Ferill 412. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 412 . mál.


840. Frumvarp til laga


um breyting á lögum nr. 29/1988, um Kennaraháskóla Íslands.

(Eftir 2. umr., 28. mars.)


1. gr.

    4. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Sá er rétt kjörinn rektor sem hlotið hefur meiri hluta greiddra atkvæða. Ef enginn fær svo mörg atkvæði skal kjósa að nýju um þá tvo eða fleiri sem flest atkvæði fengu og er þá sá rétt kjörinn sem flest atkvæði fær. Séu atkvæði jöfn ræður hlutkesti. Í reglugerð skal kveða nánar á um tilhögun rektorskjörs.

2. gr.

    Síðari málsliður 2. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: Deildarráð getur leyft undanþágu frá tímamörkum ef til þess eru gildar ástæður.

3. gr.

    1. mgr. 14. gr. laganna fellur niður og tvær síðari málsgreinar orðast svo:
    Um námsgreinar í almennu kennaranámi, skiptingu þeirra á svið og skipan æfingakennslu skal ákveða í reglugerð að fenginni tillögu skólaráðs Kennaraháskóla Íslands.
    Í námsskrá, er skólaráð setur að fengnum tillögum kennslustjóra, skal gerð grein fyrir námsskipan og kennsluháttum, svo og námsefni í einstökum greinum.

4. gr.

    Síðari málsliður fyrri málsgreinar 28. gr. laganna orðast svo: Deildarráð getur þó veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstaklega stendur á.

5. gr.

    30. gr. laganna orðast svo:
    Deildarráð metur, að höfðu samráði við kennslustjóra og hlutaðeigandi greinakennara, hvort viðurkenna skuli nám sem nemandi hefur lokið í öðrum háskóla eða sérkennaraskóla og að hvaða leyti.

6. gr.

    3. og 4. mgr. 32. gr. laganna falla niður og í stað þeirra kemur málsgrein sem orðast svo:
    Dómnefnd skal láta uppi rökstutt álit um það hvort af vísindagildi rita umsækjenda og rannsókna, svo og námsferli þeirra og störfum, megi ráða að þeir séu hæfir til að gegna embættinu eða starfinu. Skólaráð fjallar um umsækjendur sem dómnefnd telur hæfa og eiga fulltrúar stúdenta þá ekki atkvæðisrétt. Engum má veita prófessorsembætti, dósentsstarf eða lektorsstarf við Kennaraháskóla Íslands nema meiri hluti dómnefndar telji hann hæfan og meiri hluti viðstaddra á skólaráðsfundi greiði honum atkvæði í embættið eða starfið. Ef fleiri umsækjendur en tveir eru í kjöri við atkvæðagreiðsluna og enginn þeirra hlýtur meiri hluta við fyrstu atkvæðagreiðslu skal kosið á ný milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Nú fellst menntamálaráðherra ekki á tillögu skólaráðs og skal þá auglýsa embættið eða starfið að nýju.

7. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í XI. kafla laganna orðast svo:
    Ákvæði 13. gr. koma til framkvæmda innan 10 ára frá gildistöku laga nr. 29/1988 samkvæmt nánari ákvörðun menntamálaráðherra, nema annað hafi verið ákveðið með lögum.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.