Ferill 568. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 568 . mál.


881. Frumvarp til lagaum réttaraðstoð við alþjóðadómstólinn sem fjallar um stríðsglæpi í fyrrum Júgóslavíu.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)I. KAFLI


Gildissvið o.fl.


1. gr.


    Ef alþjóðadómstóllinn, sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna setti á stofn til að fjalla um mál manna sem eru grunaðir um, ákærðir eða dæmdir fyrir alvarleg brot á alþjóðlegum mannúðarreglum framin í fyrrum Júgóslavíu, fer þess á leit að hér á landi fari fram aðgerðir vegna rannsóknar eða meðferðar máls skal farið með slíkar beiðnir í samræmi við ákvæði þessara laga. Sama gildir um fullnustu dóma alþjóðadómstólsins.
    

2. gr.


    Beiðni samkvæmt lögum þessum getur borist hvort sem er frá deildum dómstólsins eða saksóknara hans. Beiðni skal send dómsmálaráðherra sem hefur að öðru leyti forræði á samskiptum við alþjóðadómstólinn.
    

II. KAFLI


Framsal.


3. gr.


    Fari alþjóðadómstóllinn fram á að maður, grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir verknað sem fellur undir lögsögu dómstólsins og er staddur innan lögsögu íslenska ríkisins, verði framseldur til dómstólsins skal dómsmálaráðherra verða við slíkri beiðni.
    Þegar beiðni um framsal skv. 1. mgr. er athuguð skulu ákvarðanir dómstólsins um handtöku eða gæsluvarðhald eða tilkynning um dóm lagðar til grundvallar.
    Dómsmálaráðherra getur hafnað beiðni ef ráða má af henni eða öðrum gögnum að hún sé bersýnilega röng.

4. gr.


    Sé beiðni ekki þegar hafnað skv. 3. mgr. 3. gr. skal hún send ríkissaksóknara sem sér um að nauðsynleg rannsókn og aðgerðir verði framkvæmdar.
    Ákvæði laga um meðferð opinberra mála gilda um rannsókn. Sama gildir um meðferð kröfu fyrir dómi skv. 5.–7. gr.
    

5. gr.


    Heimilt er að handtaka þann sem óskast framseldur og setja í gæsluvarðhald eða beita hann öðrum þvingunaraðgerðum samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.
    Gæsluvarðhaldi eða beitingu annarra þvingunaraðgerða skal markaður ákveðinn tími sem má ekki vara lengur en þar til endanleg ákvörðun er tekin um að hafna beiðni um framsal eða ákvörðun um framsal er framkvæmd.
    Sá sem úrskurðaður er í gæsluvarðhald vegna beiðni um framsal getur þegar 30 dagar eru liðnar frá úrskurði óskað eftir því að mál hans verði tekið til meðferðar á ný.
    

6. gr.


    Þegar alþjóðadómstóllinn hefur lýst eftir manni sem er staddur hér á landi og heimilt er að framselja samkvæmt lögum þessum má handtaka hann, setja í gæsluvarðhald eða beita hann öðrum þvingunarráðstöfunum samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála. Slíkar aðgerðir skulu þegar tilkynntar dómsmálaráðherra.
    Gæsluvarðhaldi eða öðrum þvingunarráðstöfunum skv. 1. mgr. verður ekki beitt um lengri tíma en 30 daga nema beiðni um framsal berist innan þess tíma. Gilda þá ákvæði 3.–5. gr.

7. gr.


    Að lokinni rannsókn og öðrum nauðsynlegum aðgerðum tekur dómsmálaráðherra ákvörðun um hvort af framsali til alþjóðadómstólsins verði og með hvaða hætti.
    Maður sá sem framselja á getur krafist úrskurðar héraðsdóms um hvort skilyrði laga fyrir framsali séu fyrir hendi. Skal honum kynnt þessi heimild. Krafa um úrskurð skal berast ríkissaksóknara eða dómsmálaráðherra eigi síðar en einum sólarhring eftir að honum er tilkynnt að ákveðið hafi verið að verða við beiðni um framsal. Hafi úrskurðar verið krafist skal framsal ekki fara fram fyrr en endanlegur dómsúrskurður hefur verið kveðinn upp.
    Þegar maður er framseldur frá öðru ríki til alþjóðadómstólsins er heimilt að flytja hann um íslenskt yfirráðasvæði.
    

III. KAFLI


Beiðnir um aðra réttaraðstoð.


8. gr.


    Þegar alþjóðadómstóllinn biður um að aðgerðir vegna rannsóknar fari fram hér á landi í máli sem fellur undir lögsögu dómstólsins skal verða við beiðni og hún send ríkissaksóknara til meðferðar. Ríkissaksóknari ákveður hvernig staðið skuli að rannsókn máls og hverjum skuli falin rannsóknin. Rannsókn skal fara fram samkvæmt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála.
    

9. gr.


    Þegar alþjóðadómstóllinn fer þess á leit að skýrsla verði tekin af manni fyrir dómi skal ríkissaksóknari senda beiðni þar um til viðkomandi héraðsdómstóls og skal skýrslutaka fara þar fram í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála.
    

10. gr.


    Saksóknarinn við alþjóðadómstólinn eða fulltrúi hans á rétt á að vera viðstaddur skýrslutöku fyrir lögreglu eða dómi og við framkvæmd annarra rannsóknaraðgerða samkvæmt þessum kafla laganna.
    

IV. KAFLI


Flutningur á frjálsræðissviptum manni til skýrslugjafar.


11. gr.


    Dómsmálaráðherra getur ákveðið að maður sem sviptur er frjálsræði hér á landi verði fluttur til alþjóðadómstólsins til skýrslutöku eða samprófunar vegna rannsóknar máls eða málsmeðferðar ef skýrslutakan eða samprófunin varðar brot annars manns en hins frjálsræðissvipta. Flutningur er þó aðeins heimill að viðkomandi maður samþykki það sjálfur.
    

V. KAFLI


Fullnusta dóma alþjóðadómstólsins.


12. gr.


    Samkvæmt beiðni alþjóðadómstólsins er heimilt að fullnægja hér á landi dómum hans. Þegar fullnusta á dómum alþjóðadómstólsins fer fram hér á landi gilda ákvæði laga um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma, eftir því sem við á. Dómum má fullnægja þótt dómþoli sé ekki íslenskur ríkisborgari eða búsettur hér á landi.
    Þegar fullnægja á viðurlögum samkvæmt dómum alþjóðadómstólsins hér á landi gilda ákvæði a-liðar 1. mgr. 23. gr. laga um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma.
    Alþjóðadómstóllinn tekur ákvörðun um eftirgjöf refsingar.
    

VI. KAFLI


Önnur ákvæði.


13. gr.


    Maður verður ekki ákærður eða dæmdur hér á landi fyrir verknað sem er til rannsóknar eða meðferðar eða hefur verið dæmt um hjá alþjóðadómstólnum.
    

14. gr.


    Þegar beitt er aðgerðum gagnvart manni sem er grunaður, ákærður eða dæmdur af alþjóðadómstólnum vegna verknaðar sem dómstóllinn hefur lögsögu yfir skal sá maður að eigin vali eiga rétt á að fá sér skipaðan réttargæslumann eða verjanda vegna meðferðar málsins hér á landi. Gilda þá ákvæði laga um meðferð opinberra mála.
    

15. gr.


    Dómsmálaráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara og um bein samskipti annarra við alþjóðadómstólinn.
    

16. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.


    Hinn 25. maí 1993 samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktun nr. 827 (1993) um að koma á fót alþjóðlegum dómstóli þar sem rekin verða mál gegn mönnum sem taldir eru ábyrgir fyrir alvarlegum brotum á alþjóðlegum mannúðarreglum frömdum í fyrrum Júgóslavíu frá og með 1. janúar 1991.
    Ályktun öryggisráðsins byggist á ákvæðum í VII. kafla sáttmála hinna Sameinuðu þjóða. Stofnun dómstólsins hefur það markmið að stuðla að því að koma á og viðhalda friði og öryggi. Þar sem þessi ályktun öryggisráðsins er samþykkt með vísun til VII. kafla sáttmála hinna Sameinuðu þjóða er hún bindandi fyrir aðildarríki Sameinuðu þjóðanna og eru þau skuldbundin til nauðsynlegra aðgerða til þess að unnt sé að framfylgja ákvörðuninni.
    Með ályktun nr. 827 (1993) samþykkti öryggisráðið einnig samþykktir fyrir alþjóðadómstólinn. Þær öðluðust þegar gildi. Samþykktirnar þarfnast ekki fullgildingar af hálfu aðildarríkjanna.
    Ekki er gert ráð fyrir að dómstóllinn verði varanlegur. Honum er ætlað að fjalla um mál þeirra sem grunaðir eru um brot á alþjóðlegum mannúðarreglum sem framin eru frá og með 1. janúar 1991. Dómstóllinn kemur til með að starfa þar til öryggisráðið ákveður annað. Dómstóllinn hefur aðsetur í Haag í Hollandi.
    Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru skv. VII. kafla sáttmála hinna Sameinuðu þjóða skuldbundin til að starfa með dómstólnum og sjá til þess að viðkomandi yfirvöld í hverju ríki framfylgi beiðnum hans um réttaraðstoð. Slíkar beiðnir geta m.a. lotið að því að taka vitnaskýrslu eða afla annarra sönnunargagna, leita að mönnum og staðreyna að tiltekinn maður sé sá sem leitað er að, að húsrannsóknir fari fram, afhending og flutningur á mönnum til dómstólsins o.fl. Dómstóllinn getur óskað þess að ríki sjái til þess að ákærður maður verði fluttur til dómstólsins. Ekki verður heimilt að synja beiðni um að íslenskur ríkisborgari eða maður með fasta búsetu hér á landi verði framseldur til dómstólsins ef þess verður óskað.
    Samkvæmt 1. gr. laga um framkvæmd fyrirmæla öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, nr. 5/1969, er ríkisstjórninni heimilt að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til þess að framfylgja ákvörðunum sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna tekur samkvæmt 41. gr. sáttmála hinna Sameinuðu þjóða, sbr. og 39. gr. sáttmálans, og Íslandi kann að vera skylt að hlíta vegna aðildar sinnar að Sameinuðu þjóðunum.
    Af athugasemdum með frumvarpi til framangreindra laga má ráða að tilgangur með þeirri lagasetningu hafi fyrst og fremst verið að unnt væri að grípa til ráðstafana vegna ákvarðana öryggisráðsins um viðskiptabann á einstök ríki og sambærilegar aðgerðir. Dómsmálaráðuneytið telur að ákvæði umræddra laga séu ekki fullnægjandi til þess að íslensk stjórnvöld geti fullnægt skyldum sínum við alþjóðadómstólinn ef á reynir. Þar sem dómstólnum er ekki ætlað að starfa nema tímabundið telur ráðuneytið eðlilegast að sett verði sérstök lög um þau atriði sem þarfnast lagasetningar, til þess að unnt verði að framfylgja þeim skuldbindingum sem framangreind ályktun gerir ráð fyrir, í stað þess að breyta gildandi lögum.
    

