Ferill 283. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 283 . mál.


1114. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Það frumvarp, sem hér er til umfjöllunar, hefur haft langan aðdraganda. Gildandi lög um stjórn fiskveiða voru sett í maí 1990 og tóku gildi í upphafi árs 1991. Sú reynsla, sem fengist hafði á lögum sem giltu til skamms tíma, var slæm og því náðist að lokum samkomulag um að setja varanlega löggjöf um stjórn fiskveiða. Þó var ákveðið að sjávarútvegsráðherra skyldi láta endurskoða lögin fyrir árslok 1992. Stjórnarflokkarnir hafa tekið nær þrjú ár í að endurskoða löggjöfina og sáralítið samráð hefur verið haft við hagsmunaaðila og stjórnarandstöðuflokkana á Alþingi. Allt hefur þetta flækt málsmeðferðina og ósamkomulag innan ríkisstjórnarflokkanna hefur skapað verulega óvissu í atvinnugreininni.
    Það er út af fyrir sig fagnaðarefni að þessu starfi skuli nú loks vera að ljúka, en það er að sjálfsögðu ekki sama hvernig því lýkur. Við lok málsins verður að hafa í huga heildarhagsmuni þjóðarinnar og þá staðreynd að sjávarútvegurinn er langmesta auðsuppspretta þjóðarinnar. Hagkvæmni sjávarútvegsins skiptir sköpum fyrir sérhvern einstakling í samfélaginu og á tímum minnkandi þjóðartekna og atvinnuleysis verða starfsskilyrði atvinnuveganna að mótast af hagkvæmnissjónarmiðum. Starfsskilyrði sjávarútvegsins þurfa ávallt að vera góð ef hann á að geta staðið undir þeim kröfum sem samfélagið gerir til hans og verið samkeppnishæfur á erlendum mörkuðum. Þær leikreglur, sem starfað er eftir, þurfa því að að skapa vissu en ekki óvissu og vera það skýrar að þær séu aðgengilegar fyrir alla. Engin leið er að komast hjá hagsmunaárekstrum í sambandi við þetta mikla og flókna mál, en hér sem annars staðar verða heildarhagsmunirnir að ráða ferðinni og sú staðreynd að fyrirtæki í sjávarútvegi eru víða að berjast fyrir lífi sínu og búa við slæma afkomu. Mörg þessara fyrirtækja eru meginundirstaða heilla byggða. Öll óvissa í þessum efnum skapar svartsýni og dregur úr krafti fólksins til að takast á við verkefni framtíðarinnar.
    Annar minni hluti nefndarinnar telur mikilvægt að eyða þeirri óvissu sem hefur ríkt og festa í sessi þá fiskveiðistefnu sem hér hefur verið rekin. 2. minni hluti harmar það hins vegar að ekki hefur þótt ástæða til að reyna að skapa breiðari samstöðu um málið. Framsóknarflokkurinn ber mikla ábyrgð á núverandi fiskveiðistefnu. Undirritaðir nefndarmenn eru sannfærðir um að sjávarútvegurinn væri mun verr staddur ef ekki hefði verið tekið upp fyrir nokkrum árum það fiskveiðistjórnarkerfi sem við nú búum við. Hagkvæmni þess er augljós umfram það sem áður var og verðmætasköpunin hefur stóraukist með tilkomu þess.
