Ferill 260. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 260 . mál.


914. Nefndarálit



um frv. til l. um afnám laga nr. 39 15. maí 1990, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins.

Frá minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Sjávarútvegsráðherra skipaði 31. október 1991 nefnd til að endurskoða lög um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Hlutverk nefndarinnar var að meta hvort verðjöfnun sé raunhæf leið til að draga úr sveiflum í afkomu sjávarútvegsins og áhrifum þeirra á þjóðarbúið. Nefndinni var jafnframt falið að taka afstöðu til þess hvort hægt væri að ná markmiðum verðjöfnunar eftir öðrum leiðum.
    Nefndarálitið er birt með frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar og má segja að öll umfjöllun nefndarinnar styðji þá skoðun að starfsemi Verðjöfnunarsjóðs sé nauðsynleg bæði út frá þjóðhagslegum og hagrænum markmiðum og ekki síst til að tryggja hag sjávarútvegsins til lengri framtíðar og eðlilega sambúð hans við aðrar atvinnugreinar í landinu. Segja má að niðurstöður nefndarinnar séu í engu samræmi við þá greinargerð sem þær byggja á. M.a. segir í niðurstöðum: „Þegar á allt þetta er litið virðist nefndinni sem áframhaldandi starfsemi Verðjöfnunarsjóðs orki mjög tvímælis. Reynslan sýnir að ekki er unnt að reikna með að um hana geti skapast samstaða.“ Síðar segir: „Skilyrði fyrir að taka hana upp að nýju virðast ekki vera fyrir hendi. Eðlilegt sýnist því að lögin um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins verði felld úr gildi. Í stað þeirra væri æskilegt að beita öðrum úrræðum til sveiflujöfnunar.“ Ekki er að sjá að nefndin sé alveg viss í sinni sök í þessum niðurstöðum, enda eðlilegt miðað við það sem á undan er gengið.
    Þegar kemur að áliti nefndarinnar er hún ekki lengur í vafa því að þá segir m.a.: „Álítur nefndin að raunhæf skilyrði fyrir því að Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins starfi áfram séu ekki lengur fyrir hendi.“ Þarna eru ekki lengur notuð orðin „orki tvímælis“ eða „virðist“ heldur hefur nefndin komist að ákveðinni niðurstöðu þótt öll rök, sem á undan eru gengin, hnígi í aðra átt nema andstaða gegn Verðjöfnunarsjóðnum meðal hagsmunaaðila í sjávarútvegi sem virðist hafa ráðið endanlegri niðurstöðu þrátt fyrir öll önnur rök.
    Nefndinni var falið að taka afstöðu til þess hvort hægt væri að ná markmiðum Verðjöfnunarsjóðsins eftir öðrum leiðum. Í áliti nefndarinnar leggur hún til að „hafin verði athugun á því með hvaða hætti megi bæta skilyrði fyrirtækja til að bæta virkri sveiflujöfnun á vettvangi fyrirtækjanna sjálfra“. Áður hafði nefndin fjallað um sveiflujöfnun á vegum fyrirtækja og afkomujöfnun í stað verðjöfnunar. Þar eru raktir kostir og gallar slíkra aðferða og verður ekki séð á starfi nefndarinnar að hún hafi komist að þeirri niðurstöðu að slík úrræði séu fær. Því er full ástæða til að gagnrýna það nefndarstarf sem fram hefur farið og ber að harma að ekkert samráð hefur verið haft við stofnanir eins og Seðlabankann og Þjóðhagsstofnun og ekki leitað álits aðila vinnumarkaðarins. Bæði sjávarútvegsráðherra og þeir sem störfuðu að undirbúningi þessa frumvarps virðast hafa litið svo á að hér væri um mál að ræða sem eingöngu bæri að ræða við hagsmunaaðila í sjávarútvegi.
    Við umfjöllun málsins í sjávarútvegsnefnd Alþingis var leitað umsagnar fjölmargra aðila. Í umsögn Þjóðhagsstofnunar kemur fram að óskynsamlegt sé að afnema lög um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins fyrr en gerðar hafa verið aðrar ráðstafanir sem þjónað gætu þeim tilgangi að jafna sveiflur í þjóðarbúskapnum.