II. Um ályktun öryggisráðsins og forsögu hennar.


    Í ályktun öryggisráðsins nr. 764 (1992) segir að allir aðilar í átökunum í fyrrum Júgóslavíu séu skuldbundnir að fullnægja skyldum sínum samkvæmt alþjóðlegum mannúðarreglum og var þar sérstaklega vísað til Genfarsamninganna frá 12. ágúst 1949 til verndar friði og til þess að draga úr skelfingum styrjalda. Jafnframt sló öryggisráðið því föstu að þeir sem fremja eða fyrirskipa alvarleg brot á samningunum séu persónulega ábyrgir fyrir slík afbrot. Ísland er aðili að Genfarsamningunum frá 1949, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 16/1965, ásamt viðbótarbókunum I og II við þá frá 8. júní 1977, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 3/1987.
    Í ályktun nr. 771 (1992) frá 13. ágúst 1992 lét öryggisráðið í ljós áhyggjur sínar vegna frekari upplýsinga um umfangsmikil brot á alþjóðlegum mannúðarreglum á landsvæði fyrrum Júgóslavíu og benti sérstaklega á ástandið í Bosníu og Hersegóvínu. Var einkum vísað til skýrslna um skipulagða brottvísun og nauðungarflutninga á almennum borgurum, fangelsun og misþyrmingar á þeim í fangelsum, skipulagðar árásir á almenna borgara, sjúkrahús og sjúkrabifreiðar, hindrun á dreifingu lífsnauðsynja og lyfja til þeirra og gerræðisfulla eyðileggingu á eignum. Ráðið fordæmdi sérhvert brot á alþjóðlegum mannúðarreglum, þar með taldar „þjóðernishreinsanir“. Ráðið krafðist þess að allir aðilar að átökunum í fyrrum Júgóslavíu létu af og hættu hverjum þeim aðgerðum sem væru brot á alþjóðlegum mannúðarreglum. Ríki og alþjóðlegar mannúðarstofnanir voru hvött til að safna saman skjalfestum upplýsingum um brot á alþjóðlegum mannúðarreglum, þar með talin brot á Genfarsamningunum, og láta ráðinu í té slíkar upplýsingar.
    Í ályktun nr. 780 (1992) frá 6. október 1992 fól öryggisráðið aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að kalla saman óháða nefnd sérfræðinga til að rannsaka og skilgreina þær upplýsingar sem ráðið óskaði eftir í ályktun nr. 771 (1992) í þeim tilgangi að komast að raun um hvort sannanir fyndust fyrir alvarlegum brotum á Genfarsamningunum og öðrum alþjóðlegum mannúðarreglum sem hefðu verið framin á landsvæði fyrrum Júgóslavíu. Nefndinni var falið að gera aðalframkvæmdastjóra grein fyrir niðurstöðum sínum. Aðalframkvæmdastjóri skipaði síðan fimm manna nefnd til að sinna þessu verkefni hinn 26. október 1992. Í skýrslu sinni til öryggisráðsins 9. febrúar 1993 kynnti aðalframkvæmdastjóri niðurstöður nefndarinnar. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að alvarleg brot og virðingarleysi gagnvart alþjóðlegum mannúðarreglum hefðu átt sér stað á landsvæði fyrrum Júgóslavíu. Nefndin benti sérstaklega á manndráp, þjóðernishreinsanir, fjöldamorð, pyntingar, nauðganir, rán og eyðileggingu á almennum eignum, eyðileggingu á menningarverðmætum og eignum trúarlegs eðlis ásamt fangelsun.
    Niðurstöður nefndarinnar voru grundvöllur að ályktun öryggisráðsins nr. 808 (1993) 22. febrúar 1993. Í þeirri ályktun var því slegið föstu að afbrot sem ættu sér stað í fyrrum Júgóslavíu væru ógnun við alþjóðlegan frið og öryggi. Enn fremur kom fram að ráðið hefði ákveðið að grípa til ráðstafana til að koma í veg fyrir slík afbrot og beita árangursríkum aðgerðum til að sækja þá til saka sem ábyrgð bæru á slíkum afbrotum. Ráðið var sannfært um að vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem ríktu í fyrrum Júgóslavíu mundi stofnun alþjóðadómstóls þjóna þessum tilgangi og stuðla að því að koma á og viðhalda friði. Ráðið ákvað að stofnaður skyldi alþjóðadómstóll til að fjalla um mál þeirra sem sóttir yrðu til saka fyrir að hafa framið eða fremdu alvarleg brot á alþjóðlegum mannúðarreglum á landsvæði fyrrum Júgóslavíu frá 1991. Aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna var með þessari ályktun falið að gera innan 60 daga tillögur um stofnun slíks dómstóls.
    Með ályktun nr. 808 (1993) lagði öryggisráðið grunninn að stofnun alþjóðadómstólsins. Ráðið sló því föstu að fyrir lægju upplýsingar um ógnun við frið og öryggi sem fælist í brotum á alþjóðlegum mannúðarreglum í fyrrum Júgóslavíu. Þar með taldi öryggisráðið að unnt væri að beita ákvæðum í VII. kafla sáttmála hinna Sameinuðu þjóða og ráðið gæti tekið ákvörðun sem væri bindandi fyrir öll aðildarríkin. Ráðið tók skýrt fram að markmiðið væri að ganga lengra og taldi að alþjóðadómstóll væri árangursrík aðgerð í þessu sambandi.
    Aðalframkvæmdastjóri lagði umbeðna skýrslu sína fyrir öryggisráðið 3. maí 1993. Skýrslunni fylgdu drög að samþykktum fyrir alþjóðadómstólinn.
    Hinn 25. maí 1993 samþykkti öryggisráðið skýrslu aðalframkvæmdastjóra með ályktun nr. 827 (1993). Ályktun þessi er birt sem fskj. I með frumvarpi þessu. Ráðið ítrekaði þar áhyggjur sínar vegna frekari upplýsinga um umfangsmikið og augljóst virðingarleysi fyrir alþjóðlegum mannúðarreglum á landsvæði fyrrum Júgóslavíu, sérstaklega í lýðveldinu Bosníu og Hersegóvínu. Sérstaklega voru tilgreindar skýrslur um fjöldamorð, stórfelldar, skipulagðar og kerfisbundnar fangelsanir og nauðganir á konum ásamt áframhaldandi þjóðernishreinsunum í þeim tilgangi að leggja undir sig landsvæði og halda þeim. Ráðið ítrekaði enn þá skoðun sína að ástandið í þessum heimshluta ógnaði alþjóðlegum friði og öryggi og kvaðst hafa ákveðið að koma í veg fyrir framhald slíkrar brotastarfsemi með því að samþykkja aðgerðir til að sækja þá til saka sem ábyrgir væru fyrir þeim. Ráðið taldi að með vísan til þeirra sérstöku aðstæðna sem ríktu í fyrrum Júgóslavíu mundi stofnun alþjóðadómstóls og saksókn gegn þeim mönnum, sem ábyrgð bera á alvarlegum brotum á alþjóðlegum mannúðarreglum, leiða til þess að þetta markmið næðist og vera liður í að koma á og viðhalda friði. Að mati ráðsins var stofnun dómstóls og saksókn gegn þeim sem ábyrgir væru fyrir brotum liður í að berjast gegn virðingarleysi á alþjóðlegum reglum og stuðla að því að alþjóðleg mannúðarréttindi yrðu virt. Ráðið vísaði einnig til þess að fundarstjórar á ráðstefnunni um fyrrum Júgóslavíu (Owen lávarður og Thorvald Stoltenberg) mæltu með því að slíkur dómstóll yrði stofnaður.
    Ráðið lagði til að þar til tilnefndur yrði saksóknari við dómstólinn skyldi nefnd sérfræðinga, sem kölluð var saman í kjölfar ályktunar nr. 780 (1992), halda áfram að safna upplýsingum og gögnum um alvarleg brot á Genfarsamningunum og öðrum brotum á alþjóðlegum mannúðarreglum.
    

