Ferill 143. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 143 . mál.


770. Nefndarálit



um frv. til l. um fjöleignarhús.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á fund sinn til viðræðna Sigurð Helga Guðjónsson hrl., Inga Val Jóhannsson, deildarstjóra í félagsmálaráðuneytinu, og Hrafnhildi Stefánsdóttur, lögfræðing frá Vinnuveitendasambandi Íslands. Þá studdist nefndin við umsagnir er henni bárust á 116. og 117. löggjafarþingi frá Eiríku Friðriksdóttur, húsfélaginu Æsufelli 2, 4 og 6, Húseigendafélaginu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, stjórn Samtaka gegn astma og ofnæmi, sýslumanninum í Reykjavík, Húsnæðisstofnun ríkisins, héraðsdómi Reykjavíkur, byggingarfulltrúanum í Reykjavík, Fasteignamati ríkisins, Vinnuveitendasambandi Íslands, Neytendasamtökunum, Arkitektafélagi Íslands, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Félagi fasteignasala, Verkfræðingafélagi Íslands, Búseta sf., Dómarafélagi Íslands og Lögmannafélagi Íslands.
    Frumvarp þetta var fyrst lagt fram á 116. löggjafarþingi en varð þá ekki útrætt. Áður en það var lagt fram á 117. þingi voru gerðar á því nokkrar breytingar með tilliti til umsagna sem um það höfðu borist til nefndarinnar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.
    Lagt til að við 2. gr. bætist ný málsgrein þar sem eigendum fjöleignarhúsa, sem hýsa eingöngu atvinnustarfsemi, verði veitt heimild til að semja á annan veg en frumvarpið gerir ráð fyrir. Mismunandi sjónarmið þykja eiga við um fjöleignarhús eftir því hvort þar fer fram hreinn atvinnurekstur eða um er að ræða íbúðarhúsnæði. Atvinnuhúsnæði, sem frumvarpið gæti tekið til, er mjög fjölbreytt og mismunandi að stærð og gerð og er rekstur sameignar þar oft viðamikill og flókinn, t.d. í verslunarmiðstöðvum. Ekki þykir því ástæða til að lögfesta ákvæði sem takmarka frjálsa samninga um rekstur sameignar hreins atvinnuhúsnæðis. Breytingin á 77. gr. byggist á sömu sjónarmiðum. Ljóst er að í sumum tilvikum gilda þegar ítarlegir samningar milli eigenda um atvinnuhúsnæði, en að óbreyttu mundi ákvæði 77. gr. leiða til að þinglýst samningsákvæði um slíkt húsnæði mundu víkja fyrir ákvæðum laganna. Með þeim breytingum, sem nefndin leggur til, ætti að vera tryggt að ekki verði hróflað við þeim samningum sem nú þegar gilda um atvinnuhúsnæði.
    Breytingin við A-lið 41. gr felur í sér að til að mega halda hunda eða ketti í fjöleignarhúsi verði að fá samþykki þeirra eigenda sem hafa hvers kyns sameiginlegt húsrými. Tillagan byggist fyrst og fremst á að nokkuð er um að börn og fullorðnir hafi ofnæmi fyrir þessum dýrum. Getur slíkt ofnæmi haft það alvarleg áhrif að fólk geti jafnvel þurft að flytja úr eigin íbúðarhúsnæði gangi ekki að fá skilning sameigenda á þessu vandamáli. Er breytingunum ætlað að koma í veg fyrir slíkar aðstæður. Til samræmis er einnig lögð til breyting á 5. tölul. 74. gr. þannig að reglur um hunda- og kattahald komi fram í húsreglum fjölbýlishúsa sé það á annað borð heimilað.
    Lagt er til að við 46. gr., sem geymir frávik frá reglum um skiptingu sameiginlegs kostnaðar, bætist þrjár nýjar málsgreinar. Að óbreyttu þykir 46. gr. ekki vernda nægilega rétt þeirra eigenda sem telja sig misrétti beitta vegna reglna 45. gr. um greiðslu húseigenda á sameiginlegum kostnaði. Sem dæmi má nefna að gert er ráð fyrir jafnri skiptingu kostnaðar við sameiginleg bílastæði en þar sem um verulegan mismun er að ræða á eignarhlutdeild getur slík skipting talist ósanngjörn. Því er lagt til að í nýrri 5. mgr. komi fram að geti eigandi sýnt fram á að skipting kostnaðar skv. 45. gr. sé óeðlileg og ósanngjörn í hans garð og hann fær ekki leiðréttingu sinna mála á vettvangi húsfélagsins geti hann leitað réttar síns með kröfu um ógildingu eða viðurkenningu á sanngjarnari og eðlilegri skiptingu kostnaðar. Þá er lagt til að í 6.–7. mgr. verði reglur um skyldu eiganda til að bera fram mótmæli sín og kröfur um sanngjarna kostnaðarskiptingu strax og tilefni gefst til og kveðið á um málshöfðunarfrest út af kostnaðarskiptingu.
    Lagt er til að 3. mgr. 51. gr., þar sem mælt er fyrir um lögveðsrétt á skaðabótakröfu, falli brott. Þar sem í raun er verið að mismuna kröfuhöfum með veitingu lögveðsréttar verður að telja eðlilegt að farið sé mjög varlega í að viðurkenna slíkan rétt fyrir kröfum á fasteignum. Til að heimila lögveðsrétt verða mjög knýjandi rök að vera fyrir hendi en svo þykir ekki vera í þessu tilviki.
    Lögð er til breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins þannig að lögin taki gildi 1. janúar 1995. Ljóst er að ein höfuðforsenda þess að lögin hafi tilætluð áhrif er að nægur tími gefist til aðlögunar og kynningar á þeim. Meðal annars þarf að semja og setja nýjar reglugerðir og gefa eigendum og húsfélögum tóm til nauðsynlegrar aðlögunar að breyttum reglum. Þykir hæfilegur tími til þeirrar aðlögunar vera til næstu áramóta.

Alþingi, 15. mars 1994.



Rannveig Guðmundsdóttir,

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Gísli S. Einarsson.


form., frsm.



Einar K. Guðfinnsson.

Eggert Haukdal.

Kristinn H. Gunnarsson.



Ingibjörg Pálmadóttir,

Jón Kristjánsson.

Guðjón Guðmundsson.


með fyrirvara.