Ferill 554. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 554 . mál.


1119. Nefndarálit



um frv. til l. um reynslusveitarfélög.

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Fékk hún á fund sinn til viðræðna frá félagsmálaráðuneytinu Önnu Guðrúnu Björnsdóttur deildarstjóra, Húnboga Þorsteinsson skrifstofustjóra og Sigfús Jónsson, formann verkefnisstjórnar reynslusveitarfélaga, frá umhverfisráðuneytinu Birgi Hermannsson, aðstoðarmann umhverfisráðherra, og Ingimar Sigurðsson skrifstofustjóra, frá samgönguráðuneytinu Þórhall Jósepsson deildarstjóra, frá fjármálaráðuneytinu Halldór Árnason skrifstofustjóra og Ólaf Hjálmarsson deildarstjóra, frá menntamálaráðuneytinu Ólaf Darra Andrésson deildarsérfræðing, frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu Guðjón Magnússon skrifstofustjóra, frá Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna Pál Halldórsson formann og Birgi Björn Sigurjónsson framkvæmdastjóra, frá Alþýðusambandi Íslands Hervar Gunnarsson, 2. varaforseta, og Guðmund Gylfa Guðmundsson hagfræðing, frá Húsnæðisstofnun ríkisins Percy B. Stefánsson forstöðumann og Sigurð E. Guðmundsson framkvæmdastjóra, frá Skipulagi ríkisins Sigurð Thoroddsen verkfræðing, Þórð Skúlason, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, Ögmund Jónasson, formann Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Sigríði Kristinsdóttur, formann starfsmannafélags ríkisstofnana, frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna Jóngeir H. Hlinason hagfræðing, frá Vinnuveitendasambandi Íslands Guðna Níels Aðalsteinsson hagfræðing, Ástu Möller, formann Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Gísla Gíslason, bæjarstjóra á Akranesi, og Hallgrím Guðmundsson, bæjarstjóra í Hveragerði. Nefndinni bárust umsagnir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, borgarstjórn Reykjavíkur, bæjarstjórnum Garðabæjar, Akraness, Akureyrar, Vestmannaeyja, Neskaupstaðar og Njarðvíkur, sveitarstjórn Skaftárhrepps, Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, Eyþingi, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Samtökum sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, sveitarstjórn Rangárvallahrepps, Vinnuveitendasambandi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þá bárust nefndinni einnig gögn frá samgönguráðuneytinu, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu og bæjarstjóranum í Hveragerði auk erinda frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.
    Lagðar eru til breytingar á 6. gr. sem fela í sér að félagsmálaráðherra skuli leggja skýrslur verkefnisstjórnar um framkvæmd verkefnisins fram á Alþingi árlega í stað þess að það skuli eingöngu gert að tilraunatímabilinu hálfnuðu og að því loknu eins og frumvarpið gerir ráð fyrir að óbreyttu.
    Lögð er til breyting á 15. gr. sem veitir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra heimild til að víkja frá ákvæðum laga um heilbrigðisþjónustu og málefni aldraðra þegar í hlut á reynslusveitarfélag sem vill gera tilraun á því sviði sem frumvarpið tekur til. Þannig bætist nýr málsliður við greinina sem kveði á um að óheimilt verði að víkja frá ákvæðum laga sem varða skilyrði um faglega ábyrgð í stjórnun heilbrigðisstofnana og innihald þeirrar þjónustu sem á að veita samkvæmt nefndum lögum. Tillaga þessi tryggir að hlutaðeigandi stofnanir lúti ákvæðum laga um faglega stjórnun heilbrigðisstofnana. Þannig verður tryggt að á heilsugæslustöð í reynslusveitarfélagi starfi læknir með faglega yfirstjórn lækningasviðs og hjúkrunarfræðingur með faglega yfirstjórn hjúkrunarsviðs, sbr. 29. gr laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, og ákvæði þar að lútandi í reglugerð fyrir heilsugæslustöðvar, nr. 160/1982. Á hinn bóginn kemur tillagan ekki í veg fyrir að hagræðing í formi breyttrar rekstrarstjórnunar eða breytts rekstarfyrirkomulags geti átt sér stað, svo sem frávik frá ákvæðum um aðild að stjórnum heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa eða skipun í þjónustuhóp aldraðra.
    Lagt er til að 17. gr. falli brott. Greinin fjallar um heimildir umhverfisráðherra til að víkja frá ákvæðum skipulagslaga og meðferð skipulagstillagna þegar reynslusveitarfélög eiga í hlut. Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að í þessari heimild fælust m.a. möguleikar til að víkja frá ákvæðum skipulagslaga um fresti. Eftir umfjöllun nefndarinnar varð það niðurstaða meiri hlutans að leggja til brottfall þessarar heimildar, m.a. sökum þess að hún er af öðrum toga en aðrar fráviksheimildir ráðherra frá ákvæðum laga samkvæmt frumvarpinu.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að í reglugerð skv. 20. gr. frumvarpsins verði sett ákvæði þess efnis að samþykktir reynslusveitarfélaga um tilraunir skuli sendar viðkomandi fagnefndum Alþingis til kynningar. Meiri hlutinn telur einnig mikilvægt að íbúar reynslusveitarfélaga eigi þess kost að kynna sér allar samþykktir um tilraunir í viðkomandi sveitarfélagi á einum aðgengilegum stað. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að í reglugerð skv. 20. gr. verði sett ákvæði þess efnis að sveitarstjórnir reynslusveitarfélaga skuli kynna íbúum sveitarfélagsins samþykktir sínar um tilraunir á aðgengilegri og heildstæðari hátt en birting í B-deild Stjórnartíðinda felur í sér, sbr. 3. mgr. 7. gr. frumvarpsins, svo sem í almennum kynningarbæklingum.

Alþingi, 28. apríl 1994.



Rannveig Guðmundsdóttir,

Gísli S. Einarsson.

Guðjón Guðmundsson.


form., frsm.



Ingibjörg Pálmadóttir,

Jón Kristjánsson,

Eggert Haukdal.


með fyrirvara.

með fyrirvara.



Einar K. Guðfinnsson.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,


með fyrirvara.