    Í áliti Seðlabankans kemur fram að bankastjórn bankans hafði samhliða stefnumótun um gengisfestu síðustu ára og gengisákvörðun á gjaldeyrismarkaðnum frá miðju síðasta ári tekið skýra afstöðu með þjóðhagslegu gildi verðjöfnunar. Seðlabankinn mælir með áframhaldandi verðjöfnun í sjávarútvegi og leggur til að frumvarpið verði dregið til baka og sérfræðingum og hagsmunaaðilum falið að semja tillögur til úrbóta í kerfinu.
    Samtök iðnaðarins telja frumvarpið vera ótímabært þar sem ekki liggi fyrir hvað eigi að taka við af Verðjöfnunarsjóði þegar og ef hann verður lagður niður. Fram kemur í umsögn þeirra að gera megi ráð fyrir að aukinn kraftur færist í umræðuna um að tengja upptöku gjalds fyrir veiðiheimildir við sveiflujöfnun í hagkerfinu verði Verðjöfnunarsjóður lagður niður.
    VSÍ telur frumvarpið vera ótímabært og telur að ekki megi kasta þessu hagstjórnartæki á glæ öðruvísi en að annað jafngilt eða betra verði tekið upp í staðinn.
    VMSÍ rekur í umsögn sinni nauðsyn þess að til staðar sé kerfi sem jafnar sveiflur í sjávarútvegi.
    ASÍ telur að leggja verði höfuðáherslu á að efla aðra útflutningsstarfsemi ef okkur á að takast að treysta og auka það velferðarstig sem við búum við. Ef það á að takast verður einfaldlega að jafna afkomu í sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti. ASÍ leggur til að Alþingi fresti ákvörðun um framtíð Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins um sinn eða þangað til ljóst er hvers konar sveiflujöfnunarkerfi eigi að taka við og þegar í stað verði teknar upp viðræður um mótun slíks kerfis. Ýmsir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi leggja til að sjóðurinn verði lagður niður, en í umsögn margra kemur fram að nauðsynlegt sé að taka upp sveiflujöfnunarkerfi á vettvangi fyrirtækjanna sjálfra. Í umfjöllun þeirra og annarra er ekki bent á leiðir hvernig slíkt skuli gert og á hvaða hátt það getur samrýmst jafnræði í atvinnurekstri á Íslandi.
    Þrátt fyrir öll þessi aðvörunarorð, sem koma skýrt fram í þeim umsögnum sem fylgja með nefndarálitinu, ætlar ríkisstjórnin að leggja þetta mikilvæga hagstjórnartæki niður. Jafnvægi í þjóðarbúskapnum og lítil verðbólga eru almennt talin mikilvægustu skilyrði þess að hagvöxtur geti vaxið á nýjan leik. Uppgangur í sjávarútvegi getur orðið til þess að verðbólga vaxi á nýjan leik og rekstrarskilyrði annarra atvinnugreina versni til muna eins og oft hefur gerst á undanförnum áratugum. Ríkisstjórnin virðist litlar áhyggjur hafa af þessum málum og þeim alvarlegu afleiðingum sem niðurfelling Verðjöfnunarsjóðs getur haft. Hér hljóta að búa að baki fyrirætlanir um upptöku auðlindaskatts til sveiflujöfnunar. Sjávarútvegsráðherra neitar því að það sé í undirbúningi en iðnaðarráðherra hefur opinberlega talið nauðsynlegt að auðlindaskattur verði tekinn upp nú þegar ekki síst til að jafna sveiflur í sjávarútvegi.
    Undirritaðir nefndarmenn eru andvígir því að leggja niður Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins og skapa þar með verulega óvissu í efnahagsþróun á Íslandi. Einstakir nefndarmenn munu gera ítarlega grein fyrir skoðunum sínum við umfjöllun um málið og vísa m.a. til þeirra álita sem sjávarútvegsnefnd barst í tengslum við umrætt frumvarp.
    Anna Ólafsdóttir Björnsson, sem situr fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi, er samþykk nefndarálitinu.

