Ferill 378. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 378 . mál.


998. Nefndarálit



um till. til þál. um stefnumótandi byggðaáætlun 1994–1997.

Frá 1. minni hluta allsherjarnefndar.



    Tillaga um stefnumótandi byggðaáætlun 1994–1997 er gerð samkvæmt breytingu á lögum um Byggðastofnun sem samþykkt var í upphafi árs 1991 í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Taldi sú ríkisstjórn mikilvægt að staða landsbyggðarinnar og horfur í byggðaþróun yrðu á þann hátt teknar til ítarlegrar umfjöllunar á Alþingi. Undirbúningur að gerð þessarar fyrstu áætlunar hefur því tekið alllangan tíma. Í lögunum er kveðið á um að í tillögunni komi fram stefna ríkisstjórnar í byggðamálum og skuli forsætisráðherra kynna Byggðastofnun þá stefnu þegar undirbúningur tillögunnar hefst og hvaða atriði lögð skuli áhersla á við gerð hennar. Í samræmi við það sendi Davíð Oddsson forsætisráðherra stjórn Byggðastofnunar bréf, dags. 28. febrúar 1992, þar sem hann kynnir þau almennu markmið sem ríkisstjórnin leggur áherslu á. Af þeim sökum er ljóst að þessi tillaga er fyrst og fremst stefnumörkun núverandi ríkisstjórnar.
    Það skortir á bjartsýni og framtíðarsýn í þessari tillögu. Fyrsti minni hluti telur byggðir landsins mikil auðæfi sem eigi eftir á næstu árum og áratugum að verða sífellt verðmætari. Við þurfum að nýta þá möguleika sem breyttar aðstæður í heiminum skapa okkur.

