Ferill 450. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 450 . mál.


1065. Nefndarálit



um frv. til l. um vátryggingastarfsemi.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem felur í sér verulegar breytingar á gildandi lögum um vátryggingastarfsemi. Breytingar frumvarpsins byggjast annars vegar á reglum EES-samningsins en hins vegar er um að ræða heildarendurskoðun á lagareglum á þessu réttarsviði.
    Nefndin fjallaði um frumvarpið samhliða frumvarpi til laga um brunatryggingar, 577. máli, og frumvarpi til laga um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, 578. máli. Á fund nefndarinnar vegna þessara mála komu Dögg Pálsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Erlendur Lárusson og Rúnar Guðmundsson frá Tryggingaeftirliti ríkisins, Axel Gíslason, Ólafur B. Thors og Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Jóhannes Gunnarsson og Sigríður Arnardóttir frá Neytendasamtökunum, Ingi R. Helgason, forstjóri Brunabótafélags Íslands, Jón G. Tómasson borgarritari og Eyþór Fannberg frá Húsatryggingum Reykjavíkurborgar, Magnús Axelsson, formaður Húseigendafélagsins, Ari Skúlason, hagfræðingur Alþýðusambands Íslands, Ögmundur Jónasson og Björn Arnórsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Kristján Jóhannsson, formaður Sambands félaga sumarhúsaeigenda á Íslandi, og Anna Bjarnadóttir, Atli Eðvaldsson, Árni Reynisson, Guðjón Kristbergsson og Gunnar Guðmundsson tryggingamiðlarar. Þá studdist nefndin við umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Árna Reynissyni, Brunabótafélagi Íslands, Gunnari Guðmundssyni, Lögmannafélagi Íslands, Neytendasamtökunum, Ólafi Hauki Johnson, Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Tryggingaeftirlitinu, utanríkisráðuneyti, Vátryggingafélagi Íslands hf. og Vinnuveitendasambandi Íslands.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagt er til að 27. gr. verði breytt með þeim hætti að staðfesting Vátryggingaeftirlitsins verði ekki beinlínis forsenda þess að breytingar á samþykktum vátryggingafélags öðlist gildi eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Talið er að slíkt fortakslaust skilyrði sé of bindandi fyrir félögin, enda þótt eðlilegt sé að Vátryggingaeftirlit fái upplýsingar um þær breytingar sem verða á starfsemi vátryggingafélaga. Því er hér lagt til að slíkar breytingar verði tilkynntar innan viku frá samþykkt þeirra þannig að eftirlitinu gefist tækifæri til að gera athugasemdir við þær innan tveggja mánaða.
    Breytingar þær, sem lagðar eru til á 56., 62. og 63. gr. eru af sömu rót runnar. Nefndin leggur til að rýmkaður verði réttur vátryggingataka skv. 62. og 63. gr. Í þessum ákvæðum frumvarpsins felst að íslensk lög gildi fortakslaust um þá vátryggingasamninga sem Íslendingar kjósa að gera við erlend vátryggingafélög, en að vátryggingataki geti ekki valið sjálfur hvaða reglur hann kýs að semja um. Nefndin telur þessi skilyrði óeðlilega þröng og að þau hefti jafnt vátryggingataka og vátryggingafélög og séu þannig í andstöðu við grundvallarmarkmið um frelsi á þessu sviði. Því er lagt til að vátryggingataki geti samið um að löggjöf heimaríkis vátryggingafélags gildi um vátryggingasamninginn. Nefndin telur þó mikilvægt að hagsmunir vátryggingataka séu tryggðir, ekki síst þegar um er að ræða samninga á sviði líftrygginga. Því er lagt til að samhliða rýmkun á 62. og 63. gr. verði gert að skilyrði að vátryggingataka hafi verið kynnt ítarlega efni þeirrar löggjafar sem hann kýs að gangast undir. Leitast er við að tryggja það með breytingu sem lögð er til á 56. gr. frumvarpsins sem kveður á um upplýsingaskyldu.
    Lagt er til að hinn svonefndi „iðrunarréttur“, sem kveðið er á um í 60. gr., gildi einungis um líftryggingar sem teknar eru til sex mánaða eða lengri tíma. Með því er komið í veg fyrir hugsanlega misnotkun vátryggingataka, þ.e. að menn taki slíka tryggingu í tengslum við tiltekna tímabundna áhættu, svo sem vegna lífshættulegrar aðgerðar, en segi henni síðan upp innan 30 daga frestsins.
    Lagt er til að bætt verði við ákvæði til bráðabirgða nýrri málsgrein sem tryggi að unnt verði að framfylgja nauðsynlegu eftirliti stjórnvalda með starfsemi erlendra vátryggingafélaga hér á landi. Fyrir liggur að ákvæði tiltekinna gerða EES-samningsins munu ekki taka gildi á sama tíma í öllum aðildarríkjum samningsins og kunna þá lagareglur, reistar á eldri gerðum, enn að vera í gildi í sumum aðildarríkjum. Með breytingunni, sem hér er lögð til, er komið í veg fyrir að misræmi skapist í framkvæmd eftirlits með vátryggingastarfsemi í samskiptum ríkjanna.

Alþingi, 26. apríl 1994.



Gunnlaugur Stefánsson,

Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Ingibjörg Pálmadóttir.


form., frsm.



Guðmundur Hallvarðsson.

Margrét Frímannsdóttir.

Sólveig Pétursdóttir.



Finnur Ingólfsson.

Sigríður A. Þórðardóttir.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.