Ferill 451. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 451 . mál.


670. Tillaga til þingsályktunar



um náttúrufræðikennslu og sveitadvöl nemenda í 4.–6. bekk grunnskóla.

Flm.: Auður Sveinsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra í samvinnu við landbúnaðarráðherra að leita leiða til að efla náttúrufræðifræðslu í 4.–6. bekk grunnskólans í tengslum við íslenskan landbúnað. Skipaður verði starfshópur er í eigi sæti, auk fulltrúa ráðherra, fulltrúar bændasamtakanna og náttúruverndarsamtaka. Starfshópurinn geri tillögur um nám tengt dvöl í sveit. Jafnframt verði athugað sérstaklega hvort hægt sé að tengja þetta verkefni ferðaþjónustubæjum og nota sem lið í atvinnuátaki í dreifbýli. Gera skal ráð fyrir fimm ára reynslutíma.

Greinargerð.


     Allt fram á seinni hluta þessarar aldar hafa flestir landsmenn verið á einhvern hátt tengdir sveitinni, annaðhvort fæddir þar og uppaldir eða með búsetu og fjölskyldutengslum. Nú er hins vegar þannig komið að áhrifa þéttbýlisins gætir sífellt meira og meira, þannig að fjöldi barna, unglinga og jafnvel fullorðinna er án nokkurra tengsla við sveitir landsins. Sífellt færri börn fara til sumardvalar og er það af sem áður var þegar börn flykktust á hverju vori til hinna ýmsu starfa sveitarinnar. Þar komust börn í snertingu við landið, náttúru þess, söguna og störfin. Sú reynsla, sem þannig fékkst, var þeim síðan gott veganesti, bæði við nám í skólum að vetri og síðan þegar að fullorðinsárum kom. Í dag hafa þær kynslóðir sem vaxa úr grasi ekki þessa sömu möguleika á tengslum við sveitirnar og því þarf að miða náttúrufræði- og jafnvel Íslandssögukennslu við þá staðreynd. Því miður er það að koma æ oftar í ljós að þessari fræðslu er víða mjög ábótavant og almennt er viðurkennt að kennslu í náttúru- og umhverfisfræðum þarf að auka því að tengsl barna og unglinga við landið, náttúru þess og sögu eru hverfandi. Staðreyndin er sú að þekking á náttúru landsins, störfum fólksins til sveita og sjávar, sögu og menningu er undirstaða skilnings á ferli náttúrunnar og jafnframt umgengni við landið.
    Á árunum 1991–1992 var gerð tilraun með sveitadvöl 9–11 ára barna að tilstuðlan Landverndar, Stéttarsambands bænda með þátttöku landbúnaðarráðuneytis, menntamálaráðuneytis og Kennarasambands Íslands. Börnin dvöldust í 10–15 manna hópum ásamt kennara sínum 7–10 daga á sveitaheimilum og tóku þátt í almennum sveitastörfum. Alls voru þetta um 100 börn af suðvesturhorni landsins. Á sumum bæjanna var sauðburður í hámarki, annars staðar var landgræðsla, skógrækt og ýmis önnur vorverk. Heimafólkið tók þátt í fræðslunni sem leiðbeinendur og fékk greitt sérstaklega fyrir það því að eitt af markmiðunum var að börnin kynntust störfum fólksins. Lögð var áhersla á sögu staðanna, þjóðsögur og annan fróðleik um viðkomandi sveit.
    Það er samdóma álit þeirra er tóku þátt í þessu að vel hafi tekist til. Þetta sé ein virkasta leiðin til að efla skilning barna á landinu, náttúru þess og störfum fólksins og stefna beri að því að gera slíka dvöl að föstum lið í skólastarfinu a.m.k. einu sinni til tvisvar á skólaferli hvers barns.
    Í nágrannalöndum okkar er almennt viðurkennt að náttúrufræðikennsla fari fram sem mest utan skólastofunnar og þar eru ferðalög ýmist til dagsdvalar eða til lengri tíma mikilvægur þáttur í skólastarfinu og skipulögð sem hluti þess. Víða hafa risið svokallaðir „lejrskoler“ sem ýmist eru reknir af sveitarfélögum eða ríki eða eru jafnvel í einkaeign, en markmið þeirra er að stunda náttúrufræðifræðslu.
    Hér á landi eru slíkir skólar eða staðir ekki til aðrir en Alviðra í Ölfushreppi í eigu Árnessýslu og Landverndar. Þar hefur á undanförnum árum verið að byggjast upp fræðslusetur í náttúru- og umhverfisfræðum. Þar er nú starfandi einn starfsmaður og aðsóknin er mikil. Í Reykjaskóla í Hrútafirði hafa verið í nokkur ár reknar skólabúðir á vegum menntamálaráðuneytis við miklar vinsældir. Þessi tillaga til þingsályktunar gerir hins vegar ráð fyrir að starfsemin verði meira í tengslum við bændur og heimafólk í sveitunum þar sem áhersla er lögð á sveitaheimilið.

