Ferill 562. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 562 . mál.


875. Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um skipulag ferðamála, nr. 79/1985, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)


1. gr.

    2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Halda skal fund í ráðinu í janúarmánuði og afgreiða á þeim fundi fjárhagsáætlun ráðsins fyrir það ár, sbr. 8. gr. Aðrir fundir skulu haldnir samkvæmt ákvörðun ráðsins eða framkvæmdastjórnar.
    

2. gr.

    1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
    Samgönguráðherra skipar menn í ferðamálaráð. Fimm menn skulu skipaðir án tilnefningar og skal einn þeirra vera formaður ráðsins og annar varaformaður.
    

3. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Samgönguráðherra skipar sjö manna framkvæmdastjórn ferðamálaráðs og skulu allir stjórnarmenn eiga sæti í ferðamálaráði.
    Einn er formaður ferðamálaráðs og skal hann vera formaður framkvæmdastjórnar. Annar er varaformaður ferðamálaráðs og skal hann vera varaformaður framkvæmdastjórnar. Eftirtaldir aðilar skulu tilnefna einn mann hver: Ferðamálasamtök landshluta sem tilgreind eru í 12.–18. tölul. 2. mgr. 4. gr. sameiginlega, Félag íslenskra ferðaskrifstofa, Flugleiðir hf., Reykjavíkurborg og Samband veitinga- og gistihúsa. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
    Framkvæmdastjórn fer með yfirstjórn á starfsemi ferðamálaráðs á milli funda ráðsins og í samræmi við ákvarðanir þess. Ferðamálaráði og framkvæmdastjórn er heimilt að skipa undirnefndir til þess að vinna að einstökum málaflokkum. Heimilt er að skipa í undirnefndir menn er ekki eiga sæti í ferðamálaráði.
    

4. gr.

    13. tölul. 7. gr. laganna orðast svo:
    Önnur þau verkefni sem ferðamálaráð ákveður eða því eru falin með lögum þessum eða á annan hátt.
    

5. gr.

    III. kafli laganna, 9., 10. og 11. gr., fellur brott og breytist númeraröð kafla og greina í samræmi við það.

6. gr.

    Við 1. mgr. 12. gr. laganna, er verður 9. gr., bætist nýr stafliður, e-liður, svohljóðandi:
 e.    Starfsrækslu bókunarþjónustu fyrir ferðir og gistingu, sbr. b-, c- og d-liði, og afþreyingu, þar með talinnar tölvubókunarþjónustu.
    

7. gr.

    14. gr. laganna, er verður 11. gr., orðast svo:
    Hver sá, sem vill reka ferðaskrifstofu, skal sækja um leyfi til ráðuneytisins. Leita skal umsagnar ferðamálaráðs um allar slíkar umsóknir.
    Leyfi til reksturs ferðaskrifstofu skal veita í fyrsta sinn til tveggja ára en síðan til fimm ára í senn. Ráðherra er heimilt að ákveða að leyfum til reksturs ferðaskrifstofu sé skipt í flokka eftir starfsvettvangi og skal nánar kveðið á um flokkun ferðaskrifstofa í reglugerð.
    Samgönguráðuneytið skal ganga úr skugga um að öllum skilyrðum sé fullnægt.
    

8. gr.

    16. gr. laganna, er verður 13. gr., orðast svo:
    Ferðaskrifstofa, eða samtök slíkra fyrirtækja, skal setja tryggingu fyrir endurgreiðslu fjár sem greitt hefur verið og fyrir greiðslu kostnaðar við heimflutning neytandans ef til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar viðkomandi ferðaskrifstofu kemur.
    Samgönguráðherra ákveður með reglugerð upphæð og skilmála tryggingar skv. 1. mgr. Skal þá miðað við að upphæð tryggingar sé í samræmi við umfang þess reksturs sem tryggingin nær til og þann kostnað sem greiða skal af tryggingarfénu.
    Ráðuneytið getur krafist ársreikninga og annarra upplýsinga frá ferðaskrifstofum.
    

