Ferill 282. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 282 . mál.


1145. Nefndarálit



um frv. til l. um Þróunarsjóð sjávarútvegsins.

Frá minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Samkomulag stjórnarflokkanna um framlagningu sjávarútvegsfrumvarpa á sl. vetri fól í sér frumvarp þetta um Þróunarsjóð sjávarútvegsins sem svo er nefnt. Sjóðnum fylgir að yfirtaka á skuldbindingar atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar og hlutafjárdeildar og leggja sérstakt gjald á aflaheimildir frá og með árinu 1996 til að standa straum af starfrækslu sjóðsins og yfirtöku þessara skuldbindinga. Óttast margir að þar sé á ferðinni vísir að upptöku auðlindaskatts og hefur reyndar annar stjórnarflokkurinn, Alþýðuflokkurinn, túlkað málið í þá veru. Ýmislegt fleira orkar tvímælis, svo sem ákvæði frumvarpsins um úreldingu fiskvinnslustöðva, og hefur gengið illa að fá það útskýrt hvernig það ákvæði eigi að ganga upp í framkvæmd.
    Nú eru að vísu lagðar til af hálfu meiri hlutans lítils háttar lagfæringar sem m.a. ganga í þá átt að rýmka reglur og möguleika sjóðsins til að taka þátt í þróunarverkefnum á sviði sjávarútvegsins, þar með talið verkefnum á erlendri grund, og ber að fagna því. En eftir stendur að frumvarpið í heild sinni, eins og það kemur fyrir, er meingallað enda á það sér formælendur fáa. Satt best að segja hefur ekki fundist í umfjöllun sjávarútvegsnefndar í reynd einn einasti stuðningsaðili frumvarpsins eins og það er í óbreyttri mynd fyrir utan ríkisstjórnina sjálfa og stjórnarflokkana.
    Ljóst er á hinn bóginn að bagalegt er að óvissa ríki lengi um þær leikreglur sem gilda eiga um endurnýjun og úreldingu fiskiskipa. Þar sem legið hefur í loftinu um alllangt skeið eða allt frá því að tvíhöfðanefnd var að ljúka störfum að úreldingarprósentan yrði hækkuð og þaki á heildargreiðslum vegna úreldingar yrði lyft leggur minni hlutinn til að tekið verði á þeim þætti strax. En í ljósi þess að frumvarpið og það fyrirkomulag sem þar er lagt til er meingallað er það afstaða minni hlutans að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Þess í stað verði fluttar breytingartillögur við lögin um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins þar sem í fyrsta lagi verði úreldingarprósentan færð upp í þau 45% sem frumvarpið um Þróunarsjóð gerir ráð fyrir og heildarupphæðin hækkuð með sama hætti. Einnig verði gengið frá því, sbr. margendurtekinn tillöguflutning stjórnarandstöðunnar, að veiðiheimildum sjóðsins verði úthlutað án endurgjalds til jöfnunar á móti þeim samdrætti í afla, einkum þorskafla, sem gengið hefur yfir og á meðan það ástand varir. Jafnframt verði ákveðið að nefnd skipuð fulltrúum allra þingflokka og helstu hagsmunaaðila skuli í sumar vinna að heildarendurskoðun lagaákvæða um hagræðingar- og þróunarmálefni sjávarútvegsins og skila af sér frumvarpi með haustinu sem lagt verði fyrir Alþingi í upphafi þings. Verði þar einnig til skoðunar verðjöfnunar- eða sveiflujöfnunarmál greinarinnar og sá möguleiki kannaður að þessi verkefni verði sameinuð í einum deildaskiptum sjávarútvegssjóði.
    Fulltrúi kvennalistans, Anna Ólafsdóttir Björnsson, er situr fundi sjávarútvegsnefndar sem áheyrnafulltrúi, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 2. maí 1994.



Steingrímur J. Sigfússon,

Halldór Ásgrímsson.

Jóhann Ársælsson.


frsm.



Stefán Guðmundsson.





Fylgiskjal I.


Umsögn Félags um nýja sjávarútvegsstefnu.


(20. mars 1994.)



