Ferill 560. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 560 . mál.


873. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, með síðari breytingum.

Flm.: Anna Ólafsdóttir Björnsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,


Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Kristín Einarsdóttir,


Kristín Ástgeirsdóttir.



1. gr.


    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Sérstök samráðsnefnd skal skipuð tíu fulltrúum, þremur tilnefndum af helstu samtökum sjómanna og fiskvinnslufólks, þremur tilnefndum af helstu samtökum útvegsmanna og eigenda fiskvinnslu og þremur tilnefndum af Hafrannsóknastofnun, auk formanns sem skipaður er af ráðherra án tilnefningar. Nefndin skal fjalla um tillögur Hafrannsóknastofnunar um veiðiheimildir hvers árs áður en ráðherra ákveður árlegan heildarafla með reglugerð skv. 3. gr. laga þessara. Nefndin skal einnig koma saman til að fjalla um tillögur Hafrannsóknastofnunar ef um endurskoðun á fyrri úthlutun á botnfiskafla er að ræða og oftar ef þurfa þykir.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Árlegar deilur um tillögur Hafrannsóknastofnunar um heildaraflamark hvers árs benda til þess að töluvert skorti á samráð milli vísindamanna, sjómanna og annarra sem tengjast sjávarútvegi þrátt fyrir vilja allra aðila til slíks samráðs. Það er skoðun flutningsmanna þessa frumvarps að nauðsynlegt sé að koma slíku samráði í fastar skorður og að það verði best gert með stofnun sérstakrar samráðsnefndar. Til þess að starf slíkrar nefndar beri árangur er nauðsynlegt að fulltrúar sem flestra aðila sem tengjast veiðum og vinnslu komi að nefndinni með formlegum hætti. Þannig er a.m.k. tryggt að sjónarmið allra fái að koma fram og samráðið byggist því á áliti allra hina mismunandi hópa sem hafa ólíkra hagsmuna að gæta í þessum efnum. Nefndinni er ætlað að koma saman eigi sjaldnar en tvisvar á ári.
    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að þrír fulltrúar helstu félaga sjómanna og fiskvinnslufólks eigi sæti í nefndinni og er þá átt við Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Sjómannasamband Íslands og deild verkafólks í fiskvinnslu innan VMSÍ. Þrír fulltrúar útgerðarmanna og eigenda fiskvinnslustöðva komi frá LÍÚ, Landssambandi smábátaeigenda og Samtökum fiskvinnslustöðva. Verði umtalsverðar breytingar á stærð eða skipan félaga í útgerð og fiskvinnslu má endurskoða skiptingu fulltrúa milli félaga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt þessari grein er lagt til að auk þeirrar samráðsnefndar, sem um getur í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1990, muni önnur nefnd hafa það hlutverk að festa í sessi samráð milli fulltrúa sjómanna, útgerðar, fiskvinnslu og vísindamanna Hafrannsóknastofnunar. Þar sem stærð og hlutverk þessarra tveggja nefnda er ólíkt er hér valin sú leið að setja nýja nefnd á laggirnar í stað þess að auka verkefni hinnar fyrri þótt þau séu orðin takmörkuð með þeim breytingum sem orðið hafa á lögum um stjórn fiskveiða.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.