9. gr.

    17. gr. laganna, er verður 14. gr., orðast svo:
    Samgönguráðuneytið ákvarðar hvort greiða skal af tryggingarfé skv. 13. gr. Eigi er heimilt að fella úr gildi tryggingu eða skerða tryggingarfé nema leyfi ráðuneytisins komi til.
    Leyfi til reksturs ferðaskrifstofu fellur niður ef grípa þarf til tryggingarfjár samkvæmt þessari grein.

10. gr.

    Í 1. málsl. 22. gr. laganna, er verður 19. gr., falla brott orðin „til fjögurra ára í senn“.
    

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Skipa skal nýtt ferðamálaráð og nýja stjórn ferðamálasjóðs samkvæmt lögum þessum þegar er því verður við komið. Skipunartími núverandi ferðamálaráðs og stjórnar ferðamálasjóðs skal haldast þar til skipað hefur verið í ráðið og stjórn sjóðsins að nýju.
    

II.

    Leyfi til reksturs ferðaskrifstofu, sem í gildi eru við gildistöku laga þessara, skulu halda gildi sínu í fimm ár, sbr. 7. gr., og endurnýjuð að þeim tíma liðnum.
    

III.

    Fella skal ákvæði laga þessara inn í meginmál laga um skipulag ferðamála, nr. 79/1985, með síðari breytingum, og gefa þau út svo breytt.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Núgildandi lög um skipulag ferðamála voru sett árið 1985. Á þeim tíma, sem síðan er liðinn, hafa orðið miklar breytingar er varða ferðaþjónustu á Íslandi og á þeim málaflokkum sem lögin taka til. Má þar nefna að Ferðaskrifstofu ríkisins hefur verið breytt í hlutafélag og hún seld. Við aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, verða breytingar á rekstrarumhverfi almennra ferðaskrifstofa. Núgildandi lög gera ekki ráð fyrir flokkun ferðaskrifstofa með tilliti til krafna um tryggingar og neytendavernd eftir því hvort seldar eru ferðir út úr landinu eða einvörðungu innan lands. Flutt hefur verið frumvarp á Alþingi um alferðir og er þar fjallað um neytendavernd í ferðaþjónustu í samræmi við EES-samninginn. Við gerð þess frumvarps var við það miðað að sá hluti neytendaverndar sem felst í tryggingum ferðaskrifstofa yrði áfram lögfestur í lögum um skipulag ferðamála eins og verið hefur og eru í þessu frumvarpi gerðar tillögur um breytingar í samræmi við reglur EES. Erlendum ferðamönnum, sem til Íslands koma, hefur fjölgað verulega síðan núgildandi lög voru sett. Árið 1985 komu 97.443 erlendir ferðamenn til Íslands Árið 1993 komu 157.326 erlendir ferðamenn til Íslands, þ.e. 61,5% fleiri en árið 1985. Umboðsmaður Alþingis hefur vakið athygli samgönguráðherra á því að í lög um skipulag ferðamála vanti skýr ákvæði um valdsvið framkvæmdastjórnar ferðamálaráðs (Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1991, bls. 17). Með tilliti til þessara breyttu aðstæðna er þetta frumvarp flutt og er nánari grein gerð fyrir breytingum hér á eftir.
    

Helstu breytingar frá gildandi lögum samkvæmt frumvarpinu.