Alþingi, 5. apríl 1994.



Halldór Ásgrímsson,

Steingrímur J. Sigfússon.

Jóhann Ársælsson.


frsm.



Stefán Guðmundsson.





Fylgiskjal I.


Umsögn Seðlabanka Íslands, hagfræðideildar:


Framtíð verðjöfnunar í sjávarútvegi.


(4. mars 1994.)



(Repró, 4 síður.)





Fylgiskjal II.

Umsögn Þjóðhagsstofnunar.


(22. febrúar 1994.)



    Þjóðhagsstofnun telur óskynsamlegt að afnema lög um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegs fyrr en gerðar hafa verið aðrar ráðstafanir sem þjónað gætu þeim tilgangi að jafna sveiflur í þjóðarbúskapnum. Að baki þessu sjónarmiði liggja meðal annars eftirtaldar ástæður:
—    Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins er hagstjórnartæki sem stuðlar að því að draga úr sveiflum í þjóðarbúskapnum. Ekki er umdeilt að sjóðurinn gegndi þessu hlutverki í síðustu uppsveiflu afurðaverðs á árunum 1990 og 1991. Ekki er heldur umdeilt að sveiflujöfnun í sjávarútvegi er æskileg við íslenskar aðstæður frá sjónarmiði hagstjórnar.
—    Ef Verðjöfnunarsjóður verður lagður niður án þess að nokkuð komi í staðinn, eins og umrætt frumvarp gerir ráð fyrir, verður að beita öðrum hagstjórnartækjum (gengi, vöxtum og sköttum) meira í því skyni að jafna sveiflur í þjóðarbúskapnum. Þetta hefur óþægilegar hliðarverkanir fyrir aðrar atvinnugreinar og fyrir vikið verður hagvöxtur líklega hægari en án sveiflujöfnunar í sjávarútvegi. Jafnframt verður ekki séð að sjávarútvegur bíði tjón af sérstakri sveiflujöfnun innan greinarinnar. Þvert á móti má færa rök fyrir því að slík tilhögun geti styrkt greinina þegar til lengri tíma er horft.
—    Eitt af mikilvægari viðfangsefnum á sviði efnahagsmála er að búa þannig um hnútana að næsta uppsveifla í sjávarútvegi, hvort sem hún verður fyrr eða síðar, leiði ekki til ójafnvægis í þjóðarbúskapnum eða skerði hagvaxtarmöguleika til lengri tíma litið. Verðjöfnunarsjóður er að sjálfsögðu ekki eina leiðin að þessu markmiði heldur koma ýmsar fleiri leiðir til greina. Ástæðulaust er hins vegar að gefa Verðjöfnunarsjóðinn upp á bátinn fyrr en ráðstafanir í þessu skyni hafa verið gerðar.
    Í þessu ljósi telur Þjóðhagsstofnun ótímabært að afnema lögin um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Á hinn bóginn er mælt með því að skoðað verði gaumgæfilega hvaða leiða til sveiflujöfnunar er hagkvæmust frá sjónarmiði jafnvægis í þjóðarbúskapnum og skilyrða til hagvaxtar.
    Segja má að öll hagstjórn miði að því að taka peninga úr umferð þegar ofþensla ríkir en auka peninga í umferð þegar samdráttar gætir. Þegar ofþensla ríkir er gripið til þess ráðs að hækka vexti, hækka bindiskyldu og lausafjárkvöð lánastofnana, hækka gengi krónunnar, hækka skatta og draga úr útgjöldum hins opinbera. Allt eru þetta aðgerðir sem draga peninga úr umferð innan lands og sporna við ofþenslu. Þegar samdráttar gætir er gagnstæðum aðgerðum beitt.
    Almennt er talið að við hagstjórn eigi að beita sem almennustum aðgerðum en ekki sértækum aðgerðum sem beinast að ákveðnum atvinnugreinum eða hlutum hagkerfisins. Vaxtabreytingar og gengisbreytingar eru dæmi um slíkar aðgerðir. Rökin fyrir Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins byggjast hins vegar bæði á ráðandi stöðu greinarinnar í þjóðarbúskapnum og sveiflukenndum skilyrðum hennar. Staðreyndin er einfaldlega sú að sveiflur í íslenskum þjóðarbúskap eiga oftast upphaf sitt í breytingum á verðlagi sjávarafurða eða aflabreytingum. Með því að grípa til aðgerða, sem miða að sveiflujöfnun í sjávarútveginum, er hægt að ráðast að rótum vandans og draga úr óhagstæðum áhrifum þeirra á aðra hluta hagkerfisins. Sem dæmi má nefna að ef gripið er til gengishækkunar til að bregðast við ofþenslu vegna verðhækkana á sjávarafurðum leiddi sú aðgerð til versnandi afkomu í öðrum útflutningsgreinum og hjá þeim greinum sem framleiða fyrir innanlandsmarkað í samkeppni við innfluttar vörur.
    Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins hamlaði gegn ofþenslu á árinu 1991 þegar miklar verðhækkanir urðu á botnfiskafurðum. Þetta er ekki ágreiningsefni meðal þeirra sem til þekkja og kemur einnig fram í greinargerð með frumvarpinu um afnám sjóðsins. Ekki er þar með sagt að öll verðjöfnun, sem framkvæmd hefur verið frá árinu 1968 þegar Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins tók til starfa, hafi verið af hinu góða. Það virðist þó vera álit flestra að skilvirk verðjöfnun í sjávarútvegi sé möguleg. Gagnrýnin á gamla sjóðinn beindist helst að því að áhrif stjórnvalda og hagsmunaaðila á verðjöfnunina hafi verið of mikil. Fyrir vikið hafi hagstjórnarsjónarmið oft vikið fyrir skammtímasjónarmiðum. Þá var gagnrýnt að sjóðurinn mismunaði aðilum sem voru í samkeppni um hráefni og jafnframt færði sjóðurinn fjármuni milli fyrirtækja.
    Þegar Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins tók við af Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins árið 1990 var leitast við að bæta úr þessum ágöllum. Dregið var úr áhrifum hagsmunaaðila og stjórnvalda, mismunun milli fyrirtækja var afnumin og leitast var við að tengja alla starfsemi Verðjöfnunarsjóðsins við hlutaðeigandi fyrirtæki með því að binda allar útgreiðslur úr sjóðnum við inngreiðslur þess sama fyrirtækis. Á þann hátt var verðjöfnunin færð nær fyrirtækjunum sjálfum. Þá er þess að geta að skattalegt hagræði felst í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins þar sem inngreiðslur eiga sér að jafnaði stað þegar vel gengur en útgreiðslur falla til þegar illa gengur. Í þessu felst skattalækkun þegar yfir nokkur tímabil er litið.
    Af þeim ástæðum, sem hér hafa verið raktar, telur Þjóðhagsstofnun nauðsynlegt að hafa hagstjórnartæki sem getur mildað áhrif sveiflna í sjávarútvegi á íslenskan þjóðarbúskap. Þessar sveiflur eru það stórar að erfitt er að jafna þær með almennum aðgerðum, auk þess sem slík sveiflujöfnun er óþægileg fyrir aðrar atvinnugreinar. Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins er tæki sem nota má með góðum árangri í þessu skyni. Það væri óskynsamlegt að varpa fyrir róða þessu tæki án þess að hafa til staðar önnur hagstjórnartæki sem leyst gætu af hendi hlutverk Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins.
    Ekki er að efa að unnt er að gera Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins skilvirkari. Einnig er ástæða til að kanna hvort ná má betri árangri eftir öðrum leiðum. Hins vegar bendir Þjóðhagsstofnun á að sú gagnrýni á ekki rétt á sér sem heyrst hefur að þar sem Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins taki ekki tillit til sveiflna í afla geti hann ekki gegnt hlutverki sínu sem sveiflujöfnunartæki. Þetta er auðvitað ekki rétt. Einfalt tæki, sem dregur úr stærstu sveiflum, getur tvímælalaust gert gagn þótt það leysi að sjálfsögðu ekki allan vanda.