III. Um ákvæði í samþykktum fyrir alþjóðadómstólinn.


    Í inngangi að samþykktum fyrir alþjóðadómstólinn segir að dómstóllinn hafi verið stofnaður af öryggisráðinu samkvæmt ákvæðum í VII. kafla sáttmála hinna Sameinuðu þjóða og að dómstóllinn skuli starfa samkvæmt ákvæðum samþykktanna. Íslensk þýðing af samþykktunum er birt sem fskj. II með frumvarpi þessu.
    Í 1., 8. og 9. gr. samþykktanna er fjallað um lögsögu dómstólsins. Í 2.–5. gr. er fjallað um þau afbrot sem dómstóllinn getur dæmt menn fyrir. Í 6. og 7. gr. er fjallað um skilyrði refsiábyrgðar o.fl. Í 10. gr. er fjallað um ne bis in idem eða bann við endurtekinni saksókn fyrir sama afbrot. Í 11.–17. gr. er fjallað um skipulag dómstólsins og réttarfarsreglur. Í 18. –22. gr. um saksókn, undirbúning málsmeðferðar og fleiri réttarfarsatriði. Í 23.–26. gr. er fjallað um dóma, viðurlög, áfrýjun, endurupptöku, fullnustu dóms og eftirgjöf refsingar. Í 29. gr. er fjallað um alþjóðlega réttaraðstoð við dómstólinn. Í 30.–34. gr. er fjallað um friðhelgi dómara og annarra starfsmanna dómstólsins, fjármál, skýrslugerð, tungumál o.fl.
    Samkvæmt 1. gr. samþykktanna getur dómstóllinn fjallað um mál manna sem eru ábyrgir fyrir alvarleg brot gegn alþjóðlegum mannúðarreglum framin á landsvæði fyrrum Júgóslavíu síðan 1991. Með alþjóðlegum mannúðarreglum er bæði vísað til reglna sem eiga sér stoð í venjum og í alþjóðlegum samningum. Alþjóðlegur venjuréttur er ekki í öllum tilvikum samningsbundinn og samningsbundnar reglur eru heldur ekki í öllum tilvikum hluti af alþjóðlegum venjurétti. Í þeim tilgangi að virt sé að fullu það grundvallaratriði að enginn skuli sakfelldur fyrir verknað, sem á verknaðartíma taldist ekki afbrot samkvæmt gildandi reglum á þeim tíma er dómstólnum einungis heimilt að byggja refsiábyrgð á þeim reglum sem án alls vafa telst alþjóðlegur réttur. Bæði dómstóllinn og Sameinuðu þjóðirnar mundu bíða hnekki af ef unnt væri að telja að einhver væri sakfelldur fyrir verknað sem ekki væri tvímælalaust afbrot þegar hann var framinn. Með því að vísa til alþjóðlegs réttar er komist fram hjá því vandamáli að ákveðin ríki eru ekki aðilar að sumum þeim samningum sem hér um ræðir. Það er mikilvægt að dómstóllinn verði ekki vændur um brot á réttaröryggissjónarmiðum þar sem honum ber að fjalla um mál einstaklinga. Jafnvel stríðsglæpamenn njóta almennra mannréttinda. Þeir njóta einnig í flestum tilvikum stjórnarskrárbundinna réttinda sem almennt gilda um ríkisborgara viðkomandi ríkis.
    Samkvæmt skýrslu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna er sá hluti alþjóðlegs samningsréttar, sem án vafa telst alþjóðlegur venjuréttur, þær reglur sem fjallað er um í Genfarsamningunum frá 12. ágúst 1949 til verndar friði og til þess að draga úr skelfingum styrjalda, fjórða Haag-samningnum um reglur og venjur um stríð á landi ásamt viðauka við hann hvor tveggja frá 18. október 1907, alþjóðasamningnum um ráðstafanir gegn hópmorðum frá 9. desember 1948 og samþykktum alþjóðaherdómstólsins frá 8. ágúst 1945. Sem fyrr segir er Ísland aðili að Genfarsamningunum frá 1949 og einnig að Haag-samningnum frá 1907, sbr. samninga Íslands við erlend ríki nr. 14 og auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 15/1963, og samningnum um ráðstafanir gegn hópmorðum frá 1948, sbr. auglýsingar í A-deild Stjórnartíðinda nr. 95/1949 og 123/1950.
    Í einstökum skýrslum sem samdar voru við undirbúning að stofnun dómstólsins var lagt til að dómstóllinn skyldi beita landsrétti í þeim tilvikum þar sem slík lög endurspegluðu alþjóðlegan mannúðarvenjurétt. Aðalframkvæmdastjóri telur í skýrslu sinni að ákvæði í framangreindum samningum sé nægjanlegur grundvöllur fyrir dómstólinn „ratione materiae“. Í samningunum eru þó engar leiðbeiningar um refsimörk og refsimat. Við slíkt mat verður dómstóllinn að styðjast við ákvæði í landslögum.
    Í 1. gr. segir enn fremur að verknaðirnir þurfi að hafa verið framdir á landsvæði fyrrum Júgóslavíu frá og með 1. janúar 1991. Dómstóllinn getur þannig ekki fjallað um afbrot sem framin eru utan þess svæðis eða fyrir 1. janúar 1991. Mörk fyrrum Júgóslavíu voru skilgreind eftir síðari heimsstyrjöldina með landamærum við þau ríki sem umlykja hana. Ekki kemur fram í greininni með hvaða hætti þessi landfræðilega skilgreining skal gilda með tilliti til samsæris, undirbúnings og annarrar hlutdeildar í broti og hvort slíkir verknaðir skuli teljast refsiverðir.
    Í 2. gr. segir að dómstóllinn geti fjallað um alvarleg brot á ákvæðum Genfarsamninganna frá 1949. Samningarnir fjalla um stríðsrekstur frá mannúðarsjónarmiðum með því að veita ákveðnum hópum vernd fyrir vopnuðum átökum, m.a. sárum og sjúkum hermönnum, stríðsföngum og almennum borgurum. Mannúðarreglurnar í þessum samningum eru kjarninn í venjurétti sem gildir í vopnuðum átökum. Í samningunum eru tilgreindir verknaðir sem í eðli sínu eru alvarleg brot eða stríðsglæpir. Samþykktirnar gera ráð fyrir því að dómstóllinn fjalli um meiri háttar brot sem falla undir þessar verknaðarlýsingar og eru í greininni eru taldar upp átta slíkar verknaðarlýsingar, orðrétt í samræmi við viðkomandi samning.
    Samkvæmt 3. gr. er heimilt að saksækja þá fyrir dómstólnum sem gerast sekir um brot gegn lögum og venjum er gilda um hernað.
    Mörg ákvæði í fjórða Haag-samningnum frá 1907 töldust byltingarkennd á sínum tíma. Þegar heimsstyrjöldin síðari braust út voru þessi ákvæði almennt viðurkennd meðal siðmenntaðra þjóða og var það einnig staðfest við Nürnberg-réttarhöldin. Ákvæðin um stríðsglæpi í Nürnberg-samþykktunum og Genfarsamningunum skarast og eru alþjóðlegur réttur.
    Í Haag-samningnum er því m.a. slegið föstu að réttur stríðandi aðila til stríðsrekstrar sé ekki ótakmarkaður og að ákveðin framkvæmd hans sé bönnuð samkvæmt reglum um styrjöld á landi. Sú túlkun og notkun þessara reglna sem þróaðist við Nürnberg-réttarhöldin var lögð til grundvallar þegar ákvæði greinarinnar voru samin og í 3. gr. eru talin upp nokkur slík afbrot í dæmaskyni.
    Samkvæmt 4. gr. er heimilt að saksækja þá fyrir dómstólnum sem gerast sekir um þjóðarmorð. Samkvæmt alþjóðasamningnum frá 1948 um ráðstafanir gegn hópmorðum má saksækja einstaklinga hvort heldur er fyrir brot framið í stríði eða á friðartímum. Í 2. mgr. er skilgreining á þjóðarmorði, en í 3. mgr. eru refsiheimildir tæmandi upptaldar verknaðartegundir, þ.e. þjóðarmorð, samsæri um þjóðarmorð, bein og óbein hvatning til þjóðarmorðs, tilraun til og hlutdeild í þjóðarmorði. Þar sem þessir verknaðir eru sérstaklega taldir upp í 4. gr. getur ákveðinn vafi leikið á því að hve miklu leyti sambærilegir verknaðir eru refsiverðir í sambandi við önnur brot sem talin eru upp í 2.–5. gr. Ákvæði 1. mgr. 7. gr. geta þýtt að svo sé.
    Samkvæmt 5. gr. nær lögsaga dómstólsins til afbrota sem teljast glæpir gegn mannkyninu. Að ákveðnir verknaðir sem beinast gegn almennum borgurum teljist glæpir gegn mannkyni var fyrst viðurkennt formlega í samþykktum fyrir Nürnberg-dómstólinn. Glæpir gegn mannkyni eru bannaðir hvort sem þeir eru framdir í stríði ríkja á milli eða í innanlandsátökum. Með þessu er átt við verknaði sem eru sérstaklega ómannlegir, t.d. morð, pyndingar eða nauðganir, sem framdar eru sem liður í blóðblöndun eða kerfisbundnar árásir á almenna borgara þegar það beinist að hvaða þjóðfélagshóp sem er, einkum af þjóðernislegum, pólitískum eða af trúarlegum ástæðum. Í stríðinu í fyrrum Júgóslavíu hafa ómannlegir verknaðir af þessu tagi m.a. tekið á sig svip svo kallaðra þjóðernishreinsana, svo sem umfangsmiklar og kerfisbundnar nauðganir ásamt öðru kynferðislegu ofbeldi, þar með talin þvingun til að stunda vændi.
    Upptalning á glæpum gegn mannkyni í 5. gr. samþykktanna er að efni til samhljóða 3. gr. fjórða Genfarsamningsins frá 1949, en skýrari að því leyti að í greininni segir beint að nauðgun sé ómannlegur verknaður.
    Samkvæmt 6. gr. verða einungis persónur saksóttar fyrir dómstólnum. Í skýrslu sinni segir aðalframkvæmdastjóri að það væri óheppilegt í þessu sambandi að viðurkenna lögsögu dómstólsins yfir lögaðilum, svo sem félögum eða stofnunum. Slík lögsaga hefði því aðeins tilgang að þátttaka í vissum félögum eða stofnunum væri út af fyrir sig afbrot sem dómstóllinn hefði lögsögu yfir. Allir verknaðir sem skilgreindir eru sem brot í samþykktunum fyrir dómstólinn eru verknaðir sem framdir eru af mönnum. Aðalframkvæmdastjóri taldi það því nægilegt að dómstóllinn hefði lögsögu gegn persónum og að ekki þyrfti að taka tillit til þess hvort maður tilheyrði einhverjum skipulögðum samtökum eða hópi þegar hann fremur tiltekinn verknað.
    Í 7. gr. eru ákvæði um skilyrði persónulegrar refsiábyrgðar. Öryggisráðið hefur oftar en einu sinni látið það álit sitt í ljós að menn sem fremja alvarleg brot gegn alþjóðlegum mannúðarreglum í fyrrum Júgóslavíu eigi að vera persónulega ábyrgir fyrir verknaði sína.
    Aðalframkvæmdastjóri heldur því fram í skýrslu sinni að þeir menn sem taka þátt í skipulagningu, undirbúningi eða framkvæmi verknaði sem eru alvarleg brot á alþjóðlegum mannúðarreglum stuðli að framningu brota og að í þessum tilvikum beri menn persónulega refsiábyrgð. Þessi afstaða kemur fram í 1. mgr. greinarinnar.
    Eftir síðari heimsstyrjöldina hefur það verið almennur skilningur að þjóðhöfðingjar, fyrirsvarsmenn ríkisstjórna og menn sem koma fram opinberlega séu einnig persónulega ábyrgir fyrir verknaði sem fela í sér alvarleg brot á mannúðarreglum. Þessi viðhorf koma fram í 2. mgr. greinarinnar. Slíkir menn geta því ekki borið fyrir sig friðhelgi sem vörn eða málsbætur eða vísað til þess að verknaður hafi verið framinn sem liður í skyldustörfum. Maður í ábyrgðarstöðu skal skv. 3. mgr. 7. gr. vera persónulega ábyrgur fyrir ólöglegum fyrirskipunum sem leiða til verknaða sem falla undir lögsögu dómstólsins. Slíkur maður skal einnig gerður ábyrgur fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir framningu slíks afbrots eða stöðvað ólöglega framgöngu undirmanna sinna. Slík óbein ábyrgð eða saknæm vanræksla skal talin vera fyrir hendi ef maður í hærri stöðu vissi eða mátti vita að undirmaður ætlaði að fremja eða hafði framið afbrot en lætur undir höfuð leggjast að grípa til nauðsynlegra og eðlilegra aðgerða til að hindra eða stöðva slík brot eða refsar ekki þeim sem það hefur framið.
    Það leysir mann ekki undan persónulegri ábyrgð og er ekki vörn í máli þótt hann hafi unnið verk samkvæmt skipun yfirmanns eða handhafa ríkisvalds, sbr. 4. mgr. 7. gr. samþykktanna. Dómstóllinn getur þó virt hlýðni við boð yfirmanns sem málsbætur ef aðstæður mæla með því.
    Gert er ráð fyrir því að í réttarfarsreglum sem dómstóllinn á sjálfur að setja, sbr. 15. gr. samþykktanna, verði ákvæði í samræmi við viðurkenndar meginreglur laga um það hvort ástæður, svo sem sakhæfisaldur, geðveiki eða geðtruflanir, valdi því að menn teljist ekki sakhæfir eða geti því ekki orðið refsiábyrgir.
    Samkvæmt 8. gr. er refsilögsaga dómstólsins bundin við landsvæði fyrrum Júgóslavíu, þar með talið land, lofthelgi og landhelgi. Í greininni er einnig ákvæði um tímalögsögu. Í ályktun nr. 808 (1993) hefur öryggisráðið ákveðið tímalögsögu þannig að miðað væri við brot framin „síðan 1991“. Aðalframkvæmdastjórinn segir í skýrslu sinni að þetta beri að skilja þannig að það taki til afbrota sem voru framin hvenær sem er frá og með 1. janúar 1991. Þessi dagsetning hefur enga sérstaka tilvísun til þess sem hefur gerst á átakasvæðunum.
    Í 9. gr. er fjallað um samband á milli lögsögu dómstólsins og lögsögu dómstóla í einstökum ríkjum. Þegar öryggisráðið setti dómstólinn á fót var ætlunin ekki sú að útiloka eða hindra að dómstólar í einstökum ríkjum gætu fjallað um þau mál sem falla undir lögsögu alþjóðadómstólsins. Dómstólar í einstökum ríkjum eru nánast hvattir til að sinna skyldum sínum samkvæmt gildandi lögum í viðkomandi ríki. Aðalframkvæmdastjóri gerði tillögu um samhliða lögsögu milli dómstólsins og dómstóla einstakra ríkja, en þó þannig að lögsaga alþjóðadómstólsins hefði forgang. Getur það þannig komið fyrir að alþjóðadómstóllinn taki sér lögsögu í máli þótt málsmeðferð standi yfir í einstöku ríki.
    Í 10. gr. er fjallað um ne bis in idem regluna eða regluna um bann við endurtekinni saksókn fyrir sama brot. Í greininni er reglan útfærð þannig að sá sem dæmdur hefur verið af alþjóðadómstólnum eða mál hefur verið rekið gegn fyrir dómstólnum þurfi ekki að eiga á hættu að mál verði höfðað gegn honum fyrir dómstóli í einhverju ríki.
    Alþjóðadómstóllinn getur á hinn bóginn í tveimur tilvikum tekið mál til meðferðar sem þegar hefur hlotið meðferð í einhverju ríki. Það er þegar verknaður sá sem fjallað var um hefur verið talið venjulegt afbrot, þ.e. brotalýsing var ekki í samræmi við efnislega lögsögu dómstólsins, sbr. 2.–5. gr samþykktanna, og þegar málsmeðferð fyrir dómstóli einstaks ríkis hefur ekki verið hlutlaus eða óháð eða henni hefur verið ætlað að hlífa sakborningi við alþjóðlegri refsiábyrgð eða málið hefur ekki verið rekið af kostgæfni.
    Þegar alþjóðadómstóllinn ákveður að taka sér lögsögu í máli sem þegar hefur hlotið málsmeðferð í einhverju ríki skal hann við ákvörðun refsingar taka tillit til að hve miklu leyti dómþoli hefur þegar afplánað þá refsingu sem hann hefur þegar hlotið.
    Í 11. gr. er fjallað um skipulag dómstólsins. Með tilliti til þess hlutverks sem dómstólnum er ætlað taldi aðalframkvæmdastjóri að honum skyldi skipt í þrjár einingar, þ.e. dómstól í þremur deildum, ákæruvald og skrifstofu. Saksóknarinn hefur það hlutverk að rannsaka mál, undirbúa þau fyrir málsmeðferð og flytja fyrir dómstólnum. Dómstólseiningin skiptist í tvær deildir á fyrsta stigi og áfrýjunarstig. Skrifstofu dómstólsins er ætlað að þjóna bæði saksóknaranum og dómstólseiningunum.