    Helstu breytingar sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir á lögum um skipulag ferðamála eru sem hér segir:
    Felld er brott sú skylda að halda a.m.k. fjóra fundi ferðamálaráðs á ári hverju og sett í vald ráðsins eða framkvæmdastjórnar að taka ákvarðanir um fundi. Þó er gert ráð fyrir að skylt verði að halda fund í janúarmánuði ár hvert til þess að samþykkja fjárhagsáætlun fyrir það ár.
    Tímabundin skipun manna í ferðamálaráð og stjórn ferðamálasjóðs er afnumin og gert ráð fyrir að skipun gildi ótímabundið.
    Valdsvið framkvæmdastjórnar ferðamálaráðs er skilgreint.
    Felldur er brott sá kafli laganna sem fjallar um Ferðaskrifstofu ríkisins.
    Leyfi til reksturs ferðaskrifstofu verða tímabundin. Heimilað er að flokka leyfi til reksturs ferðaskrifstofu eftir eðli starfseminnar og breytt er ákvæðum um tryggingar ferðaskrifstofa þannig að tryggingin taki einvörðungu til neytendaverndar og er heimilað að ferðaskrifstofur sameinist um að setja slíka tryggingu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er sú breyting gerð að lögbundinn lágmarksfundafjöldi ferðamálaráðs er felldur brott, en ráðinu ætlað að ákveða fundi. Enn fremur er gert ráð fyrir að framkvæmdastjórn geti ákveðið að kalla saman ráðið til fundar. Þó er gert ráð fyrir að skylt verði að halda fund í ráðinu í janúarmánuði ár hvert til þess að afgreiða á þeim fundi fjárhagsáætlun ráðsins fyrir það ár.
    Ekki er talið eðlilegt að lögbinda fjölda funda í ráðinu frekar en hér er gert þar sem ráðið sjálft hefur alla möguleika á að taka ákvarðanir um fundi en óeðlilegt að fundir verði haldnir í þeim eina tilgangi að uppfylla lagaskyldu ef þannig hagar til.
    Eðlilegt er að fundur sé haldinn í janúarmánuði til þess að ákveða fjárhagsáætlun og með ákvæðinu er girt fyrir hugsanlegar tafir á að fjárhagsáætlun verði afgreidd.

Um 2. gr.

    Hér er sú breyting á gerð að skipunartími fulltrúa í ferðamálaráði er ekki lengur bundinn við fjögurra ára tímabil, heldur ótímabundinn. Af þessari breytingu leiðir að sá aðili sem tilnefnt hefur mann í ferðamálaráð getur ákveðið að skipta um fulltrúa sinn og á sama hátt getur ráðherra ákveðið að skipta um sína fulltrúa. Ferðamálaráð fer með verkefni sem miklu skipta fyrir mótun og framkvæmd stefnu í ferðamálum og er því nauðsynlegt að fullur trúnaður ríki milli fulltrúa í ráðinu og þeirra sem hafa tilnefnt þá og skipað. Þessi breyting hefur í för með sér að verði stjórnarskipti í félagi, sem tilnefnir fulltrúa í ráði, getur ný stjórn skipt um fulltrúa sinn; enn fremur að hætti fulltrúi störfum hjá fyrirtæki eða félagi eða gangi úr félagi sem hefur tilnefnt hann getur sá aðili tilnefnt nýjan fulltrúa sinn. Þá getur ráðherra ákveðið að skipta um fulltrúa sína og við ráðherraskipti getur nýr ráðherra skipað sína fulltrúa. Að óbreyttum lögum eru slíkar mannabreytingar í ráðinu háðar samþykki viðkomandi fulltrúa og neiti hann að víkja hefur orðið trúnaðarbrestur milli fulltrúans og þess sem tilnefndi hann eða skipaði. Mikilsvert er að ekki verði slíkur trúnaðarbrestur og ráðið geti starfað í fullri sátt við þá aðila sem að því standa að framgangi og þróun ferðaþjónustu í landinu og miðar þessi breyting að því markmiði.
    

Um 3. gr.