Markmið dvalarinnar.


    Markmið dvalarinnar eru að gefa börnum kost á aukinni fræðslu um landið, náttúru þess, söguna, atvinnuhætti og líf fólksins, byggja upp og örva áhuga þeirra þannig að bætt undirstaða skili árangri í námi innan skólans og enn fremur að venja þau við dvöl úti í náttúrunni:
 —    að skynja og upplifa sjálf sig sem hluta af landinu,
 —    skynja líf og störf fólksins sem býr í sveitinni,
 —    takast á við mismunandi veður (klæðnaður, störf háð veðri, skýin, sólin, vindar, úrkoma, áttir),
 —    skynja hljóðin í náttúrunni og atferli dýranna (fuglar, önnur dýr, lækir, fossar o.fl.),
 —    skynja lyktina,
 —    skynja landslagið (mótun landsins, áhrif mannsins),
 —    skynja gróðurinn sem er að vakna til lífsins að vorlagi (mólendi, mýrar, votlendi, melar, örfoka land, gróið land, skógur),
 —    hlusta á talað mál (myndmiðlar ekki aðgengilegir),
 —    hlusta á frásagnir og sögur er tengjast landinu,
 —    vinna saman í leik og störfum,
 —    skynja gildi heilbrigðs lífernis í mat, starfi og leik.
    Gert er ráð fyrir að leik og störfum verði fléttað saman. Börnin fengju öll mismunandi verkefni við sitt hæfi. Verkefnið yrði háð aðstæðum á hverjum stað. Það væri um að ræða „aðstoð“ við landgræðslu, skógrækt, matjurtaræktun, hreinsun, auk ýmissa sveitastarfa. Auk þess fengju þau fræðslu í ýmsum þáttum náttúrufræði, landafræði (staðhættir), sögu og íslensku. Áhersla yrði lögð á heilbrigða útiveru og hreyfingu. Sérstök áhersla er lögð á eftirfarandi verkefni: Örnefni, veðurfar, fuglaskoðun, plöntur/gróður, gróðurlendi, fjöruna, sögu (þjóðsögur), áhrif mannsins á landið, svo sem framræslu, ræktun, vegagerð, byggingar og umgengni við landið.
    Því má má ekki gleyma að þeir möguleikar, sem felast í þessari sveitadvöl barnanna, eru ekki síður hagstæðir bændum og þeirra fólki. Þarna skapast möguleikar á tímabundinni atvinnu og þar með aukatekjum, bæði hjá ferðaþjónustubændum sem og öðrum með hefðbundinn búskap sem þá gæti tengst þessari starfsemi á einhvern hátt. Síðast en ekki síst stuðlar þetta að víðari skilningi og þekkingu á högum fólksins bæði í þéttbýli sem í dreifbýli að ógleymdri aukinni virðingu fyrir landinu, gæðum þess, sögu og menningu.
    Enn fremur er lagt til að reynt verði að tengja þetta sem lið í atvinnuátaki í dreifbýli.
    Til að byrja með er rétt að um verði að ræða fyrirkomulag til t.d. fimm ára sem síðan verði endurskoðað með hliðsjón af þeirri reynslu sem fæst á þeim tíma. Jafnframt verði athugað sérstaklega hvernig hægt væri að tengja þetta við sérstakt atvinnuátak í sveitunum.