    Samkvæmt 12. gr. skulu dómarar vera 11 og af ólíku þjóðerni. Hvor deild á fyrsta stigi skal skipuð þremur dómurum og fimm dómarar skulu vera í áfrýjunardeildinni.
    Samkvæmt 13. gr. skulu dómararnir verðir fyllsta siðferðislegs trausts, kunnir að vammleysi, óhlutdrægni og heiðarleika og uppfylla þau skilyrði sem sett eru í viðkomandi ríki fyrir því að geta tekið sæti í æðsta dómstól þess. Með óhlutdrægni er m.a. átt við óhlutdrægni í sambandi við þau afbrot sem falla undir lögsögu dómstólsins. Dómararnir skulu vera kunnir af þekkingu sinni í refsirétti, þjóðarétti, þar með töldum alþjóðlegum mannúðarreglum, svo og mannréttindum. Þeir skulu kosnir af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna af lista sem tekinn er saman af öryggisráðinu.
    Dómararnir eru kjörnir til fjögurra ára. Skulu þeir njóta sömu kjara og dómarar í Alþjóðadómstólnum í Haag.
    Verði dómarasæti í einhverri deild dómstólsins laust skal aðalframkvæmdastjóri í samráði við forseta öryggisráðsins og allsherjarþingsins tilnefna staðgengil út kjörtímabil dómaranna.
    Í 14. gr. er fjallað um niðurröðun dómara í deildir. Dómararnir kjósa forseta dómstólsins og skal hann jafnframt vera forseti áfrýjunardeildarinnar. Í samráði við dómarana sjálfa skal hann síðan raða þeim í deildir. Dómari starfar einungis í þeirri deild sem honum er falið að starfa í. Dómarar í hvorri deild á fyrsta stigi skulu kjósa sér oddvita sem stjórnar síðan starfi í viðkomandi deild.
    Samkvæmt 15. gr. skulu dómararnir sjálfir setja dómstólnum réttarfarsreglur og reglur um sönnunarfærslu. Þessar reglur skulu hafa að geyma reglur um skilyrði málsmeðferðar, málsmeðferð og áfrýjun, framlagningu sönnunargagna, réttarstöðu sakborninga og vitna ásamt öðrum atriðum sem máli skipta.
    Í 16. gr. eru ákvæði um ákæruvaldið. Sjálfstæður saksóknari skal vera ábyrgur fyrir rannsókn mála og flytja mál gegn þeim sem ákærðir eru fyrir dómstólnum. Saksóknarinn skal tilnefndur af öryggisráðinu samkvæmt tillögu aðalframkvæmdastjóra. Tilnefningin skal vera til fjögurra ára og má endurskipa hann. Skal hann njóta sömu kjara og varaframkvæmdastjórar hjá Sameinuðu þjóðunum. Saksóknaranum til aðstoðar skulu vera nauðsynlegir aðstoðarmenn sem ráðnir eru af aðalframkvæmdastjóra samkvæmt tillögu saksóknarans. Aðstoðarmenn saksóknara skulu vera hæfir rannsóknarar, ákærendur, lögfræðingar með sérþekkingu í refsirétti, sérfræðingar um fullnustu dóma eða sérfræðingar í læknisfræði og skulu þeir starfa í rannsóknar- og ákærudeildum. Með tilliti til tegunda þeirra brota sem til umfjöllunar eru og fórnarlamba nauðgunar og annarra kynferðisbrota er ætlast til að hæfar konur verði á meðal starfsliðs saksóknarans.
    Í 17. gr. er fjallað um skrifstofu dómstólsins. Samkvæmt 11. gr. skal skrifstofan þjóna dómstólnum í heild. Skrifstofunni er m.a. ætlað að sinna upplýsingagjöf til almennings og sjá um færslu þing- og dómabóka, ásamt fundargerðum, sjá um fundarsali (dómsali), túlkun og aðra þjónustu sem dómstóllinn þarfnast. Henni er einnig ætlað að sjá um prentun og birtingu skjala, vera ábyrg fyrir stjórnsýslu dómstólsins í heild, þar með talin fjármál og starfsmannahald, og sinna samskiptum við dómstólinn. Skrifstofustjórinn skal ráðinn af aðalframkvæmdastjóra samkvæmt tillögu frá forseta dómstólsins og skal hann ráðinn til fjögurra ára og er heimilt að endurráða hanna. Hann skal njóta sömu kjara og aðstoðarframkvæmdastjórar Sameinuðu þjóðanna.
    Í 18. og 19. gr. er fjallað um rannsókn mála og undirbúning málsmeðferðar. Málsmeðferð er að sumu leyti ólík því sem gildir hér á landi í opinberum málum. Saksóknarinn skal taka mál til rannsóknar að eigin frumkvæði eða samkvæmt upplýsingum sem fengnar eru frá ríkisstjórnum, stofnunum Sameinuðu þjóðanna, milliríkjastofnunum eða öðrum stofnunum eða aðilum.
    Saksóknarinn skal meta aðgengilegar upplýsingar og ákveða hvort þær séu nægilegar til að hefja eða halda áfram rannsókn. Við rannsókn mála hefur saksóknarinn heimild til að yfirheyra sakborninga, fórnarlömb brota svo og önnur vitni. Hann skal safna saman sönnunargögnum og sjá um vettvangsrannsóknir. Saksóknarinn getur einnig óskað eftir réttaraðstoð frá einstökum ríkjum eftir því sem þörf krefur.
    Þegar rannsókn er lokið og saksóknarinn telur að grundvöllur sé til útgáfu ákæru skal hann undirbúa ákæruskjal þar sem fram koma upplýsingar um staðreyndir málsins og lýsing á því broti eða brotum sem sakborningur er talinn hafa gerst sekur um og afhenda þetta skjal dómara í annari hvorri deild dómsins á fyrsta stigi. Dómarinn skal athuga gögn málsins og ákveða hvort vísa skuli málinu frá eða ákæra skuli gefin út.
    Þegar rannsókn saksóknara felur í sér yfirheyrslu sakbornings skal sakborningurinn eiga rétt á aðstoð verjanda að eigin vali og rétt til að fá gjafvörn ef hann getur ekki sjálfur greitt kostnað af vörn sinni. Sakborningur skal einnig eiga rétt á nauðsynlegri aðstoð túlks. Um þessi atriði er fjallað í 21. gr. samþykktanna.
    Þegar dómari hefur ákveðið að ákært skuli í máli skal hann að beiðni saksóknara gefa út ákvarðanir sem nauðsynlegar eru, svo sem handtökuskipun, ákvörðun um gæslu, framsalsbeiðni o.s.frv.
    Í 20. gr. eru ákvæði um upphaf og meðferð máls fyrir dómstólnum. Deildir dómstólsins skulu tryggja að málsmeðferð sé í samræmi við reglur dómstólsins um réttarfar og sönnunarfærslu og gæta réttinda sakbornings að því leyti sem þær eru tryggðar í samþykktum dómstólsins. Deildirnar skulu einnig taka tillit til fórnarlamba og gæta þess að þau njóti nægilegrar verndar. Sama gildir um önnur vitni. Þeim sem ákærður hefur verið fyrir dómstólnum skal þegar kynnt ákæruatriðin. Málsmeðferð getur ekki hafist fyrr en viðkomandi maður er mættur fyrir dómi. Málsmeðferð að sakborningi fjarstöddum er ekki leyfð.
    Sakborningur skal fluttur í aðsetur dómstólsins án ástæðulauss dráttar, færður fyrir aðra hvora deild dómsins og þar formlega ákærður. Ákæruatriðin skulu þar lesin upp og tryggt skal að réttindi sakbornings verði virt. Þá skal trygging fengin fyrir því að ákærði skilji ákæruatriðin og skorað á hann að veita andsvör. Þegar málskjöl eru tilbúin skal ákvarða dagsetningu málsmeðferðar. Málsmeðferð skal fara fram í heyranda hljóði nema dómstóllinn ákveði annað í samræmi við reglur sínar um málsmeðferð og sönnunarfærslu. Eftir að hafa hlýtt á málflutning aðila, yfirheyrt vitni og kynnt sér önnur sönnunargögn skal dómstóllinn ljúka réttarhöldum.
    Í 21. gr. eru ákvæði um réttarstöðu sakbornings. Það liggur í eðli máls að alþjóðadómstólnum ber að virða að fullu almennt viðurkenndar reglur um réttarstöðu sakborninga á öllum stigum málsmeðferðar. Samkvæmt áliti aðalframkvæmdastjóra eru í 14. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 19. desember 1966 ákvæði sem ber að virða. Ísland er aðili að þessum samningi, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 10/1979.
    Í 22. gr. eru ákvæði um vernd fórnarlamba og annarra vitna. Með hliðsjón af því hvers eðlis þau brot eru sem framin eru í fyrrum Júgóslavíu getur verið nauðsynlegt að brotaþolum og öðrum vitnum verði tryggð næg vernd. Samkvæmt greininni eiga nauðsynleg ákvæði þar um að vera í réttarfarsreglum dómstólsins. Slík vernd getur falist í því að réttarhöld fari fram fyrir luktum dyrum og að ekki verði gefið upp hvert vitnið sé.
    Í 23. og 24. gr. er fjallað um dóma og viðurlög. Deildir dómstólsins skulu kveða upp dóma og ákvarða þeim refsingar sem sakfelldir verða fyrir alvarleg brot á alþjóðlegum mannúðarreglum. Dómur skal kveðinn upp og birtur í heyranda hljóði. Dómurinn skal vera skriflegur og rökstuddur. Sératkvæði skulu einnig birt.
    Þeim sem er sakfelldur skal ákvörðuð fangelsisrefsing. Við ákvörðun á tímalengd refsingar skal miðað við almenna framkvæmd í fyrrum Júgóslavíu í sambærilegum tilvikum. Dómstólnum er ekki heimilt að kveða upp dauðadóma. Við ákvörðun refsingar ber að taka tillit til grófleika brots og aðstæðna sakbornings. Auk fangelsisrefsingar getur dómstóllinn ákveðið að eignir og annað sem sakborningur hefur komist yfir með refsiverðum brotum sínum, þar með talin nauðung, skuli skilað til rétts eiganda. Í þessu sambandi vísar aðalframkvæmdastjórinn sérstaklega til ályktunar öryggisráðsins nr. 779 (1992) þar sem ráðið taldi að ráðstafanir á eignum sem komist er yfir með hótunum eða ólögmætri nauðung skuli markleysa.
    Í 25. gr. er fjallað um áfrýjun. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að áfrýja dómi í tveimur tilvikum. Í fyrsta lagi vegna rangrar beitingar réttarheimilda og í öðru lagi þegar rangt mat á málsatvikum hefur leitt til óréttlátrar niðurstöðu. Báðir aðilar máls geta áfrýjað dómi. Ákvörðun áfrýjunardeildar um að staðfesta dóm, vísa máli frá eða breyta niðurstöðu dómsins er endanleg og verður henni ekki breytt. Áfrýjunardeildin skal kveða upp dóm sinn í heyranda hljóði. Dómurinn skal rökstuddur. Ágreiningsatkvæði skulu og birt.
    Í 26. gr. er fjallað um endurupptöku máls sem þegar hefur verið dæmt í. Þegar nýjar upplýsingar koma í ljós eftir að dómur hefur verið kveðinn upp um málsatvik sem ekki voru kunnar þegar málið var rekið og gátu haft áhrif á niðurstöðu þess geta dómþoli eða saksóknari óskað eftir endurupptöku máls. Nánari upplýsingar um hvað koma skuli fram í slíkri beiðni eða hvernig með hana skuli fara koma ekki fram í samþykktunum. Gert er ráð fyrir nánari ákvæðum þar um í réttarfarsreglum dómstólsins.
    Í 27. gr. eru ákvæði um fullnustu refsinga. Þar er gert ráð fyrir að þau ríki sem eru tilbúin til að fullnusta dóma alþjóðadómstólsins tilkynni það til öryggisráðsins og ráðið útbúi skrá um þau ríki. Dómstóllinn ákveður síðan í hverju einstöku tilviki í hvaða ríki dómþoli skuli afplána refsingu sína. Gert er ráð fyrir að dómstóllinn ákveði það um leið og dómur er kveðinn upp. Refsingin skal afplánuð í samræmi við lög þess ríkis þar sem afplánun fer fram og undir eftirliti dómstólsins.
    Sem rök fyrir því að refsingin skuli afplánuð utan fyrrum Júgóslavíu telur aðalframkvæmdastjóri að um sé að ræða mjög sérstakar tegundir afbrota og að dómstóllinn hafi alþjóðleg einkenni.
    Gert er ráð fyrir að öryggisráðið skori á aðildarríki Sameinuðu þjóðanna utan fyrrum Júgóslavíu að láta fangelsispláss í té í þessu skyni. Þessar tilkynningar berist síðan skrifstofustjóra dómstólsins sem síðan útbýr lista um laus fangapláss.
    Í 28. gr. eru ákvæði um hvernig með skuli fara ef heimild er til þess í reglum þess ríkis þar sem afplánun fer fram að veita eftirgjöf á refsingu að öllu leyti eða nokkru, t.d. í formi náðunar. Í slíkum tilvikum skal viðkomandi ríki tilkynna dómstólnum um erindið, en dómstóllinn tekur síðan ákvörðun í samræmi við almennar meginreglur laga.
    Í 29. gr. eru ákvæði um samstarf dómstólsins og einstakra ríkja varðandi réttarbeiðnir, framsal o.fl. Þar sem til dómstólsins er stofnað af öryggisráðinu með vísun til VII. kafla í sáttmála hinna Sameinuðu þjóða eru öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna skyldug til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana svo að þau geti framfylgt ályktun öryggisráðsins. Ríkin eru því skuldbundin til samstarfs við dómstólinn og til að veita honum alla nauðsynlega réttaraðstoð við öflun sönnunargagna, þar á meðal yfirheyrslu vitna, sakborninga og sérfræðinga, leit að stríðsglæpamönnum o.s.frv.
    Í 30. gr. er fjallað um sérréttindi og friðhelgi. Samkvæmt greininni gildir alþjóðasamningur um réttindi Sameinuðu þjóðanna frá 13. febrúar 1946 um dómstólinn, dómara, saksóknara og starfsmenn hans og skrifstofustjóra og starfsmenn skrifstofunnar. Ísland er aðili að þessum samningi, sbr. lög nr. 13/1948 og auglýsingu í A-deild Stjórnartíðinda nr. 55/1948. Dómarar, saksóknari og skrifstofustjóri hafa í þessu sambandi sömu stöðu og sendierindrekar ríkja. Starfsmenn saksóknara og starfsmenn á skrifstofu dómstólsins skulu hafa sömu stöðu og starfsmenn Sameinuðu þjóðanna og skulu ákvæði í V. og VII. kafla framangreinds samnings gilda um þá. Aðrir einstaklingar sem þörf er á að komi til dómstólsins, þar með taldir sakborningar, skulu hljóta slíka meðferð að dómstóllinn geti starfað eðlilega.
    Samkvæmt 31. gr. skal dómstóllinn hafa aðsetur í Haag í Hollandi.
    Samkvæmt 32. gr. skal kostnaður vegna dómstólsins teljast hluti af reglulegum útgjöldum Sameinuðu þjóðanna, sbr. 17. gr. í samþykktum fyrir hinar Sameinuðu þjóðir.
    Samkvæmt 33. gr. skulu opinber tungumál dómstólsins vera enska og franska. Það þýðir að ávallt skal túlka á og af þessum tungumálum. Mikill hluti skjala sem notuð verða við málsmeðferð hjá dómstólnum þarf að þýða á annað hvort eða bæði þessara tungumála.
    Samkvæmt 34. gr. skal forseti dómstólsins skila öryggisráðinu og allsherjarþinginu árlegri skýrslu um starfsemi dómstólsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein frumvarpsins er fjallað um gildissvið þess. Samkvæmt greininni fjalla ákvæði frumvarpsins um hvernig fara skuli með beiðnir sem berast frá alþjóðadómstólnum sem fjallar um alvarleg brot á alþjóðlegum mannúðarreglum frömdum í fyrrum Júgóslavíu. Beiðnin þarf að varða aðgerðir vegna rannsóknar eða meðferðar máls vegna brots sem fellur undir lögsögu dómstólsins. Samkvæmt sáttmála hinna Sameinuðu þjóða hefur Ísland skyldu til að veita aðstoð vegna rannsóknar eða meðferðar máls sem fellur undir lögsögu dómstólsins og er markmið frumvarpsins að tryggja að unnt verði að sinna þeirri skyldu ef á það reynir. Berist beiðni um aðgerðir hér á landi vegna rannsóknar eða meðferðar máls er gengið út frá því að dómstóllinn hafi gengið úr skugga um að rannsókn eða meðferð á viðkomandi máli falli undir lögsögu hans. Íslensk stjórnvöld eiga því almennt ekki mat á því hvort alþjóðadómstóllinn er bær til að fjalla um viðkomandi mál.