Umsögn.
    Stjórn Félags um nýja sjávarútvegsstefnu er mótfallin stofnun Þróunarsjóðs í þeim tilgangi og á þeim forsendum sem fyrirliggjandi frumvarp gerir ráð fyrir.
    Verði frumvarpið lagt fram vill stjórn félagsins leggja til að eftirfarandi efnislegar breytingar verði gerðar á því.
    Að úrelding verði einskorðuð við fiskiskip.
    Að Þróunarsjóðurinn fái tekjur af lönduðum afla í stað gjaldtöku „af úthlutuðu aflamarki“.
    Að sjóðnum sé heimilt að veita ábyrgðir, lán og styrki til að greiða fyrir nýsköpun í íslenskum sjávarútvegi, þó ekki til fjárfestinga erlendis.

Rökstuðningur.
    Félag um nýja sjávarútvegsstefnu sér engin efni til þess að leggja gjöld á þær fiskvinnslustöðvar sem enn þá starfa í þeim tilgangi að fjármagna með því úreldingu annarra sem núverandi fiskveiðikerfi og leikreglur þess hafa grafið undan.
    Félagið telur aflagjald eðlilegri og skynsamlegri leið en þá sem frumvarpið gerir ráð fyrir þar sem umrædd gjöld væru þá dregin af tekjum. Þá eru áform um stofnun Þróunarsjóðs og verkefni hans í eðli sínu sjálfstætt mál. Ákvarðanir varðandi álagningu gjalda til þess að afla honum nauðsynlegra tekna eiga einnig að vera það.
    Í fyrirliggjandi frumvarpi er hins vegar gert ráð fyrir að stærsti hluti tekna sjóðsins fáist með innheimtu gjalda af veiðiheimildum. Félag um nýja sjávarútvegsstefnu lýsir fullri andstöðu við þá tilhögun þar sem hún felur það í sér að kvótakerfið yrði fest í sessi og mundi binda hendur löggjafans varðandi mögulegar breytingar í framtíðinni enn fremur en orðið er. Tekjuöflun með innheimtu aflagjalds er hins vegar óháð þeim ákvörðunum sem teknar kunna að verða varðandi breytingar í stjórnkerfi fiskveiða, auk þess sem slík gjaldfærsla er miklu virkara stjórntæki en sú flata gjaldtaka sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Virðingarfyllst,


f.h. stjórnar Félags um nýja sjávarútvegsstefnu,



Óskar Þór Karlsson, formaður,


Árni Gíslason,


Gísli Garðarsson,


Guðfinnur Sigurvinsson,


Hrólfur Gunnarsson,


Kristinn Pétursson,


Skúli Alexandersson.





Fylgiskjal II.


Umsögn Landssambands íslenskra útvegsmanna.


(19. apríl 1994.)



    Ítrekuð er áður kynnt andstaða samtakanna við stofnun þróunarsjóðs sem mun hafa það hlutverk með höndum að innheimta sérstakt gjald af útgerðum og skylda þannig alla útvegsmenn til þess að greiða töpuð útlán Atvinnutryggingarsjóðs og Hlutafjársjóðs. Það er óþolandi að útgerðir, sem þáðu enga fyrirgreiðslu úr þessum sjóðum, skuli með lögum vera þvingaðar til þess að standa skil á þessum útlánum sem stjórnvöld á sínum tíma ákváðu að veita einstaka fyrirtækjum einhliða. Slík vinnubrögð grafa undan eðlilegum starfsreglum og siðferðisvitund þeirra aðila er starfa í sjávarútveginum.
    Lög um væntanlegan þróunarsjóð verða ekki skilin öðruvísi en svo að það skipti í raun ekki máli hvernig einstakir aðilar standa sig í greininni. Með stofnun þróunarsjóðs er verið að refsa þeim aðilum sem staðið hafa skynsamlega að útgerðarrekstri á undanförnum árum og ekki hafa þegið styrki stjórnvalda í gegnum áðurnefnda sjóði.

Virðingarfyllst,


f.h. Landssambands íslenskra útvegsmanna,



Sveinn Hj. Hjartarson.





Fylgiskjal III.


Umsögn útvegsmannafélaga.


(7. mars 1994.)