Aðstæður í heiminum breytast óðfluga.
    Hin gífurlega öra fólksfjölgun kallar á aukna matvælaframleiðslu. Því hefur verið mætt með ört vaxandi efnanotkun til að margfalda uppskeru sem og við framleiðslu annarra afurða. Þetta mengar ekki aðeins þau matvæli sem verið er að framleiða heldur hefur orkunotkun við framleiðsluna líka margfaldast. Með sama áframhaldi stefnir í algjört óefni vegna óbætanlegrar röskunar á öllu lífríki jarðarinnar og sífellt aukinni mengun. Menn ættu að sjá það í hendi sér að þau lönd, sem geta miðlað öðrum matvælum og orku, verða í afar eftirsóttri aðstöðu innan fárra ára.
    Það þrengir sífellt að íbúum jarðar. Fyrir 70 árum voru þeir 1.800 milljónir en eru núna 5.300 milljónir. Fyrir hvern einn sem lifði fyrir 70 árum eru þrír í dag. Um þessar mundir er talið að fjölgunin sé um 70–90 milljónir á hverju ári. Meginhluti þessa fólks býr í menguðu umhverfi stórborga. Þær stækka ár frá ári og aðstæður batna ekki. Draumar þessa fólks um frí verður ekki að heimsækja aðrar stórborgir.
    Við slíkar aðstæður er hreint og víðáttumikið land ómetanlegur fjársjóður. Sú staðreynd kallar á endurmat og algjöra viðhorfsbreytingu og fráhvarf frá hinum þröngsýnu hagfræðikenningum sem mótað hafa stefnu ríkisstjórna víða um heim eins og hér á landi síðustu árin.
    Ört vaxandi eftirspurn eftir ómenguðum matvælum gefur ekki aðeins sjávarútvegi aukna möguleika heldur styrkir ekki síður stöðu landbúnaðar takist okkur að skapa þá ímynd að afurðir, sem koma frá Íslandi og hafinu kringum það, séu þær hreinustu sem hægt er að fá. Það er auðugasti hluti mannkyns sem sækist eftir þannig afurðum og er tilbúinn að greiða hátt verð fyrir.
    Okkur má vera alveg ljóst að margir erlendir aðilar girnast slíka fjársjóði og vilja gjarnan fá að nýta sér þá möguleika sem hér bjóðast. Við höfum því miður orðið nokkuð vör við slíkt síðustu missiri. Vonandi berum við gæfu til þess nú sem fyrr að standa vörð um þjóðarauð okkar, veraldlegan sem andlegan.
    Það er því til mikils að vinna. Það þarf ekki aðeins að selja afurðirnar erlendis heldur einnig að hvetja erlenda ferðamenn, sem koma hingað, til að neyta þeirra og njóta hreinnar náttúru og víðáttu landsins, en þá verður að gjörbreyta um viðhorf og vinnubrögð. T.d. yrði að hverfa frá þeirri skattpíningarstefnu sem nú er að sliga ferðaþjónustuna.
    Ríkisvaldið þarf í verki að sýna skilning sinn á því að við þurfum að nýta gæði landsins alls hvar sem þau er að finna til að allir geti haft nóg að starfa við sköpun verðmæta fyrir þjóðarbúið. Hér er að finna margvíslega möguleika með fjölbreyttari nýtingu landsins og úrvinnslu hágæðavöru. Ekki síst vegna þess hversu atvinnulífið er orðið aðþrengt eftir hávaxtastefnu ríkisstjórnarinnar síðustu árin er nauðsynlegt að ríkisvaldið hafi frumkvæði að skipulegri úttekt og hefjist þegar í stað handa við að styðja þá sem nýta vilja þessa möguleika. Þrátt fyrir hina lamandi hönd stjórnarstefnunnar eru, sem betur fer, víða einstaklingar sem eru tilbúnir að leggja grundvöll að því að nýta þá en koma alls staðar að lokuðum dyrum þegar stíga á fyrstu skrefin. Dæmi um slíka möguleika eru tilraunir til útflutnings á vatni í neytendaumbúðum.
    Eins og áður var bent á er gífurlega ört vaxandi eftirspurn eftir hreinum og ómenguðum matvælum. Viðurkenning annarra þjóða á þeirri staðreynd mun auðvelda okkur að komast inn á neysluvatnsmarkaðinn sem hlýtur einnig að herða kröfur sínar og stækka mikið á næstu árum. Þar sem við vitum að við eigum gífurlegt magn af vatni, sem orðið er mikil og verðmæt verslunarvara erlendis, og markaðurinn fer stækkandi, hlýtur það að vera skynsamleg ákvörðun að styðja þá sem af miklum vanefnum hafa verið að gera tilraun til útflutnings og móta um það stefnu hvernig æskilegt sé að standa að þessum málum þegar til lengri tíma er litið.
    Í því efnahags- og atvinnuástandi, sem þjóðin býr nú við, verður að vinna markvisst að nýtingu slíkra tækifæra þó að gæta þurfi þess að byggja ekki óraunsæjar skýjaborgir. Því er nauðsynlegt að ríkisvaldið hafi forustu um það og styðji við bakið á þeim sem af miklum dugnaði og með ærnum kostnaði hafa verið að vinna brautryðjendastarf.
    Sökum þess hve gott vatn er að finna í miklu magni víðs vegar um landið gæti nýting þess orðið mikilvægur stuðningur við byggðaþróun. Vegna samdráttar í atvinnurekstri eru víða fyrir hendi vannýttar byggingar sem gætu hentað til slíkrar framleiðslu.
    Þar sem meiri hluti nefndarinnar vildi ekki gera neinar efnisbreytingar á þingsályktunartillögunni mun undirritaður flytja sérstaka tillögu til þingsályktunar um skipun nefndar um vatnsútflutning. Í þeirri nefnd eigi sæti fulltrúar allra þingflokka. Yrði hlutverk hennar að leiðbeina og styðja þá aðila, sem nú eru að hasla sér völl á þessu sviði, við markvissa markaðssetningu. Jafnframt yrði mótuð framtíðarstefna og í samstarfi við Byggðastofnun gerð áætlun um hvernig nýta megi þessa miklu auðlind til að efla byggð í þeim héruðum þar sem gnótt lindarvatns er fyrir hendi.

Meginmarkmið byggðastefnu.
    Í upphafi tillögunnar eru sett fram meginmarkmið byggðastefnunnar í þremur málsgreinum. Fyrsta markmiðið er almennt orðað og án takmarkana. Velta má fyrir sér hinum markmiðunum tveimur.
    Annað markmiðið fjallar um atvinnulífið og þjónustu. Þar er sett fram það skilyrði fyrir sérstökum stuðningi að atvinnulífið geti verið fjölbreytt, eða eins og segir í tillögunni: „Svæðin verða að vera nægilega fjölmenn til þess að hægt sé að reka þar fjölbreytta þjónustu og atvinnulíf á hagkvæman hátt.“ Þetta er gott markmið og má segja að náist það sé hlutverki Byggðastofnunar á þessum svæðum að verulegu leyti lokið og gæti þá stofnunin einbeitt sér að svæðum sem eftir standa, þ.e. jaðarsvæðunum.
    Atvinnulíf á Íslandi utan stærstu þéttbýlisstaðanna byggist fyrst og fremst á landbúnaði og sjávarútvegi. Margir útgerðarstaðir hafa landrými að baki sér þar sem rekinn er landbúnaður en hjá öðrum er ekki um slíkt að ræða og þar hlýtur atvinnulíf því að verða að teljast einhæft þar sem segja má að öll önnur starfsemi sé bein og óbein þjónusta við þennan eina atvinnuveg.
    Það sama gildir um þau héruð sem liggja langt frá útgerðarstöðum og verða því eingöngu að byggja á landbúnaði og nýtingu jarðanna. Þrátt fyrir það er hægt á þessum stöðum að reka einhæfan atvinnuveg með viðunandi árangri sem er þjóðarbúskapnum mikils virði. Það má skilja það á texta tillögunnar að þessum byggðarlögum verði ekki veittur stuðningur á sama hátt og öðrum og þyrfti það að koma greinilega fram ef svo er ekki.
    Þriðja meginmarkmiðið er samkvæmt tillögunni: „Að draga úr fólksflutningum til höfuðborgarsvæðisins þannig að mannvirki þjóðarinnar nýtist skynsamlega.“ Af hverju á aðeins að „draga úr“? Af hverju á ekki að stöðva eða snúa við? Hvað með gæði landsins og aðrar auðlindir? Þetta er veikt orðað meginmarkmið. Umrætt jafnvægi í byggð landsins hefur raskast allt of mikið og það lagast ekki með því aðeins „að draga úr“ þeirri röskun.

