Ferill 506. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 506 . mál.


779. Frumvarp til lagaum ráðstafanir til að stuðla að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum í kjölfar samdráttar í þorskafla.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)1. gr.


    Á árinu 1994 er ríkissjóði heimilt að veita Byggðastofnun sérstakt framlag að fjárhæð allt að 300 millj. kr. til að standa straum af víkjandi lánum til sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum sem vilja sameinast og til að styðja nýjungar í atvinnulífi, sbr. 5. gr.
    Framlag skv. 1. mgr. skal greitt eftir því sem víkjandi lán skv. 2. gr. eru samþykkt.

2. gr.


    Þar sem sveitarfélög verða sameinuð á Vestfjörðum er Byggðastofnun heimilt að veita sjávarútvegsfyrirtækjum, sem ætla að sameinast, víkjandi lán. Sama gildir um þau sjávarútvegsfyrirtæki á Vestfjörðum sem hafa sameinast á síðustu þremur árum.

3. gr.


    Forsenda fyrir lánveitingu samkvæmt lögum þessum er að sérstakur starfshópur, sem forsætisráðherra skipar, hafi gert tillögu um afgreiðslu á lánsumsóknum viðkomandi fyrirtækja. Í starfshópnum skulu vera fjórir menn, einn tilnefndur af Byggðastofnun, einn tilnefndur af fjármálaráðherra, einn tilnefndur af félagsmálaráðherra og einn skipar forsætisráðherra án tilnefningar og skal hann vera formaður starfshópsins. Starfshópurinn ræður sér til aðstoðar rekstrarráðgjafa. Kostnaður vegna vinnu starfshópsins og rekstrarráðgjafa greiðist af framangreindum 300 millj. kr.
    Starfshópurinn skal við umfjöllun um lánsumsóknir hafa náið samráð við eigendur fyrirtækja og stærstu kröfuhafa þeirra. Starfshópurinn skal stuðla að samkomulagi þessara aðila um nauðsynlega endurskipulagningu á rekstri hins sameinaða fyrirtækis. Að því loknu ákveður starfshópurinn hvort gera skuli tillögu til stjórnar Byggðastofnunar um lánveitingu. Stjórn Byggðastofnunar samþykkir eða synjar lánveitingar á grundvelli tillagna starfshópsins.
    Samþykki stjórn Byggðastofnunar tillögu starfshópsins um lánveitingu óskar hún eftir því við fjármálaráðuneytið að fá jafnhátt framlag skv. 1. gr.

4. gr.


    Víkjandi lán samkvæmt lögum þessum skulu vera verðtryggð. Lánin skulu enga vexti bera fyrstu þrjú árin. Eftir það skulu lánin bera 5% vexti.
    Lánin skulu vera afborganalaus fyrstu þrjú árin. Næstu þrjú ár skal einungis greiða vexti. Á næstu 10 árum skal greiða höfuðstól, vexti og verðbætur, enda nái skuldarar að fullnægja skilyrðum sem Byggðastofnun setur um víkjandi afborganir, þar sem m.a. er kveðið á um hagnaðar- og eiginfjárkröfur. Ef fyrirtæki fullnægir ekki þessum skilyrðum færist greiðsla hvers árs eitt ár aftur fyrir lánstímann.

5. gr.


    Af framlagi ríkissjóðs skv. 1. gr. er Byggðastofnun heimilt að veita 15 millj. kr. til að styðja við nýjungar í atvinnumálum á Vestfjörðum sem auka fjölbreytni atvinnulífs.

6. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á liðnum missirum hefur stjórnvöldum tekist að styrkja stöðu atvinnulífsins með almennum aðgerðum. Má í því sambandi nefna að verðbólga hefur ekki verið lægri í áratugi og raungengi er hagstæðara útflutnings- og samkeppnisgreinum en verið hefur lengi. Skattar á atvinnufyrirtæki hafa lækkað og tekist hefur að ná fjármagnskostnaði fyrirtækja niður með því að stuðla að skilyrðum fyrir lækkun vaxta. Þrátt fyrir að þessar almennu aðgerðir stjórnvalda hafa komið fyrirtækjum í sjávarútvegi til góða, sem og öðrum fyrirtækjum í landinu, er stjórnvöldum ljóst að stuðla þarf að endurskipulagningu og hagræðingu á þeim svæðum þar sem samdráttur í aflaheimildum hefur verið hvað mestur, svæðin eru landfræðilega einangruð og búa við einhæft atvinnulíf.
    Seint á sl. ári skipaði ríkisstjórnin starfshóp með fulltrúum félagsmálaráðherra, fjármálaráðherra, sjávarútvegsráðherra og viðskiptaráðherra ásamt fulltrúum frá Byggðastofnun. Þessum starfshópi var ætlað að fjalla um bráðavanda atvinnulífs á Vestfjörðum í kjölfar kvótasamdráttar í þorskveiðum og yfirvofandi gjaldþrota fyrirtækja í sjávarútvegi. Niðurstöður starfshópsins voru þær að Vestfirðir byggju við sérstöðu umfram önnur svæði sökum mikils samdráttar í þorskveiðiheimildum, einhæfni í atvinnulífi og landfræðilegrar einangrunar. Í því sambandi benti starfshópurinn á að hlutur sjávarútvegs í atvinnustarfsemi á Vestfjörðum væri þrefalt meiri en landsmeðaltal. Jafnframt kom í ljós að samdráttur veiðiheimilda í þorskígildum talið á sl. tveimur árum var tæplega 30%, miðað við að samsvarandi tala í öðrum kjördæmum var 17% eða minni.
    Með vísan til þessa gerði starfshópurinn m.a. það að tillögu sinni að þar sem sveitarfélög yrðu sameinuð á Vestfjörðum yrði Byggðastofnun heimilað að veita sjávarútvegsfyrirtækjum, sem áhuga hafa á sameiningu, víkjandi lán. Með þessu móti er ýtt undir stækkun atvinnu- og þjónustusvæða og hagræðingu í fyrirtækjum þannig að þau verði betur í stakk búin til að mæta þeim erfiðu ytri skilyrðum sem þau búa við. Jafnframt er gert ráð fyrir að sérstakur starfshópur verði skipaður sem á að vinna með lánsumsækjendum og gera síðan endanlega tillögu til stjórnar Byggðastofnunar um lánveitingar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í ákvæðinu er kveðið á um að ríkissjóði sé heimilt að veita Byggðastofnun sérstakt framlag að fjárhæð allt að 300 millj. kr. sem varið yrði annars vegar til að veita víkjandi lán og hins vegar til að styðja nýjungar í atvinnulífi, sbr. 5. gr. Gert er ráð fyrir því að ef stjórn Byggðastofnunar samþykkir tillögu starfshóps um tiltekna lánveitingu, sbr. 3. gr., skuli leitað eftir framlagi frá fjármálaráðuneyti með vísan til þessa ákvæðis. Þannig verði framlag úr ríkissjóði einungis greitt þegar lánsloforð Byggðastofnunar liggur fyrir.

Um 2. gr.


    Í ákvæðinu er það sett sem skilyrði fyrir lánveitingu að um sé að ræða lánveitingu til sjávarútvegsfyrirtækja sem hyggjast sameinast öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum og að um sé að ræða fyrirtæki í sveitarfélögum sem eru að sameinast öðrum sveitarfélögum. Þetta er í samræmi við yfirlýsta stefnu stjórnvalda að stuðla að hagræðingu með sameiningu sveitarfélaga.

Um 3. gr.


    Hér er kveðið á um skipan sérstaks starfshóps sem fjalla á um lánsumsóknir og vera umsækjendum til aðstoðar við endurskipulagningu rekstrar í tengslum við sameiningu. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili tillögum um lánveitingu til stjórnar Byggðastofnunar til samþykktar eða synjunar. Með þessu er verið að stuðla að því að lánveitingar treysti varanlegan rekstrargrundvöll fyrirtækjanna. Forsenda slíks er samstarf við helstu kröfuhafa þeirra.

Um 4. gr.


    Í ákvæðinu er kveðið á um skilmála lána samkvæmt frumvarpinu.