    Útvegsmannafélögin mótmæla harðlega áformum um sértækar aðgerðir sem miða að því að stofna enn einn sjóðinn. Hlutverk þessa svokallaða þróunarsjóðs er að innheimta sérstakt veiðileyfagjald af sjávarútveginum. Þetta gjald á að leggja á eins og aðstöðugjald, hvort heldur er um hagnað eða taprekstur að ræða. Slík mismunun milli sjávarútvegs og annarra atvinnugreina er óþolandi.
    Þá er einnig mótmælt að sjávarútveginum skuli ætlað að greiða með sérstökum skattstofni töpuð útlán og skuldbindingar Atvinnutryggingarsjóðs og Hlutafjársjóðs. Tilurð þessara sjóða varð til þess eins að brengla samkeppnisstöðu innan greinarinnar og mismuna fyrirtækjum í sjávarútvegi. Það stríðir á móti öllu viðskiptalegu siðferði að ætla þeim aðilum í sjávarútvegi, sem þáðu ekki fyrirgreiðslu úr umræddum sjóðum, að greiða og ábyrgjast nú skuldir þessara sjóða með sérstökum skatti.
    Útvegsmannafélögin hafa ekki fengið neinar haldbærar upplýsingar um hvernig á að standa að úreldingu fiskvinnsluhúsa. Hvernig á að koma í veg fyrir að fiskur sé unninn í tilteknu húsi, hvernig á að koma í veg fyrir að aðili, sem úreldir fiskvinnsluhús, fari ekki með fiskvinnslu í næsta hús eða byggi nýtt hús?
    Útvegsmannafélögin eru sammála því að hækka hlutfall bóta úr Hagræðingarsjóði í 45% til þess að stuðla að frekari úreldingu fiskiskipa.
    Hlutverk Hagræðingarsjóðs á ekki að vera annað en að stuðla að úteldingu fiskiskipa.
    Veiðiheimildum hans á að úthluta í réttu hlutfalli við veiðiheimildir hvers og eins.

Virðingarfyllst,



F.h. Útvegsmannafélags Akraness,


Teitur Stefánsson.



F.h. Útvegsmannafélags Austfjarða,


Eiríkur Ólafsson.



F.h. Útvegsmannafélags Hafnarfjarðar,


Guðrún Lárusdóttir.



F.h. Útvegsmannafélags Hornafjarðar,


Halldóra B. Jónsdóttir.



F.h. Útvegsmannafélags Norðurlands,


Sverrir Leósson.



F.h. Útvegsmannafélags Reykjavíkur,


Sigurbjörn Svavarsson.



F.h. Útvegsmannafélags Snæfellsness,


Guðmundur Kristjánsson.



F.h. Útvegsmannafélags Suðurnesja,


Halldór Ibsen.



F.h. Útvegsbændafélags Vestmannaeyja,


Hilmar Rósmundsson.



F.h. Útvegsmannafélags Þorlákshafnar,


Benedikt Thorarensen.





Fylgiskjal IV.


Umsögn stjórnar SASS.


(16. mars 1994.)



