Ferill 119. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 119 . mál.


932. Nefndarálit



um frv. til vegalaga.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað ítarlega um frumvarpið á mörgum fundum og fékk til sín þá Jón Birgi Jónsson, ráðuneytisstjóra í samgönguráðuneyti, Helga Hallgrímsson vegamálastjóra, Jón Rögnvaldsson aðstoðarvegamálastjóra og Gunnar Gunnarsson, framkvæmdastjóra stjórnsýslusviðs Vegagerðarinnar. Þá fékk nefndin á fund sinn frá Reykjavíkurborg þá Stefán Hermannsson borgarverkfræðing og Jón G. Tómasson borgarritara og fulltrúa í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og frá Sambandi hestamannafélaga þá Guðmund Jónsson formann, Guðbrand Kjartansson, Jón Leví, Kristján Auðunsson og Sigurð Þórhallsson.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Efnislegar breytingar eru þessar:
    Lagt er til að í 4. gr. verði sett almenn reglugerðarheimild fyrir ráðherra. Þær reglur, sem ráðherra setur á grundvelli þessarar heimildar, skulu bundnar við gildissvið laganna. Hér er um sams konar ákvæði að ræða og nefndin felldi fyrr í vetur inn í frumvarp til hafnalaga sem nú er orðið að lögum.
    Lagt er til að ákvæði 8. gr. verði víkkað út þannig að safnvegir og tengivegir verði látnir ná til mikilvægasta athafnasvæðis í þéttbýli, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þeir nái til mikilvægasta athafnastaðar. Þá er lagt til að tengivegir nái að þriðja býli frá vegarenda þar sem búseta er í stað fjórða býlis eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
    Lögð er til lagfæring á IV. kafla frumvarpsins um einkavegi. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir þeirri miklu einföldun að allir vegir, sem ekki falla undir III. kafla, um þjóðvegi, teljist einkavegir. Þannig verða meginflokkar vega aðeins tveir og allir vegir í þéttbýli, sem ekki teljast til þjóðvega, falla undir hugtakið einkavegir. Fólki er tamt að telja einkavegi þá vegi sem lúta einkarétti einhvers aðila og eigi er heimil umferð um nema með leyfi þess tiltekna aðila og í umferðarlögum er ákvæði um torfærutæki þar sem þessi skilningur er lagður í orðið einkavegur. Af þessum sökum leggur nefndin til þá breytingu að inn í IV. kafla verði tekið hugtakið almennir vegir til aðgreiningar frá einkavegum. Almennir vegir eru þá vegir í eigu opinberra aðila sem ekki teljast þjóðvegir og eru ætlaðir almenningi til frjálsrar umferðar. Þá er einnig lagt til að hætt verði að nota hugtakið opinberir vegir en í staðinn talað um þjóðvegi og almenna vegi.
    Í 14. gr. frumvarpsins segir að helmingur þeirra sem afnotarétt hafa af einkavegi geti tekið bindandi ákvarðanir fyrir hina um hvernig mæta skuli sameiginlegum útgjöldum. Lagt er til að meiri hluta þurfi til.
    Lagt til að úr 16. gr. verði tekin tilvísun til reiðvega. Inn í greinina komi hins vegar ákvæði um heimild til að veita fé til greiðslu kostnaðar við ferjur sem ekki fullnægja skilyrðum 23. gr. Þá er lögð til sú breyting að aftast í 16. gr. flytjist ákvæði 17. gr. frumvarpsins þó með þeirri breytingu að samgöngunefnd Alþingis hafi tillögurétt um skiptingu fjárveitinga til einstakra framkvæmdaflokka.
