst að markmiði að afla fjár til starfsemi þeirra samtaka sem að félaginu standa og fjárframlög, sem látin eru í té hverju sinni, eru tiltölulega lágar fjárhæðir. Sama gildir um þá vinninga sem kassarnir gefa. Sú aðferð að framlag á söfnunarfé veiti jafnframt möguleika á peningavinningi, þar sem úthlutun vinninga byggist á tilviljun, er að mörgu leyti hliðstæð því sem almennt er fellt undir hugtakið happdrætti. Ekki er því kostur á að setja fram algilda skilgreiningu annars vegar á söfnunarkössum sem falla undir þetta frumvarp og hins vegar happdrættisvélum sem happdrætti, er hafa til þess leyfi, kunna að setja upp. Á því er hins vegar byggt í þessu frumvarpi og því frumvarpi um breytingu á lögum um happdrætti Háskóla Íslands sem flutt er samhliða að helsta greinimarkið á milli söfnunarkassa annars vegar og happdrættisvéla hins vegar komi fram í því að heimilt er að samtengja happdrættisvélar hvort heldur er einstakar vélar eða á milli sölustaða, en ekki verður heimilt að samtengja söfnunarkassa. Búnaðurinn sjálfur kann hins vegar að öðru leyti að vera hliðstæður og búnaður happdrættisvéla sem happdrætti kunna að fá leyfi til að setja upp. Það er ekki skilyrði að söfnunarkassarnir séu vélknúnir heldur kunna þeir að vera að hluta eða öllu leyti handknúnir. Í greininni kemur fram að söfnunarkassar skuli merktir Íslenskum söfnunarkössum.
    Með lögum þessum er þeim fernum samtökum, sem standa að Íslenskum söfnunarkössum, veitt leyfi til að reka tiltekna gerð af söfnunarkössum. Eðlilegt er því að stjórnvöld hafi möguleika á því að fylgjast með og hafa eftirlit með fjárreiðum og uppgjöri vegna þess fjár sem safnast í söfnunarkassana. Lagt er til að dómsmálaráðherra tilnefni annan tveggja löggiltra endurskoðenda reikninga fyrir innkomið söfnunarfé og að dómsmálaráðherra skuli fá eintak af ársreikningi afhent að lokinni endurskoðun. Hinn tilnefndi endurskoðandi er því trúnaðarmaður ráðherra.
    

Um 3. gr.


    Hér er með sama hætti og í lögum um einstök happdrætti, getraunir og talnagetraunir (lottó) tekið fram um skattfrelsi vinninga, sjá t.d. 4. gr. laga nr. 13/1973 og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 59/1972. Það skal þó tekið fram að fjárhæðir vinninga úr söfnunarkössum þeim, sem frumvarp þetta fjallar um, eru almennt ekki sambærilegar við vinninga í hefðbundnum happdrættum, getraunum eða lottói, auk þess sem þeir dreifast svo mjög að ekki er kostur á að koma við skráningu þeirra.

Um 4. gr.


    Rétt þykir að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um ákveðin atriði varðandi starfrækslu söfnunarkassanna, en þar er m.a. um að ræða atriði sem geta verið breytileg frá einum tíma til annars, svo sem um fjölda söfnunarkassa, notkun mynta og fjárhæð vinninga. Að mestu eru þetta sömu atriði og áskilnaður hefur verið gerður um í leyfisbréfum um rekstur söfnunarkassanna, en nýmæli er að lagt er til að ráðherra ákveði aldur þeirra sem nota mega kassana til að leggja fram framlög. Með því að tiltaka þau atriði, sem nefnd eru í greininni, eru tekin af tvímæli um að ráðherra sé heimilt í reglugerð að mæla nánar fyrir um þessi einstöku atriði í starfsemi Íslenskra söfnunarkassa, en ekki er í öllum tilvikum víst að almenn reglugerðarheimild veitti ráðherra vald til að skerða það leyfi sem lögin miða við að hann veiti Íslenskum söfnunarkössum.
    

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 6. gr.


    Eins og fram er komið hefur félagið Íslenskir söfnunarkassar þegar verið stofnað og fyrir liggur samstarfssamningur milli þessara aðila í samræmi við 1. gr. frumvarpsins. Að lokinni birtingu laganna, staðfestingu ráðherra á samstarfssamningi, sbr. lok 1. mgr. 1. gr., og útgáfu reglugerðar skv. 4. gr. á ráðherra að geta gefið út leyfi skv. 1. gr., en slíkt leyfi kæmi þá í stað núverandi leyfa þeirra samtaka sem standa að félaginu, en þau eru ótímabundin.Fylgiskjal I.


Samningur


um stofnun félags um rekstur spilakassa og aðra fjáröflun.


    
1.         Aðilar samnings.
1.1.     Aðilar samnings þessa og eigendur eru:
         Rauði kross Íslands (RKÍ).
         Landsbjörg (LB).
         Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (SÁÁ).
         Slysavarnafélag Íslands (SVFÍ).
    
