Ferill 199. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 199 . mál.


976. Nefndarálit



um frv. til l. um stofnun hlutafélags um Áburðarverksmiðju ríkisins.

Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Fékk hún á fund sinn til viðræðna frá Áburðarverksmiðju ríkisins Hákon Björnsson framkvæmdastjóra og Teit Gunnarsson framleiðslustjóra, frá Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna Pál Halldórsson formann og Birgi Björn Sigurjónsson framkvæmdastjóra, frá Verkamannafélaginu Dagsbrún Guðmund J. Guðmundsson formann og Leif Guðjónsson, starfsmann félagsins, Jón Höskuldsson, deildarstjóra í landbúnaðarráðuneyti, Sigríði Kristinsdóttur, formann Starfsmannafélags ríkisstofnana, Sigurgeir Þorgeirsson, aðstoðarmann landbúnaðarráðherra, og Ögmund Jónasson, formann Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Þá studdist nefndin við umsagnir frá 116. og 117. þingi frá Áburðarverksmiðju ríkisins, Búnaðarfélagi Íslands, Framleiðsluráði landbúnaðarins, Starfsmannafélagi Áburðarverksmiðju ríkisins, Stéttarsambandi bænda, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og Vinnuveitendasambandi Íslands. Einnig fræddust nefndarmenn um starfsemi Áburðarverksmiðjunnar í heimsókn sem farin var þegar nefndin fjallað um málið á 116. þingi og áttu þá m.a. viðræður við stjórnendur og stjórnarmenn verksmiðjunnar.
    Í athugasemdum við frumvarpið koma fram rök fyrir stofnun hlutafélags um Áburðarverksmiðju ríkisins. Meiri hlutinn tekur undir þá röksemd að eðlilegt sé að ríkið dragi sig út úr atvinnustarfsemi, einkum samkeppni við almennan atvinnurekstur.
    Nokkur óvissa er um framtíð Áburðarverksmiðjunnar. Hinu nýja hlutafélagi verður að vísu veitt einkaleyfi það sem Áburðarverksmiðja ríkisins hefur haft til framleiðslu, innflutnings og sölu á tilbúnum áburði en það fellur úr gildi ekki síðar en í ársbyrjun 1995. Skapast þá aðstæður til samkeppni innfluttra áburðartegunda við framleiðsluvörur félagsins og má búast við að til hennar komi. Með stofnun hlutafélags um starfsemina er fyrirtækinu skapað aukið svigrúm til að laga sig að breyttum aðstæðum.
    Starfsemi Áburðarverksmiðju ríkisins hefur mikla þýðingu fyrir íslenskan landbúnað og eru bændur jafnframt helstu viðskiptavinir hennar. Miklu skiptir fyrir afkomu landbúnaðarins hvernig verksmiðjan hagar starfsemi sinni. Þessir gagnkvæmu hagsmunir hafa verið viðurkenndir hingað til með því fyrirkomulagi sem gilt hefur um skipan stjórnar Áburðarverksmiðjunnar. Meiri hlutinn telur við hæfi að á meðan ríkissjóður er einn eigandi að öllum hlutum í hinu nýja félagi verði stjórnarmenn áfram valdir eftir svipuðum forsendum og verið hefur og að leitað verði til samtaka bænda og landbúnaðar eftir því sem við getur átt.
    Við fyrri umræður á Alþingi og umfjöllun þingnefnda um frumvörp til laga um stofnun hlutafélaga um ríkisfyrirtæki hafa orðið miklar umræður og skiptar skoðanir meðal þingmanna um hvernig gætt skuli réttinda ríkisstarfsmanna við slíkar breytingar. Nefndin hefur kynnt sér þær lögfræðilegu greinargerðir sem aðrar nefndir öfluðu sér við umfjöllun þeirra um hliðstæð mál og leggur áherslu á að allt verði gert til þess að ná samkomulagi við samtök ríkisstarfsmanna um málið. Er það mun betri kostur en ef leysa þyrfti málið fyrir dómstólum eins og annars stefnir í.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Lagt er til að fimm menn skipi stjórn hlutafélagsins, svo og jafnmargir varamenn. Enn fremur er lagt til að yfirtöku hins nýja hlutafélags á eignum, skuldum og rekstri Áburðarverksmiðju ríkisins, svo og brottfalli laga um hana, verði seinkað til 1. júlí 1994.

Alþingi, 18. apríl 1994.



Egill Jónsson,

Einar K. Guðfinnsson,

Guðni Ágústsson,


form.

frsm.

með fyrirvara.



Eggert Haukdal.

Gísli S. Einarsson,

Jóhannes Geir Sigurgeirsson,


með fyrirvara.

með fyrirvara.



Árni M. Mathiesen.