    Annar minni hluti getur ekki samþykkt breytingar sem verða til þess að draga úr hagkvæmni í atvinnugreininni. 2. minni hluti getur ekki fallist á að þær skorður séu settar á framsal aflaréttinda sem gert er ráð fyrir í breytingartillögum meiri hlutans. Það verður heldur ekki séð að þær breytingar leysi þau vandamál sem upp hafa komið milli sjómanna og útvegsmanna. Þau vandamál verður fyrst og fremst að leysa í samstarfi þessara aðila. Ef samstarfið á að byggjast á að draga úr hagkvæmni og skapa vandamál fyrir verkafólk víðs vegar um land og sjómannastéttina að hluta er illa af stað farið. 2. minni hluti getur því ekki fallist á þá breytingartillögu við 3. mgr. 12. gr. sem gerir ráð fyrir því að lagt verði bann við að flytja aflamark til skipa nema meira en 15% aflamarks af sömu tegund hafi verið flutt af skipinu á fiskveiðiárinu eða öfugt. Þessi regla mun leiða til óhagræðis og skapa vandamál sem ekki er hægt að sjá fyrir endann á. Hún mun hugsanlega leysa einhver þau ágreiningsmál sem upp hafa komið milli sjómanna og útvegsmanna, en það er ósanngjarnt að það bitni á fjöldanum. Með þessari reglu er líka verið að mismuna aðilum því að gert er ráð fyrir að útgerðarfyrirtæki, sem eiga mörg skip, geti verið frjáls í að hagræða milli skipa sinna, en minni aðilarnir, sem aðeins eiga eitt skip, geti ekki komið við slíkri hagræðingu. Þetta mun m.a. hafa þau áhrif að aflaheimildir færast á hendur færri og stærri aðila sem er þróun sem 2. minni hluti telur að eigi að sporna við. Mörg dæmi hafa verið nefnd um þau vandamál sem upp geta komið og vísast í því sambandi til fylgiskjala með nefndarálitinu.
    Annar minni hluti telur eðlilegt að sérhvert fiskiskip þurfi að veiða ákveðinn hluta af aflamarki sínu. Fram til þessa hefur það þurft að veiða 25% en meiri hluti nefndarinnar leggur til að það verði hækkað í 50%. 2. minni hluti getur fallist á að þessi mörk verði hækkuð og leggur því til að þau hækki úr 25% í 40%. 2. minni hluti hefði talið eðlilegt að sérhvert skip þyrfti að hafa lágmarksaflaréttindi til að hafa réttindi til veiða. 2. minni hluti er ekki á þessu stigi tilbúinn með slíka breytingartillögu en er tilbúinn til samstarfs um að setja slíkar reglur. 2. minni hluti telur hins vegar að betri tíma þurfi til að fara ofan í þessi framsalsmál og telur rétt að fresta ákvörðunum um þau til haustsins. Eðlilegt væri að skipa nefnd hagsmunaaðila og stjórnmálaflokka til að fara yfir málið.
    Þjóðarbúið má ekki við því að tapa verðmætum. Öll löggjöf og starfsskilyrði atvinnugreinarinnar eiga að miða að því að hægt sé að koma við hagræðingu og sparnaði í rekstri fyrirtækjanna til aukinnar verðmætasköpunar. Stjórnvöld, sem banna skynsamlega hluti, munu ekki skapa traust hjá þjóðinni og byggja upp vonir um betri tíð. Þetta frumvarp eykur svartsýni á þeim tímum þegar við þurfum mest á því að halda að efla bjartsýni og fá kraft í atvinnulífið. Fjölmargir forsvarsmenn í sjávarútveginum hafa lýst afleiðingum þessa máls. Þeir telja að með samþykkt þess muni tapast milljarðar fyrir þjóðarbúið. Þjóðhagsstofnun hefur verið fengin til að fara yfir þessa útreikninga, en ekki hefur gefist tími til að bíða eftir niðurstöðum hennar. Svo mikið liggur á að ekki er beðið eftir því að fá álit þeirra sem mesta reynslu og þekkingu hafa á málinu.
    Annar minni hluti flytur breytingartillögur á þskj. 1115 og mun gera nánari grein fyrir áliti sínu við umræður um málið. Verði breytingartillögurnar ekki samþykktar munu undirritaðir nefndarmenn greiða atkvæði á móti málinu í heild sinni. Allt er það undirbúið af og á ábyrgð stjórnarflokkanna sem hafa afneitað eðlilegu samstarfi um málið.

