Ferill 478. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 478 . mál.


1217. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á þjóðminjalögum, nr. 88/1989, sbr. lög nr. 43/1991.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem felur einkum í sér breytingar á þeim ákvæðum núgildandi þjóðminjalaga sem varða stjórn og skipulag þjóðminjavörslu. Frumvarpið er afrakstur endurskoðunar sem kveðið er á um í 54. gr. þjóðminjalaga, nr. 88/1989, að gerð skuli innan fimm ára frá gildistöku laganna. Í athugasemdum með frumvarpinu er hvatt til að fram fari á næstunni endurskoðun á öðrum þáttum laganna.
    Nefndin fékk á fund sinn við umfjöllun um málið Guðmund Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörð, Árna Gunnarsson, skrifstofustjóra í menntamálaráðuneyti, Árna Björnsson, Elsu E. Guðjónsson og Ingu Láru Baldvinsdóttur, deildarstjóra í Þjóðminjasafni, Lilju Árnadóttur, safnstjóra Þjóðminjasafns, Hallgerði Gísladóttur, formann Félags íslenskra safnamanna, Ólaf Ásgeirsson, formann þjóðminjaráðs, Sveinbjörn Rafnsson, formann fornleifanefndar, Margréti Hermanns-Auðardóttur fornleifafræðing, Kristin Magnússon og Bjarna F. Einarsson, fulltrúa Félags íslenskra fornleifafræðinga, Magnús Oddsson, framkvæmdastjóra ferðamálaráðs, Þór Magnússon þjóðminjavörð og Þórð Tómasson, safnstjóra Byggðasafns Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga. Þá studdist nefndin við umsagnir frá Félagi íslenskra safnamanna, Elsu E. Guðjónsson, deildarstjóra í Þjóðminjasafni, Guðmundi Ólafssyni, fornminjaverði í Þjóðminjasafni, og Sveinbirni Rafnssyni, formanni fornleifanefndar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.
    Í umfjöllun nefndarinnar var rætt um skiptingu safnsins í deildir og mikilvægi þess að vel sé búið að helstu þáttum í starfsemi þess. Þau sjónarmið komu fram að æskilegt væri að skilgreina með nákvæmari hætti en gert er í gildandi lögum markmið Þjóðminjasafnsins og þjóðminjavörslu í landinu. Meiri hlutinn leggur áherslu á að tekið verði tillit til framangreindra sjónarmiða þar eð hér er einungis um að ræða fyrsta skref í heildarendurskoðun þjóðminjalaga sem mikilvægt er að haldið verði áfram hið fyrsta.
    Breytingar, sem meiri hlutinn leggur til, eru eftirfarandi: Lagt er til að orðalag 1. gr. verði lagfært í samræmi við núgildandi skipan samtaka kennara. Þá er lagt til að í 2. gr. verði skýrar kveðið á um hvaða fulltrúar í fornleifanefnd skuli skipa sérfræðinga á sviði fornleifafræði. Loks er lögð til orðalagsbreyting á 4. gr. sem tekur af tvímæli um að Þjóðminjasafn skuli deildaskipt í framtíðinni.

Alþingi, 4. maí 1994.



Sigríður A. Þórðardóttir,

Valgerður Sverrisdóttir,

Árni Johnsen.


form., frsm.

með fyrirvara.



Svavar Gestsson,

Petrína Baldursdóttir.

Ólafur Þ. Þórðarson,


með fyrirvara.

með fyrirvara.



Björn Bjarnason.

Tómas Ingi Olrich.