2.         Heiti félagsins, heimili og tilgangur.
2.1.     Heiti félagsins er Íslenskir söfnunarkassar (ÍSK).
2.2.     Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.
2.3.    Tilgangur félagsins er að reka söfnunar- og spilakassa og aðra fjáröflunarstarfsemi fyrir eigendafélögin.
3.         Eignaraðilar, skipting ágóða og ábyrgð.
3.1.     Eigendur félagsins eru þeir sem tilgreindir eru í lið 1.1.
3.2.    Þegar greiddir hafa verið vinningar, rekstrarkostnaður, stofnkostnaður, tækjakaup og aðrar nauðsynlegar fjárfestingar vegna starfsemi félagsins skal ágóða skipt milli eigenda í þeim hlutföllum sem um getur í viðauka nr. 1 við samning þennan. Eignaraðilar skulu verja ágóðanum í samræmi við markmið hvers eigendafélags.
3.3.    Eigendur bera ábyrgð á tapi er verða kann á rekstrinum og skuldbindingum félagsins í þeim hlutföllum er um getur í viðauka nr. 1 og gr. 3.4.
3.4.    Heimilt er að leggja ákveðinn hundraðshluta af heildarsölutekjum yfirstandandi reikningsárs í varasjóð sem skal ávaxtast með sem hagkvæmustum hætti á hverjum tíma. Sjóði þessum er ætlað að mæta óvæntum áföllum og uppbyggingu félagsins. Varasjóðstillag sé ákveðið á aðalfundi félagsins hverju sinni.
3.5.    Félagið kaupi og yfirtaki rekstur kassadeildar RKÍ við upphaf starfsemi samkvæmt kaupsamningi, sjá viðauka nr. 2.
3.6.    Félagið sæki um einkaleyfi á rekstri spilakassa hjá dómsmálaráðuneyti byggt á lögum frá Alþingi.
3.7.    Eignaraðilum er heimilt að reka þær fjáraflanir sem þegar er hefð fyrir, en allar nýjar fjáraflanir sem eignaraðilarnir hyggjast stunda skal leggja með góðum fyrirvara fyrir stjórn félagsins og skal hún meta:
        1) hvort þær séu í samkeppni við rekstur félagsins hverju sinni til að ekki komi til árekstra,
        2) hvort eðlilegt sé að ÍSK standi að rekstri þeirrar fjáröflunar.
3.8.    Allar aðrar fjáraflanir en söfnunar- og spilakassar sem ÍSK tekur að sér að reka skulu skiptast samkvæmt samkomulagi hverju sinni. Aðilar eru sammála um að sem flestar fjáröflunarleiðir skuli fara fram á vegum fyrirtækisins.
3.9.    Þegar ný fjáröflunarleið er ákveðin á vegum félagsins skiptist kostnaður við hana í sömu hlutföllum og væntanleg tekjuskipting.
    
4.     Stjórn.
4.1.    Stjórn félagsins skipa 6 menn og 6 til vara. RKÍ skipar 3 menn og 3 til vara, aðrir skipa 1 mann og 1 til vara. Stjórnin skiptir með sér verkum. Formaður skal vera til skiptis frá eignaraðilum, tvö ár í senn, í fyrsta skipti frá RKÍ, en RKÍ hefur þó formann annað hvert kjörtímabil. Varamenn skulu taka sæti þeirra aðalmanna sem þeir eru skipaðir fyrir. Kjörtímabil stjórnar er tvö ár og leitast skal við að ekki sé skipt nema 2 stjórnarmönnum hverju sinni.
4.2.    Stjórnin fer með yfirstjórn félagsins milli aðalfunda, ræður framkvæmdastjóra þess, löggiltan endurskoðanda og annað starfsfólk og setur því erindisbréf. Stjórnin skal hafa eftirlit með að reikningshald, innra eftirlit og fjármál þess séu í góðu lagi og að það fylgi lögum og reglugerðum í starfsemi sinni. Skrá skal allar ákvarðanir stjórnar í fundargerðabók.
        Formaður stjórnar skal boða hana til fundar eins oft og þurfa þykir. Einstakur stjórnarmaður getur með tilgreindum rökum krafist þess að stjórnarfundur sé haldinn og hafi formaður ekki boðað til slíks fundar innan 7 daga frá því er hann fékk slíka kröfu um fundarhald getur sá er fundar krefst boðað sjálfur til slíks fundar.
        Meiri hluti atkvæða ræður á stjórnarfundi nema um sé að ræða meiri háttar ákvarðanir, svo sem ráðningu og uppsögn framkvæmdastjóra eða umtalsverða breytingu á rekstrarfyrirkomulagi. Í slíkum tilfellum þurfa a.m.k. 4 stjórnarmenn að vera ákvörðuninni samþykkir.
4.3.    Í októbermánuði ár hvert skal stjórnin boða til aðalfundar með a.m.k. 14 daga fyrirvara.
        Fundarboðun skal gerð með ábyrgðarbréfi til skrifstofu eignaraðila eða á annan sannanlegan hátt.
        Rétt til setu á fundi þessum hafa auk stjórnarmanna og varamanna þeirra, framkvæmdastjóri félagsins og endurskoðandi og allt að 2 fulltrúar hverrar stjórnar, LB, SVFÍ, SÁÁ, og 6 fulltrúar RKÍ eða varamenn þeirra.
        Atkvæði eru óskipt fyrir hvert félag og skal atkvæðavægi hvers eignaraðila vera í samræmi við eignarhlutföll þeirra samkvæmt viðauka nr. 1. Meiri hluti atkvæða ræður nema annað sé ákveðið í félagssamningi þessum eða reglugerð.
        Formaður stjórnar skal setja fundinn og skipa fundarstjóra. Fundarstjóri skal tilnefna fundarritara.
        Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:
    Kjörbréf aðalfundarfulltrúa lögð fram.
    Stjórnin gefur skýrslu um liðið starfsár og gerir grein fyrir framtíðarhorfum.
    Stjórnin leggur fram til samþykktar endurskoðaðan ársreikning félagsins fyrir liðið starfsár ásamt athugasemdum endurskoðenda.
    Ákvörðun tekin um laun stjórnarmanna.
    Tilkynnt skipun næstu stjórnar, sbr. gr. 4.1.
    Breytingar á félagssamþykktum.
    Tekin ákvörðun um varasjóðstillag.
    Önnur mál.
4.4.    Boða skal til aukafundar með sama hætti og boðað er til aðalfundar, sbr. gr. 4.3, ef nauðsynlegt þykir að stjórnir eignaraðila taki afstöðu til tiltekins máls eða ef stjórn félagsins verður óstarfhæf af einhverjum sökum.
    
