Ferill 614. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 614 . mál.


1190. Nefndarálit



um frv. til l. um samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna og um breyt. á l. nr. 24 7. maí 1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Frumvarpinu, sem flutt var af meiri hluta nefndarinnar, var vísað til hennar eftir 1. umræðu. Nefndin fékk á fund sinn Benedikt Valsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Hólmgeir Jónsson og Óskar Vigfússon frá Sjómannasambandi Íslands, Helga Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands, Kristján Ragnarsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Árna Benediktsson frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og Þórarin V. Þórarinsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands.
    Hlutverk samstarfsnefndarinnar er að fjalla um álita- og ágreiningsmál varðandi uppgjör á aflahlut sjómanna í tengslum við viðskipti með aflaheimildir. Ljóst er að ágreiningur hefur verið um framkvæmd þessara mála enda væri varla ástæða til að setja á stofn sérstaka samstarfsnefnd nema svo væri. Það er mat sjávarútvegsnefndar að þau ágreiningsatriði, sem væntanlega kemur til kasta samstarfsnefndarinnar að fjalla um, liggi nú að mörgu leyti ljósar fyrir en áður og hafi afmarkast. Sjávarútvegsnefnd álítur því, eftir viðræður sínar við þá aðila sem komu á hennar fund, að tilkoma samstarfsnefndarinnar sé tvímælalaust jákvætt innlegg og spor í átt til lausnar þeim erfiðu deilumálum sem uppi hafa verið í tengslum við viðskipti með veiðiheimildir og aflahlut sjómanna. Ljóst varð í nefndinni að nokkurrar tilhneigingar gætir hjá málsaðilum, þ.e. talsmönnum sjómannasamtakanna annars vegar og útvegsmanna hins vegar, til að túlka áhrifin af lögfestingu ákvæða 10. gr. frumvarpsins með mismunandi hætti. Fulltrúar Alþýðubandalagsins í nefndinni óska eftir að taka fram að stuðningur þeirra við málið byggist á þeim skilningi að ákvæði 10. gr. muni binda enda á það að sjómenn séu látnir bera kostnað af viðskiptum með veiðiheimildir. Munu þeir og einstakir nefndarmenn gera nánari grein fyrir viðhorfum sínum í þessu sambandi við frekari umfjöllun um málið í þinginu. Þá vill nefndin leggja áherslu á að leitað verði til Fiskifélags Íslands við öflun þeirra upplýsinga sem kveðið er á um í 2. gr. frumvarpsins, en umsögn Fiskifélagsins um þetta atriði er birt sem fylgiskjal með frumvarpinu.
    Loks leggur nefndin áherslu á að yfirlýsingar sjómannasamtakanna annars vegar og útvegsmanna hins vegar, sem birtar eru sem fskj. I og II með frumvarpinu, eru grundvöllur I. kafla þess frumvarps sem nú liggur fyrir. Á sama hátt má segja að sameiginleg yfirlýsing samningsaðila í kjarasamningum milli Sjómannasambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands, dags. 26. apríl 1992, um að viðskipti með aflaheimildir skuli ekki hafa áhrif á skiptakjör sjómanna, er grundvöllur að ákvæði 10. gr. frumvarpsins í II. kafla sem fjallar um breytingu á lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun.
    Anna Ólafsdóttir Björnsson, fulltrúi Samtaka um kvennalista, sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 3. maí 1994.



Steingrímur J. Sigfússon,

Vilhjálmur Egilsson.

Halldór Ásgrímsson.


varaform., frsm.



Gunnlaugur Stefánsson.

Árni R. Árnason.

Stefán Guðmundsson.



Guðmundur Hallvarðsson.

Jóhann Ársælsson.

Einar K. Guðfinnsson.