Ferill 500. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 500 . mál.


1016. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Fékk hún á fund sinn til viðræðna Jón Höskuldsson, deildarstjóra í landbúnaðarráðuneytinu, Árna Ísaksson veiðimálastjóra, frá félagi veiðiréttareigenda við sjó og vötn í Vestur-Húnavatnssýslu (Sókn) Ólaf Þórhallsson formann, Tryggva Eggertsson og Heimi Ágústsson og frá Landssambandi fiskeldis- og hafbeitarstöðva Vigfús Jóhannsson og Júlíus Birgi Kristinsson. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Búnaðarfélagi Íslands, Sókn, Hafrannsóknastofnun, Landssambandi veiðifélaga, veiðimálanefnd, veiðimálastjóra, fisksjúkdómanefnd, Landssambandi fiskeldis- og hafbeitarstöðva, Stéttarsambandi bænda og Stangaveiðifélagi Hafnarfjarðar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á orðalagi skilgreininga í 1. gr. Í fyrsta lagi er lagt til að almennt verði notað hugtakið „vatnafiskar“ í stað „laxfiskar“ enda þykir rétt að viðkomandi orðskýringar taki einnig til annarra tegunda vatnafiska en laxa, svo sem áls og silungs. Á þetta við um skilgreiningar hugtakanna eldisstofn, fiskeldi, geldstofn, hafbeitarstofn og strandeldi. Með sömu rökum er lagt er til að hugtakið „hafbeit til stangaveiði“ verði ekki takmarkað við laxa. Í öðru lagi er lagt til að bætt verði við skilgreiningu á hugtakinu lagardýr en með breytingartillögu við g-lið 5. gr. (68. gr.) er lagt til að það hugtak verði notað í frumvarpinu. Í þriðja lagi er lagt til að hugtakið vatnafiskur verði skilgreint, enda kemur það víða fyrir í frumvarpstextanum, og í fjórða og síðasta lagi er lagt til að hugtakið umhverfismat, sem ekki er notað í frumvarpinu, falli brott.
    Lagðar eru til breytingar á 2. gr. Breytingarnar á a-lið (14. gr.) felast annars vegar í umorðun 2. mgr. og er þar ekki um efnislega breytingu að ræða. Þannig verður framkvæmdin sú að þeim sem veiðir lax í sjó í veiðitæki sem ætluð eru til veiði annarra fiska ber skylda til að skila laxinum í sjó aftur, lífs eða liðnum, enda óheimilt að koma með slíkan fisk að landi. Hins vegar er lagt til að 6. mgr., um að hverri landareign, sem liggur að sjó, skuli almennt heimilt að hafa mest tvö silungslagnet samtímis í sjó, falli brott. Þess í stað er lagt til að netaveiðiheimildir landareigna, sem liggja að sjó, til silungsveiða miðist við fimm ár fyrir gildistöku laga um lax- og silungsveiði frá 1957. Er þetta samhljóða ákvæði laganna frá 1957 og 1970 var þetta ákvæði áréttað í gildandi löggjöf. Er lagt til að ekki verði horfið frá þeim reglum gildandi laga.
                  Breytingin á b-lið (15. gr.), þar sem settar eru takmarkanir við hve nálægt ósi straumvatns eða þeim stað þar sem fiskur gengur í hafbeitarstöð má leggja net eða hafa ádrátt í sjó, er tvíþætt. Annars vegar er lagt til að miðað verði við vatnsmagn áa eins og í gildandi lögum og verði friðunarsvæði stærri áa bundið við 2.000 metra eins nú gildir en þeirra vatnsminni 1.500 metra sem er 500 metra aukning frá gildandi reglum. Um hafbeitarstöðvar gildi ávallt 1.500 metra viðmið. Hins vegar er lagt til að fyrrgreindar takmarkanir gildi frá 1. apríl í stað 1. mars sem þykir óþarflega snemmt.