Fylgiskjal III.

Umsögn Vinnumálasambands samvinnufélaganna.


(16. febrúar 1994.)



    Þessi umsögn er í framhaldi af ummælum á fundi sjávarútvegsnefndar nú í morgun þar sem fram kom það álit mitt að fullreynt væri eftir aldarfjórðungs reynslu að verðjöfnun á vegum sjávarútvegsins sjálfs hefði runnið sitt skeið og ekki þýddi að reyna að nýju á þeim vettvangi. Jafnframt kom fram að vegna hinna miklu sveiflna á verði sjávarafurða væri verðjöfnun nauðsynleg, ekki einasta fyrir sjávarútveginn, heldur fyrir atvinnulífið í heild og alla efnahagsstarfsemi, það er að segja ef við eigum í framtíðinni að búa við þann efnahagslega stöðugleika sem er nauðsynlegur til þess að renna traustum stoðum undir atvinnulífið til frambúðar.
    Hér verður varpað fram þeim möguleika að stofnaður verði verðjöfnunarsjóður sem byggi á sömu lögmálum og þeir sjóðir sem starfað hafa hvor á eftir öðrum frá árinu 1968. Að sjálfsögðu yrði að sníða ýmsa agnúa af, t.d. að ekki gengur að eyrnamerkja einstökum framleiðendum það fé sem er lagt í sjóðinn og ekki má heldur blanda öðru en verði inn í starfsemina, en það hefur reyndar ekki verið gert síðustu árin. Aðalatriðið er að reglur sjóðsins séu einfaldar og skýrar, eins og raunar hefur verið að undanförnu, þannig að ákvarðanir um framkvæmd byggist nánast á hreinum útreikningum með tilliti til verðbreytinga á hverjum tíma. Ekki er útilokað að sjávarútvegurinn eigi aðild að stjórn sjóðsins til þess að tryggja að rétt verði staðið að tæknilegri útfærslu á verðjöfnuninni. Hins vegar er það höfuðatriði að meiri hluti stjórnar sé í höndum annarra, t.d. annarra greina atvinnulífsins og þó fyrst og fremst opinberra stofnana, Þjóðhagsstofnunar/Seðlabanka. Með öðrum orðum, verðjöfnun yrði ekki stjórnað af aðilum í sjávarútvegi, hún yrði fyrst og fremst almennt hagstjórnartæki.
    Hér verður einnig velt upp öðrum möguleika. Íslensk fiskimið hafa verið auðug og við höfum náð góðu valdi á fiskvinnslu þannig að á því sviði höfum við verið í fremstu röð. Jafnframt því að þetta hefur að undanförnu fært þjóðinni í heild góð lífskjör, betri en tíðkast hjá þeim þjóðum sem aðallega byggja á matvælaframleiðslu, hefur þetta orðið til þess að aðrar atvinnugreinar hafa átt örðugt uppdráttar við hliðina á sjávarútvegi. Sérstaklega hefur uppsveifla í sjávarútvegi oft valdið öðrum atvinnugreinum þungum búsifjum þar sem slíkri uppsveiflu hefur jafnan verið dreift um þjóðfélagið, ýmist með allsherjarlaunahækkunum eða með því að skrá gengið hærra en eðlilegt hefur verið út frá hagsmunum annarra atvinnugreina.
    Það má vera að orðið sé tímabært að ræða hvort ekki sé ástæða til þess að taka þetta til alvarlegrar umræðu. Íslenskur sjávarútvegur nýtur ekki styrkja í þeim mæli sem algengast er í kringum okkur. Út frá því sjónarmiði má því teljast fráleitt að íslenskur sjávarútvegur eigi líka að greiða sérstakan skatt sem sjávarútvegur annars staðar þarf að jafnaði ekki að greiða. Hins vegar er hægt að leggja slíkan skatt á þannig að hagur sjávarútvegsins sjálfs verði ekki verri en áður. Það gæti gerst með því að skrá gengið lægra en annars hefði þurft. Hér verður því varpað fram að vel megi skoða hvort ekki megi koma á verðjöfnun í sjávarútvegi sem hefði þann tvíþætta tilgang að halda stöðugleika í efnahagslífinu og jafnframt að auðvelda uppbyggingu og viðhald annarra atvinnugreina í landinu í samkeppni við sjávarútveginn.
