Ferill 538. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 538 . mál.


842. Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, sbr. lög nr. 66/1993.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)


1. gr.


    Í stað a-liðar 4. tölul. bókunar 1 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. fskj. II við lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, kemur nýr a-liður, svohljóðandi:
    Þegar aðildarríki EB ber að veita framkvæmdastjórn EB upplýsingar skal EFTA-ríki veita eftirlitsstofnun EFTA slíkar upplýsingar og hún koma þeim áleiðis til fastanefndar EFTA-ríkjanna. Hið sama gildir þegar þar til bær yfirvöld eiga að annast sendingu upplýsinga. Framkvæmdastjórn EB og eftirlitsstofnun EFTA skulu skiptast á upplýsingum sem þeim hafa borist frá aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjunum eða þar til bærum yfirvöldum.

2. gr.


    Á eftir 3. gr. laganna bætist ný grein sem verður 4. gr., svohljóðandi:
     Birting breytinga og viðbóta við EES-samninginn í sérstöku blaði, sem gefið verður út á vegum útgáfumiðstöðvar EFTA, telst fullgild birting.

3. gr.


    Ákvæði 1. gr. laga þessara öðlast gildi 1. júlí 1994 að því tilskildu að allar tilkynningar skv. 1. mgr. 103. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni.
     Eftir það öðlast 1. gr. laganna gildi fyrsta dag annars mánaðar eftir að síðasta tilkynningin berst EES-nefndinni.
    Ákvæði 2. gr. laga þessara öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Með 2. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, var bókun 1 við EES-samninginn lögfest. Hinn 8. febrúar 1994 tók sameiginlega EES-nefndin þá ákvörðun að breyta a-lið 4. tölul. bókunarinnar með gildistöku 1. júlí 1994 að því tilskildu að allar tilkynningar skv. 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni.
    Samkvæmt núgildandi a-lið 4. tölul. bókunar 1 er gert ráð fyrir að EFTA-ríki og þar til bær yfirvöld veiti bæði eftirlitsstofnun EFTA og fastanefnd EFTA þar til greindar upplýsingar. Breytingin felst í því að nægjanlegt er að veita eftirlitsstofnun EFTA slíkar upplýsingar, en henni er síðan falið að koma upplýsingunum til fastanefndar EFTA. Hér er því einungis um tæknilega breytingu að ræða.
    Allar breytingar og viðbætur við EES-samninginn verða birtar á íslensku í sérstöku blaði sem gefið verður út á vegum útgáfumiðstöðvar EFTA. Rétt þykir að láta þessar birtingar nægja og ekki þurfti einnig að birta slíkar breytingar og viðbætur í C-deild Stjórnartíðinda. Breytingar og viðbætur á þeim hluta EES-samningsins sem hefur lagagildi, sbr. 2. gr. laga um Evrópska efnahagssvæðið, þarf hins vegar að birta einnig í A-deild Stjórnartíðinda. Varðandi gildistökuákvæðið er það að segja, að gildistaka 1. gr. verður tilkynnt með auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum

um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, sbr. lög nr. 66/1993.

    Með frumvarpi þessu er gerð sú breyting (2. gr.) að framvegis verði breytingar og viðbætur við EES-samninginn birtar í sérstöku blaði gefnu út á vegum útgáfumiðstöðvar EFTA og teljist það fullgild birting. Þetta þýðir að ekki verður lengur nauðsynlegt að endurbirta viðkomandi gögn í C-deild Stjórnartíðinda sem með tímanum mun spara ómælda tvíbirtingu og tilheyrandi skriffinnsku. Ekki er mælanlegt hver sparnaður kann að hljótast þar af. Önnur kostnaðaráhrif eru ekki sýnileg.