Um 2. gr.


    Samkvæmt þessari grein geta beiðnir frá alþjóðadómstólnum borist frá einstökum deildum hans eða saksóknaranum. Samkvæmt 11. gr. samþykkta fyrir dómstólinn skiptist alþjóðadómstóllinn m.a. upp í deildir sem fara með dómsvald auk saksóknara. Samkvæmt 18. gr. hefur saksóknarinn heimild til að leita eftir aðstoð hjá yfirvöldum í einstökum ríkjum vegna rannsóknar máls.
    Í þessari grein frumvarpsins er jafnframt ákvæði um að dómsmálaráðherra fari með forræði á samskiptum við alþjóðadómstólinn. Er það í samræmi við það sem almennt gildir um meðferð beiðna frá erlendum yfirvöldum um aðgerðir hér á landi vegna rannsóknar eða meðferðar máls.
    Hlutverk dómsmálaráðherra í þessu sambandi er að skipuleggja samskiptin við alþjóðadómstólinn. Hann tekur á móti beiðnum frá dómstólnum og sér um að þeim verði sinnt. Hann sér jafnframt um að senda svör, rannsóknargögn og tilkynningar til dómstólsins. Forræði dómsmálaráðherra á samskiptum við dómstólinn á ekki að útiloka bein samskipti dómstólsins við viðkomandi yfirvöld hér á landi, t.d. embætti ríkissaksóknara, eða að viðkomandi yfirvöld geti haft milliliðalaus samskipti við dómstólinn vegna meðferðar beiðni frá honum hér á landi og er því í 15. gr. frumvarpsins ákvæði um að heimilt sé að setja í reglugerð ákvæði um bein samskipti annarra en ráðherra við dómstólinn. Þá geta samskipti við dómstólinn farið eftir diplómatískum leiðum og einnig í gegnum Interpol að svo miklu leyti sem slík samskipti samrýmast hlutverki Interpol.
    

Um 3. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að sú skylda verði lögfest að verða við beiðni alþjóðadómstólsins um framsal á þeim sem eru grunaðir, ákærðir eða dæmdir fyrir verknaði sem falla undir lögsögu dómstólsins. Samkvæmt 29. gr. í samþykktum fyrir dómstólinn skulu ríki án ástæðulauss dráttar sinna beiðnum hans um aðstoð, m.a. um afhendingu eða flutning á sökuðum manni til dómstólsins.
    Í 2. mgr. greinarinnar er lagt til að við athugun á beiðni um framsal verði ákvarðanir dómstólsins um handtöku eða gæsluvarðhald eða tilkynning um dóm lagðar til grundvallar nema ráða megi af ákvörðuninni eða dóminum að hún sé augljóslega röng. Það ákvæði er byggt á 2. mgr. 19. gr. í samþykktum fyrir dómstólinn.
    Samkvæmt frumvarpi þessu er ekki heimilt að synja um framsal til alþjóðadómstólsins vegna þeirra atriða sem leiða til þess að synjað er um framsal til einstakra ríkja skv. I. kafla laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984.
    

Um 4. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að það verði hlutverk ríkissaksóknara að sjá um nauðsynlegar aðgerðir til undirbúnings framsali. Hann getur falið einstökum lögregluyfirvöldum þ.m.t. Rannsóknarlögreglu ríkisins að sjá um framkvæmd aðgerða svo sem handtöku á hinum grunaða og yfirheyrslu á honum og að krafa verði lögð fyrir dómstól um gæsluvarðhald o.s.frv.
    Í 2. mgr. er lagt til að ákvæði laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 gildi um rannsókn og um meðferð kröfu fyrir dómi samkvæmt 5.–7. gr. Með þessu er m.a. átt við að rannsókn skuli fara fram í samræmi við þessi lög og að meðferð, t.d. krafa um gæsluvarðhald, verði í samræmi við þau. Á það einnig við um kæru til Hæstaréttar á úrskurðum héraðsdómstóls ef um það er að ræða.
    

Um 5. gr.


    Samkvæmt þessari grein er heimilt að handtaka og setja í gæsluvarðhald þann sem alþjóðadómstóllinn biður um framsal á. Það sama gildir um beitingu annarra þvingunaraðgerða samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála. Ákvæðið er sambærilegt ákvæði 15. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984.
    

Um 6. gr.


    Ákvæði þessarar greinar eru um það að heimilt sé að handtaka og setja í gæsluvarðhald þann sem alþjóðadómstóllinn hefur lýst eftir án þess að beiðni hafi borist hingað til lands um framsal. Það sama gildir um beitingu annarra þvingunaraðgerða samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála. Ákvæðið er sambærilegt ákvæði 19. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984.
    

Um 7. gr.


    Ákvæði 1. mgr. þessarar greinar eru sambærileg við ákvæði 17. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.
    Í 2. mgr. greinarinnar eru ákvæði um að sá sem á að framselja geti borið lögmæti þeirrar ákvörðunar undir héraðsdóm. Málsgreinin er sambærileg ákvæðum 14. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984.
    Í 3. mgr. er ákvæði um svokallaðan gegnumflutning, þ.e. að heimilt sé að flytja mann sem annað ríki framselur til alþjóðadómstólsins um íslenskt yfirráðasvæði.
    

Um 8. gr.


    Samkvæmt 29. gr. samþykkta fyrir alþjóðadómstólinn skulu ríki veita dómstólnum aðstoð vegna rannsóknar og meðferðar máls sem falla undir lögsögu hans.
    Í þessari grein frumvarpsins er skýrt tekið fram að verða skuli við beiðni alþjóðadómstólsins um aðgerðir hér á landi vegna rannsóknar máls og að ríkissaksóknari skuli sjá um að slík rannsókn fari fram og með hvaða hætti. Í greininni eru jafnframt ákvæði um að rannsókn hér á landi skuli fara fram samkvæmt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.
    Með aðgerðum vegna rannsóknar er átt við hvers konar rannsóknaraðgerðir, svo sem skýrslutöku hjá lögreglu af grunuðum, vitnum eða sérfróðum aðilum, leit, haldlagningu eða kyrrsetningu svo og aðrar aðgerðir eins og birtingu á kvaðningum og stefnum. Með tilvísuninni til laga um meðferð opinberra mála er átt við að rannsóknaraðgerðir skuli fara fram í samræmi við þau lög, m.a. um úrskurði dómstóla þegar þess er þörf, réttargæslu o.s.frv.
    Orðið rannsókn í þessari grein ber að skilja með sama hætti og það er notað í lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.
    

Um 9. gr.


    Í þessari grein eru ákvæði þess efnis að biðji alþjóðadómstóllinn um skýrslutöku fyrir dómi hér á landi skuli ríkissaksóknari senda beiðni um það til viðkomandi héraðsdómstóls og að skýrslutakan skuli fara þar fram samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.
    

Um 10. gr.


    Almennt eiga ekki aðrir rétt á að vera viðstaddir skýrslutöku hjá lögreglu en viðkomandi rannsóknari, vottur, yfirheyrði og réttargæslumaður eða verjandi sakbornings. Það sama gildir þegar um lokuð réttarhöld er að ræða.
    Fari skýrslutaka fram hér á landi að beiðni alþjóðadómstólsins getur saksóknarinn farið fram á að hann eða fulltrúi hans geti verið viðstaddur skýrslutöku hvort heldur er hjá lögreglu eða fyrir dómi. Ákvæði þessarar greinar eru til að tryggja rétt saksóknarans að vera viðstaddir skýrslutökur hvort heldur er hjá lögreglu eða fyrir dómi og annars staðar ef um er að ræða aðrar rannsóknaraðgerðir, t.d. húsleit.

Um 11. gr.


