Ferill 102. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 102 . mál.


715. Nefndarálit



um frv. til l. um mannréttindasáttmála Evrópu.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Markús Sigurbjörnsson prófessor, frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja Ögmund Jónasson formann og Svanhildi Halldórsdóttur fræðslufulltrúa og frá Alþýðusambandi Íslands Bryndísi Hlöðversdóttur lögfræðing. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Amnesty International, ríkissaksóknara og Dómarafélagi Íslands.
    Mannréttindasáttmáli Evrópu var fullgiltur af Íslands hálfu 19. júní 1953 og hafa átta viðaukar við samninginn jafnframt verið fullgiltir. Ísland heyrir nú til þess minni hluta aðildarríkja hans þar sem ákvæði hans teljast ekki hluti af landsrétti heldur eingöngu skuldbinding ríkisins að þjóðarétti. Með því að sáttmálinn hefur ekki verið lögfestur hér á landi hafa áhrif hans aðallega komið fram með þrennu móti. Í fyrsta lagi hefur reynt nokkuð á áhrif sáttmálans í málum fyrir íslenskum dómstólum þar sem úrlausn hefur verið háð reglum landsréttar sem kunna að vera í andstöðu við ákvæði sáttmálans. Í öðru lagi hafa kærumál á hendur íslenska ríkinu út af brotum á sáttmálanum komið til úrlausnar fyrir mannréttindanefnd og mannréttindadómstóli Evrópu, en þar hefur orðið að taka afstöðu til þess hvort íslenskur landsréttur samrýmist ákvæðum sáttmálans um tiltekin atriði. Í þriðja lagi hefur gætt áhrifa mannréttindasáttmálans við lagasetningu hér á landi og eru þess dæmi að lögum hafi verið breytt í því skyni að þau samrýmdust ákvæðum hans.
    Með lögfestingu þessa frumvarps munu ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu verða að almennum lögum hér á landi. Fjölmargar röksemdir hafa verið settar fram sem styðja lögfestinguna. Ein meginröksemdin fyrir lögfestingu er sú að þá getur einstaklingur borið ákvæði sáttmálans fyrir sig sem beina réttarreglu fyrir dómi eða stjórnvöldum hér á landi en ekki aðeins, svo sem nú er, sem leiðbeiningar gagn við lögskýringar. Einnig má nefna þá röksemd að réttindi einstaklinga fái aukna vernd og réttaröryggi aukist, m.a. vegna þess að í sumum greinum sáttmálans er að finna ítarlegri ákvæði en í íslenskum lögum um einstaka þætti mannréttinda og hefur tjáningarfrelsið verið nefnt sem dæmi. Eftir lögfestingu geta einstaklingar fengið dómsúrlausn hér á landi um ýmis þau kæruefni sem ella hefðu þurft að fara fyrir stofnanir í Strassborg. Ef úrlausn fæst samt ekki hér á landi hafa einstaklingar á sama hátt rétt til að kæra til mannréttindanefndarinnar. Loks má nefna að lögfestingin mun vekja almenning og þá sem starfa að rekstri mála og við úrlausn þeirra fyrir dómstólum og í stjórnsýslu, svo og þá sem vinna að undirbúningi að lagasetningu, til frekari vitundar um mannréttindi og nauðsynlega virðingu fyrir mannréttindum.
    Í umfjöllun nefndarinnar fór hún m.a. yfir efnisgreinar sáttmálans. Fyrrnefndir fulltrúar ASÍ og BSRB komu á fund nefndarinnar til viðræðna um 11. gr. sáttmálans sem verndar rétt einstaklinga til að stofna og ganga í félög en jafnframt að umdeildu marki rétt einstaklinga til að standa utan félaga. Í máli þeirra kom fram að þau fyrir sitt leyti mæltu með lögfestingu sáttmálans, enda teldu þau engin ákvæði laga eða kjarasamninga, sem starfsemi samtakanna byggðist á, stangast á við ákvæði 11. gr.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Breytingin á 1. gr. er tæknilegs eðlis og felur í sér að samningurinn og viðaukar hann verði aðeins lögfestir á íslensku. Hin enska og franska gerð sáttmálans er birt í frumvarpinu og eru sem slíkar eðlileg skýringargögn, en þykja í sjálfu sér ekki eiga erindi í Stjórnartíðindi og lagasafn. Nefndin vill þó leggja áherslu á að opinber tungumál sáttmálans eru enska og franska og enda þótt breytingartillagan feli í sér að aðeins íslenski textinn verði lögtekinn geta enski og franski textinn verið mikilvægir, m.a. til túlkunar á vafatilvikum um merkingu orða sáttmálans. Mikilvægt er að sérfræðingar og allur almenningur eigi greiðan aðgang að sáttmálanum á frummálum hans, jafnt sem íslensku, og leggur nefndin því áherslu á að í sérprentunum á sáttmálanum verði enski og franski textinn einnig birtir.

Alþingi, 9. mars 1994.



Sólveig Pétursdóttir,

Gísli S. Einarsson.

Þuríður Bernódusdóttir.


form., frsm.



Björn Bjarnason.

Kristinn H. Gunnarsson.

Anna Ólafsdóttir Björnsson.



Ingi Björn Albertsson.

Ey. Kon. Jónsson.

Ólafur Þ. Þórðarson.