Ferill 283. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 283 . mál.


1090. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað mjög ítarlega um frumvarpið. Á fund nefndarinnar komu Árni Kolbeinsson, Halldór Árnason, Arndís Steinþórsdóttir og Snorri Rúnar Pálmason frá sjávarútvegsráðuneytinu, Kristján Ragnarsson og Jónas Haraldsson frá LÍÚ, Hólmgeir Jónsson og Óskar Vigfússon frá Sjómannasambandi Íslands, Benedikt Valsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Helgi Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands, Arnar Sigurmundsson og Ágúst Elíasson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Teitur Stefánsson frá Útvegsmannafélagi Akraness, Guðmundur Kristjánsson frá Útvegsmannafélagi Snæfellsness, Einar Oddur Kristjánsson og Ingimar Halldórsson frá Útvegsmannafélagi Vestfjarða, Sverrir Leósson og Valdimar Bragason frá Útvegsmannafélagi Norðurlands, Eiríkur Ólafsson frá Útvegsmannafélagi Austfjarða, Halldóra Jónsdóttir frá Útvegsmannafélagi Hornafjarðar, Hilmar Rósmundsson frá Útvegsmannafélagi Vestmannaeyja, Benedikt Thorarensen frá Útvegsmannafélagi Þorlákshafnar, Halldór Ibsen frá Útvegsmannafélagi Suðurnesja, Guðrún Lárusdóttir frá Útvegsmannafélagi Hafnarfjarðar, Sigurbjörn Svavarsson frá Útvegsmannafélagi Reykjavíkur, Eyjólfur Torfi Geirsson frá Samtökum sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, Gunnar Jóhannsson frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Björn Sigurbjörnsson, Björn Valdimarsson, Bjarni Þór Einarsson og Magnús B. Jónsson frá Sambandi sveitarfélaga á Norðurlandi Vestra, Einar Njálsson frá Eyþingi — Sambandi sveitarfélaga á Norðurlandi Eystra, Björn Hafþór Guðmundsson frá Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Bjarni Jónsson og Hjörtur Þórarinsson frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Bjarni Andrésson og Kristján Pálsson frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Gylfi Arnbjörnsson frá ASÍ, Björn Grétar Sveinsson og Jón Karlsson frá VMSÍ, Árni Gíslason, Hrólfur Gunnarsson og Óskar Þ. Karlsson frá Félagi um nýja sjávarútvegsstefnu, Þórður Ásgeirsson frá Fiskistofu, Jakob Jakobsson frá Hafrannsóknastofnun, Ásgeir Daníelsson frá Þjóðhagsstofnun, frá einstökum atvinnurekendum í sjávarútvegi þeir Halldór Árnason, Óskar Þórhallsson, Sighvatur Bjarnason og Svanur Guðmundsson, frá Samtökum fiskvinnslustöðva án útgerðar þeir Jón Ásbjörnsson, Óskar Þ. Karlsson, Kristján Guðmundsson og Gísli Erlingsson, Grétar Friðriksson frá Fiskmarkaði Hafnarfjarðar, Ólafur Þór Jóhannsson frá Fiskmarkaði Suðurnesja, frá Fiskifélagi Íslands þeir Bjarni Kr. Grímsson, Jónas Haraldsson og Örn Pálsson sem ásamt Arthuri Bogasyni mætti einnig fyrir hönd Landsambands smábátaeigenda og loks Árni Benediktsson sem mætti bæði fyrir hönd Íslenskra sjávarafurða hf. og Vinnumálasambands samvinnufélaganna. Gestir skiluðu einnig langflestir skriflegum greinargerðum um málið til nefndarinnar.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Þær kveða á um að:
    Að banndögum verði fækkað um einn í hverjum mánuði þannig að þeir verði sex í stað sjö eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Þá er lögð til nokkuð önnur útfærsla á banndögunum þannig að veiðar eru bannaðar aðra hverja helgi ásamt föstudögum á undan þeim helgum, en frumvarpið gerði ráð fyrir veiðibanni síðustu sjö daga hvers mánaðar. Þá er tekið inn í frumvarpið ákvæði um að þó að meginreglan sé að smábátum sé aðeins heimilt að stunda veiðar með línu og handfærum sé sjávarútvegsráðherra heimilt að veita þeim leyfi til að stunda veiðar á botndýrum með þeim veiðarfærum sem til þarf og veiðar á grásleppu í net. Með þessu er einungis verið að staðfesta gildandi framkvæmd.
    Fellt verði niður skilyrði um að tekjur þurfi að rýrna um meira en 10% milli hverra tveggja ára til að jöfnunaraðgerðir séu heimilar. Rökin fyrir þessari breytingu eru að ákveðinn stofn getur verið í lægð í nokkur ár í röð þótt tekjurýrnun af þeim sökum milli ára nái ekki 10% markinu.
    Hætt verði við að þrengja heimildir til flutnings aflamarks á botnfisktegundum og úthafsrækju milli ára og einnig að slíkar heimildir verði víkkaðar gagnvart humri og síld.
    Tekin verði út úr frumvarpinu ákvæði sem mæla fyrir um heimild til að framselja aflahlutdeild til fiskvinnslustöðva.
    Þrengd verði heimild til flutnings aflamarks milli skipa. Ástæða þeirrar breytingar er gagnrýni sjómannasamtakanna á að útgerðarmenn geti framselt allan kvóta tiltekinnar tegundar af skipum sínum og keypt aftur kvóta af sömu tegund að því er virðist í þeim eina tilgangi að lækka laun til sjómanna. Breytingin kemur samt ekki í veg fyrir jöfn skipti þar sem skipt er á aflamarki einnar tegundar gegn aflamarki annarrar á þann hátt sem tíðkast hefur á undanförnum árum. Þá má óhindrað flytja aflamark á milli skipa hjá sömu útgerð enda er ekki litið svo á sem þar sé um eiginleg viðskipti að ræða. Þannig eiga eðlileg viðskipti með aflamark að geta gengið greiðlega fyrir sig eftir sem áður. Þeir aðilar, sem kaupa aflamark einstakra tegunda til þess að auka veiðar á þeim tegundum, eru áfram frjálsir að því og þeir aðilar, sem vilja selja frá sér aflamark í einstökum tegundum sem þeir hyggjast ekki veiða, eru frjálsir áfram að slíku. Það sem breytist er að nú verða sett takmörk á það að aðilar séu að kaupa eða selja sömu tegundina. Gera má ráð fyrir að þessi breyting muni leiða til aukinna viðskipta með aflahlutdeild í framtíðinni.
    Lágmarksveiði af samanlögðu aflamarki án þess að missa veiðileyfi og aflahlutdeild verði 50% í stað 25% eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
    Slakað verði á þeim kröfum sem gerðar eru í 10. gr. frumvarpsins um að til að ráðherra sé heimilt að víkja frá framangreindri 50% reglu þurfi skipi að hafa verið haldið til veiða fyrir utan íslenska fiskveiðilögsögu í samfleytt 12 mánuði eða lengur. Meiri hlutinn leggur til að í staðinn verði 50% hlutfallið lækkað um 5% fyrir hverja fulla 30 daga sem skipi er haldið til veiða utan lögsögunnar.
    Ákvæði um staðfestingargjald til Fiskistofu af flutningi á aflamarki verði fellt út úr frumvarpinu.
    Felld verði niður bráðabirgðaákvæði frumvarpsins en þau varða sérákvæði varðandi smábáta. Þetta þýðir að krókaleyfisbátum verður ekki heimilt að fara yfir í aflamarkskerfið og enn fremur mun hið nýja fyrirkomulag ekki taka gildi fyrr en 1. september næstkomandi.

Alþingi, 28. apríl 1994.



Vilhjálmur Egilsson,

Gunnlaugur Stefánsson.

Árni R. Árnason.


frsm.



Einar K. Guðfinnsson.

Guðmundur Hallvarðsson.