    Það gæti þá gerst á þann hátt að tiltölulega lágt verð á sjávarafurðum, t.d. núgildandi verð, yrði gert að viðmiðunarverði og ákveðinn hluti hækkunar frá því verði félli til ríkissjóðs. Þetta væri sem sagt skattheimta til ríkissjóðs. Jafnframt yrði að setja reglur um hvernig ríkisvaldið mætti verja því fé sem þannig safnast. Þær reglur yrðu að miðast við að fjármagninu væri safnað í uppsveiflu og ekki notað nema í niðursveiflu.
    Eins og áður sagði yrði þetta til þess að auðveldara yrði að byggja upp aðra atvinnustarfsemi eins og að keppa á jafnræðisgrundvelli við láglaunaþjóðir um margs konar framleiðslu. Áður en út í þetta væri farið yrði því að taka mikilvægar ákvarðanir um stöðu landsins og atvinnuvega þess. Í fyrsta lagi þarf að gera sér raunhæfa grein fyrir því hvort líklegt sé að þorskstofninn nái sér upp aftur og yfirburðir sjávarútvegsins verði þeir sömu hér eftir sem hingað til. Í öðru lagi þarf að ganga úr skugga um að við höfum enga möguleika á að byggja upp framleiðslugreinar sem geti keppt við sjávarútveginn á jafnréttisgrundvelli. Ekki alls fyrir löngu var uppi sú skoðun að við ættum að snúa okkur að hátækniiðnaði og því um líku, en slíkur iðnaður væri líklegastur til þess að standa sjávarútvegi á sporði. Í þriðja lagi, eftir að annar möguleikinn hefði verið útilokaður, kæmi að þeirri ákvörðun að við yrðum að keppa á grundvelli lágra launa.
    Það skal tekið fram að þetta þyrfti ekki að hafa í för með sér verri lífskjör þar sem sérstakur skattur á sjávarútveg yrði til þess að draga úr annarri skattheimtu sem gæti svarað til þeirrar launalækkunar sem kæmi fram í alþjóðlegum samanburði. Þar að auki mundi aukin atvinnustarfsemi bæta lífskjörin. Vissulega væri æskilegra að byggja upp atvinnustarfsemi sem gæti greitt hærri laun.
    Þetta er hins vegar ekki fær leið nema því aðeins að um þetta yrði sátt. Með lægra skráðu gengi yrði allur samanburður við nágrannaþjóðir okkar erfiðari, laun mundu lækka hlutfallslega í slíkum samanburði. Það kynni að leiða til óróa á vinnumarkaði sem gæti raskað því efnahagslega jafnvægi sem verðjöfnunin ætti að stuðla að og þeirri uppbyggingu nýrrar atvinnustarfsemi sem að væri stefnt. Þá væri verr af stað farið en heima setið. Það er því ekki fært að fara út í neinar slíkar aðgerðir nema um þær náist almenn samstaða fyrir fram, skilningur á því að hverju væri stefnt og viðurkenning á því að þessa leið vildu menn fara. Ég leyfi mér að efast um að slík samstaða geti náðst. Að öllu samanlögðu virðist því vera vænlegra að fara fyrri leiðina sem hér hefur verið nefnd, taka af sjávarútveginum í uppsveiflu og endurgreiða til hans í niðursveiflu.
    Á undanförnum árum hafa sjávarútvegsmenn oft spurt hvort ekki sé rétt að láta verðjöfnun ná til fleiri atvinnugreina en sjávarútvegs ef menn vilja verðjöfnun á annað borð. Því er til að svara að sveiflurnar eru mestar í sjávarútvegi. Þar að auki er varla ástæða til þess að gera kerfið of flókið. Þó er alls ekki loku fyrir það skotið að fleiri útflutningsgreinar gætu fallið undir verðjöfnun ef athugun leiddi í ljós að einhver þeirra byggi við álíka verðsveiflur og sjávarútvegurinn.
    Þessi umsögn hefur ekki verið borin undir stjórn Vinnumálasambandsins í heild.