Um 5. gr.


    Hér er lagt til að af þeim 300 millj. kr. sem getið er í 1. gr. verði 15 millj. kr. varið til að stuðla að nýsköpun, styðja við nýjungar í atvinnumálum og minnka þá einhæfni sem einkennir atvinnulíf á Vestfjörðum.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal I.

Hagræðing í þorskveiðum og vinnslu samfara sameiningu


sveitarfélaga og samgöngubótum.


Inngangur.
    Þrátt fyrir erfið ytri skilyrði hefur stjórnvöldum tekist að styrkja mjög stöðu atvinnulífsins með almennum aðgerðum sem skilað hafa árangri. Verðbólgustigið er hið lægsta í lýðveldissögunni og raungengi er hagstæðara útflutnings- og samkeppnisgreinum en verið hefur í áratugi. Skattar fyrirtækja hafa verið lækkaðir verulega til að treysta stöðu atvinnulífsins og hamla gegn vaxandi atvinnuleysi. Fyrir atbeina ríkisvaldsins hefur vinnufriður ríkt og stöðugleikinn verið festur í sessi. Heildarlánsfjárþörf hins opinbera hefur verið minnkuð. Á þessum grundvelli m.a. hefur tekist að lækka vexti og lækka þannig fjármagnskostnað skuldugra fyrirtækja mjög verulega.
    Að mati sérfróðra aðila er íslenskur þjóðarbúskapur nú á botni langvarandi efnahagslægðar sem stafar ekki síst af verulegum samdrætti aflaheimilda á Íslandsmiðum og efnahagserfiðleikum sem hrjáð hafa helstu viðskipta- og markaðslönd okkar. Margt bendir til að á næstu missirum fari hið almenna efnahagsástand batnandi. Þrátt fyrir að almennar aðgerðir til styrktar atvinnulífinu hafi komið sjávarútvegi til góða þarf jafnframt að skoða úrræði til endurskipulagningar og kerfisbreytinga á þeim svæðum þar sem samdráttur í aflaheimildum hefur verið mestur.
    Þegar ytri skilyrði efnahagslífsins eru erfið hlýtur stefnan í efnahags- og atvinnumálum að einkennast annars vegar af varnarbaráttu og hins vegar af því að búa í haginn fyrir framtíðina. Varnaraðgerðirnar byggja á þeim möguleikum sem stækkun atvinnu- og þjónustusvæða gefur til endurskipulagningar í sjávarútvegi.

Tillögur starfshóps.
    Seint á sl. ári skipaði ríkisstjórnin starfshóp með fulltrúum félagsmálaráðherra, fjármálaráðherra, sjávarútvegsráðherra og viðskiptaráðherra ásamt fulltrúum frá Byggðastofnun. Þessum starfshópi var ætlað að fjalla um bráðavanda atvinnulífs á Vestfjörðum í kjölfar kvótaniðurskurðar í þorskveiðum og yfirvofandi gjaldþrota sjávarútvegsfyrirtækja.
    Niðurstöður starfshópsins voru að Vestfirðir búi við sérstöðu vegna einhæfni atvinnulífs og landfræðilegrar einangrunar. Starfshópurinn bendir á:
—    að hlutfall sjávarútvegs af ársverkum er um 36%,
—    að hlutur sjávarútvegsins í atvinnustarfseminni er því þrefalt meiri en landsmeðaltal,
—    að samdráttur veiðiheimilda í þorskígildum talið á sl. tveimur árum var tæplega 30%,
—    að samsvarandi tala í öðrum kjördæmum er 17% eða minni.
    Starfshópurinn bendir á nauðsyn þess að samræma aðgerðir margra aðila með eftirfarandi markmiðum:
—    Unnið er að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða með því að bæta vegasamband milli þéttbýlisstaða og auðvelda þannig íbúum að sækja þjónustu og atvinnu á milli staða.
—    Áætlaðar samgöngubætur eiga að greiða götu sameiningar sveitarfélaga þar sem vilji íbúanna stendur til þess. Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir átaki í sameiningu sveitarfélaga en hún er víða orðin vænlegri kostur en áður vegna betri samgangna. Sameining sveitarfélaga getur haft í för með sér sparnað fyrir ríki og sveitarfélög bæði í rekstri og framkvæmdum. Sameining getur leitt til markvissari stjórnunar með hagsmuni svæðisins í heild að leiðarljósi. Enn fremur getur hún auðveldað endurskipulagningu í sjávarútvegi á grundvelli öflugri atvinnu- og þjónustusvæða. Þar sem skuldastaða sveitarfélaga er þröskuldur í vegi sameiningar þarf nokkurn atbeina ríkisvaldsins til að ryðja þeim hindrunum úr vegi.
—     Sameining sveitarfélaga og stækkun atvinnu- og þjónustusvæða verði nýtt til að auka hagræðingu í veiðum og vinnslu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Forsenda þess er að samkomulag náist við helstu kröfuhafa fyrirtækjanna. Jafnframt gæti fyrirtækjunum gefist kostur á að úrelda fiskvinnsluhús og skip með aðstoð Þróunarsjóðs sjávarútvegsins verði frumvarp um stofnun hans samþykkt eins og það liggur nú fyrir.