    Hér er í fyrsta lagi kveðið á um skipan framkvæmdastjórnar og er sú breyting gerð að hana skipa sjö menn í stað fimm eins og samkvæmt gildandi lögum. Þessi fjölgun í framkvæmdastjórn er til þess gerð að varaformaður eigi þar fast sæti en varaformaður framkvæmdastjórnar, sem verið hefur varaformaður ráðsins, hefur ekki átt fast sæti í stjórninni. Enn fremur er Reykjavíkurborg ætlað að eiga fastan fulltrúa í stjórninni enda er Reykjavíkurborg einn stærsti hagsmunaaðili í ferðaþjónustu og leggur mikið af mörkum til ferðamála bæði á vettvangi ferðamálaráðs og utan hans. Þá er gerð sú breyting að í stað þess að ferðamálaráð kjósi einn fulltrúa í framkvæmdastjórn til eins árs í senn er gert ráð fyrir að landshlutasamtökin kjósi sameiginlega sinn fulltrúa til setu í framkvæmdastjórninni. Með því er leitast við að tryggja að landsbyggðin utan höfuðborgarsvæðisins eigi ávallt a.m.k. einn mann í stjórninni. Brott fellur ákvæði um tímabundna skipun í framkvæmdastjórn til samræmis við ákvæði um skipun í ferðamálaráð en kveðið er á um að stjórnarmenn eigi sæti í ráðinu.
    Í öðru lagi er hér kveðið á um verkefni, valdsvið og takmarkanir á valdsviði framkvæmdastjórnar. Í gildandi lögum er ekki að finna ákvæði um þessi efni og hefur það valdið óvissu um hlutverk framkvæmdastjórnar ferðamálaráðs. Hefur umboðsmaður Alþingis vakið athygli samgönguráðherra á að um þetta vanti skýr ákvæði í lögum. Í skýrslu umboðsmanns 1991 segir m.a. svo: „Þá vakti umboðsmaður athygli Alþingis og samgönguráðherra á því sem „meinbugum“ á lögum, sbr. 11. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að í lög nr. 79/1985, um skipulag ferðamála, vantaði skýr ákvæði um valdsvið framkvæmdastjórnar ferðamálaráðs“ (Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1991, bls. 17).
    Stjórninni er í 3. mgr. falið ákvörðunarvald um málefni ráðsins á milli funda þess með þeim takmörkunum að stjórninni ber að gæta þess að ákvarðanir hennar séu í samræmi við ákvarðanir ráðsins. Ákvæði þessarar málsgreinar er samhljóða ákvæði um valdsvið framkvæmdanefndar Umferðarráðs í 2. mgr. 114. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987.
    Með þessum ákvæðum er hlutverk framkvæmdastjórnar og vald hennar skýrt og er gert ráð fyrir að það leiði til skilvirkrar stjórnunar á málefnum ráðsins.
    Í þriðja lagi er kveðið á um að framkvæmdastjórn sé heimilt auk ferðamálaráðs að skipa undirnefndir til þess að vinna að einstökum málaflokkum en hingað til hefur einungis ráðinu verið það heimilt. Einnig er heimilað að undirnefndir séu skipaðar mönnum sem ekki eiga sæti í ráðinu. Þessi breyting er í samræmi við ábendingu umboðsmanns Alþingis í sama máli og fyrr greinir en í skýrslu hans 1991, bls. 17, segir svo: „Umboðsmaður vakti einnig athygli á því að þegar undirnefnd væri skipuð, er taka ætti ákvarðanir í umboði fjölskipaðs stjórnvalds sem nefndina skipaði, væri það meginreglan að nefndarmenn undirnefndar væru valdir úr röðum þeirra sem sæti ættu í aðalnefndinni. Til þess að heimilt væri að framselja ákvörðunarvald til undirnefndar, sem skipuð væri öðrum mönnum en þeim er sæti ættu í aðalnefnd, yrði að liggja fyrir skýr lagaheimild.“ Eigi framkvæmdastjórn að geta unnið að málefnum ráðsins á skilvirkan hátt er nauðsynlegt að hún geti skipað undirnefndir sér til aðstoðar og ráðuneytis og að þær nefndir hafi umboð til að starfa samkvæmt lögunum í þeim tilvikum sem undirnefndum yrði falið að afgreiða mál.
    

