Ferill 196. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 196 . mál.


710. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Hæstarétt Íslands, nr. 75 21. júní 1973.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Markús Sigurbjörnsson prófessor, Hrafn Bragason, forseta Hæstaréttar, Valtý Sigurðsson, formann Dómarafélags Íslands, og Magnús Thoroddsen, formann laganefndar Lögmannafélags Íslands. Þá bárust nefndinni umsagnir frá héraðsdómi Reykjavíkur, héraðsdómi Norðurlands vestra, ríkissaksóknara, héraðsdómi Suðurlands, Hæstarétti Íslands, Lögmannafélagi Íslands, Dómarafélagi Íslands, héraðsdómi Reykjaness, Sýslumannafélagi Íslands og Eiríki Tómassyni hrl.
    Frumvarp þetta er afgreitt frá nefndinni samhliða frumvarpi til laga um breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, og lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Þessi þrjú frumvörp eru afrakstur heildarendurskoðunar á réttarfarsreglum um áfrýjun héraðsdóma til Hæstaréttar og meðferð áfrýjunarmála.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Með fyrri breytingartillögunni er lagt til að við 2. gr. frumvarpsins bætist ný málsgrein til breytinga á 3. mgr. 3. gr. laganna. Nú starfar Hæstiréttur að öðru jöfnu í tveimur deildum og flytjast dómararnir reglulega á milli þeirra. Þannig flyst einn dómari í senn úr hvorri deild í hina á tveggja mánaða fresti og eru þær því ekki skipaðar sömu mönnum nema um skamman tíma. Breytingin felur í sér að lögbundið verði að þeir hæstaréttardómarar, sem eru elstir að starfsaldri við réttinn, skuli ávallt skipa fimm eða sjö manna dóm en varadómarar verði þá ekki kvaddir til nema í undantekningartilvikum. Mikilvægt þykir að sömu dómarar dæmi í meiri háttar málum, þar með talið málum sem hafa verulegt fordæmisgildi. Markmið breytingarinnar er, auk þess að verða til aukinnar réttareiningar og til að auka fordæmisfestu dóma Hæstaréttar frá því sem nú er, að hamla gegn aukinni hættu á misræmi í dómum réttarins sem gæti ella orðið vegna fjölgunar dómara annars vegar og rýmkaðra heimilda til kvaðningar varadómara hins vegar. Þannig munu sömu dómarar að jafnaði dæma í meiri háttar málum og reglulegir dómarar, yngri að starfsaldri við Hæstarétt, koma í þeirra stað verði um forföll eða vanhæfi að ræða. Hins vegar mundu varadómarar aldrei vera kvaddir til í slíkum málum vegna tímabundins álags heldur aðeins ef brýna nauðsyn ber til vegna forfalla eða vanhæfis reglulegra dómara. Með síðari breytingartillögunni er lagt til að gildistökuákvæði frumvarpsins breytist og þarfnast sú breyting ekki skýringa við.

Alþingi, 9. mars 1994.



Sólveig Pétursdóttir,

Gísli S. Einarsson.

Þuríður Bernódusdóttir.


form., frsm.



Anna Ólafsdóttir Björnsson.

Björn Bjarnason.

Kristinn H. Gunnarsson.



Ingi Björn Albertsson.

Ey. Kon. Jónsson.

Ólafur Þ. Þórðarson.