Ferill 272. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 272 . mál.


775. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993.

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem fjallar um þrjú óskyld atriði. Í fyrsta lagi felst í því að húsnæðismálastjórn hafi fleiri valkosti varðandi vörslu og ávöxtun byggingarsjóðanna en samkvæmt gildandi lögum. Þannig hafi húsnæðismálastjórn, að áskildu samþykki félagsmálaráðherra, heimild til að ákveða að sjóðirnir verði að hluta eða öllu leyti varðveittir annars staðar en hjá Seðlabanka Íslands. Lítur meiri hlutinn svo á að með því sé átt við valmöguleika um innlánsstofnanir innan lands. Í öðru lagi eru í frumvarpinu nýmæli um heimild til lánveitinga úr Byggingarsjóði verkamanna til lögbýla og í þriðja og síðasta lagi felur frumvarpið í sér fleiri heimildir en nú gilda til útgreiðslu innstæðna á skyldusparnaðarreikningum.
    Á fund nefndarinnar komu frá félagsmálaráðuneytinu Húnbogi Þorsteinsson skrifstofustjóri, Ingi Valur Jóhannsson deildarstjóri og Anna Guðrún Björnsdóttir deildarstjóri, frá fjármálaráðuneytinu Halldór Árnason skrifstofustjóri, frá Húsnæðisstofnun ríkisins Hilmar Þórisson og Grétar J. Guðmundsson, frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja Ögmundur Jónasson og Guðmundur V. Óskarsson, frá Alþýðusambandi Íslands Guðmundur Gylfi Guðmundsson og Ásmundur Hilmarsson, Hrafn Magnússon frá Sambandi almennra lífeyrissjóða, Þorgeir Eyjólfsson frá Landssambandi lífeyrissjóða, Sigurður Hafstein frá Sambandi íslenskra sparisjóða, Jóhann Ágústsson frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Ríkharð Steinbergsson frá húsnæðisnefnd Reykjavíkurborgar og Jóhannes Gunnarsson frá Neytendasamtökunum. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Stéttarsambandi bænda, landbúnaðarráðuneytinu, félagsmálastjóra Reykjavíkur og Alþýðusambandi Íslands, auk gagna frá félagsmálaráðuneytinu, Húsnæðisstofnun ríksins, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Neytendasamtökunum.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Kristinn H. Gunnarsson stendur að þeim tillögum en mun skila séráliti.
    Eftir að frumvarpið kom til umfjöllunar í félagsmálanefnd bárust henni erindi félagsmálaráðherra þar sem óskað var eftir að nefndin flytti tvær breytingartillögur við frumvarpið. Fyrri breytingin felur í sér að við lögin bætist nýtt bráðabirgðaákvæði sem gildi til 1. janúar 1996. Í ljós hefur komið við framkvæmd reglugerðar nr. 414/1993, um skuldbreytingar á lánum á vegum Byggingarsjóðs ríkisins, sem gefin var út til að leysa brýnasta vanda þeirra sem búið hafa við mikið atvinnuleysi eða veikindi, að þurft hefur að synja umsækjendum um skuldbreytingu og að sú fyrirgreiðsla, sem heimil er, hefur ekki dugað til að mæta fjárhagserfiðleikum þeirra sem verst eru staddir. Í upplýsingum frá Húsnæðisstofnun ríkisins kemur fram að frá 1. október 1993 hafi stofnuninni borist 280 umsóknir um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika (miðað við lok janúar 1994). Nú þegar hafi 118 umsóknir verið afgreiddar og þar af 56 umsóknir fengið samþykki um skuldbreytingarlán frá veðdeild, jafnhliða því sem umsækjendur fengu leiðbeiningu við nauðsynlegar skuldbreytingar hjá öðrum lánastofnunum. Alls fengu því 62 umsækjendur synjun.