Um 4. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að ráðið sjálft geti haft frumkvæði um ákvörðun verkefna sinna og aukið við þau eftir því sem þurfa þykir. Með því er ætlast til að ráðið taki á þeim málum sem upp kunna að koma og þörf er á að leysa úr þótt ekki séu sérgreind ákvæði um þau í lögum. Ákvæðið girðir fyrir að ferðamálaráð sinni ekki verkefnum á þeim forsendum að lög bjóði ekki að þau séu unnin á vettvangi ráðsins.
    

Um 5. gr.

    III. kafli laganna fjallar um Ferðaskrifstofu ríkisins, breytingu hennar í hlutafélag og sölu hluta í félaginu. Lokið er öllum þeim þáttum þannig að fyrirtækið, sem nú heitir Ferðaskrifstofa Íslands hf., er að öllu leyti orðið eign einstaklinga og á ríkið enga aðild að rekstri þess lengur. Því eiga ákvæði þessa kafla ekki lengur við og er hér lagt til að þau verði felld brott.
    

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. 12. gr. laganna eru talin fjögur svið þjónustu sem ferðaskrifstofur veita og gera að verkum að fyrirtæki telst vera ferðaskrifstofa ef sú þjónusta er veitt á þess vegum. Með nútímatækni hafa opnast möguleikar á að veita slíka eða skylda þjónustu með tölvubókunarkerfum eða bókunarþjónustu á annan hátt. Hér er lagt til að slík starfsemi teljist ferðaskrifstofurekstur enda sé um að ræða bókanir á þeirri þjónustu sem alla jafnan er veitt á hefðbundnum ferðaskrifstofum.
    

Um 7. gr.

    1. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum.
    Lagt er til að við bætist ný málsgrein, 2. mgr., og eru í henni þau nýmæli að leyfi til reksturs ferðaskrifstofu skuli gilda tímabundið og heimilað er að flokka ferðaskrifstofur eftir starfsvettvangi þeirra og binda leyfi til reksturs þeirra við þann tiltekna vettvang.
    Gert er ráð fyrir að leyfi til reksturs ferðaskrifstofu gildi í tvö ár í fyrsta sinn sem leyfi er veitt en í fimm ár í senn eftir það. Þetta ákvæði er sett í þeim tilgangi að ferðaskrifstofa sýni með ákveðnu millibili fram á að hún uppfylli skilyrði sem sett eru. Enn fremur er eðlilegt að ný fyrirtæki fái leyfi í skemmri tíma í upphafi starfsemi sinnar og sýni þá fram á að þau standist öll skilyrði laganna að þeim tíma liðnum.
    Gert er ráð fyrir að flokkar ferðaskrifstofa verði ákveðnir með reglugerð og nánar kveðið á um þar hvernig skipt verði í flokka og við hvaða mun á starfsvettvangi verði miðað. Í aðalatriðum er eftirfarandi skipting nú þegar fyrir hendi á starfsvettvangi ferðaskrifstofa og er gert ráð fyrir að við hana verði miðað í reglugerð:
    starfsemi innan lands og erlendis,
    starfsemi eingöngu erlendis,
    starfsemi eingöngu innan lands,
    umboðsaðilar erlendra ferðaskrifstofa.
    Flokkun ferðaskrifstofa eins og að framan greinir er nauðsynleg forsenda þess að unnt sé að gera mismiklar kröfur um tryggingar ferðaskrifstofa fyrir neytendavernd og að unnt sé að undanskilja frá þeirri kröfu ferðaskrifstofur sem einungis starfa á innlendum markaði, sbr. athugasemdir við 8. gr.
    Í 3. mgr. er lagt til að í stað ferðamálaráðs skuli ráðuneytið ganga úr skugga um að öllum skilyrðum til leyfisveitingar sé fullnægt. Eðlilegt verður að telja að sami aðili og gefur út leyfi meti hvort rétt sé að gefa þau út. Eftir sem áður er gert ráð fyrir að leitað verði umsagnar ferðamálaráðs en á ráðuneytið færist sú skylda að ganga úr skugga um að öllum skilyrðum sé fullnægt.
    