    Samkvæmt greininni getur dómsmálaráðherra ákveðið að frjálsræðissviptur maður verði fluttur til alþjóðadómstólsins til skýrslutöku eða samprófunar vegna brots annars manns en hins frjálsræðissvipta. Ákvæðið gildir hvort heldur viðkomandi er í gæsluvarðhaldi, afplánun, öryggisgæslu eða í vistun vegna annars konar frjálsræðissviptingar. Með skýrslutöku er bæði átt við skýrslutöku vegna rannsóknar máls áður en ákæra er gefin út og einnig skýrslutöku fyrir alþjóðadómstólnum. Það sama gildir um samprófun. Ákvæðið er sambærilegt við ákvæði í 23. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nema að því leyti að í þessu tilviki verður frjálsræðissviptur maður ekki fluttur nema með eigin samþykki.
    Í frumvarpi þessu er ekki lögð sú skylda á herðar vitnum eða sérfróðum mönnum að mæta til yfirheyrslu hjá alþjóðadómstólnum þótt þeim sé stefnt til skýrslutöku enda kemur ekki fram í samþykktum fyrir dómstólinn að ætlast sé til þess.
    

Um 12. gr.


    Í þessari grein eru ákvæði sem heimila fullnustu á dómum alþjóðadómstólsins hér á landi. Ef til þess kemur gerir ákvæðið ráð fyrir að í því sambandi gildi ákvæði laga um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma eftir því sem við á. Þó gildir ekki það skilyrði að viðkomandi maður sé íslenskur ríkisborgari eða maður búsettur hér á landi.
    Með tilvísun til a-liðar 1. mgr. 23. gr. framangreindra laga er átt við að haldið verði áfram að fullnægja dómum alþjóðadómstólsins samkvæmt efni sínu hér á landi.
    Almennt eru ríki ekki skyldug til að sjá um fullnustu á dómum alþjóðadómstólsins. Samkvæmt 27. gr. í samþykktum fyrir dómstólinn skal fangelsisrefsing sem dómstóllinn dæmir afplánuð í ríki sem alþjóðadómstóllinn tilnefnir af skrá yfir ríki sem tjáð hafa öryggisráðinu að þau séu fús til að taka við dómfelldum mönnum.
    Þótt lagt sé til að heimilt verði samkvæmt þessari grein að fullnusta hér á landi dóma alþjóðadómstólins er það sjálfstæð ákvörðun íslenskra yfirvalda hvort þau tilkynna öryggisráðinu að unnt verði að fullnægja dómum dómstólsins hér á landi.
    

Um 13. gr.


    Samkvæmt þessari grein verður maður ekki ákærður eða dæmdur hér á landi fyrir verknað sem er til rannsóknar eða meðferðar eða hefur verið dæmt um hjá alþjóðadómstólnum. Efni þessa ákvæðis er í samræmi við 10. gr. samþykkta fyrir alþjóðadómstólinn. Sé maður ákærður hér á landi fyrir verknað sem er til meðferðar eða hefur verið dæmt um hjá alþjóðadómstólnum ber að vísa slíku máli frá dómi.
    

Um 14. gr.


    Í þessari grein er sjálfstæð efnisregla þess efnis að þegar beitt er aðgerðum hér á landi gagnvart manni sem er grunaður, ákærður eða dæmdur af alþjóðadómstólnum vegna brots sem fellur undir lögsögu dómstólsins skuli hann samkvæmt eigin ósk eiga rétt á réttargæslumanni eða verjanda vegna meðferðar málsins hér á landi. Ákvæðið er sett til að taka af allan vafa um réttarstöðu manns að því er þetta varðar.
    

Um 15. gr.


    Samkvæmt þessari grein er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd ákvæða samkvæmt frumvarpinu og bein samskipti viðkomandi yfirvalda hér á landi við dómstólinn vegna einstakra mála.

Um 16. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal I.


Ályktun nr. 827 (1993)


samþykkt af öryggisráðinu á 3217. fundi þess 25. maí 1993.    Öryggisráðið,
    sem staðfestir ákyktun sína nr. 713 (1991) frá 25. september 1991 og allar síðari hlutaðeigandi ályktanir,
    sem fjallað hefur um skýrslu aðalframkvæmdastjóra (S/25704 m. viðauka 1) samkvæmt 2. lið ályktunar nr. 808 (1993),
    sem enn á ný lætur í ljós alvarlegar áhyggjur sínar af því að enn berast fregnir um að alþjóðleg mannúðarlög séu víða og gróflega brotin á því landsvæði þar sem Júgóslavía var áður og sérstaklega í lýðveldinu Bosníu og Hersegóvínu, þar á meðal að framin séu fjöldamorð, að miklum fjölda kvenna sé með kerfisbundnum hætti haldið föngnum og nauðgað og að áfram séu stundaðar svonefndar þjóðernishreinsanir, meðal annars í því skyni að ná landsvæðum og halda þeim,
    sem ákvarðar að í þessu ástandi felist enn ógn gegn alþjóðlegum friði og öryggi,
    sem er staðráðið í að binda enda á slík afbrot og gera ráðstafanir til að koma lögum yfir þá sem ábyrgir eru fyrir þeim,
    sem telur að við þær sérstöku aðstæður sem ríkja í fyrrum Júgóslavíu mundi stofnun alþjóðadómstóls er ráðið kæmi á fót til bráðabirgða og saksókn á hendur þeim sem ábyrgð bera á alvarlegum brotum gegn alþjóðlegum mannúðarlögum verða til þess að unnt væri að ná þessu markmiði og stuðla að því að koma á og viðhalda friði,
    sem álítur að stofnun alþjóðadómstóls og saksókn á hendur þeim sem ábyrgð bera á ofangreindum brotum á alþjóðlegum mannúðarlögum muni stuðla að því að látið verði af slíkum brotum og að við þeim sé brugðist með markvissum hætti,
    sem minnast í þessu sambandi ályktunar formanna stjórnarnefndar alþjóðaráðstefnunnar um fyrrum Júgóslavíu um stofnun slíks dómstóls (S/25221),
    sem staðfestir í þessu sambandi ákvörðun sína í ályktun nr. 808 (1993) um að stofna beri alþjóðadómstól til að sækja þá til saka sem ábyrgð bera á alvarlegum brotum gegn alþjóðlegum mannúðarlögum er framin hafa verið á landsvæði fyrrum Júgóslavíu síðan 1991,
    sem líta til þess að þar til saksóknari hefur verið skipaður við alþjóðadómstólinn er rétt að sérfræðinganefndin sem stofnuð var vegna brýnna þarfa samkvæmt ályktun nr. 780 (1992) haldi áfram söfnun upplýsinga um sönnunargögn varðandi alvarleg brot á Genfarsamningunum og önnur brot gegn alþjóðlegum mannúðarlögum eins og hún lagði til í bráðabirgðaskýrslu sinni (S/25274),
    sem starfar skv. VII. kafla sáttmála hinna Sameinuðu þjóða,
    1. samþykkir skýrslu aðalframkvæmdastjóra,
    2. ákveður hér með að stofna alþjóðadómstól einungis í því skyni að sækja þá til saka sem ábyrgð bera á alvarlegum brotum gegn alþjóðlegum mannúðarlögum er framin hafa verið á landsvæði fyrrum Júgóslavíu á tímabilinu frá og með 1. janúar 1991 og fram til þess dags er öryggisráðið ákveður eftir að friði hefur verið komið á að nýju, og samþykkir í þessu skyni þær samþykktir fyrir alþjóðadómstólinn sem fylgja áðurnefndri skýrslu,
    3. fer þess á leit við aðalframkvæmdastjóra að hann komi öllum tillögum er hann kann að veita viðtöku frá ríkjum um réttarfars- og sönnunarreglur á framfæri við dómara alþjóðadómstólsins, er þeir hafa verið kjörnir til starfa, eins og gert er ráð fyrir í 15. gr. samþykkta fyrir dómstólinn,
    4. ákveður að öll ríki skuli veita alþjóðadómstólnum og stofnunum hans hverja þá aðstoð sem þörf er á í samræmi við ályktun þessa og samþykktir alþjóðadómstólsins og að öll ríki skuli því gera viðeigandi ráðstafanir samkvæmt landslögum sínum til að koma ákvæðum ályktunar þessarar og samþykktanna í framkvæmd, þar á meðal þeirri skyldu ríkja að sinna beiðnum um aðstoð eða fyrirmælum gefnum út af sakamáladeild hans skv. 29. gr. samþykktanna,
    5. hvetur ríki, svo og milliríkjastofnanir og stofnanir á vegum einkaaðila, til að leggja fram fé, búnað og þjónustu í þágu alþjóðadómstólsins, þar á meðal að bjóða fram sérhæft starfslið,
    6. ákveður að ákvörðun um aðsetur alþjóðadómstólsins fari eftir þeirri tilhögun sem Sameinuðu þjóðirnar og Holland kunna að telja æskilega og öryggisráðið getur fallist á og að alþjóðadómstóllinn geti komið saman annars staðar þegar hann telur þess þörf til að rækja störf sín á skilvirkan hátt,
    7. ákveður einnig að störf alþjóðadómstólsins skuli ekki hafa áhrif á rétt brotaþola til að leita bóta með þeim aðferðum sem við eiga fyrir tjón sem þeir hafa orðið fyrir vegna brota gegn alþjóðlegum mannúðarlögum,
    8. fer þess á leit við aðalframkvæmdastjórann að hann komi ályktun þessari í framkvæmd með hraði og sérstaklega að hann geri raunhæfar ráðstafanir til þess að alþjóðadómstóllinn taki sem fyrst til starfa og að hann gefi ráðinu reglulega skýrslu,
    9. ákveður að mál þetta lúti sinni yfirumsjón.


Fylgiskjal II.

Samþykktir fyrir alþjóðadómstólinn.


    Öryggisráðið hefur skv. VII. kafla sáttmála hinna Sameinuðu þjóða sett á stofn alþjóðadómstól til að sækja þá til saka sem ábyrgir eru fyrir alvarlegum brotum gegn alþjóðlegum mannúðarlögum, frömdum á landsvæði fyrrum Júgóslavíu síðan 1991, (sem hér á eftir er nefndur „alþjóðadómstóllinn“) og skal hann starfa í samræmi við ákvæði samþykkta þessara.
    

1. gr.

Valdsvið alþjóðadómstólsins.


    Alþjóðadómstóllinn skal bær, í samræmi við ákvæði samþykkta þessara, til að sækja til saka þá sem ábyrgir eru fyrir alvarlegum brotum gegn alþjóðlegum mannúðarlögum frömdum á landsvæði fyrrum Júgóslavíu síðan 1991.
    

2. gr.

Alvarleg brot gegn Genfarsamningunum frá 1949.


    Alþjóðadómstóllinn skal bær til að sækja þá til saka sem fremja eða fyrirskipa að framin skuli alvarleg brot gegn Genfarsamningunum frá 12. ágúst 1949, en það eru eftirtalin brot gegn mönnum eða eignum sem verndar njóta samkvæmt reglum viðkomandi Genfarsamnings:
    vísvitandi framin manndráp,
    pyndingar eða ómannleg meðferð, þar með taldar líffræðilegar tilraunir,
    vísvitandi að valda miklum þjáningum eða alvarlegu líkams- eða heilsutjóni,
    veruleg eyðilegging eða taka verðmæta sem réttlætist ekki af hernaðarþörfum og framin er ólöglega og að ástæðulausu,
    að neyða stríðsfanga eða almenna borgara til að gegna herþjónustu í her óvinveitts ríkis,
    vísvitandi að svipta stríðsfanga eða almennan borgara rétti hans til sanngjarnrar og eðlilegrar málsmeðferðar,
    ólöglegt brottnám eða flutningur almenns borgara, eða ólögleg frjálsræðissvipting hans,
    að taka almenna borgara sem gísl.
    

3. gr.

Brot gegn lögum eða venjureglum um hernað.