Úttekt á öðrum byggðarlögum.
    Úttektin sem fyrir liggur hefur beinst að sérstöðu Vestfjarða vegna einhæfni atvinnulífs, niðurskurðar aflaheimilda og landfræðilegrar einangrunar. Í framhaldi af því beinir ríkisstjórnin því til Byggðastofnunar að gera úttekt á byggðarlögum sem kunna að hafa orðið fyrir sambærilegum samdrætti í aflaheimildum, búa við áþekka einhæfni atvinnulífs og einangrun og vinna að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða með sameiningu sveitarfélaga.

Aðgerðir vegna áhrifa samdráttar í þorskveiðum á Vestfjörðum.
    Á vegáætlun er áfram veitt verulegum fjármunum til samgönguframkvæmda sem stækka atvinnu- og þjónustusvæði. Á undanförnum árum hefur ríkissjóður varið miklu fé til að rjúfa einangrun byggða og bæta samgöngur jafnt innan svæða sem milli landshluta. Fjallvegir milli svæða eru þó sumir lokaðir mánuðum saman. Á Vestfjörðum verður á þessu og næsta ári varið tæpum tveimur milljörðum króna í nýframkvæmdir í samgöngumálum og munar þar mest um jarðgöngin undir Breiðadals- og Botnsheiðar.
    Í samræmi við 13. gr. laga nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga, og 114. gr. laga nr. 8/1986, sveitarstjórnarlaga, verður fjármagni veitt úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á árunum 1995–1998 til að jafna skuldastöðu sveitarfélaga sem sameinast. Þessum útgjöldum Jöfnunarsjóðs verður mætt að huta með sérstöku framlagi úr ríkissjóði til Jöfnunarsjóðs á sama tímabili. Enn fremur er á því byggt að Lánasjóður sveitarfélaga veiti sveitarfélögum sem sameinast lánafyrirgreiðslu í formi skuldbreytinga.
    Þar sem sveitarfélög verða sameinuð er Byggðastofnun heimilt að veita stærri sjávarútvegsfyrirtækjum, sem áhuga hafa á sameiningu, víkjandi lán. Skal það gert samkvæmt tillögum starfshóps svo sem síðar verður vikið að. Sama gildir um þau sjávarútvegsfyrirtæki á Vestfjörðum sem hafa sameinast á síðustu þremur árum. Heimilt er einnig að veita víkjandi lán til að fjármagna skuldaskilasamninga fyrirtækja, enda sé það hagkvæmasta leiðin til að ná fram þeirri sameiningu sem stefnt er að.
    Lánin verði verðtryggð en vaxta- og afborganalaus fyrstu þrjú árin. Næstu þrjú árin beri þau 5% vexti. Eftir það verði lánin greidd á 10 árum með 5% vöxtum. Þau árin sem fyrirtækin ná ekki tilteknum skilyrðum m.a. um hagnað og eigið fé færist greiðsla afborgana og vaxta aftur fyrir höfuðstólinn.
    Til að fjármagna lánveitingarnar og til að stuðla að nýsköpun verði veitt jafnhátt framlag úr ríkissjóði til Byggðastofnunar, þó ekki hærra en 300 m.kr. Framlagið verði greitt eftir því sem víkjandi lán eru samþykkt enda séu uppfyllt skilyrði um víðtækar skipulagsbreytingar.
    Samkvæmt frumvarpi um Þróunarsjóð sjávarútvegsins verður honum heimilt að greiða úreldingarstyrki vegna skipa, fiskvinnsluhúsa og fiskvinnsluvéla, enda verði framangreindar eignir teknar úr rekstri.
    Þá verði einnig stuðlað að nýsköpun með því að Byggðastofnun ráðstafi 15 m.kr. af framangreindum 300 m.kr. til að styðja við nýjungar í atvinnumálum sem auka fjölbreytni atvinnulífs.

