Ferill 477. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 477 . mál.


1031. Nefndarálitum frv. til l. um Vísinda- og tækniráð Íslands.

Frá menntamálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem kveður á um stofnun Vísinda- og tækniráðs Íslands. Ráðið mun taka við starfsemi Vísindaráðs og Rannsóknaráðs ríkisins en því er einnig ætlað aukið hlutverk í því að fylgjast með framvindu í vísinda- og tæknistarfi, meta árangur rannsóknarstarfs, leita leiða til þess að efla rannsóknarstarfsemi í landinu og efla alþjóðlegt samstarf.
    Nefndin fékk á fund sinn við umfjöllun um málið Ólaf Davíðsson, ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneyti, frá menntamálaráðuneyti Stefán Baldursson deildarstjóra og Eirík Baldursson deildarsérfræðing, Jóhannes Nordal og Axel Björnsson frá Vísindaráði, Vilhjálm Lúðvíksson og Pétur Stefánsson frá Rannsóknaráði ríkisins, Sveinbjörn Björnsson, Sigmund Guðbjarnason og Helga Valdimarsson frá Háskóla Íslands og Guðrúnu Kvaran, formann Vísindafélags Íslendinga. Þá studdist nefndin við umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Axel Björnssyni, framkvæmdastjóra Vísindaráðs, Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, Hafrannsóknastofnun, Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Iðntæknistofnun, Landsbókasafni Íslands, Listasafni Íslands, læknaráði Borgarspítalans, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Rannsóknaráði ríkisins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands, Skógrækt ríkisins, Stofnun Árna Magnússonar, Veðurstofu Íslands, Vísindafélagi Íslendinga og Vísindaráði. Þá barst nefndinni athugasemd um rithátt í frumvarpinu frá Íslenskri málstöð.
    Nefndin telur að lögfesting frumvarpsins ýti undir nýsköpun hér á landi og leggur til að það verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Lagt er til að nafni ráðsins verði breytt úr „Vísinda- og tækniráð Íslands“ í „Rannsóknarráð Íslands“. Nefndin telur að heiti það sem frumvarpið gerir ráð fyrir sé langt og óþjált og óvíst hvort það yrði notað í daglegu tali. Heitið „Rannsóknarráð Íslands“ lýsir vel fyrirhugaðri starfsemi hins nýja ráðs.
    Með breytingunni sem lögð er til á 2. gr. er kveðið skýrara á um að nýsköpun sé eitt af meginhlutverkum Rannsóknarráðs Íslands.
    Lagt er til að í 3. gr. verði breytt með tvennum hætti. Annars vegar er lagt til að lagfært verði orðalag í c-lið ákvæðisins. Þá er lögð til breyting sem ætlað er að tryggja að sjónarmið atvinnulífs komi fram í ráðinu. Nefndin telur mikilvægt að í frumvarpinu sé þannig skýrt kveðið á um aðild atvinnulífsins svo að auka megi þátt fyrirtækja í rannsóknar- og þróunarstarfsemi. Þannig telur nefndin að unnt verði með markvissum hætti að byggja upp þekkingu innan fyrirtækja.
    Lögð er til breyting á skilgreiningu hlutverks Tæknisjóðs sem kveðið er á um í 11. gr. þannig að það taki ekki einungis til nýsköpunar, heldur ekki síður til þróunar.
    Lögð er til sú breyting á 16. gr. að kveðið verði á að Rannsóknarráð Íslands sjái um rekstur Rannsóknarnámssjóðs í umboði stjórnar hans.
    Breyting, sem lögð er til á 22. gr., felur í sér að skýrt verði kveðið á um hverjir geti átt frumkvæði að tilnefningu í stöður rannsóknarprófessora. Jafnframt er lagt til að tryggt verði að í slíkar stöður verði einungis skipaðir þeir sem hlotið hafa alþjóðlega viðurkenningu fyrir rannsóknarstörf og að sérstök dómnefnd meti hæfni þeirra. Nefndin telur þetta ákvæði þýðingarmikið þar sem það mun t.d. veita fleiri tækifæri til að kalla til starfa hingað til lands reynda og hæfileikaríka Íslendinga sem hafa fest rætur erlendis.
    Við umfjöllun um málið í menntamálanefnd komu fram þau sjónarmið að úthlutunarkerfi það, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, væri flókið. Nefndin telur að vel athuguðu máli að rétt sé að láta reynslu skera úr um hvort svo sé.
    Þá vill nefndin taka fram að hún telur mikilvægt að Alþingi fái upplýsingar um starfsemi ráðsins eins og kveðið er á um í 11. tölul. 2. gr. frumvarpsins, þar með talið um tillögur ráðsins um framlög úr ríkissjóði til vísinda- og tæknimála.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja breytingartillögur við frumvarpið eða fylgja þeim sem fram kunna að koma.
    Ólafur Þ. Þórðarson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. apríl 1994.Sigríður A. Þórðardóttir,

Valgerður Sverrisdóttir.

Árni Johnsen.


form., frsm.Svavar Gestsson,

Petrína Baldursdóttir.

Tómas Ingi Olrich.


með fyrirvara.Kristín Ástgeirsdóttir,

Sturla Böðvarsson.


með fyrirvara.