Ferill 546. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 546 . mál.
1120. Nefndarálit
um frv. til l. um breyt. á l. nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.
Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.
Fyrsti minni hluti nefndarinnar styður þá lækkun sem hér er lögð til á tryggingagjaldi í ferðaþjónustu og hugbúnaðariðnaði. Hann er hins vegar andvígur þeirri hækkun sem lögð er til á öðrum atvinnugreinum til þess að mæta þessari lækkun. Fyrsti minni hluti bendir á að í tillögum sínum varðandi skattamál nú fyrir jól sýndi hann fram á að ekki hefði þurft að hækka tryggingagjald um þau 0,35% sem ríkisstjórnin knúði þá fram.
Hækkun tryggingagjalds við þær erfiðu aðstæður, sem nú eru í atvinnulífinu, er afar óskynsamleg aðgerð. Nú er aftur verið að leggja til hækkun á gjaldinu um 0,15% á nokkrum atvinnugreinum. Núverandi ríkisstjórn er því á hálfu ári búin að hækka tryggingagjald um 0,5%, eða úr 2,5% í 3% á grundvallaratvinnuvegum þjóðarinnar.
Útreikningar Þjóðhagstofnunar á tillögum 1. minni hluta í vetur sýndu fram á að með þeim þurfti ekki að grípa til hækkunar á tryggingagjaldi. Þá sýndu útreikningarnir fram á að tillögurnar hefðu getað mætt þeirri hækkun sem nú er verið að leggja á til þess að mæta lækkuninni á ferðaþjónustu og hugbúnaðariðnaði án þess að íþyngja ríkissjóði ef miðað var við aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Auk þess hefðu verðlagsáhrifin verið hagstæðari.
Alþingi, 28. apríl 1994.
Halldór Ásgrímsson,
Jóhannes Geir Sigurgeirsson,
Kristín Ástgeirsdóttir.
form.
frsm.