    Alþjóðadómstóllinn skal bær til að sækja þá til saka sem brjóta gegn lögum eða venjureglum um hernað. Meðal slíkra brota teljast, en takmarkast ekki við:
    að nota eiturvopn eða önnur vopn sem ætlað er að valda ónauðsynlegri þjáningu,
    að eyða borgum, bæjum eða þorpum án tilefnis eða valda eyðileggingu sem ekki verður réttlætt af hernaðarþörfum,
    að gera árás eða varpa sprengjum með hvaða hætti sem er á óvarða bæi, þorp, bústaði eða byggingar,
    að taka, eyðileggja eða vísvitandi að valda skemmdum á trúar-, mannúðar- eða menntastofnunum, lista- eða vísindastofnunum, sögulegum minnismerkjum eða lista- eða vísindaverkum,
    gripdeildir á almannaeign eða einkeignum.

4. gr.

Þjóðarmorð.


    1. Alþjóðadómstóllinn skal bær til að sækja þá til saka sem fremja þjóðarmorð eins og það er skilgreint í 2. mgr. þessarar greinar, eða fremja nokkurn þann verknað annan sem tilgreindur er í 3. mgr. þessarar greinar.
    2. Með þjóðarmorði er átt við eftirtalda verknaði sem framdir eru með þeim ásetningi að eyða að einhverju eða öllu leyti hópi manna vegna þjóðernis, uppruna, kynþáttar eða trúar, til dæmis:
    að drepa einstaklinga í hópnum,
    að valda einstaklingum í hópnum alvarlegu líkamlegu eða andlegu tjóni,
    að hafa áhrif á afkomu hópsins sem ætluð eru til að valda dauða einstaklinga í honum eða hópsins í heild,
    að gera ráðstafanir sem ætlað er að hindra barnsfæðingar innan hópsins,
    að flytja börn úr hópnum með valdi í annan hóp.
    3. Eftirtaldir verknaðir skulu vera refsiverðir:
    þjóðarmorð,
    samsæri um þjóðarmorð,
    bein og opinber hvatning til þjóðarmorðs,
    tilraun til þjóðarmorðs,
    hlutdeild í þjóðarmorði.
    

5. gr.

Glæpir gegn mannkyninu.


    Alþjóðadómstóllinn skal bær til að sækja þá til saka sem ábyrgir eru fyrir eftirtalda glæpi frömdum í stríði, hvort sem það er háð milli ríkja eða innan ríkis, sem bitna á almennum borgurum:
    morð,
    útrýmingu,
    þrælkun,
    nauðungarflutning,
    fangelsun,
    pyndingar,
    nauðgun,
    ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana, kynþáttar eða trúar,
    annarri ómannlegri háttsemi.
    

6. gr.

Lögsaga yfir einstaklingum.


    Alþjóðadómstóllinn skal hafa lögsögu yfir einstaklingum samkvæmt ákvæðum samþykkta þessara.
    

7. gr.

Persónuleg refsiábyrgð.


    1. Hver sá sem hefur skipulagt, verið upphafsmaður að, fyrirskipað, framið eða á annan hátt aðstoðað eða stutt skipulagningu, undirbúning eða framkvæmd brota sem vísað er til í 2.–5. gr. samþykkta þessara skal bera á því persónulega refsiábyrgð.
    2. Opinber staða sökunauts, hvort sem hún er staða þjóðhöfðingja, leiðtoga ríkisstjórnar eða embættismanns, skal ekki aftra því að slíkur maður beri ekki á því persónulega refsiábyrgð eða fái mildari refsingu en ella.
    3. Enda þótt einhver sá verknaður sem fjallað er um í 2.–5. gr. samþykkta þessara hafi verið framinn af undirmanni leysir það ekki yfirmann hans undan refsiábyrgð ef hann vissi eða mátti vita að undirmaðurinn var að því kominn að fremja slíkan verknað eða hafði þegar framið hann og yfirmaðurinn gerði ekki nauðsynlegar og eðlilegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir verknaðinn eða refsaði þeim sem frömdu hann.
    4. Enda þótt sökunautur hafi unnið verk samkvæmt skipun handhafa ríkisvalds eða yfirmanns leysir það hann ekki undan refsiábyrgð, en taka má tillit til þess sem refsilækkunarástæðu ef alþjóðadómstólnum þykir það réttlætanlegt.
    

8. gr.

Lögsaga í tíma og rúmi.


    Lögsaga alþjóðadómstólsins skal ná til landsvæðis fyrrum sósíalistíska sambandslýðveldisins Júgóslavíu, þar með talið land þess, lofthelgi og landhelgi. Lögsaga alþjóðadómstólsins í tíma skal ná aftur til 1. janúar 1991.
    

9. gr.

Samhliða lögsaga.


    1. Alþjóðadómstóllinn og dómstólar einstakra ríkja skulu hafa samhliða lögsögu til saksóknar vegna alvarlegra brota gegn alþjóðlegum mannúðarlögum sem framin hafa verið frá og með 1. janúar 1991 á landsvæði fyrrum Júgóslavíu.
    2. Málsmeðferð fyrir alþjóðadómstólnum skal hafa forgang fram yfir málsmeðferð fyrir dómstólum einstakra ríkja. Alþjóðadómstóllinn getur á hvaða stigi málsmeðferðar sem er óskað þess formlega að dómstólar einstakra ríkja vísi málum til hans í samræmi við samþykktir þessar og réttarfars- og sönnunarreglur alþjóðadómstólsins.
    

10. gr.

Ne bis in idem.


    1. Ekki skal reka mál gegn manni fyrir dómstólum einstaks ríkis vegna verknaða sem samkvæmt samþykktum þessum fela í sér stórfelld brot gegn alþjóðlegum mannúðarlögum ef þegar hefur verið rekið mál gegn honum fyrir alþjóðadómstólnum.
    2. Nú hefur verið rekið mál gegn manni fyrir dómstóli einstaks ríkis vegna alvarlegra brota gegn alþjóðlegum mannúðarlögum og skal þá aðeins reka mál fyrir alþjóðadómstólnum ef:
    verknaður sá sem fjallað var um hefur verið talið venjulegt afbrot eða
    málsmeðferðin fyrir dómstóli í viðkomandi ríki hefur ekki verið óhlutdræg eða óháð eða henni hefur verið ætlað að hlífa sakborningi við alþjóðlegri refsiábyrgð eða ef málið hefur ekki verið rekið af kostgæfni.
    3. Þegar ákvörðuð er refsing manns sem sakfelldur er fyrir brot samkvæmt samþykktum þessum skal alþjóðadómstóllinn taka tillit til þess að hve miklu leyti refsing hefur verið afplánuð sem dómstóll einstaks ríkis kann þegar að hafa ákvarðað viðkomandi manni vegna sama verknaðar.
    

11. gr.

Skipulag alþjóðadómstólsins.


    Eftirtaldar stofnanir skulu mynda alþjóðadómstólinn:
    Deildir hans eru tvær sakamáladeildir og áfrýjunardeild,
    saksóknari og
    skrifstofa er starfar bæði í þágu deilda dómstólsins og saksóknara.
    

12. gr.

Skipan deilda.


    Ellefu óháðir dómarar skulu skipa deildir dómstólsins, engir tveir þeirra af sama þjóðerni, og skulu þeir starfa sem hér segir:
    Þrír dómarar skipa hvora sakamáladeild,
    fimm dómarar skipa áfrýjunardeild.
    

13. gr.

Hæfi dómara og kjör þeirra.


    1. Dómarar skulu verðir fyllsta siðferðilegs trausts, óhlutdrægir og vammlausir, og uppfylla þau hæfisskilyrði sem gerð eru í heimalöndum þeirra til æðstu dómaraembætta. Við skipun í deildir dómsins skal tekið tillit til reynslu dómaranna á sviði refsiréttar, þjóðaréttar, þar með talinna alþjóðlegra mannúðarlaga og mannréttindalaga.
    2. Dómarar alþjóðadómstólsins skulu kjörnir af allsherjarþinginu af skrá sem öryggisráðið leggur fram, á þann hátt sem hér segir:
    Aðalframkvæmdastjórinn skal lýsa eftir tilnefningum um dómara við alþjóðadómstólinn meðal aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna og þeirra ríkja sem ekki eru aðildarríki en hafa fastar sendinefndir með áheyrnarrétti við aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna.
    Innan sextíu daga frá því er aðalframkvæmdastjórinn hefur lýst eftir tilnefningum getur hvert aðildarríki tilnefnt allt að tvö dómaraefni sem fullnægja þeim hæfisskilyrðum sem í 1. mgr. segir og skulu þeir ekki vera af sama þjóðerni.
    Aðalframkvæmdastjórinn framsendir tilnefningarnar til öryggisráðsins. Úr þeim tilnefningum sem borist hafa gerir öryggisráðið skrá yfir dómaraefni sem ekki skulu vera færri en tuttugu og tvö og ekki fleiri en þrjátíu og þrjú og skulu þau valin með tilliti til þess að helstu réttarkerfi heimsins eigi þar fullnægjandi fyrirsvar.
    Forseti öryggisráðsins sendir skrána yfir dómaraefni til forseta allsherjarþingsins. Skal allsherjarþingið kjósa ellefu dómara af skránni til setu í alþjóðadómstólnum. Lýsa skal kjöri þeirra dómaraefna sem hlotið hafa hreinan meiri hluta atkvæða aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna og þeirra ríkja sem ekki eru aðildarríki en hafa fastar sendinefndir með áheyrnarrétt við aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna. Fari svo að tvö dómaraefni af sama þjóðerni fái þann meiri hluta atkvæða sem krafist er skal það dómaraefni talið kjörið sem fleiri atkvæði hefur hlotið.
    3. Ef sæti verður laust í deild dómstólsins skal aðalframkvæmdastjórinn, að höfðu samráði við forseta öryggisráðsins og allsherjarþingsins, tilnefna mann sem fullnægir hæfisskilyrðum 1. mgr. til loka þess kjörtímabils sem um er að ræða.
    4. Dómarar skulu kosnir til fjögurra ára. Starfskjör þeirra skulu vera hin sömu og dómara Alþjóðadómstólsins. Þá má endurkjósa.
    

14. gr.

Embættismenn deilda og dómarar.


    1. Dómarar alþjóðadómstólsins kjósa forseta dómstólsins.
    2. Forseti alþjóðadómstólsins skal eiga sæti í áfrýjunardeild og vera í forsæti er deildin fer með mál.
    3. Forseti skal að höfðu samráði við dómara alþjóðadómstólsins úthluta dómurunum sæti í áfrýjunardeild hans og sakamáladeildum. Dómari skal aðeins gegna störfum í þeirri deild þar sem honum var úthlutað sæti.
    4. Dómarar hvorrar sakamáladeildar skulu kjósa sér formann og skal hann stýra málsmeðferð deildarinnar í heild.
    

15. gr.

Réttarfars- og sönnunarreglur.


    Dómarar alþjóðadómstólsins skulu setja réttarfars- og sönnunarreglur er gildi um undirbúning máls fyrir málsmeðferð, málsmeðferð og áfrýjun, um sönnunarfærslu, um vernd brotaþola og vitna og önnur atriði eftir því sem við á.
    

16. gr.

Saksóknarinn.


    1. Saksóknarinn skal bera ábyrgð á rannsókn mála og saksókn gegn þeim sem ábyrgir eru taldir fyrir alvarleg brot gegn alþjóðlegum mannúðarlögum á landsvæði fyrrum Júgóslavíu frá og með 1. janúar 1991.
    2. Saksóknarinn skal starfa óháður öðrum sem sérstök stofnun alþjóðadómstólsins. Hann skal ekki sækjast eftir né taka við fyrirmælum frá neinni ríkisstjórn eða öðrum.
    3. Embætti saksóknarans skal skipuð saksóknara og öðrum hæfum starfsmönnum eins og þörf kann að vera á.
    4. Saksóknarinn skal skipaður af öryggisráðinu samkvæmt tilnefningu aðalframkvæmdastjóra. Hann skal verður fyllsta siðferðilegs trausts og hafa til að bera fyllstu hæfni og reynslu að því er snertir rannsókn og saksókn í sakamálum. Starfstímabil saksóknarans skal vera fjögur ár og má endurskipa hann. Starfskjör saksóknara skulu vera hin sömu og starfskjör varaframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.
    5. Starfslið á skrifstofu saksóknarans skal skipað af aðalframkvæmdastjóra að fengnum tillögum saksóknarans.
    

17. gr.

Skrifstofan.