    Samkvæmt 3. gr. ber sjóðnum m.a. að yfirtaka eignir og skuldbindingar Atvinnutryggingarsjóðs. Allt bendir til að þessar eignir séu stórlega ofmetnar, sem og eignir hlutafjárdeildar.
                  Með þessu er því verið að leggja á mörg starfandi sjávarútvegsfyrirtæki stórkostlegar byrðar sem þau stofnuðu ekki sjálf til og hlýtur því að vekja upp spurningar um hvort slíkt sé réttlætanlegt.
    Samkvæmt 4. gr. fær Þróunarsjóður samsvarandi tekjur og Hagræðingarsjóður hafði.
                  Athygli vekur að gjaldið er að hámarki 285.000 kr. sem þýðir að eftir að 300 brt. stærð er náð greiðist ekki gjald af þeim tonnum sem umfram eru. Þessi gjaldtaka mismunar því skipum eftir stærðum.
    Varðandi 5. og 6. gr. má segja að það sýnist varhugavert að leggja sérstök ný gjöld á atvinnustarfsemi sem rekin hefur verið með viðvarandi halla.
    Um 7. gr. Sú regla að greiða út 30% húftryggingarverðs sem úreldingarstyrk hefur í raun sett lágmarksverð á skipsskrokka, óháð ástandi þeirra. Hækkun á þessum úreldingarstyrk í 45% mun aðeins búa til aukin gerviverðmæti sem greiða þarf fyrir í hærra kaupverði skipa milli manna.
                  Hagur þeirra sem hætta útgerð virðist batna með þessari breytingu en eykur á erfiðleika þeirra sem eru að hefja útgerð eða stunda hana.
                  Einnig má benda á að stærðarsamsetning flotans hefur raskast á kostnað millistærðar skipa þannig að sóknarmynstur hefur breyst en þrátt fyrir fækkun skipa stendur stærð flotans í stað og sóknargeta hefur að líkindum aukist. Því hljóta að vakna upp efasemdir um gildi þessara aðgerða.
    Um 9. gr. Fiskvinnsluhúsum hefur verið að fækka af eðlilegum ástæðum. Því ætti að vera óþarft að greiða sérstaklega fyrir slíkt. Enn fremur er mjög vafasamt að ákveða við núverandi aðstæður að hús, sem mörg eru sérhæfð vegna uppbyggingar og staðsetningar, skuli aldrei framar verða nýtt til þeirrar starfsemi sem þau voru þó hönnuð til.
    Mótmæla verður 16. gr. harðlega. Fasteignagjöld eru til þess að bera uppi sameiginlegan kostnað, svo sem við rekstur gatnakerfis, holræsa, brunavarna og svo má lengi telja. Þessi kostnaður vegna viðkomandi eignar leggst ekki af þótt hús standi ónotuð og Þróunarsjóður sé orðinn eigandi. Slíkt ákvæði styðst því ekki við önnur rök en að spara viðkomandi sjóði útgjöld og mundi mismuna sveitarfélögum gríðarlega.



Fylgiskjal V.


Umsögn Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi.


(16. mars 1994.)



(Repró, 2 síður.)





Fylgiskjal VI.


Umsögn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.


(14. mars 1994.)



    Varðandi Þróunarsjóð getur stjórn SSS ekki annað en mótmælt þeim hugmyndum að einstaka aðilar geti fengið undanþágu frá fasteignagjöldum. Það eru grundvallaratriði í augum sveitarstjórnarmanna að markaðir tekjustofnar sveitarfélaganna verði ekki skertir með þessum hætti og þeir minna á að nýlega var aðstöðugjaldið fellt niður til að rétta stöðu atvinnuveganna.
    Stjórn SSS telur einnig varhugavert að auka álögur á sjávarútvegsfyrirtæki í ljósi fjárhagserfiðleika undanfarinna ára.



Fylgiskjal VII.


Umsögn Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.


(16. mars 1994.)



    Við teljum ekki rétt að skattleggja allan sjávarútveginn til að greiða skuldir hluta fyrirtækja í greininni og erum því alfarið á móti þeim hugmyndum þar að lútandi sem settar eru fram í Þróunarsjóðsfrumvarpinu. Núverandi úreldingarsjóður ásamt frjálsu kvótaframsali dugar að okkar mati til að standa undir eðlilegri hagræðingu í greininni.
    Við mótmælum öllum hugmyndum um sérstaka gjaldtöku á sjávarútveg.



Fylgiskjal VIII.


Umsögn Samtaka fiskvinnslustöðva.


(10. mars 1994.)



(Repró, 1 síða.)



Virðingarfyllst,


f.h. Samtaka fiskvinnslustöðva,



Ágúst H. Elíasson, frkvstj.





Fylgiskjal IX.


Umsögn Íslenskra sjávarafurða hf.


(7. mars 1994.)



(Repró, 1 síða.)



F.h. Íslenskra sjávarafurða hf.,



Árni Benediktsson.





Fylgiskjal X.


Umsögn Fiskifélags Íslands.


(22. mars 1994.)