Áhersluatriði.
    Á eftir meginmarkmiðum tillögunnar eru talin upp í fjórum liðum þau atriði sem sérstök áhersla er lögð á til þess að hægt sé að ná þeim á næstu fjórum árum. Í 1. og 4. tölul. er fjallað um atvinnulífið. Í d-lið 1. tölul. er rætt um aðgerðir á jaðarsvæðum og þar nefnt að einkum verði horft til nýtingar náttúruauðlinda og ferðaþjónustu.
    Í riti Byggðastofnunar eru náttúruauðlindir í þessu skyni skilgreindar mjög þröngt, svo sem jarðhiti, og virðist það óeðlilegt þar sem um ýmsa aðra kosti getur verið að ræða, svo sem nýtingu gróðurs, veiðihlunninda og lindarvatns. Meiri hluti allsherjarnefndar hefur tekið tillit til þessarar ábendingar og flutt breytingartillögu, sem 1. minni hluti styður, um að við bætist orðin „annarra landgæða“.

Staða atvinnulífsins.
    Í upphafi 4. tölul. er sett fram grundvallaratriði fyrir allri byggðaþróun, þ.e. að atvinnulífinu í landinu verði búin þau skilyrði að fyrirtækin geti skilað arði. Þetta gildir þó ekki aðeins um byggðaþróun heldur alla atvinnuþróun. Um þetta er síðan ekkert fjallað frekar, hvorki í ályktuninni sjálfri eða greinargerð, og virðist erfitt að fjalla um áætlunina án þess að gera frekari grein fyrir hvernig staðan er og hvernig við þeim vanda skuli brugðist.
    Öllum er ljóst að miklar breytingar hafa orðið síðustu árin í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar. Þjóðartekjur hafa dregist saman og atvinnuleysið haldið innreið sína. Þótt ástæður séu margar, t.d. samdráttur í þorskveiðum, er aðgerðaleysi stjórnvalda mikill örlagavaldur. Aðgerðaleysið eða gjaldþrotastefnan miðar að því að gera atvinnulífið og fyrirtækin auðvelda bráð fyrir samansafnað fjármagn sem hávaxtastefna undanfarinna ára hefur fært örfáum aðilum í þjóðfélaginu. Það hlýtur að vera umhugsunarefni hvort við sættum okkur við þessa aðferð frjálshyggjunnar, þ.e. að láta uppboðshaldaranum það eftir að stjórna hagræðingu í íslenskum atvinnuvegum.
    Núverandi stjórnarflokkar þora ekki að segja við þjóðina, enn síður við atvinnurekendur og allra síst við íbúa þessara staða, að hagræða eigi í sjávarútvegi og byrja á því að leggja niður 15–20 frystihús og leggja 5–10 togurum. Svo er kröfuhöfunum, sem eru að vísu oftast ríkisbankar og sjóðir í eigu ríkisins, kennt um erfiðleika þeirra sem lenda í vandræðum og missa skip sín og kvóta. Við þriðja högg uppboðshaldara getur mestur hluti atvinnu fólks í sjávarplássi glatast og eignir fólks þar orðið verðlausar. Er þetta ásættanleg atvinnustefna?
    Eðlilegt er að fela Byggðastofnun að gera úttekt á því hvað það kostaði þjóðfélagið að leggja niður byggð og flytja fólkið á brott frá slíkum stöðum, hversu mikil verðmæti tapast og hvað kostar að byggja fyrir fólkið annars staðar, bæði atvinnustarfsemi og íbúðar- og þjónustuhúsnæði. Það hlýtur að vera gott fyrir alla aðila að vita hvað þeir eru að gera.
    Samdráttur í landbúnaði veldur tekjuhruni hjá bændum og atvinnuleysi bæði hjá þeim og í þjónustugreinum landbúnaðarins þó að ríkisstjórnin hafi ekki fengist til að gera úttekt á því hversu mikil þau áhrif eru þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um. Viðhorf ríkisstjórnarinnar hafa verið þau að horfa aðgerðalaus á þessa þróun atvinnulífsins og það er fyrst nú sem settar eru fram fálmkenndar hugmyndir um takmarkaða aðstoð í einum landshluta. Þessi þróun síðustu ára hefur smátt og smátt verið að draga þrótt úr atvinnulífinu og mergsjúga það og dregið hefur úr möguleikum einkaaðila til þess að fara inn á nýjar brautir til að bæta upp það sem hefur tapast.
     Sem dæmi má nefna að eignir falla í verði og verða víða óseljanlegar. Af þeim sökum lækka bankar ört lánshlutfall út á fasteignir og mikil tregða er að taka nýja aðila í viðskipti. Og þó að nú sé hafið fyrsta ár þessarar stefnumótandi byggðaáætlunar sjást engin merki hjá ríkisstjórninni um aðgerðir í samræmi við meginmarkmið hennar. Fyrsti minni hlutinn gerði því tillögu um það í nefndinni að a-liður 4. tölul. kvæði á um að Byggðastofnun gerði í samvinnu við atvinnuvegaráðuneytin og samtök atvinnuveganna markvissa áætlun um eflingu starfandi atvinnurekstrar, aukna fjölbreytni framleiðslu og framleiðni. Á þessa tillögu féllst meiri hluti nefndarinnar ekki.
    Það hefur ekki farið fram hjá neinum að meginstefna ríkisstjórnarinnar er innflutningsstefna. Ráðherrarnir hafa hamrað á því að þjóðin þurfi að græða á því að auka sem mest innflutning ódýrra neysluvara í stað innlendrar framleiðslu og lagt áherslu á að því þurfi að ná fram með erlendum viðskiptasamningum, enda hefur þeim orðið þar allvel ágengt. Eru það þveröfug vinnubrögð við allar nágrannaþjóðir okkar sem lagt hafa mikla áherslu á að vernda sína innlendu atvinnuvegi.

