Ferill 543. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 543 . mál.


851. Tillaga til þingsályktunar


um fullgildingu samnings um líffræðilega fjölbreytni.

(Lögð fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um líffræðilega fjölbreytni sem gerður var í Rio de Janeiro 5. júní 1992.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

    Með þingsályktunartillögu þessari fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili fullgildingu samnings um líffræðilega fjölbreytni sem lagður var fram til undirritunar í Rio de Janeiro 5. júní 1992. Samningurinn er birtur sem fylgiskjal með þingsályktunartillögu þessari.
    Árið 1987 stofnaði Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna vinnuhóp sérfræðinga til að kanna þörfina á alþjóðlegum samningi um vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Í framhaldi af starfi vinnuhópsins var stofnuð samninganefnd ríkja um gerð samnings um líffræðilega fjölbreytni sem hóf störf í júní 1991. Samkomulag náðist um lokagerð hans í maí 1992. Samningurinn var lagður fram til undirritunar á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun sem haldin var í Rio de Janeiro 3.–14. júní 1992. Eiður Guðnason umhverfisráðherra undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd 12. júní 1992. Samningurinn öðlaðist gildi 29. desember 1993.
    Markmið samningsins er þríþætt: að vernda líffræðilega fjölbreytni, að tryggja sjálfbæra nýtingu lifandi náttúruauðlinda og að stuðla að sanngjarnri skiptingu þess hagnaðar sem hlýst af nýtingu erfðaauðlinda sem og aðgangi að þeim og tækni til að nýta þær.
    Fullveldisregla Stokkhólmsyfirlýsingarinnar frá 1972 er sett sem aðalregla í framkvæmdahluta samningsins. Þar er kveðið á um að ríki hafi rétt til að nýta eigin auðlindir svo fremi sem starfsemin innan lögsagnarumdæma og eftirlitssvæða þeirra skaði ekki umhverfi annarra ríkja. Hvað sjávarsvæði varðar skal framkvæmd samningsins vera í samræmi við réttindi og skyldur ríkja eins og kveðið er á um í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1982. Ísland hefur fullgilt hafréttarsamninginn og mun hann taka gildi 16. nóvember 1994, sbr. auglýsingar í C-deild Stjórnartíðinda nr. 7/1985, þar sem samningurinn er birtur, og 40/1993.
    Almennar skuldbindingar samningsins er að finna í 6.–14., 17.–18., 20. og 26. gr. hans. Þær fela í sér að sérhver samningsaðili skuli:
—    Þróa áætlanir, löggjöf, aðferðir og önnur stjórntæki, sem ná til allra sviða samfélagsins, til að stuðla að verndun og sjálfbærri notkun líffræðilegrar fjölbreytni í samræmi við markmið og ákvæði samningsins.
—    Stjórna og hafa eftirlit með notkun og losun erfðabreyttra lífvera.
—    Stuðla að og auka rannsóknir og vöktun á líffræðilegri fjölbreytni, vista og viðhalda upplýsingum og efla fræðslu og menntun um líffræðilega fjölbreytni.
—    Kanna, m.a. með lögbundnu mati á umhverfisáhrifum, þær athafnir sem kunna að hafa skaðleg áhrif á vernd og sjálfbæra notkun líffræðilegrar fjölbreytni.
—    Þróa neyðaráætlanir og koma á fót neyðarvörnum til að koma í veg fyrir alvarleg áföll fyrir líffræðilega fjölbreytni.
—    Veita fjárhagslega aðstoð og miðla tækni til þróunarlanda til að gera þeim kleift að sinna skuldbindingum sínum á sviði verndar og sjálfbærrar notkunar á líffræðilegri fjölbreytni.
—    Tilkynna samningsaðilum um yfirvofandi hættu og aðgerðir innan lögsögu þeirra sem gætu haft alvarleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni þeirra.
—    Miðla opinberum upplýsingum er varða vernd og sjálfbæra notkun líffræðilegrar fjölbreytni.
—    Leggja reglulega fyrir fund aðildarríkja skýrslu um framkvæmd ákvæða samningsins og um árangur hennar.
—    Taka þátt í samvinnu ríkja um vernd, fræðslu, rannsóknir, vöktun, gerð neyðaráætlana og sjálfbæra notkun líffræðilegrar fjölbreytni og um aðstoð við þróunarlöndin á þessum sviðum.
    Samningurinn hefur einnig að geyma sértækari ákvæði um eftirfarandi:
—    Aðgang ríkja að erfðafræðilegum auðlindum innan lögsögu annarra ríkja, sbr. 15. gr. Slíkur aðgangur er háður samþykki og löggjöf viðkomandi ríkis og skal aðgangur þeirra ríkja sem láta í té erfðafræðilegar auðlindir tryggður að rannsóknaniðurstöðum og hagnaði sem hlýst af nýtingu þessara auðlinda skipt réttlátlega með þeim.
