Ferill 341. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 341 . mál.


702. Breytingartillaga



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Frá 3. minni hluta landbúnaðarnefndar (JGS, SJS, KÁ, GÁ).



    Við bætist ný grein, svohljóðandi:
    72. gr. laganna orðast svo:
    Landbúnaðarráðherra er heimilt, til að þess jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara, að leggja verðjöfnunargjöld á innfluttar landbúnaðarvörur sem tilgreindar eru í viðauka I og II með lögum þessum. Verðjöfnun á unnum og/eða samsettum vörum miðast við þátt landbúnaðarhráefna í verði þeirra.
    Verðjöfnunargjöld samkvæmt þessari grein skulu innheimt við tollafgreiðslu og renna í ríkissjóð.
    Fjárhæð verðjöfnunargjalds má að hámarki vera mismunur annars vegar á innlendu verði hráefnis sem ákveðið er skv. 1. tölul. og hins vegar erlendu viðmiðunarverði sem ákveðið er skv. 2. tölul.:
    Innlent verð skal ákveðið í eftirfarandi röð:
        1.1.    Umsamið innlent viðmiðunarverð í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að og bókunum við þá og tekur til hlutaðeigandi innflutnings.
        1.2.    Samkvæmt IV. kafla laga þessara ef verð er ákveðið og birt í samræmi við þær reglur.
        1.3.    Í samræmi við reglur 6. gr. laga nr. 97/1987, um vörugjald.
    Erlent viðmiðunarverð skal ákveðið þannig eftir því sem við á um hlutaðeigandi innflutning:
        2.1.    Viðmiðunarverð sem lagt er til grundvallar samkvæmt verðjöfnunarákvæðum í bókun 3 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
        2.2.    Viðmiðunarverð sem lagt er til grundvallar samkvæmt bókun 2 við samning milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu.
        2.3.    Viðmiðunarverð sem lagt er til grundvallar í verðjöfnunarákvæðum í öðrum fríverslunarsamningum en skv. 2.1 og 2.2 sem Ísland er aðili að á hverjum tíma.
        2.4.    Útreikningsverð sem lagt var til grundvallar við umreikning innflutningstakmarkana samkvæmt ákvæðum hins almenna samkomulags um tolla og viðskipti (GATT) og bókunum og viðbótum við það.
        2.5.    Heimsmarkaðsverð sem ákvarðað er á grundvelli birtra upplýsinga frá fríverslunarsamtökum og efnahagsbandalögum eða því verði sem framleiðendur vöru eiga kost á að kaupa hráefni á.
    Landbúnaðarráðherra skal jafnan við ákvörðun verðjöfnunargjalds birta í reglugerð það innlenda og erlenda viðmiðunarverð sem notað er við ákvörðun gjaldsins.
    Jafnan skal miða við verð á sama sölustigi nema annað leiði af ákvæðum fríverslunar- og milliríkjasamninga. Verðjöfnunargjöld má leggja á sem krónutölu á magneiningu eða sem hlutfallslegt gjald.
    Ráðherra ákveður álagningu gjalda samkvæmt þessari grein í reglugerð. Álagning verðjöfnunargjalds skal vera í samræmi við þá skilmála sem kveðið er á um í fríverslunar- og milliríkjasamningum og takmarkast hverju sinni af því að verðjöfnunargjald að viðbættum innflutningsgjöldum sé innan þeirra marka sem skilgreind eru í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að.
    Við ákvörðun verðjöfnunargjalda skal ráðherra hafa sér til ráðuneytis nefnd þriggja manna. Skal einn skipaður án tilnefningar, annar af fjármálaráðherra og hinn þriðji af viðskiptaráðherra.
    Að því leyti sem eigi er ákveðið í lögum þessum eða reglugerð eða öðrum fyrirmælum settum samkvæmt lögum þessum um vöruflokkun, gjalddaga, innheimtu, lögvernd verðjöfnunargjalda, refsingar og aðra framkvæmd varðandi verðjöfnunargjöld skulu gilda eftir því sem við geta átt ákvæði tollalaga, nr. 55/1987, með síðari breytingum.
    Heimild landbúnaðarráðherra samkvæmt þessari grein skal koma í stað heimildar fjármálaráðherra skv. 120. gr. A í tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum, að því er varðar þær vörur sem grein þessi tekur til.