Ferill 577. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 577 . mál.


1067. Nefndarálit



um frv. til l. um brunatryggingar.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem kveður á um að brunatryggingar húseigna verði gefnar frjálsar og að lögbundnar heimildir sveitarfélaga til að semja um eða annast brunatryggingar húseigna, annars vegar í Reykjavík og hins vegar utan Reykjavíkur, verði afnumdar. Breytingar þær, sem felast í frumvarpinu, eru nauðsynlegar vegna samkeppnisreglna EES-samningsins, þ.e. að aðgangur vátryggingafélaga að brunatryggingamarkaði hér á landi verði frjáls og vátryggingatakar sjálfir geti valið það félag sem þeir kjósa að skipta við.
    Nefndin fjallaði um frumvarpið samhliða frumvarpi til laga um vátryggingastarfsemi, 450. máli, og frumvarpi til laga um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, 578. máli. Á fund nefndarinnar vegna framangreindra mála komu Dögg Pálsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðisog tryggingamálaráðuneyti, Erlendur Lárusson og Rúnar Guðmundsson frá Tryggingaeftirliti ríkisins, Axel Gíslason, Ólafur B. Thors og Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Ingi R. Helgason, forstjóri Brunabótafélags Íslands, Jón G. Tómasson borgarritari og Eyþór Fannberg frá Húsatryggingum Reykjavíkurborgar, Magnús Axelsson, formaður Húseigendafélagsins, Ari Skúlason, hagfræðingur Alþýðusambands Íslands, Ögmundur Jónasson og Björn Arnórsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Kristján Jóhannsson, formaður Sambands félaga sumarhúsaeigenda á Íslandi. Þá studdist nefndin við umsagnir frá borgarstjórn Reykjavíkur, Brunabótafélagi Íslands, Sambandi félaga sumarhúsaeigenda á Íslandi, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Samkeppnisstofnun og Tryggingaeftirliti ríkisins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Lagt er til að 2. gr. verði breytt þannig að unnt sé að fela annaðhvort dómkvöddum matsmönnum eða Fasteignamati ríkisins virðingu skylduvátryggðra húseigna. Nefndin telur rétt að fleiri en Fasteignamat ríkisins geti annast matið og leggur til að tryggingafélögum verði frjálst að semja við aðra, dómkvadda matsmenn, um að annast þetta mat. Nefndin leggur þó til að kveðið verði á um að virðingin sé gerð á grundvelli matseiningakerfis Fasteignamats ríkisins og að dómkvöddum matsmönnum verði skylt að tilkynna Fasteignamatinu um virðingu. Þannig er tryggt eftirlit með því að allar húseignir í landinu séu á hverjum tíma brunatryggðar.
     Enn fremur telur nefndin mikilvægt að eftirfarandi komi fram: Í 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða segir að tekjur sem Reykjavíkurborg kunni að hafa af rekstri Húsatrygginga Reykjavíkur skuli leggja í sjóð til eflingar brunavörnum og tryggingarstarfsemi. Nefndin vill leggja áherslu á að skýrt kom fram við umfjöllun um málið að ekki er með því átt við að Húsatryggingar Reykjavíkur geti að óbreyttu haslað sér völl á öðrum tryggingarsviðum en brunatryggingum húseigna. Til að slíkar breytingar kæmu til framkvæmda þyrfti að breyta samþykktum um starfsemi Húsatrygginga Reykjavíkur og endurskoða núgildandi rekstrarleyfi Húsatrygginga. Þá vill nefndin einnig taka fram að þrátt fyrir að frumvarpið geri ráð fyrir að kveðið sé á um framtíð Húsatrygginga Reykjavíkur í ákvæði til bráðabirgða er ákvæðinu ekki markaður tiltekinn gildistími. Ákvæðið mun standa óhaggað svo lengi sem menn kjósa að starfrækja Húsatryggingar Reykjavíkur. Talsverðar umræður urðu í nefndinni um hlutverk fasteignamats, sem skattmats, annars vegar og brunabótamats hins vegar. Nefndin vill leggja áherslu á að grundvöllur fasteignamats húseigna verði ekki hinn sami og grundvöllur brunabótamats og að þessum þáttum verði haldið aðskildum.

Alþingi, 26. apríl 1994.



Gunnlaugur Stefánsson,

Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Ingibjörg Pálmadóttir,


form., frsm.

með fyrirvara.



Guðmundur Hallvarðsson.

Margrét Frímannsdóttir,

Sólveig Pétursdóttir.


með fyrirvara.



Finnur Ingólfsson,

Sigríður A. Þórðardóttir.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,


með fyrirvara.

með fyrirvara.