    52. fiskiþing mótmælir harðlega áformum stjórnvalda um stofnun sérstaks Þróunarsjóðs sjávarútvegsins.
    52. fiskiþing leggur áherslu á að Hagræðingarsjóður verði efldur svo að hækka megi úreldingarstyrki úr honum vegna úreldingar fiskiskipa.
    52. fiskiþing fagnar áhuga forustumanna fiskvinnslunnar á að komið verði á laggirnar úreldingarsjóði fyrir fiskvinnsluhús sem fiskvinnslan sjálf greiði iðgjald til og hún ráði sjálf hvaða fiskvinnsluhús fái úreldingarstyrki.

Virðingarfyllst,


Fiskifélag Íslands,



Bjarni Kr. Grímsson, fiskimálastjóri.



Fylgiskjal XI.


Fjármálaráðuneyti:


Kostnaðaráhrif frumvarpsins.


(16. febrúar 1994.)




(Repró, 3 síður.)





Fylgiskjal XII.


Umsögn iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis.


(3. mars 1994.)



(Repró, 2 síður.)



Þorkell Helgason.


Finnur Sveinbjörnsson.





Fylgiskjal XIII.


Ríkisendurskoðun:

Fjárhagsstaða Atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar


og mat á stöðu sjávarútvegshluta deildarinnar.


(18. apríl 1994.)



(Repró, 2 síður.)



Sig. Þórðarson.



(Repró, 1 síða.)





Fylgiskjal XIV.


Upplýsingar frá sjávarútvegsráðuneytinu.


(25. apríl 1994.)



(Repró, 2 síður.)





Fylgiskjal XV.


Minnisblað frá sjávarútvegsráðuneytinu.


(28. apríl 1994.)



    Í 6. gr. frumvarps til laga um Þróunarsjóð er kveðið á um gjald er innheimta skal af úthlutuðu aflamarki frá og með fiskveiðiárinu er hefst 1. september 1996. Í 2. málsl. 1. mgr. segir að „gjaldið skuli nema a.m.k. 1.000 kr. fyrir hverja þorskígildislest miðað við þá verðmætastuðla af einstðkum tegundum sem sjávarútvegsráðuneytið ákveður“.
    Í athugasemdum við 6. gr. segir m.a. um þetta ákvæði:
    „Frá og með því fiskveiðiári sem hefst 1. september 1996 verður lagt gjald á úthlutað aflamark til einstakra fiskiskipa. Er lagt til að gjaldið nemi a.m.k. 1.000 kr. á hverja þorskígildislest miðað við þau verðmætahlutföll milli fisktegunda sem sjávarútvegsráðherra ákveður í reglugerð um veiðar í atvinnuskyni fyrir hvert fiskveiðiár. Í þessari tillögu felst ekki að ráðherra geti hækkað gjaldið umfram þessa fjárhæð. Það sem felst í ákvæðinu er hins vegar það að ef til þess kemur að taka þurfi ákvörðun gjaldsins til endurskoðunar á grundvelli ákvæða 19. gr. verði tillögugerð ráðherra við það miðuð að gjaldið verði ekki lækkað niður fyrir 1.000 kr. á hverja þorskígildislest.“
    Í 2. mgr. 19. gr. frumvarpsins er svofellt ákvæði:
    „Komi í ljós að framtíðartekjur sjóðsins séu ekki í samræmi við skuldbindingar skal ráðherra leggja fyrir Alþingi tillögur um breytingar á tekjustofnum sjóðsins, sbr. 4., 5. og 6. gr.“
    Sé þetta lesið í samhengi er ljóst að gjald skv. 6. mgr. verður að óbreyttum lögum hvorki hærra eða lægra en 1.000 kr. fyrir hverja þorskígildislest (að teknu tilliti til vísitölubreytinga skv. 2. mgr. 6. gr.). Tilgangurinn með skammstöfuninni „a.m.k.“ framan við fjárhæð gjaldsins er sá einn að binda hendur ráðherra ef nauðsynlegt reynist síðar að leggja tillögur um endurskoðun gjaldsins fyrir Alþingi skv. 19. gr. Miðað við þennan skilning á ákvæðinu, sem er fullkomlega ótvíræður samkvæmt athugasemdum við það, sýnist ekki ástæða til að óttast að gjaldtakan standist ekki 40. gr. stjórnarskrár.

Árni Kolbeinsson.