Alþingi, 28. apríl 1994.



Stefán Guðmundsson,

Halldór Ásgrímsson.


frsm.






Fylgiskjal I.


Umsögn Atvinnumanna, samstarfshóps um hagkvæma stjórn fiskveiða,


örugga atvinnu og aukna verðmætasköpun til sjós og lands.


(25. apríl 1994.)




ÁBENDINGAR VEGNA FYRIRHUGAÐRAR AFGREIÐSLU


FRUMVARPA UM SJÁVARÚTVEGSMÁL




(Repró, 11 síður.)




Fskj.


Bréf Halldórs Árnasonar, framkvæmdastjóra Borgeyjar hf., Höfn.


(27. febrúar 1994.)



    Ég hef verið beðinn að senda dæmi um skaðleg áhrif þeirra frumvarpa sem nú liggja fyrir um breytingar á stjórnun fiskveiða. Áður en slík dæmi eru nefnd er rétt að árétta að erfitt getur verið að átta sig á í fljótu bragði öllum þeim skaðlegu áhrifum sem jafnmiklar takmarkanir og fyrirhugaðar eru á framsalsréttinum hafa. Framsal veiðiheimilda er jú einn mikilvægasti þátturinn í hagkvæmni kvótakerfisins.

Dæmi um síld.
    Hefðbundinn síldveiðibátur var með 1,5 síldarkvóta en ætlaði að veiða tvo á síðustu vertíð. Leigður var 0,5 síldarkvóti og færður inn á skipið sem er meira en 15%. Síldarvertíðin gekk verr en menn höfðu ætlað og talið sig geta búist við svo að báturinn náði ekki öllum kvóta sínum. Nú í apríl var gerður samningur við mun öflugra nótaveiðiskip (loðnubát) um að veiða það sem eftir var af kvótanum. Ef fyrirhugaðar breytingar ná fram að ganga yrði þetta óheimilt þar sem búið yrði að læsa einstefnulokanum þannig að eingöngu mætti færa kvóta inn á skipið. Afleiðingarnar hefðu m.a. verið minni atvinna í landi meðan á hrygningarstoppinu stóð.

Dæmi um humar.
    Útgerðin leigir öðrum aðila 140 tn af þorskkvóta sínum sem upphaflega var 200 tn og skilur þannig 60 tn eftir sem alltaf hefur dugað sem aukaafli á humarveiðum. Ef þorskaflinn sem fylgir humrinum yrði óvænt meiri en í eðlilegu ári gæti þessi bátur ekki leigt sér kvóta til að brúa bilið. Hann yrði að hætta veiðum á miðri humarvertíð. Ef hann hefði líka í upphafi vertíðar leigt sér 2 tn af humarkvóta til að geta veitt 12 tn í stað 10 tn gæti hann ekki lengur fært afganginn af humarkvótanum út af bátnum og hann brynni þar með inni.
    Spyrja má um skynsemina í að setja slíkar reglur og hver hagnast á þeim.
Fylgiskjal II.


Ragnar Árnason, prófessor
í fiskihagfræði við viðskipta- og
hagfræðideild Háskóla Íslands:


Skaðlegt frumvarp um breytingar á stjórn fiskveiða.


    Í framhaldi af áliti svokallaðrar tvíhöfðanefndar og mikils samningamakks stjórnarflokkanna lagði sjávarútvegsráðherra í vetur fram frumvarp um breytingar á gildandi lögum um stjórn fiskveiða. Þótt frumvarpið sé stjórnarfrumvarp hefur það átt torvelt uppdráttar í þinginu. Samstaða stjórnarþingmanna um málið er með þeim hætti að áhöld hafa verið um hvort frumvarpið næði fram að ganga án stuðnings frá stjórnarandstöðunni. Eftir slíkum stuðningi hefur hins vegar ekki verið leitað. Þess í stað hefur farið fram víðtækt samningamakk innan ríkisstjórnarflokkanna um málið. Niðurstaða þessara hrossakaupa hefur nú verið birt þjóðinni í mynd breytingartillagna við umrætt frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.
    Það er skemmst frá að segja að þessar nýju tillögur fela í sér afskaplega skaðlegar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Alvarlegast er að réttur til framsals veiðiheimilda er stórlega skertur. Ýmis önnur ákvæði eru einnig afar skaðleg. Horfið er frá því að leyfa fiskvinnslustöðvum að eiga kvóta. Þá er frelsi smábáta, svokallaðra krókaleyfisbáta, til veiða utan kvóta aukið.