Vinnuferill vegna hagræðingar í sjávarútvegi á Vestfjörðum.
—    Myndaður verður starfshópur fulltrúa ríkisstjórnar, banka, sjóða og annarra kröfuhafa og Byggðastofnunar sem með aðstoð rekstrarráðgjafa starfa að undirbúningi tillögugerðar með þeim fyrirtækjum sem stefna að sameiningu og óskað hafa aðstoðar. Haft verði samráð við stjórn fyrirhugaðs Þróunarsjóðs sjávarútvegsins um þátttöku hans í hagræðingaraðgerðum, svo sem úreldingu fiskvinnsluhúsa og skipa.
—    Framangreindir aðilar skulu stuðla að samkomulagi um víðtæka skipulagsbreytingu sem nái til helstu sjávarútvegsfyrirtækja á viðkomandi atvinnusvæði. Samkomulagið skal einnig taka til skuldbreytinga, hlutafjáraukningar, eignaraðildar og stjórnunar. Þá skal gerð grein fyrir rekstrarhorfum miðað við tilteknar forsendur um aflamagn og rekstrarskilyrði.
—    Náist samkomulag er beiðni um víkjandi lán send til Byggðastofnunar til samþykktar eða synjunar. Samþykki stjórn Byggðastofnunar víkjandi lán óskar hún eftir því við fjármálaráðuneytið að fá samsvarandi mótframlag samkvæmt tölulið 5 hér að framan.


Fylgiskjal II.

Samkomulag um aðgerðir til að jafna skuldastöðu


sveitarfélaga vegna sameiningar.


(10. mars 1994.)


    Vegna átaks í sameiningu sveitarfélaga eru aðilar sammála um að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga veiti 300 m.kr. á árunum 1995–1998, eða allt að 75 m.kr. árlega, til að jafna skuldastöðu sveitarfélaga sem sameinast. Skal þetta gert í samræmi við 13. gr. laga nr. 91/1989, um tekjustofna sveitarfélaga, og 114. gr. laga nr. 8/1986, sveitarstjórnarlaga.
    Ofangreindum útgjöldum Jöfnunarsjóðs verður mætt að hluta með sérstöku framlagi úr ríkissjóði í Jöfnunarsjóð að upphæð 140 m.kr. á árunum 1995–1998, eða allt að 35 m.kr. árlega. Af ráðstöfunarfé sjóðsins verða teknar 160 m.kr., eða allt að 40 m.kr. árlega.
    Vegna þeirrar sameiningar sveitarfélaga, sem í undirbúningi er í kjölfar atkvæðagreiðslu samkvæmt bráðabirgðaákvæðum sveitarstjórnarlaga, nr. 75/1993, er gert ráð fyrir að verja allt að 220 m.kr. af ofangreindri upphæð, sbr. lið 1 á árunum 1995–1998 til að jafna skuldastöðu sveitarfélaganna.
    Nánari reglur um skiptingu fjárframlaga verða settar af ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs og staðfestar af félagsmálaráðherra.
    Aðilar eru sammála um að beina því til stjórnar Lánasjóðs sveitarfélaga að skuldbreyta lausaskuldum viðkomandi sveitarfélaga.

     Samkomulagið er gert með fyrirvara um samþykki ríkisstjórnar og stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.