Ferill 558. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 558 . mál.


871. Frumvarp til lagaum heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja Seltjarnarneskaupstað eyjuna Gróttu.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)1. gr.


    Ríkisstjórninni er heimilt að selja Seltjarnarneskaupstað eign ríkisins í Gróttu, þar með talin hvers kyns mannvirki í eigu ríkisins önnur en Gróttuvitann.

2. gr.


    Vita- og hafnamálastofnun á vitann í Gróttu og skal hafa aðgang að honum og eynni og er heimilt að gera allar þær framkvæmdir sem nauðsynlegar teljast vegna reksturs vitans.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Tilefni frumvarps þessa er 20 ára kaupstaðarafmæli Seltjarnarnesbæjar þann 9. apríl nk. Segja má að Grótta sé eins konar tákn Seltjarnarness og útvörður bæjarins og hafi tilfinningalegt gildi fyrir bæjarbúa. Uppi eru hugmyndir um það í bæjarstjórn Seltjarnarness að nýta eyjuna sem fólkvang og útivistarsvæði fyrir bæjarbúa.
    Grótta var lýst friðland árið 1974 með auglýsingu um friðland í Gróttu nr. 219/1974 en nú gildir auglýsing nr. 13/1984. Ákveðnar reglur gilda um mannvirkjagerð, jarðrask og umferð fólks um eyjuna. Óheimilt er að fara um eyjuna yfir varptímann frá 1. maí til 1. júlí ár hvert.
    Vita- og hafnamálastofnun hefur rekið vitann í Gróttu. Gert er ráð fyrir að stofnunin eigi hann áfram og hafi greiðan aðgang að honum. Hins vegar fylgi sölunni önnur mannvirki á eyjunni, svokölluð Gróttuhús, í því ástandi sem þau eru nú.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um heimild fyrir


ríkisstjórnina til að selja Seltjarnarneskaupstað eyjuna Gróttu.


    Með frumvarpinu er ríkisstjórninni veitt heimild til að selja Seltjarnarneskaupstað eign ríkisins í Gróttu að Gróttuvita undanskildum. Er þetta gert í tilefni af 20 ára kaupstaðarafmæli Seltjarnarnesbæjar þann 9. apríl nk. Um er að ræða 3 hektara lands, 1 íbúðarhúsnæði og 1 hlöðu. Fasteignamat þessara eigna nemur 1,5 m.kr.
    Ekki verður séð að frumvarpið feli í sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.