F.h. Vinnumálasambands samvinnufélaganna,



Árni Benediktsson, formaður.





Fylgiskjal IV.


Umsögn Vinnuveitendasambands Íslands.


(22. febrúar 1994.)



    Í greinargerð frumvarpsins er því vandlega lýst hversu æskilegt það er að draga úr eða eyða sem mest áhrifum afla- og verðsveiflna í sjávarútvegi á rekstur og afkomu fyrirtækja í sjávarútvegi, ekki einungis vegna fyrirtækjanna í greininni sjálfri heldur einnig vegna annarra atvinnugreina og með tilliti til stöðugleika í efnahagslífinu. Þar er einnig dregin sú ályktun að Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins hafi haft veruleg áhrif í þá átt að draga úr áhrifum uppsveiflu í útflutningsverði árin 1990 og 1991 því að ef hans hefði ekki notið við hefði hráefnisverð og laun, og þar með raungengi, hækkað meira en bæði sjávarútvegurinn og aðrar greinar hefðu risið undir. Vinnuveitendasambandið er fullkomlega sammála þessu mati, sbr. röksemdafærslu í greinargerð framkvæmdastjóra og aðstoðarframkvæmdastjóra VSÍ, dags. 23. apríl 1991, og bendir jafnframt á að fjármunir Verðjöfnunarsjóðs, sem komu til útgreiðslu árið 1992, hefðu með engu öðru móti verið sjávarútvegsfyrirtækjum tiltækir ef sjóðsins hefði ekki notið við. Sjóðurinn sannaði þannig gildi sitt í þágu sjávarútvegsins sem og annarra atvinnugreina.
    Tillaga nefndarinnar um afnám laganna er því ekki niðurstaða af efnislegri umfjöllun um þörf fyrir sveiflujöfnun á borð við þá sem í lögunum felst né reynslunni af starfstíma sjóðsins því að rökræn niðurstaða af þeim hluta greinargerðarinnar hefði verið tillaga um að starfsemi hans væri haldið áfram þótt þörf væri nokkurrar breytingar á starfsreglum. Tillagan um afnám laganna er hins vegar til komin vegna samstöðuleysis um sjóðinn, nánar tiltekið andstöðu allra helstu aðila í sjávarútvegi við lögin, en nefndin gengur út frá því að starfsemi sjóðsins verði ekki fram haldið nema sæmilegur friður ríki um starfsemi hans innan sjávarútvegsins.
    Reynslan af sjóðnum á þeim stutta tíma sem hann starfaði sýndi m.a. að sjávarútvegurinn þoldi ekki að búa við þær aðstæður að einungis væri miðað við afurðaverð en ekkert mið tekið af aflamagni. Þessi aðkoma tók meira mið af þjóðhagslegum markmiðum, sér í lagi gengisstöðugleika, en afkomu sjávarútvegs. Aflasamdráttur og versnandi afkoma af völdum hans leiddi til þess að fyrst voru sett lög um stöðvun innborgana í sjóðinn og síðan útgreiðslur úr honum sem annars hefðu ekki átt sér stað. Þegar lögin um sjóðinn voru sett á sínum tíma gerðu menn sér ekki í hugarlund þann mikla aflasamdrátt sem fram undan var og því voru starfsreglur sjóðsins ekki sniðnar að slíkum aðstæðum. Viðmiðunarreglurnar tóku þannig einungis mið af verði en ekki verðmæti eins og e.t.v. hefði verið eðlilegt.
    Vandinn er á hinn bóginn ekki horfinn þótt þjóðarbúskapurinn sé nú um sinn í mikilli efnahagslægð vegna takmarkaðs þorskafla og litlar horfur séu á stökkbreytingum á næstunni. Eftir stendur það verkefni að ákveða hvernig bregðast eigi við aðstæðum sem allir vona að upp komi innan ekki margra missira. Nú er fullt tilefni til að fram fari vönduð umfjöllun um hvernig bregðast skuli við næstu uppsveiflu í sjávarútvegi því að þegar sá tími kemur að þorskafli eykst á ný gæti verið of seint að hefja umræður um viðbrögð. Þess vegna er ekki tímabært að afnema lögin fyrr en sú umræða hefur farið fram og verið til lykta leidd.
    Frumvarp til laga um afnám laga um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins er því ótímabært. Ef almennur skilningur ríkir á því að þjóðarhagsmunir krefjist þess að uppsveiflu í sjávarútvegi, hvort sem um er að ræða magn eða verð, fylgi ekki keðjuverkandi kostnaðarhækkanir og hækkun raungengis þá ber ekki að kasta þessu hagstjórnartæki á glæ öðruvísi en að annað jafngilt eða betra verði tekið upp í staðinn. Sveiflur í sjávarútvegi eru ekki einkamál sjávarútvegs því að þær hafa áhrif á þjóðfélagið allt vegna yfirburðastöðu hans í gjaldeyrisöfluninni. Raungengishækkun, sem undantekningarlaust hefur fylgt uppsveiflu í sjávarútvegi, lætur ekkert fyrirtæki ósnortið og veruleg raungengishækkun mundi kæfa í fæðingu þá fáu vaxtarbrodda sem fyrirfinnast í efnahagslífinu.
    Í ljósi þess sem að framan er rakið er æskilegt að fresta afnámi laga um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Í því felst ekki að verið sé að mæla með óbreyttri starfsemi sjóðsins því að mikilvægt er að sæmileg sátt náist um hagstjórnaraðferðir sem til þess séu fallnar að takmarka raungengishækkun í næstu uppsveiflu þótt vandséð sé hvaða aðrar leiðir tryggi hagsmuni sjávarútvegsins betur.