Um 8. gr.

    Hér eru lagðar til grundvallarbreytingar frá núgildandi lögum á ákvæðum um tryggingar ferðaskrifstofa. Helstu breytingarnar eru í fyrsta lagi að heimilað skuli að samtök ferðaskrifstofa setji sameiginlega tryggingu en í gildandi lögum er kveðið á um að umsækjandi um ferðaskrifstofuleyfi skuli setja bankatryggingu. Í öðru lagi er hér gert ráð fyrir að tryggingin sé einungis til neytendaverndar en í gildandi lögum er kveðið á um almenna tryggingu og heimilað að greiða af henni til heimflutnings farþega geti ferðaskrifstofa það ekki vegna fjárhagsörðugleika. Þriðja meginbreytingin felst í því að gert er ráð fyrir að upphæð tryggingar geti verið mismunandi og verði eftir því sem unnt er í samræmi við umfang þess reksturs sem tryggingin nær til í stað einnar fastrar upphæðar sem er jafnhá fyrir allar ferðaskrifstofur samkvæmt gildandi lögum.
    Frumvarp til laga um alferðir hefur verið lagt fram á Alþingi. Það fjallar um neytendavernd í ferðaþjónustu samkvæmt samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og byggir á tilskipun ráðherraráðs Evrópusambandsins nr. 90/314/EBE frá 13. júní 1990. Í frumvarpi um alferðir eru ekki ákvæði um tryggingar ferðaskrifstofa þar sem lög um skipulag ferðamála hafa að geyma ákvæði þar um og var við gerð þess frumvarps gert ráð fyrir að nauðsynlegar breytingar á ákvæðum um tryggingar í samræmi við EES-samninginn yrðu gerðar á lögum um skipulag ferðamála. Þær breytingar sem hér eru lagðar til byggja á ákvæðum tilskipunar 90/314/EBE en í 7. gr. segir svo: „Skipuleggjandinn og/eða smásalinn sem er aðili að samningnum skulu leggja fram fullnægjandi sönnunargögn um tryggingu fyrir endurgreiðslu fjár sem greitt hefur verið og fyrir heimflutning neytendans ef til gjaldþrots kynni að koma.“ (Þýðing Orðabókar Háskóla Íslands (EB-þýðingar)).
    Í lögum um skipulag ferðamála er ekki gerður greinarmunur á skipuleggjanda og smásala en notað samheitið ferðaskrifstofa yfir þá starfsemi og er þeirri skilgreiningu haldið hér.
    Ákvæði gildandi laga um tryggingu hafa í för með sér að allar ferðaskrifstofur, óháð stærð og starfsvettvangi, þurfa að leggja fram tryggingu sem nemur sömu upphæð. Ekki er þar gerður greinarmunur á hvort viðkomandi ferðaskrifstofa hefur hundruð farþega á sínum vegum erlendis í leiguflugi eða hvort einungis er um að ræða skipulagningu ferða innan lands. Í fyrra tilvikinu er áhætta fólgin í því að farþegar verði vegalausir erlendis ef til rekstrarstöðvunar ferðaskrifstofunnar kemur og getur farið svo að tryggingarfé dugi ekki til að kosta heimflutning. Í síðara dæminu er tryggingarfé vart eða ekki nauðsynlegt til þess að tryggja heimflutning farþega. Erlendir farþegar sem hingað koma og fá þjónustu innlendra ferðaskrifstofa hafa þegar tryggingu fyrir flutningi til síns heimalands sem þeir hafa fengið með kaupum á farseðlum hingað til lands og innlendir farþegar eiga lítið í hættu varðandi heimflutning. Því er eðlilegt að mismiklar kröfur séu settar um tryggingar m.a. eftir því hvort ferðaskrifstofa starfar einungis á innlendum markaði eða víðar.
    Trygging skv. 1. mgr. nær fyrst og fremst yfir annars vegar endurgreiðslu fyrirframgreiðslu sem að öðrum kosti er tapað fé ef rekstur ferðaskrifstofu hefur stöðvast, hins vegar heimflutning farþega í leiguflugi við þær aðstæður. Ætla verður að sú trygging sem er að baki farseðlum í reglubundnu áætlunarflugi, svonefnd BSP-greiðslumiðlun flugfélaga, sé fullnægjandi trygging fyrir heimflutningi þegar alferð er farin í áætlunarflugi og þurfi því ekki að taka tillit til slíkra farseðla við mat á tryggingarþörf.
    3. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 9. gr.