    Lagt er til að í frumvarpið komi ný grein, 17. gr., þar sem mælt er fyrir um að í vegáætlun skuli veita fé til reiðvega samkvæmt sérstakri áætlun sem gerð er að höfðu samráði við samtök hestamanna og sveitarfélög. Ekki hefur verið gert ráð fyrir slíku samráði í vegalögum fram til þessa en á 113. löggjafarþingi var samþykkt þingsályktun um reiðvegaáætlun þar sem samgönguráðherra var falið að skipa nefnd með þátttöku samtaka hestamanna og sveitarfélaga til að kanna ástand reiðvega og gera reiðvegaáætlun.
    Lagt er til að inn í 23. gr. frumvarpsins verði felld sú breyting sem gerð var með lögum nr. 71/1993, um breytingu á vegalögum, nr. 6/1977, með síðari breytingum, um að Vegagerðinni sé heimilt að kaupa, eiga og hafa umsjón með ferjum og flóabátum sem reknir eru til samgöngubóta, svo og eiga aðild að félögum sem hafa eignarhald á þeim. Þá er lögð til sú breyting að í vegáætlun skuli ferjuleiðir taldar upp.
    Lagt er til að við 29. gr. bætist nýr málsliður þar sem mælt er fyrir um úrskurðarvald ráðherra ef ágreiningur rís milli ríkis og sveitarfélags um greiðslu á þeim aukna kostnaði sem kann að hljótast af því að þjóðvegi er að ósk sveitarstjórnar valinn annar staður en Vegagerðin telur æskilegt.
    Lagt er til að 2. mgr. 33. gr. frumvarpsins verði felld brott. Upphaflega kom þetta ákvæði inn í lögin áður en allt landið varð skipulagsskylt. Nú eru allir vegir landsins lagðir í samræmi við skipulag og ákvæðið því orðið úrelt.
    Lagt er til að í 44. gr. verði lögbundin skylda Vegagerðarinnar til að hafa samráð við landeiganda um bráðabirgðaafnot lands.
    Lagt er til að 3. og 4. málsl. 1. mgr. 47. gr. falli brott en þar er um að ræða ákvæði sem er í fullu samræmi við dómaframkvæmd og því ekki talin ástæða til að hafa það í þessum lögum.
    Lagt er til að ákvæði 49. gr. verði víkkað þannig að hægt sé að krefjast bóta eftir að verki lýkur ef skaði kemur ekki strax í ljós. Þó er hinn almenni tíu ára fyrningarfrestur látinn marka endimörk hugsanlegra bótakrafna.
    Þá er til einföldunar lagt til að í 62. gr. sé almennt ákvæði um að með lögunum falli úr gildi vegalög, nr. 6/1977, með síðari breytingum, í stað þess að telja sérstaklega upp allar þær breytingar sem orðið hafa á gildandi lögum.
    Loks er lagt til að heimilt verði að greiða kostnað við ferjur í fimm ár, í stað þriggja, þótt ekki sé fullnægt skilyrðum 23. gr. frumvarpsins.
    Aðrar breytingartillögur á frumvarpinu en hér hafa verið skýrðar fela aðeins í sér orðalagsbreytingar.
    Í 56. gr. frumvarpsins er ákvæði sem bannar lausagöngu búfjár á vegsvæðum þar sem girt er báðum megin vegar. Þannig er lögð aukin áhersla á viðhaldsskyldu vegna girðinga. Miklar umræður urðu á fundum nefndarinnar um hugsanlegar breytingar á VII. kafla laganna, um girðingar, í þessu sambandi. Niðurstaðan varð sú að samgönguráðherra mundi skipa nefnd til að endurskoða lagaákvæði VII. kafla og yrði á grundvelli útkomu þeirrar athugunar lagt fram frumvarp um framtíðartilhögun þessara mála í þingbyrjun næsta haust.
    Að lokum vill nefndin taka fram að nauðsynlegt er í framhaldi af setningu þessara laga að færa önnur lög til samræmis við þær breytingar á gildandi lögum sem hin nýju lög munu hafa í för með sér. Sérstaklega á það við um þau ákvæði umferðarlaga sem koma inn á einstaka vegflokka.

Alþingi, 12. apríl 1994.



Pálmi Jónsson,

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.

Jóhann Ársælsson.


form., frsm.



Petrína Baldursdóttir.

Sturla Böðvarsson.

Stefán Guðmundsson.



Egill Jónsson.

Guðni Ágústsson.

Árni Johnsen.