Framsal veiðiheimilda.
    Framsal veiðiheimilda er einn veigamesti þátturinn í hagkvæmni kvótakerfisins. Framsalið þýðir m.a. að kvótarnir leita til hagkvæmustu útgerðanna. Slakari útgerðir sjá sér hag í að selja eða leigja þeim betri kvóta og öfugt. Hagtölur um afkomu útgerðar sýna að framleiðni þeirra á aflaeiningu er fjarska mismunandi. Það er því mikið þjóðhagslegt hagkvæmnisatriði að besti hluti flotans veiði leyfilegan heildarafla.
    Einfalt dæmi varpar ljósi á þetta: Varlega áætlað er um 25% munur á hreinu þjóðhagslegu verðmæti þess þriðjungs fiskaflans sem veiddur er af hagkvæmasta hluta flotans og þess þriðjungs sem veiddur yrði af óhagkvæmasta hluta flotans ef hann gæti ekki framselt aflaheimildir sínar. Þetta þýðir að virðisauki í fiskveiðunum vex um 7,25% ef framangreindur hagkvæmasti hluti flotans veiðir allar aflaheimildir þess óhagkvæmasta. Virkari tilflutningur aflaheimilda mundi framkalla enn meiri ábata. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að árlegt aflaverðmæti í fiskveiðunum er í námunda við 50 milljarða króna árlega og virðisaukinn sennilega á bilinu 30–35 milljarðar króna.
    Þetta dæmi sýnir að þegar af þeirri ástæðu að fiskiskipin og útgerðir þeirra eru mishagkvæmar eru allar takmarkanir á framsal aflakvóta afar kostnaðarsamar fyrir þjóðina. Tölurnar sýna að þessi kostnaður getur hæglega numið mjög háum upphæðum, jafnvel milljörðum króna árlega.
    Mishagkvæmar útgerðir eru hins vegar aðeins ein ástæða fyrir því að framsal kvóta er mikið þjóðhagslegt hagkvæmnisatriði. Þar kemur margt fleira til. Kaup og sala kvóta er til að mynda veigamikill þáttur í því að mæta óvæntum aðstæðum í útgerð, tímabundnum sveiflum í veiðiskilyrðum o.s.frv. Þá er framsal kvóta einnig mikilvægur þáttur í því að auðvelda sérhæfingu fiskvinnslustöðva í vinnslu fisktegunda. Án ítarlegra rannsókna er ekki auðvelt að koma tölumati á þessi hagkvæmnisatriði. Margt bendir hins vegar til þess að þau skili ekki minni upphæðum en nefndar voru í dæminu hér að faman.
    Af því sem nú hefur verið rakið má ljóst vera að sem frjálsast framsal aflakvóta er gríðarlegt hagsmunaatriði fyrir þjóðina í heild. Hömlur á þetta framsal eru að sama skapi skaðlegar. Mikilvægt er að átta sig á því að það eru ekki einungis útgerðarmenn heldur öll þjóðin sem ber þennan kostnað. Kostnaðurinn við hömlur á framsal kvóta er að hluta borinn af fiskvinnslufólki vegna breytinga í vinnslu og vinnsludreifingu fiskafla. Kostnaður við takmarkað framsal kvóta er að hluta borinn af sjómönnum vegna þess að minni virðisauki í útgerð þýðir óhjákvæmilega lægri laun til sjómanna, a.m.k. þegar fram í sækir. Kostnaður við takmarkað framsal er að lokum borinn af þjóðinni í heild, annars vegar vegna lægri opinberra gjalda útgerðarinnar og hins vegar lægra gengis krónunnar en þörf hefði verið á.

