Ferill 285. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 285 . mál.


1132. Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 81 3. ágúst 1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, ásamt síðari breytingum, vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Frá umhverfisnefnd.    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem kveður á um hvaða atriði skulu sett í mengunarvarnareglugerðir m.a. vegna skuldbindinga í tengslum við EES-samninginn.
    Nefndin fékk á sinn fund Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóra í umhverfisráðuneyti, og Þórð Skúlason og Guðrúnu S. Hilmisdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þá studdist nefndin við umsagnir frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Heilbrigðiseftirliti Eyjafjarðar, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, Heilbrigðisfulltrúafélagi Íslands, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, Hollustuvernd ríkisins, Læknafélagi Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruverndarráði, Orkustofnun, Rannsóknaráði ríkisins, Siglingamálastofnun ríkisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vinnuveitendasambandi Íslands og Vísindaráði.
    Nefndin telur að þær hertu kröfur, sem leiða mun af lögfestingu frumvarpsins, séu jákvæðar og í samræmi við þá þróun sem hvarvetna á sér stað á sviði umhverfismála. Nefndin vill þó taka fram að fyrir liggur að hinar auknu kröfur beinast einkum að sveitarfélögum. Fram kom í máli fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga að þau væru afar misjafnlega vel í stakk búin til að gera þær úrbætur sem krafist yrði. Stærstu sveitarfélögin hafa frest til ársins 2000 til að gera þær úrbætur sem þörf er á en sveitarfélög með 15.000 íbúa eða færri hafa svigrúm til ársins 2005. Umhverfisráðuneyti mun þegar hafa átt viðræður við félagsmálaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga vegna þessa máls og leggur umhverfisnefnd áherslu á að þessir aðilar hafi gott samráð við framkvæmd málsins.
    Nefndin mælir því með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Breytingar þær sem lagðar eru til eru eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi er lagt til að kveða megi á um þau atriði, sem tiltekin eru í tölulið 3.2 í öðrum reglugerðum en sérstakri mengunarvarnareglugerð og er sú breyting í samræmi við orðalag í tölulið 3.1.
    Orðalagsbreyting sú, sem lögð er til í tölulið 3.2.1, er til að taka af tvímæli um að kveðið skuli á um hin tilgreindu atriði í reglugerð, en ekki nægi að tiltaka þau í starfsleyfi.
    Lagt er til að við bætist þrír nýir töluliðir sem fjalla um umhverfisstjórn og eftirlitskerfi fyrirtækja, umhverfismerki á vörur og eftirlit með flutningi úrgangs milli landa. Breytingin er gerð að beiðni umhverfisráðuneytis og er forsenda þess sú að ráðuneytið hafi heimild til að taka upp í stjórnvaldsfyrirmæli efni eftirtalinna reglugerða: Reglugerð 880/92/EBE, um veitingu vistmerkis Evrópubandalagsins. Markmið þeirrar reglugerðar er að stuðla að betri markaðsstöðu vara sem hafa lítil neikvæð áhrif á umhverfið og að veita neytendum betri upplýsingar um áhrif þeirra á umhverfið. Í reglugerðinni eru ákvæði um veitingu opinbers umhverfismerkis til þeirra aðila sem óska eftir að nota það á sínar vörur. Reglugerð 1836/93/EBE er ætlað að hvetja iðnfyrirtæki til að laga starfsemi sína að markmiðum umhverfisverndar. Í henni er kveðið á um hvernig standa eigi að vottun og faggildingu á sviði umhverfismála. Reglugerð 259/93 EBE kveður á um að tilkynna beri viðkomandi yfirvöldum ef fyrirhugað er að flytja úrgang á milli landa innan Evrópubandalagsins og út úr því og munu sömu reglur gilda á öllu EES-svæðinu.
    Lagt er til að tölul. 3.2.6 nái til annars atvinnurekstrar en þess sem í daglegu tali er nefndur iðnaður. Lögð er áhersla á að reglur, sem koma í veg fyrir mengun vatns, gildi í öllum atvinnurekstri þar sem vatn er notað í einhverjum mæli.
    Breytingar, sem lagðar eru til í tölulið 3.2.8 og 3.2.9, eru taldar gera ákvæðin skýrari.
    Lagt er til að nýjum lið varðandi varnir gegn jarðvegsmengun verði bætt við, en ekki verður séð að minni þörf sé á að tryggja þann þátt en aðra sem tilgreindir eru í frumvarpinu.
    Orðalagsbreyting í tölulið 3.2.11 í 3. gr. er til samræmingar við orðalag frumvarpsins að öðru leyti.
    Lagt er til að felld verði brott í tölulið 3.2.14 heimild til að ákvarða viðurlög og málsmeðferð í reglugerð, en heimildin er talin óljós eins og henni er fyrir komið í frumvarpinu.

Alþingi, 28. apríl 1994.Kristín Einarsdóttir,

Tómas Ingi Olrich.

Jón Helgason.


form., frsm.Árni M. Mathiesen.

Hjörleifur Guttormsson.

Petrína Baldursdóttir.Árni R. Árnason.

Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Ólafur Ragnar Grímsson.