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 5. gr. Lagt er til að í stað g-liðar (68. gr.) um ákvörðun ráðherra um hámarkssleppingu í hafbeit, sem felld er efnislega brott, verði 3. mgr. a-liðar (62. gr.) umorðuð og nýrri málsgrein, sem verði 4. mgr., bætt við. Þannig verði árleg framleiðsla í kvía- og strandeldi og hámark sleppinga á seiðum í hafbeit tilgreind í rekstrarleyfi viðkomandi stöðvar en ráðherra getur jafnframt heimilað aukningu á fjölda slepptra seiða í hafbeit, að fenginni umsögn veiðimálanefndar og veiðimálastjóra. Í þessari breytingu felst að allar stöðvar fá framleiðslukvóta í byrjun rekstrar. Ákvæði g-liðar (68. gr.) þykir að óbreyttu of opið og hefði getað leitt til efnahagslegra þrenginga hjá starfandi stöðvum hefði komið til mikils niðurskurðar eftir á. Á hinn bóginn er stöðvum, sem starfræktar eru við gildistöku frumvarpsins, gert skylt að leita eftir framleiðsluheimild með því að endurnýja rekstrarleyfi innan árs frá gildistöku þess. Í framhaldi af þessum breytingum er lagt er til að g-liður (68. gr.) verði annars efnis en frumvarpið gerir ráð fyrir og þar kveðið á um að eldi annarra lagardýra í kvía- og strandeldi skuli eftir því sem unnt er hlíta sömu reglum og eldi vatnafiska. Byggist tillagan á því að eldi á erlendum tegundum hefur hafist í nokkrum mæli hér á landi. Má þar nefna barra og ýmsar hlýsjávartegundir frá Miðjarðarhafi. Af þessum dýrum getur stafað sjúkdómahætta. Þykir því eðlilegt að taka af öll tvímæli um að þessi rekstur fellur undir X. kafla laganna sem fjallar um fisksjúkdóma og hefur m.a. að geyma ákvæði um fisksjúkdómanefnd.
                  Lagt er til að k-liður (72. gr.) falli brott, en þar er fjallað um heimildir hafbeitarstöðvar, að fengnu leyfi ráðherra, til laxveiði í sjó innan við 200 metra frá frárennsli hennar enda hafi gönguseiðum verið sleppt í frárennslið í því skyni að þau gangi í sjó og komi aftur upp í stöðina að sjávarvist lokinni. Þetta ákvæði frumvarpsins er óbreytt frá gildandi lögum en vart hefur reynt á það í framkvæmd. Með hliðsjón af ábendingum sem nefndinni bárust þykir eðlilegt að fella það brott.
                  Þá er lagt til að breyting verði á l-lið (73. gr.) sem gerir ráð fyrir að fiskeldisstöð með starfsleyfi, t.d. kvíaeldi, sem missir út fisk, fái heimild til að reyna að ná fiskinum aftur. Í breytingunni felst að í stað þess að heimild þessari verði beitt „undir eftirliti“ veiðimálastjóra nægi að um samráð verði að ræða enda ætti í mörgum tilvikum ekki að vera þörf á að kalla fulltrúa veiðimálastjóra á staðinn.
    Loks eru lagðar til nokkrar breytingar á 6. gr. Breytingin á e-lið felur í sér að fjölgað verði um tvo menn í veiðimálanefnd frá því sem frumvarpið gerir ráð fyrir og skipi ráðherra einn samkvæmt tilnefningu Landssambands stangaveiðifélaga, svo sem frumvarpið gerir ráð fyrir, en auk þess tvo frá Landssambandi veiðifélaga og einn samkvæmt tilnefningu Landssambands fiskeldis- og hafbeitarstöðva. Með því þykir tryggt að hagsmunaaðilar í fiskeldi og hafbeit fái gætt hagsmuna sinna við ákvarðanatöku í nefndinni. Þá er lagt til að ákvæði 6. og 7. mgr. g-liðar falli brott en þar er kveðið á um öfuga sönnunarbyrði varðandi það hvort um sé að ræða ólöglegt veiðifang og heimild til húsleitar án undangengins dómsúrskurðar. Þykja ákvæði þessi ekki lengur eiga heima í lögum um lax- og silungsveiði, enda hefur vart reynt á þau í framkvæmd.

Alþingi, 19. apríl 1994.



Egill Jónsson,

Gísli S. Einarsson.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.


form., frsm.



Guðrún J. Halldórsdóttir.

Sigurður Hlöðvesson.

Eggert Haukdal.



Árni M. Mathiesen.

Einar K. Guðfinnsson.

Guðni Ágústsson.