Óþarft.
    Framangreindar tillögur um takmarkanir á framsal kvóta eru réttlættar með því að tryggja verði að sjómenn þurfi ekki að taka þátt í kvótakaupum. Í þeim frumvarpapakka í sjávarútvegsmálum, sem nú liggur fyrir Alþingi, eru hins vegar mörg önnur ákvæði um þetta efni. Þar er m.a. frumvarp um að lögfest verði að ekki sé heimilt að draga kostnað við kvótakaup frá aflaverðmæti fyrir skipti og eru sektir lagðar við brotum. Auk þess er þar að finna frumvarp um samstarfsnefnd sjómanna og útgerðarmanna sem hefur það eina verkefni að gæta þess að sjómenn þurfi ekki að taka þátt í kvótakaupum. Ekki verður annað séð en að þessi ákvæði séu fullnægjandi til að tryggja hagsmuni sjómanna í þessu efni.
    Jafnvel þótt svo væri ekki væri það mikið glapræði að tryggja fjárhagslega hagsmuni sjómanna upp á e.t.v. nokkra tugi milljóna með því að skerða tekur allrar þjóðarinnar upp á hundruð milljóna eða milljarða. Það er nóg af ódýrari leiðum til þess arna.

Lokaorð.
    Þjóðin hefur vissulega brýna þörf fyrir alla þá hagkvæmni í framleiðslu sem unnt er að ná. Í yfirstandandi efnahagskreppu hafa verið lagðar þungar byrðar á þjóðina í nafni hagræðingar og hagkvæmni. Sem betur fer hefur framleiðni vaxið stórlega í mörgum atvinnuvegum og raunar hvergi meira en í sjávarútvegi. Það er því með miklum endemum ef löggjafarstofnun þjóðarinnar hyggst nú með nokkrum pennastrikum skapa stórkostlega óhagkvæmni í framleiðslustarfseminni með því að takmarka framsal aflaheimilda.
    Eftir að þjóðin glataði sjálfstæði sínu á 13. öld var hún langtímum saman bundin í ánauð hafta og reglna sem takmörkuðu viðskipti og þar með verðmætaköpun. Margar af þessum hömlum voru af svipuðu tagi og þær sem nú liggja fyrir Alþingi í kvótamálum. Mönnum var bannað að kaupa og selja verðmæti í samræmi við skilaboð markaðarins. Afleiðingin var m.a. fátækt og neyð hins íslenska samfélags öldum saman. Það er sárgrætilegt ef í ljós kemur að umtalsverður hluti kjörinna fulltrúa sjálfstæðs Íslands telur það nú heillaráð að halda að nýju inn á þessa braut.





Fylgiskjal III.


Verkamannasamband Íslands:

Hugsanleg áhrif lagafrumvarpa um sjávarútveg


á fiskvinnslu í landi.


(25. apríl 1994.)



(Repró, 3 síður.)





Fylgiskjal IV.


Umsögn Landssambands íslenskra útvegsmanna.


(22. mars 1994.)



(Repró, 1 síða.)



Virðingarfyllst,


f.h. Landssambands ísl. útvegsmanna,



Kristján Ragnarsson.




Fskj.

Dæmi um áhrif hindrunar á flutninga aflamarks miðað við reglu nr. 4


í breytingartillögum við frumvarp til laga um stjórn fiskveiða.


    Bátur hefur eftirtaldar veiðiheimildir: Þorskur 100 tonn, ýsa 30 tonn, ufsi 20 tonn, skarkoli 10 tonn og úthafsrækja 100 tonn. Eigandi þessa báts framselur 16 tonn af þorski og er þá óheimilt að flytja til sín á ný þorskheimild.
    Sami aðili lætur frá sér 6 tonn af ýsu. Nú eykst ýsuveiði og er honum þá ókleift að bæta við ýsukvóta. Þessu má einnig snúa við, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Þessi aðili er bjartsýnn í byrjun vertíðar og flytur til bátsins 20 tonn af þorski. Afli bregst og útgerðaraðila þykir betra að fara með bátinn til rækjuveiða og er honum þá óheimilt að framselja þorskkvótann. Með þessari reglu er hindrað að útgerðaraðili geti breytt um útgerðarhætti á fiskveiðiárinu.
    Í þessum tilfellum geta menn þó jafnað með jöfnum skiptum áður gerðan flutning þannig að þeir verða ekki háðir þessum skilyrðum. Í framkvæmd verður þetta mjög flókið en margir möguleikar eru til að komast hjá ákvæðinu.
    Með 0 kvóta á einhverri tegund virðist mega flytja að og frá án takmarkana. Það getur því verið áhugavert að hafa kvóta aðeins í einni tegund því að þá er heimill flutningur án takmakana í öðrum tegundum.
    Meginókostur þessa ákvæðis er sá að hann bindur hendur manna síðar á fiskveiðiárinu vegna ákvarðana sem teknar voru í upphafi eða fyrr á fiskveiðiárinu. Oft gerast ófyrirsjáanleg atvik í útgeðarrekstri sem leiða til þess að breyta verður áherslum í veiðum.
    Með hliðsjón af framangreindu er ómögulegt að skilja hvaða tilgangi þetta ákvæði á að þjóna og hverjum það getur orðið til gagns.