    1. Skrifstofan skal annast rekstur og skrifstofuhald alþjóðadómstólsins.
    2. Skrifstofan skal skipuð skrifstofustjóra og öðrum starfsmönnum eins og þörf kann að vera á.
    3. Skrifstofustjórinn skal skipaður af aðalframkvæmdastjóranum að höfðu samráði við forseta alþjóðadómstólsins. Starfstímabil hans skal vera fjögur ár og má endurskipa hann. Starfskjör skrifstofustjóra skulu vera hin sömu og starfskjör aðstoðarframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.
    4. Starfslið skrifstofunnar skal skipað af aðalframkvæmdastjóranum að fengnum tillögum skrifstofustjórans.
    

18. gr.

Rannsókn og undirbúningur ákæru.


    1. Saksóknarinn skal hefjast handa um rannsókn af sjálfsdáðum eða á grundvelli hverra þeirra upplýsinga sem honum kunna að hafa borist, einkum frá ríkisstjórnum, stofnunum Sameinuðu þjóðanna, alþjóðastofnununum og stofnunum einkaaðila. Skal saksóknarinn meta þær upplýsingar sem mótteknar hafa verið eða fengist hafa og ákvarða hvort nægilegur grundvöllur er fyrir hendi til frekari meðferðar máls.
    2. Saksóknarinn skal bær til að yfirheyra grunaða, brotaþola og vitni, til að afla sönnunargagna og til að framkvæma rannsókn á vettvangi. Við störf þessi getur hann, svo sem við á, leitað aðstoðar yfirvalda í því ríki sem um er að ræða.
    3. Ef grunaður maður er yfirheyrður skal hann eiga rétt á aðstoð réttargæslumanns að eigin vali og felst í því að hann á ávallt rétt á að sér sé fengin endurgjaldslaus lögfræðileg aðstoð ef hann hefur ekki nægileg fjárráð til að greiða fyrir hana og rétt á þýðingu eftir þörfum úr og á tungumál sem hann talar og skilur.
    4. Ef það sem fram er komið er talið nægilegt til sakfellis skal saksóknarinn semja ákæru þar sem málsatvikum er lýst á gagnorðan hátt, svo og broti því eða brotum sem kærða eru gefin að sök samkvæmt samþykktum dómstólsins. Ákæran skal send dómara í sakamáladeild.
    

19. gr.

Athugun á ákærunni.


    1. Ákæran skal tekin til athugunar hjá dómara þeim í sakamáladeild sem hún hefur verið send til. Ef hann telur saksóknara hafa sýnt fram á að það sem fram er komið sé nægilegt til sakfellis skal hann staðfesta ákæruna. Ef hann telur svo ekki vera skal vísa ákærunni frá.
    2. Er ákæra hefur verið staðfest getur dómarinn að kröfu saksóknarans gefið út fyrirmæli og úrskurði um handtöku, gæslu, afhendingu eða flutning á mönnum, svo og hver þau fyrirmæli önnur sem þörf er á í þágu meðferðar málsins.
    

20. gr.

Upphaf og meðferð máls.


    1. Sakamáladeild dómsins skal tryggja að málsmeðferð sé sannngjörn, að henni sé haldið áfram með hæfilegum hraða og að réttarhöld fari fram í samræmi við réttarfars- og sönnunarreglur þannig að réttindi sakbornings séu virt til fulls og að brotaþolar og vitni njóti verndar.
    2. Er ákæra gegn manni hefur verið staðfest skal taka hann í gæslu samkvæmt fyrirmælum eða handtökuskipun alþjóðadómstólsins, gera honum þegar grein fyrir sakargiftum og færa hann fyrir alþjóðadómstólinn.
    3. Sakamáladeildin skal lesa upp ákæruna, ganga úr skugga um að réttinda sakbornings sé gætt, ganga úr skugga um að ákærði skilji ákæruna og beina því til hans að tjá sig um sakarefnið. Skal sakamáladeildin síðan ákveða dag til málsmeðferðar.
    4. Réttarhöld skulu haldin í heyranda hljóði nema sakamáladeildin ákveði í samræmi við réttarfars- og sönnunarreglur sínar að þau skuli haldin fyrir luktum dyrum.

21. gr.


Réttindi sakbornings.


    1. Allir menn skulu vera jafnir fyrir alþjóðadómstólnum.
    2. Við úrlausn um sakargiftir skal ákærði njóta réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar, sbr. þó 22. gr. samþykktanna.
    3. Ákærði skal talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð samkvæmt ákvæðum samþykkta þessara.
    4. Við úrlausn um sakargiftir samkvæmt samþykktum þessum skal ákærði ávallt njóta eftirtalinna lágmarksréttinda er tryggð skulu öllum jafnt:
    að fá tafarlaust vitneskju í einstökum atriðum um eðli og orsök sakargifta gegn sér, á tungumáli sem hann skilur,
    að fá nægilegan tíma og aðstöðu til að undirbúa vörn sína og að ráðfæra sig við ráðgjafa að eigin vali,
    að mál hans sé rekið án ástæðulauss dráttar,
    að vera viðstaddur réttarhöld í máli sínu og verja sig sjálfur eða velja sér verjanda, að honum sé skýrt frá þessum rétti ef hann nýtur ekki lögfræðilegrar aðstoðar og að honum sé ávallt fengin endurgjaldslaus lögfræðileg aðstoð ef réttlát málsmeðferð krefst þess og hann hefur ekki nægileg fjárráð til að greiða fyrir hana,
    að spyrja eða láta spyrja þau vitni sem vætti bera gegn honum og að fá vitni sem bera honum í hag leidd fyrir réttinn og yfirheyrð við sömu aðstæður og vitni sem bera gegn honum,
    að fá aðstoð túlks sér að kostnaðarlausu ef hann skilur ekki eða talar ekki það tungumál sem notað er við alþjóðadómstólinn,
    að vera ekki neyddur til að bera gegn sjálfum sér eða játa sig sekan.
    

22. gr.

Vernd brotaþola og vitna.


    Alþjóðadómstóllinn skal í réttarfars- og sönnunarreglum sínum kveða á um vernd brotaþola og vitna. Meðal slíkra verndarákvæða, en ekki einskorðuð við þau, skulu vera ákvæði um réttarhöld fyrir luktum dyrum og um nafnleynd brotaþola.
    

23. gr.

Dómur.


    1. Sakamáladeildirnar skulu kveða upp dóma og ákvarða þeim refsingu sem framið hafa alvarleg brot gegn alþjóðlegum mannúðarlögum.
    2. Meiri hluti dómara í sakamáladeild skal ráða niðurstöðu dóms og skal dómurinn kveðinn upp af deildinni í heyranda hljóði. Hann skal vera rökstuddur skriflega og má sératkvæði eða andstætt álit fylgja.
    

24. gr.

Viðurlög.


    1. Refsing sem sakamáladeild dæmir skal einskorðuð við fangelsi. Við ákvörðun á tímalengd fangelsisvistar skal deildin miða við venjubundna tímalengd fangelsisrefsinga sem dæmdar voru af dómstólum í fyrrum Júgóslavíu.
    2. Við ákvörðun refsingar ber sakamáladeildinni að taka tillit til atriða á borð við grófleika afbrots og persónulegar aðstæður dómfellda.
    3. Auk fangelsisrefsingar geta sakamáladeildirnar ákveðið að eignum sem fengnar hafa verið með afbroti, þar á meðal með þvingunum, sé skilað til réttra eigenda, svo og hagnaði sem þannig hefur verið aflað.

25. gr.

Áfrýjunarmeðferð.


    1. Áfrýjunardeildin skal taka til meðferðar áfrýjanir frá þeim sem sakfelldir hafa verið í sakamáladeildunum eða frá saksóknaranum ef eftirfarandi er haldið fram:
     a. að röng beiting laga eigi að varða ómerkingu dóms,
     b. að rangt mat á málsatvikum hafi leitt til óréttlátrar niðurstöðu.
    2. Áfrýjunardeildin getur staðfest, fellt úr gildi ákvarðanir sakamáladeildanna eða breytt þeim.
    

26. gr.

Endurupptaka.


    Komi í ljós atvik sem ekki var kunnugt um þegar mál var rekið í sakamáladeild eða áfrýjunardeild en kynnu að hafa haft úrslitaáhrif á dómsniðurstöðu getur dómfelldi eða saksóknarinn lagt fyrir alþjóðadómstólinn beiðni um endurupptöku málsins.
    

27. gr.

Fullnusta dóms.


    Fangelsisrefsing skal afplánuð í ríki sem alþjóðadómstóllinn tilnefnir af skrá yfir ríki sem tilkynnt hafa öryggisráðinu að þau séu fús til að taka við dómfelldum mönnum. Fullnusta fangelsisrefsingar skal fara fram í samræmi við lög viðkomandi ríkis undir eftirliti alþjóðadómstólsins.
    

28. gr.

Náðun og önnur eftirgjöf refsingar.


    Eigi dómfelldi samkvæmt lögum þess ríkis, þar sem hann afplánar dóm sinn, kost á náðun eða eftirgjöf refsingar skal viðkomandi ríki tilkynna það alþjóðadómstólnum. Skal forseti alþjóðadómstólsins taka ákvörðun í málinu í samráði við dómarana á grundvelli þess sem rétt þykir og í samræmi við meginreglur laga.
    

29. gr.

Samvinna og dómsmálaaðstoð.


    1. Ríki skulu veita alþjóðadómstólnum aðstoð við rannsókn og saksókn á hendur þeim sem sakaðir eru um alvarleg brot gegn alþjóðlegum mannúðarlögum.
    2. Ríki skulu án ástæðulauss dráttar sinna sérhverri beiðni um aðstoð eða úrskurði sakamáladeildar, svo sem, en ekki takmarkað við:
     a. um að finna menn eða dvalarstað þeirra,
     b. um skýrslutöku af vitnum og öflun sönnunargagna,
     c. um birtingu skjala,
     d. um handtöku og gæslu,
     e. um afhendingu eða flutning á sökuðum manni til alþjóðadómstólsins.
    

30. gr.

Réttarstaða, réttindi og friðhelgi alþjóðadómstólsins.


    1. Alþjóðasamningur um réttindi Sameinuðu þjóðanna frá 13. febrúar 1946 skal gilda um alþjóðadómstólinn, dómara hans, saksóknara og starfslið hans, svo og skrifstofustjóra og starfslið hans.
    2. Dómarar, saksóknari og skrifstofustjóri skulu njóta þeirra réttinda, friðhelgi, undanþágna og aðstöðu sem veitt er sendierindrekum að þjóðarétti.
    3. Starfslið saksóknarans og skrifstofustjórans skal njóta þeirra réttinda og friðhelgi sem embættismenn Sameinuðu þjóðanna njóta skv. V. og VII. gr. samnings þess sem vísað er til í 1. mgr. þessarar greinar.
    4. Þeim sem viðstaddir þurfa að vera við aðsetur alþjóðadómstólsins, þar á meðal sakborningar, skal veita þá meðferð sem þörf er á vegna starfa alþjóðadómstólsins.
    

31. gr.

Aðsetur alþjóðadómstólsins.


    Aðsetur alþjóðadómstólsins skal vera í Haag.
    

32. gr.

Kostnaður vegna alþjóðadómstólsins.


    Kostnaður vegna alþjóðadómstólsins skal borinn af Sameinuðu þjóðunum samkvæmt fjárhagsáætlun þeirra eins og gert er ráð fyrir í 17. gr. sáttmála hinna Sameinuðu þjóða.
    

33. gr.

Tungumál.


    Tungumál við alþjóðadómstólinn skulu vera enska og franska.
    

34. gr.

Ársskýrsla.


    Forseti alþjóðadómstólsins skal leggja ársskýrslu alþjóðadómstólsins fyrir öryggisráðið og allsherjarþingið.Fylgiskjal III.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um réttaraðstoð við


alþjóðadómstólinn sem fjallar um stríðsglæpi í fyrrum Júgóslavíu.


    Með frumvarpinu er íslenskum stjórnvöldum aflað nauðsynlegra heimilda til að geta fullnægt skyldum sínum samkvæmt beiðnum alþjóðadómstólsins sem fjallar um stríðsglæpi í fyrrum Júgóslavíu, ef til kemur, um réttaraðstoð, framsal o.fl.
    Ekki verður séð að frumvarpið feli í sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.