Ferill 72. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 72 . mál.


826. Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. nr. 21 5. maí 1990, um lögheimili.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið á tveimur þingum. Fékk hún á fund sinn til viðræðna Þórð Skúlason, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, Þorbjörn Hlyn Árnason biskupsritara og frá Hagstofu Íslands Hallgrím Snorrason hagstofustjóra og Skúla Guðmundsson skrifstofustjóra. Á 116. löggjafarþingi bárust nefndinni umsagnir frá Félagi eldri borgara, Landssambandi aldraðra og Hagstofu Íslands og á 117. löggjafarþingi frá félagsmálaráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Fram kom að Félag eldri borgara og Landssamband aldraðra styðja frumvarpið en Samband íslenskra sveitarfélaga, biskupsstofa, félagsmálaráðuneytið og Hagstofa Íslands eru andvíg því.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þeim sem búa á dvalarheimili fyrir aldraða eða í húsnæði sem sérstaklega er ætlað öldruðum sé heimilt að eiga áfram lögheimili þar sem þeir höfðu fasta búsetu áður. Minni hlutinn bendir á að lög um lögheimili eru tiltölulega ný af nálinni og að við setningu þeirra var sérstaklega fjallað um málefni aldraðra. Bent er á að einn helsti tilgangur nýrra lögheimilislaga var að tryggja að jafnan færi saman lögheimili manns og föst búseta og er hugtakið föst búseta þungamiðjan í þeim lögum. Þegar lögin voru sett þótti nauðsynlegt að skapa meiri festu um ákvörðun lögheimilis en verið hafði þar sem margháttuð réttindi og skyldur eru háð lögheimilisskráningu.
    Sú regla að menn séu skráðir þar sem þeir búa hefur um langt skeið verið í löggjöf nágrannaþjóðanna og þykir þar sjálfsögð. Þar eru jafnframt nær engar undantekningar leyfðar. Hér á landi gera lögin ráð fyrir undantekningum þegar í hlut eiga tilteknir hópar þegnanna sem eru tilneyddir til að dveljast tímabundið fjarri þeim stöðum þar sem þeir hafa fasta búsetu. Um alla þessa hópa gildir að gengið er út frá því að um tímabundna dvöl sé að ræða. Ljóst er að þeir sem flytja á dvalarheimili aldraðra eða í húsnæði ætlað öldruðum koma þangað til að dveljast til frambúðar og taka þar upp fasta búsetu. Á þessum hópum er því greinilegur eðlismunur.
    Eins og áður hefur komið fram ganga tillögur 1. gr. frumvarpsins gegn þeirri meginreglu lögheimilislaga að menn skuli skráðir þar sem þeir hafa fasta búsetu. Að óbreyttu mundu ákvæði frumvarpsins valda erfiðleikum milli sveitarfélaga vegna kostnaðar af dvöl aldraðra á dvalarheimilum og togstreitu milli þeirra um lögheimilisskráningu af þeim sökum. Sams konar togstreitu mundi einnig gæta við kjörskrárgerð sveitarfélaga.
    Á hinn bóginn þykir rétt að hafa nokkurt svigrúm um skráningu lögheimilis aldraðra, enda er með því komið til móts við gildandi framkvæmd. Ljóst er að óvissa getur ríkt í upphafi þegar einstaklingur flyst á dvalarheimili aldraðra um hvort hann taki þar upp búsetu til frambúðar. Þá geta þær aðstæður verið að annað hjóna flytji á dvalarheimili á undan hinu, en samkvæmt lögheimilislögum skulu hjón hafa sama lögheimili.
    Í umræðum nefndarinnar voru ræddar breytingartillögur til að koma til móts við sjónarmið frumvarpsins en ekki var vilji hjá flutningsmanni þess til að standa að breytingum. Minni hlutinn telur ekki forsvaranlegt að mæla með lögfestingu frumvarpsins að óbreyttu en niðurstaða hans varð eftir ítarlega skoðun málsins að leggja til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.
    Lögð er til breyting á 1. gr. frumvapsins sem felur annars vegar í sér að gildissvið greinarinnar takmarkist við þá sem búa á dvalarheimilum aldraðra en nái ekki til þeirra sem búa í öðru húsnæði sem er sérstaklega ætlað öldruðum. Á þessu er mikill munur þar sem síðarnefnda húsnæðið er alla jafna í eigu viðkomandi sem oftast hefur þá selt fyrri íbúð sína.
    Hins vegar er lagt til að þeim sem flytjast á dvalarheimili aldraðra verði heimilt að eiga áfram lögheimili í fyrra sveitarfélagi í 18 mánuði frá flutningi á dvalarheimilið. Eftir sem áður verður öldruðum heimilt að skrá lögheimili sitt á dvalarheimili strax og þeir flytjast þangað í samræmi við meginreglu lögheimilislaga.
    Einnig er lagt til að 2. gr. frumvarpsins falli brott þar sem hún hefur ekki lengur þýðingu vegna breytingar á 1. gr. en samkvæmt þeirri breytingu ræður viðkomandi skráningu sinni sjálfur fyrstu 18 mánuðina eftir að hann flytur á dvalarheimili aldraðra.
    

Alþingi, 22. mars 1994.


Sólveig Pétursdóttir,

Björn Bjarnason,

Gísli S. Einarsson.

form.

frsm.