Virðingarfyllst,



Hannes G. Sigurðsson.




Fylgiskjal V.


Umsögn samtaka iðnaðarins.


(18. febrúar 1994.)



    Með vísan til sambúðarvanda iðnaðar og sjávarútvegs í gegnum tíðina, sem lýsir sér helst í því að þróun raungengis hefur verið látin haldast í hendur við afkomu í sjávarútvegi og valdið þannig miklum sviptingum í starfsskilyrðum iðnaðar, er ljóst að sveiflujöfnun er afar þýðingarmikil fyrir atvinnurekstur á Íslandi.
    Samtök iðnaðarins líta svo á að stöðugleiki hljóti að verða höfuðmarkmið hagstjórnar á næstunni. Það er ekki hægt að búast við að fjölbreytt atvinnulíf vaxi og dafni á Íslandi ef samkeppnisstaða og starfsskilyrði eru stöðugum breytingum undirorpin, allt eftir því hvernig árar í sjávarútvegi.
    Iðnaðurinn þolir ekki þá raungengishækkun sem hlýtur að fylgja ef ekkert verður að gert þegar fer að rofa til í sjávarútvegi. Það eru ekki boðleg starfsskilyrði að lúta slíkum utanaðkomandi og óþörfum sviptingum í samkeppnisstöðu og fá ekkert við því gert. Það er á ábyrgð stjórnvalda að sjá til þess að hér ríki viðunandi starfsskilyrði og góð samkeppnisstaða fyrir allan atvinnurekstur.
    Raungengishækkun yrði ekki aðeins slæm fyrir útflutnings- og samkeppnisgreinar heldur einnig viðskiptajöfnuð og skuldastöðu. Í gegnum tíðina hefur hátt gengi krónunnar stuðlað að þrálátum viðskiptahalla og meðfylgjandi skuldasöfnun í útlöndum. Það ætti að vera útgangspunktur þegar stjórnvöld móta stefnu sína í efnahagsmálum að stuðla að afgangi í viðskiptum við önnur lönd svo að unnt sé að hefjast handa við að grynnka á erlendum skuldum.
    Tæki til sveiflujöfnunar gegnir lykilhlutverki í að skapa viðvarandi stöðugleika í þjóðarbúskap Íslendinga. Samtök iðnaðarins leggja á það þunga áherslu að það þurfi að liggja fyrir hvað taki við af Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins áður en hann verður lagður niður eins og lagt er til. Frumvarpið er því ótímabært.
    Umræða um arftaka Verðjöfnunarsjóðs hefur enn ekki farið fram. Búast má við að aukinn kraftur færist í umræðuna um að tengja upptöku gjalds fyrir veiðiheimildir við sveiflujöfnun í hagkerfinu. Ekki má líta svo á að umræða um leiðir til að draga úr sveiflum í starfsskilyrðum íslensks atvinnulífs sé einkamál samtaka í sjávarútvegi.

Virðingarfyllst,


Samtök iðnaðarins,



Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri,


Þorsteinn M. Jónsson, hagfræðingur.





Fylgiskjal VI.


Hannes G. Sigurðsson,
Þórarinn V. Þórarinsson:


VERÐJÖFNUNARSJÓÐUR SJÁVARÚTVEGSINS


Forsenda varanlegs stöðugleika efnahagslífsins.


(23. apríl 1991.)



(Repró, 7 síður.)






Fylgiskjal VII.


Seðlabanki Íslands:

Verðjöfnun í sjávarútvegi í ljósi reynslunnar.


(17. mars 1994.)



(Repró, 8 síður.)