—    Aðgang að og miðlun tækni, og þá sérstaklega líftækni, sem varðar vernd og sjálfbæra notkun líffræðilegrar fjölbreytni eða nýtingu erfðafræðilegra auðlinda, sbr. 16. og 19. gr. Ákvæðin miða að því að auðvelda aðgang samningsaðila, og þá einkum þróunarlanda, að slíkri tækni, þar með taldri tækni sem vernduð er af einkaleyfum og öðrum hugverkarétti. Jafnframt miðar ákvæðið að því að gera þeim kleift að taka þátt í rannsóknarstörfum á sviði líftækni, að auðvelda þeim aðgang að niðurstöðum slíkra rannsókna og stuðla að því að þau njóti hagnaðar af líftækni sem byggir á erfðafræðilegum auðlindum sem þau hafa látið í té.
—    Upplýsingaskyldu um möguleg skaðleg áhrif lífvera sem fluttar eru til annarra samningsaðila, sbr. 19. gr.
    Loks hefur samningurinn að geyma ákvæði um lausn deilumála og eru ýmsir valkostir taldir upp, sbr. 27. gr. Ekki er ráðgert að Ísland samþykki gerðardómsmeðferð eða lögsögu Alþjóðdómstólsins í Haag vegna deilna sem upp koma vegna túlkunar eða framkvæmdar samningsins, sbr. 3. tölul. 27. gr. Hins vegar verður deilum vísað til sáttameðferðar skv. 4. tölul. 27. gr., sbr. 2. hluta viðauka II, nema deiluaðilar komi sér saman um annað.
    Samningnum fylgja tveir viðaukar. Viðauki I hefur að geyma nánari skilgreiningar er varða vöktun og vernd líffræðilegrar fjölbreytni og viðauki II fjallar um gerðardóm.
    Lagalegar skuldbindingar samningsins eru í meginatriðum uppfylltar í lögum nr. 47/1971, um náttúruvernd. Einnig stuðla lög nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, lög nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, og lög nr. 21/1993, um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál, að fullnægingu skuldbindinga samningsins. Auk þess er unnið á vegum umhverfisráðuneytisins að gerð frumvarps til laga um ráðstafanir gegn óæskilegum áhrifum vegna erfðabreyttra lífvera og erfðabreyttra veirna. Jafnframt liggur fyrir Alþingi frumvarp að lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, öðrum en hvölum, en efni þess samræmist meginreglum samningsins um líffræðilega fjölbreytni.
    Á 9. náttúrverndarþingi, sem haldið var í október 1993, kynnti umhverfisráðherra nýja stefnu á sviði náttúruverndar sem tekur m.a. mið af samningnum um líffræðilega fjölbreytni. Stefna þessi byggir á þeim grunni sem lagður hefur verið til að styrkja vísindalegan grunn náttúruverndar hér á landi og bæta stjórnsýslulega skipan þessa málaflokks, m.a. með lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Stefnan felur m.a. í sér breytingar á gildandi lögum um náttúruvernd til að styrkja þau ákvæði laganna sem lúta að vernd líffræðilegrar fjölbreytni og skilvirkari verkaskiptingu á milli stofnana ráðuneytisins er sinna náttúruvernd. Ráðherra hefur lagt fram á 117. löggjafarþingi frumvarp sem felur í sér þessar breytingar á lögum nr. 47/1971, um náttúruvernd. Auk þess hafa verið lögð drög að víðtækri áætlun um vernd líffræðilegrar fjölbreytni hér á landi í samræmi við meginskuldbindingu samningsins.
    Ríkisstjórnin hefur einnig samþykkt stefnu í umhverfismálum þar sem m.a. er lögð áhersla á ýmsar aðgerðir til að auka og bæta náttúruvernd sem nú eru í undirbúningi á vegum umhverfisráðuneytisins. Stefnan kveður jafnframt á um að gerð verði framkvæmdaáætlun fyrir hvern atvinnuveg er stuðli að sjálfbærri þróun hans, m.a. með tilliti til verndar og sjálfbærrar notkunar líffræðilegrar fjölbreytni, og framkvæmdaáætlun um menntun og fræðslu á sviði umhverfismála. Gerð þessara framkvæmdaáætlana er hafin og er stefnt að því að undirbúningi þeirra verði lokið vorið 1994.
    Ákvæði samningsins um aðgang að og miðlun líftækni stangast ekki á við ákvæði einkaleyfislöggjafarinnar nr. 17/1991 því að samningurinn felur ekki í sér lagalegar takmarkanir á veitingu einkaleyfa fyrir líftæknilegar uppfinningar. Af 16. gr. samningsins má ráða að gert er ráð fyrir slíkum einkaleyfum. Jafnframt er í þeirri grein gert ráð fyrir að ríki hafi samvinnu um að tryggja að einkaleyfakerfi vinni ekki gegn tilgangi samningsins. Samningurinn útilokar og ekki greiðslur fyrir hagnýtingu einkaleyfa, sbr. ákvæði 20. og 21. gr. um fjárhagslega aðstoð við þróunarlönd til að rísa undir framkvæmd á ákvæðum samningsins. Loks er vert að benda á ákvæði 1. tölul. 22. gr. samningsins, en þar er svo kveðið á um að ákvæði samningsins skuli ekki hafa áhrif á gildandi réttindi og skyldur samningsaðila samkvæmt alþjóðasamningum nema þar sem beiting slíkra réttinda eða kvaða mundi ógna eða skaða líffræðilega fjölbreytni.


..........


    Sem fylgiskjal með þingsályktunartillögu þessari var birtur samningur um líffræðilega fjölbreytni sem lagður var fram til undirritunar í Rio de Janeiro 5. júní 1992.
    Um texta samningsins vísast til þingskjalsins (lausaskjalsins). Samningurinn verður enn fremur prentaður í C-deild Stjórnartíðinda.