Fylgiskjal V.


Umsögn útvegsmannafélaga.


(7. mars 1994.)



(Repró, 3 síður.)




Virðingarfyllst,



F.h. Útvegsmannafélags Akraness,


Teitur Stefánsson.



F.h. Útvegsmannafélags Austfjarða,


Eiríkur Ólafsson.



F.h. Útvegsmannafélags Hafnarfjarðar,


Guðrún Lárusdóttir.



F.h. Útvegsmannafélags Hornafjarðar,


Halldóra B. Jónsdóttir.



F.h. Útvegsmannafélags Norðurlands,


Sverrir Leósson.



F.h. Útvegsmannafélags Reykjavíkur,


Sigurbjörn Svavarsson.



F.h. Útvegsmannafélags Snæfellsness,


Guðmundur Kristjánsson.



F.h. Útvegsmannafélags Suðurnesja,


Halldór Ibsen.



F.h. Útvegsbændafélags Vestmannaeyja,


Hilmar Rósmundsson.



F.h. Útvegsmannafélags Þorlákshafnar,


Benedikt Thorarensen.



Fskj.

Jón Þór Gunnarsson,
sjávarútvegssviði KEA:



Samantekt um afla og aflahlutdeild smábáta.




(Repró, 2 síður.)




Fylgiskjal VI.


Umsögn Útvegsmannafélags Vestfjarða.


(7. mars 1994.)



(Repró, 1 síða.)




Virðingarfyllst,


f.h. Útvegsmannafélags Vestfjarða,



Ingimar Halldórsson, formaður.






Fylgiskjal VII.


Fréttatilkynning frá Samtökum fiskvinnslustöðva.


(18. apríl 1994.)



(Repró, 1 síða.)





Fylgiskjal VIII.


Umsögn Vélstjórafélags Íslands.


(20. apríl 1994.)




Um drög að breytingartillögum við frumvarpið:

(Repró, 1 síða.)



Um sérstakan viðbæti við breytingartillögur við frumvarp til laga um breytingu á fiskveiðistjórnunarlögunum:

(Repró, 1 síða, bútur!)



Virðingarfyllst,


f.h. Vélstjórafélags Íslands,



Helgi Laxdal.





Fylgiskjal IX.


Umsögn Sjómannasambands Íslands.


(20. apríl 1994.)