5.         Reikningsskil og endurskoðun.
5.1.    Reikningsár félagsins er frá 1. júlí til 30. júní.
        Ársreikningur félagsins skal endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda og skal hann sendur eignaraðilum í síðasta lagi 7 dögum fyrir aðalfund.
5.2.    Félagið er óskattskyldur aðili eins og eigendur félagsins enda hagnaði ráðstafað til eigenda.

6.         Breytingar á félagssamningi þessum.
6.1.    Samningi þessum verður ekki breytt nema með a.m.k. 2 / 3 hluta atkvæða á fundi eigenda samkvæmt gr. 4.3. og 4.4. Breyting á eignarhlutföllum samkvæmt viðauka nr. 1 er bundin samhljóða samþykkt eigendafundar.
    
7.         Slit félagsins eða úrsögn úr því.
7.1.    Hætti félagið störfum skal félagið gert upp, eignir þess seldar og skuldir þess greiddar. Eignir eða skuldir, sem þá verða eftir, skulu skiptast á eigendur í samræmi við eignarhlutföll, sbr. viðauka nr. 1.
7.2.    Eignaraðili getur sagt sig úr félagi þessu, enda sé það gert bréflega með minnst sex mánaða fyrirvara, miðað við uppgjör 1. júlí. Að loknum aðalfundi skal greiða þeim er úrsagnar krafðist hlut hans í félaginu í samræmi við fyrirliggjandi ársreikning. Eigandi sem segir sig úr félaginu á ekki rétt á að halda starfsemi þess áfram í eigin nafni, nema með samþykki þeirra eigenda sem eftir eru í félaginu komi til.
7.3.    Íslenskir söfnunarkassar hefja starfsemi sína 1. janúar 1994.
    

Reykjavík 10. desember 1993.Ólafur Proppé,

Guðjón Magnússon,


Landsbjörg.

Rauði kross Íslands.Þórarinn Tyrfingsson,

Einar Sigurjónsson,


SÁÁ.

Slysavarnafélag Íslands.
Viðauki nr. 1


við samning um stofnun félags um rekstur söfnunarkassa og aðra fjáröflun.


    
    Ágóða af rekstri söfnunarkassa skal skipt milli eigenda á eftirfarandi hátt, sbr. lið 3.2.
Fylgiskjal II.
    
    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um söfnunarkassa.


    Í frumvarpi þessu er leitað eftir heimild til handa dómsmálaráðherra til að veita félaginu Íslenskum söfnunarkössum leyfi til starfrækslu söfnunarkassa með peningavinningum.
    Í 2. gr. er gert ráð fyrir að reikningar fyrir innkomið söfnunarfé skuli endurskoðaðir af tveimur löggiltum endurskoðendum og skal annar tilnefndur af þeim félagasamtökum sem standa að rekstri söfnunarkassanna og hinn af dómsmálaráðherra. Í 4. gr. er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð með nánari fyrirmælum um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um greiðslu kostnaðar vegna eftirlits og endurskoðunar. Fjármálaráðuneytið lítur því svo á að sá eftirlitskostnaður sem af umræddum söfnunarkössum hlýst, þar með kostnaður af löggiltum endurskoðendum, verði borinn að fullu af félaginu Íslenskir söfnunarkassar og þeim aðilum sem að félaginu standa. Kostnaður ríkissjóðs af þessari starfsemi verður því enginn fyrir utan almennan stjórnunarkostnað dómsmálaráðuneytis sem þegar er fyrir hendi.