Ferill 201. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 201 . mál.


1054. Nefndarálit



um frv. til l. um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, öðrum en hvölum.

Frá minni hluta umhverfisnefndar.



    Umhverfismál ganga inn á svið mjög margra annarra málaflokka. Þess verður að gæta við stjórn umhverfismála að saman fari hagnýt sjónarmið og tillit til umhverfisins sé þess nokkur kostur. Þetta gildir almennt, en þó sérstaklega þegar í hlut á þjóð sem byggir efnahag sinn á nýtingu villtra dýrastofna eins og Íslendingar gera.
    Nýting villtra dýrastofna, sem frumvarp þetta nær yfir, er tæplega undirstaða atvinnurekstrar hérlendis ef undan eru skildar selveiðar. Frumvarpið snertir aðeins með óbeinum hætti þá auðlindanýtingu sem hefur meginþýðingu fyrir efnahag þjóðarinnar, þ.e. nýtingu fiskimiðanna og gróðurlendisins.
    Engu að síður er mjög æskilegt að við lagasetningu af þessu tagi sé þess gætt að fram komi ákveðin grundvallarafstaða til nýtingar náttúrulegra gæða. Ekki er skynsamlegt að ganga út frá því sem grundvallarreglu að villtir dýrastofnar séu friðaðir og að nýting þeirra heyri til undantekninga. Efnahagur þjóðarinnar byggist að verulegu leyti á nýtingu villtra dýrastofna, og mun svo verða um fyrirsjáanlega framtíð. Ekki verður séð að nein sérstök rök verði færð fyrir því að um nýtingarrétt eigi við önnur grundvallarviðhorf þegar fuglar og spendýr eiga í hlut en þegar fjallað er um nýtingu fiskimiðanna eða t.d. um nýtingu hvala.
    Það er æskilegt að umhverfisvernd og hagnýt sjónarmið finni sér sameiginlegan farveg, ekki síst með þjóð sem byggir afkomu sína á auðlindum náttúrunnar. Undirstaða þeirra lagabálka, sem um gæði náttúrunnar fjalla, á því að vera réttur mannsins til að nýta þessi gæði á grundvelli sjálfbærrar þróunar. Sú leið er ekki farin í því frumvarpi sem hér um ræðir. Minni hlutinn er ósamþykkur þeirri meginreglu, sem fram kemur í 6. gr. frumvarpsins, að dýr séu friðuð en að ráðherra geti heimilað nýtingu þeirra. Eðlilegra hefði verið að setja þá grundvallarreglu að öll dýr skuli njóta verndar í þeim skilningi að vernd feli í sér skynsamlega nýtingu. Hefði sú leið verið farin hefði verið nauðsynlegt að lögfesta friðun og veiðitíma einstakra tegunda.
    Þótt mikilvæg grundvallarsjónarmið, sem fram koma í frumvarpinu, séu gagnrýnd eru allmörg einstök efnisatriði í því til bóta miðað við gildandi lög. Áskilur minni hlutinn sér rétt til að taka aðra afstöðu en meiri hlutinn til einstakra greina frumvarpsins og til breytingartillagna meiri hlutans sem varða frumvarpið í heild. Hins vegar stendur undirritaður að breytingartillögum varðandi embætti veiðistjóra ásamt öðrum þingmönnum stjórnarflokkanna.

Alþingi, 25. apríl 1994.



Tómas Ingi Olrich.