    Breyting sú sem hér er kveðið á um er bein afleiðing breytingar skv. 8. gr. Þar sem trygging ferðaskrifstofu er einungis fyrir neytendavernd en ekki almenn rekstrartrygging eins og er í núgildandi lögum er ekki þörf fyrir ákvæði um undangenginn dóm áður en til greiðslu kemur af tryggingarfé. Sett er í mat ráðuneytis hvort greiða skuli af fénu og á við hvort heldur sem um er að ræða kröfur neytandans um endurgreiðslu innborgaðrar fjárhæðar vegna þeirrar þjónustu sem neytandinn hefur keypt en ekki fengið eða um greiðslu heimflutnings og þess kostnaðar sem honum tengist, þar á meðal nauðsynlegan viðbótargistikostnað vegna tafa við heimflutning.
    Þá er kveðið á um að leyfi ráðuneytisins þurfi til að fella niður eða skerða tryggingarfé. Í núgildandi lögum eru ekki ákvæði um þetta og þar af leiðandi er ekki trygging fyrir því að bankatrygging sú sem lögin skylda ferðaskrifstofu til að leggja fram sé fyrir hendi ef til rekstrarstöðvunar kemur. Lögin segja til um að leyfi skuli fellt niður ef trygging rýrnar eða fellur niður. Mögulegt er að ferðaskrifstofa segi upp bankatryggingu áður en til rekstrarstöðvunar kemur og yrði í slíku tilviki gripið í tómt þegar á reyndi að flytja vegalausa farþega heim. Til þess að koma í veg fyrir hugsanleg tilvik af þessu tagi eru því tekin af tvímæli hér um að leyfi ráðuneytis þurfi til að fella úr gildi eða skerða tryggingu.
    

Um 10. gr.

    Ákvæði þessarar greinar er sama eðlis og ákvæði 2. gr. og vísast til greinargerðar um þá grein.
    

Um 11. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Með tilliti til ákvæða 2., 3. og 10. gr. er eðlilegt að skipað verði á ný í ferðamálaráð Íslands og í stjórn ferðamálasjóðs og er gert ráð fyrir að það verði gert svo skjótt sem við verður komið en ætla verður aðilum að ráðinu nokkurn tíma til að tilnefna fulltrúa sína.
    

II.

    Hér er kveðið á um að starfandi ferðaskrifstofur, sem þegar hafa fengið útgefin leyfi til reksturs, haldi leyfum sínum í fimm ár, sbr. ákvæði 7. gr., í þeim tilgangi að taka af tvímæli um að þær teljist ekki til nýrra aðila við útgáfu leyfa samkvæmt lögum þessum.
    

III.

    Þar sem talsverðar breytingar hafa orðið á lögum um skipulag ferðamála á liðnum árum og með þessu frumvarpi sem m.a. fela í sér að einstakar greinar falla brott, kafli um Ferðaskrifstofu ríkisins fellur brott og fjöldi málsgreina breytist er talið rétt að gefa lögin út með áorðnum breytingum, þannig að hafa megi þau á einum stað eins og þau gilda og fyrirbyggja þannig hugsanlegan misskilning og mistúlkun á lögunum vegna ókunnugleika.


Fylgiskjal.
    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um skipulag ferðamála.

    Með frumvarpinu eru gerðar ýmsar tæknilegar breytingar á núgildandi lögum um skipulag ferðamála.
    Ekki verður séð að frumvarpið feli í sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.