Ferill 495. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 495 . mál.


986. Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu breytinga á samningi um varnir gegn mengun hafsins vegna losunar úrgangsefna og annarra efna í það.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og sendi hana jafnframt umhverfisnefnd til umsagnar og mælir hún með samþykkt hennar. Umsögn umhverfisnefndar er birt sem fylgiskjal með áliti þessu.
    Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar.

Alþingi, 18. apríl 1994.



Björn Bjarnason,

Steingrímur Hermannsson.

Geir H. Haarde.


form., frsm.



Páll Pétursson.

Ólafur Ragnar Grímsson.

Anna Ólafsdóttir Björnsson.



Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Árni R. Árnason.

Rannveig Guðmundsdóttir.





Fylgiskjal.

Umsögn umhverfisnefndar.


(12. apríl 1994.)



    Umhverfisnefnd hefur að beiðni utanríkismálanefndar fjallað um þingsályktunartillögu um varnir gegn mengun hafsins, 495. þingmál. Tillagan varðar breytingar á svonefndum Lundúnasamningi frá 29. desember 1972 sem Íslendingar fullgiltu 24. maí 1973. Samningurinn öðlaðist gildi hér á landi 30. ágúst 1975. Breytingarnar eru hins vegar grundvallaðar á samkomulagi samningsaðila frá 12. október 1978. Þær lúta einungis að þeim þætti samningsins er varðar meðferð ágreiningsmála. Með breytingunni gefst samningsaðilum kostur á að velja hvort þeir vísi deilumálum sínum til Alþjóðadómstólsins eða hvort þeir leggi deiluna í gerð.
    Nefndin fékk á fund sinn vegna málsins frá umhverfisráðuneyti Þóri Ibsen deildarstjóra og Karitas Gunnarsdóttur deildarsérfræðing. Fram kom í máli þeirra að fyrirkomulag varðandi lausn deilumála væri mismunandi í þeim alþjóðasamningum sem Íslendingar eru aðilar að og ekki væri alltaf gefinn kostur á því að vísa þeim til Alþjóðadómstólsins. Þá kom fram að 71 ríki hefur nú fullgilt Lundúnasamninginn, en einungis 18 ríki hafa fullgilt þær breytingar sem þingsályktunartillaga þessi kveður á um. Forsenda þess að breytingarnar öðlist gildi er að 3 / 4 hlutar aðildarríkja hafi fullgilt þær þannig að fyrir liggur að 30 ríki til viðbótar þurfa að fullgilda breytingarnar. Þrátt fyrir þetta kváðu fulltrúar umhverfisráðuneytis Íslendinga hafa legið undir ámæli fyrir að fullgilda breytingarnar svo seint sem raun ber vitni.
    Umhverfisnefnd mælir með samþykkt tillögunnar en telur þó aðfinnsluvert hve langur tími hefur liðið frá samþykkt breytinganna til undirbúnings fullgildingu þeirra. Nefndin bendir á að slíkt hefur ítrekað gerst áður og telur ástæðu til að mótaðar verði skilvirkar verklagsreglur að þessu leyti.

F.h. umhverfisnefndar,



Kristín Einarsdóttir.