Um drög að breytingartillögum við frumvarpið:
    Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands telur tímabært að allar tegundir skipa sitji við sama borð varðandi stjórn fiskveiða. Því hefði verið eðlilegt að þeir bátar, sem nú hafa krókaleyfi, verði settir á aflamark eins og núgildandi lög gera ráð fyrir. Í þess stað er því miður lagt til að krókaleyfisbátarnir auki enn sinn hlut á kostnað þeirra skipa sem eru á aflamarki. Slíkt getur sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands ekki samþykkt. Sambandsstjórnin telur því hvorki breytingartillöguna við frumvarpið né þá tillögu sem fram kemur í frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990 til bóta. Sambandsstjórnin leggur til að núgildandi lög verði látin gilda óbreytt varðandi krókaleyfisbátana þannig að þeir verði framvegis á aflamarki eins og önnur skip í íslenska flotanum.
    Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands samþykkir breytingartillöguna um að fyrri málsliður 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins falli niður.
    Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands gerir ekki athugasemd við þennan lið.
    Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands fagnar þeirri breytingartillögu að 7. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990 skuli felld niður. Engin rök lágu til þess að fiskvinnslustöðvar gætu eignast veiðiheimildir eins og 7. gr. gerði ráð fyrir. Því styður sambandsstjórnin framangreinda breytingartillögu.
    Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands telur nauðsynlegt að settar séu skorður við því að handhafar veiðiheimilda geti verið að flytja heimildirnar að eigin geðþótta til og frá skipi. Sambandsstjórnin styður því þá breytingartillögu við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990 sem gerð er tillaga um í 5. lið. Er sú þrenging, sem hér er sett varðandi framsal veiðiheimilda, einn þáttur í því að koma í veg fyrir að sjómenn séu látnir taka þátt í kvótakaupum útgerðarinnar.
    Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands telur eðlilegt að meginreglan sé sú að það skip, sem fær úthlutað veiðiheimildum úr sameign íslensku þjóðarinnar, veiði sjálft upp í þær heimildir. Þó svo að í breytingartillögunni sé lagt til að þetta hlutfall hækki úr 25% eins og er í gildandi lögum upp í 50% telur sambandsstjórn Sjómannasambandsins of skammt gengið. Sambandsstjórnin leggur til að hlutfallið sem skip þarf að veiða sjálft til að halda veiðiheimildum sínum verði hækkað í 80% af samanlögðu aflamarki í þorskígildum talið tvö fiskveiðiár í röð.
    Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands telur sjálfsagt að það hlutfall veiðheimilda, sem skipi er skylt að veiða, lækki ef því er haldið í lengri tíma til veiða utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi. Því styður sambandsstjórnin þetta ákvæði.
    Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands styður þá breytingartillögu sem hér er gerð við frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Ekki er ástæða til að útgerðin greiði sérstakt gjald fyrir hverja tilkynningu um flutning aflamarks umfram tíu.
    Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands gerir ekki athugasemd við þennan lið, sbr. þó athugasemd varðandi krókaleyfið.
    Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands gerir ekki athugasemd við þennan lið, sbr. þó athugasemd varðandi krókaleyfið.
    Framangreindar athugasemdir við einstaka liði miðast við það frumvarp sem merkt er drög frá 19. apríl 1994. Verði breytingar á frumvarpinu í meðferð sjávarútvegsnefndar Alþingis áskilur sambandsstjórn Sjómannasambandsins sér allan rétt til að breyta afstöðu sinni. Nái breytingartillögurnar fram að ganga og verði tekið tillit til framangreindra athugasemda sambandsstjórnar Sjómannasambands Íslands getur sambandsstjórnin stutt breytingarnar á frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða.

Um sérstakan viðbæti við breytingartillögur við frumvarp til laga um breytingu á fiskveiðistjórnunarlögunum:
    Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands getur fallist á að heimilt verði að skrá skip sem á að úrelda undir íslenskum fána. Tryggt verður þó að vera að útgerðir skipa, sem þannig eru skráð, geti ekki gert kröfu um veiðiheimildir innan íslenskrar fiskveiðilögsögu þó að afli glæðist að nýju eftir nokkur ár. Alltaf er spurning hversu langt aftur í tímann á að heimila slíka skráningu. Heppilegast er að ákvæðið gildi frá þeim tíma sem lögin öðlast gildi. Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands er alfarið á móti því að heimilt verði að flytja inn gömul skip og skrá þau sérstakri skráningu undir íslenskum fána.

F.h. Sjómannasambands Íslands



Hólmgeir Jónsson.





Fylgiskjal X.


Athugasemdir Útvegsmannafélags Suðurnesja.


(28. apríl 1994.)



(Repró, 2 síður.)






Fylgiskjal XI.


Upplýsingar frá Íslenskum sjávarafurðum hf.




(Repró, 5 síður.)