    Breytingunni er ætlað að koma til móts við hluta þess hóps sem synjað var um skuldbreytingarlán. Með henni er Húsnæðisstofnun veitt heimild til að fresta greiðslum hjá einstökum lánþegum Byggingarsjóðs ríkisins og skuldurum fasteignaveðbréfa húsbréfadeildar hafi viðkomandi orðið fyrir verulegri tekjuskerðingu. Skilyrði greiðslufrestunar er að tekjuskerðingin hafi orðið vegna atvinnuleysis, minnkandi atvinnu, veikinda eða annarra óviðráðanlegra aðstæðna en það er í samræmi við þau skilyrði fyrir skuldbreytingarláni sem kveðið er á um í upphafi 1. tölul. 3. gr. reglugerðar nr. 414/1993. Er þannig ljóst, sbr. hugtakið „aðrar óviðráðanlegar aðstæður“, að heimildin nær til einstaklinga sem hafa orðið fyrir tekjuskerðingu þó að ekki hafi verið um atvinnumissi, minnkandi atvinnu eða veikindi að ræða, t.d. þeirra sem lenda í félagslegum vanda, svo sem hjónaskilnaði.
    Setja þarf nánari reglur um skilyrði fyrir frestun á greiðslum. Mun hugmyndin vera sú að fresta greiðslum í allt að þrjú ár en vextir, sem þegar eru áfallnir á frestunartímanum, bætist við höfuðstól lánsins.
    Meiri hlutinn telur brýnt að veita þessa heimild til greiðslufrestunar, en gerir sér jafnframt grein fyrir að þessar aðgerðir einar og sér duga ekki gagnvart öllum þeim hópi fólks sem á í verulegum greiðsluerfiðleikum.
    Síðari tillagan felst í breytingu á 8. mgr. 74. gr. laganna auk þess sem lagt er til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða. Samkvæmt 8. mgr. 74. gr. eru 20% lán, sem veitt eru til kaupa á almennum kaupleiguíbúðum, aðeins til fimm ára en 70% lán eru veitt til 43 ára. Í erindi ráðherra kemur fram að áformað hafi verið að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins á þessu þingi. Skyldi frumvarpið byggja á tillögum nefndar sem vann að mati á reynslunni af lögum um félagslegar íbúðir sem m.a. fólu í sér að lengja lánstíma 20% lánsins. Í ljós hafi komið að verkefnið sé viðameira en svo að hægt sé að leggja frumvarpið fram fyrr en á haustþingi. Sé því leitað til félagsmálanefndar þar sem um brýnar breytingar sé að ræða hvað þennan þátt varðar.
    Lagt er til að 8. mgr. 74. gr. laganna, um gjaldfellingu sérstaks 20% láns úr Byggingarsjóði verkamanna, verði breytt þannig að kaupanda verði heimilt að fá lán til 25 ára í stað þess að gjaldfella það og búa til nýtt lán til fimm ára eins og greinin óbreytt kveður á um. Með því verður endurgreiðslutími 20% lána alltaf 25 ár, sbr. einnig 52. gr. laganna.     
    Ljóst er að greiðslubyrði fyrstu fimm árin getur verið þung og stundum orðið fólki ofviða ef breytingar verða á tekjum þess. Mikilvægt er að greiðslubyrðin verði jöfnuð betur yfir heildarlánstímann og fólki þannig auðveldað að eignast almennar kaupleiguíbúðir.
    Í upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu kemur fram að um er að ræða 110 almennar kaupleiguíbúðir sem hafa verið seldar og 20% lán gjaldfelld. Þá kemur einnig fram að samkvæmt útreikningum Húsnæðisstofnunar ríkisins hafi lenging lánstíma þau áhrif að greiðslubyrði á ári af 1 millj. kr. láni til fimm ára með 4,9% vöxtum er 230.337 kr. en af sambærilegu láni með lánstíma til 25 ára er greiðslubyrðin 70.243 kr. á ári (tölur án vaxtabóta).
    Tillagan um bráðabirgðaákvæði byggist á að mikilvægt er að breytingarnar nái einnig til þeirra sem þegar hafa keypt íbúð. Þannig er lagt til að þeim sem þegar hafi fengið slík lán til fimm ára verði veitt heimild til skuldbreytinga til allt að 25 ára, að teknu tilliti til þess tíma sem liðinn er af lánstíma. Gert er ráð fyrir að þessi heimild til skuldbreytingar eldri lána verði tímabundin og gildi til 31. desember 1994.

Alþingi, 16. mars 1994.



Rannveig Guðmundsdóttir,

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Gísli S. Einarsson.


form., frsm.



Ingibjörg Pálmadóttir.

Eggert Haukdal.

Guðjón Guðmundsson.



Einar K. Guðfinnsson.

Jón Kristjánsson.