Niðurstöður.
    Hægt er að taka undir ábendingar gesta sem komu á fund nefndarinnar um að þessi tillaga til þingsályktunar væri beinagrind sem mestallt hold vantaði á. Það hlýtur að vera nauðsynlegt að gera sér grein fyrir, ekki síst með tilliti til núverandi aðstæðna, hvernig við ætlum að ná þeim markmiðum sem þar eru sett fram, sem og öðrum sem þarf að bæta við. Því hefði verið, að mati undirritaðs, nauðsynlegt að Alþingi hefði fjallað miklu meira um þá hlið málsins og sett fram ábendingar um afdráttarlausar aðgerðir.
    Í tillögunni, eins og hún var lögð fram, var gert ráð fyrir 1.300 millj. kr. framlagi á fjárlögum til Byggðastofnunar á næstu fjórum árum. Þetta var of naumt skammtað og erfitt að sjá að stofnunin gæti framfylgt hlutverki sínu með þeirri fjárveitingu. Nú gerir meiri hluti nefndarinnar tillögu um, samkvæmt fyrirmælum ríkisstjórnar, að lækka þessa tölu niður í 940 millj. kr. Vonlaust er við slíkar aðstæður, verði þessi tillaga samþykkt, að Byggðastofnun ráði við verkefni sín með ekki meira fjármagn í höndum.
    Fyrsti minni hluti telur að í meginmarkmiðum þingsályktunartillögunnar séu settar fram frómar óskir, þó með þeim athugasemdum sem hér hefur verið bent á, og vill því ekki tefja að hún verði afgreidd fyrir þinglok. Hins vegar kallar þessi afgreiðsla á að þegar í stað verði haldið áfram vinnu við nánari útfærslu og aðgerðir svo að vænta megi að eitthvað þokist í átt að þeim markmiðum sem sett hafa verið fram.
    Eðlilegt hefði verið að leggja fram mótaðar breytingartillögur. Hins vegar kom tillagan til nefndar í lok febrúar eftir að hafa verið í vinnslu í tvö ár. Við meðferð málsins í nefndinni kom fram að meiri hluti hennar vildi engar efnisbreytingar gera á tillögunni umfram það sem fram kemur í breytingartillögum hans og þar af leiðandi ekki leggja neina vinnu í ítarlega athugun á stöðu og horfum í byggðamálum eða nauðsynlegar tillögur til úrbóta. Undirritaður mun því sitja hjá við afgreiðslu tillögunnar.

Alþingi, 19. apríl 1994.



Jón Helgason.