Ferill 543. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 543 . mál.


1222. Nefndarálit



um till. til þál. um fullgildingu samnings um líffræðilega fjölbreytni.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og sendi hana jafnframt umhverfisnefnd til umsagnar og mælir hún með samþykkt hennar. Umsögn umhverfisnefndar er birt sem fylgiskjal með áliti þessu.
    Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. maí 1994.



Björn Bjarnason,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Ólafur Ragnar Grímsson.


form., frsm.



Páll Pétursson.

Geir H. Haarde.

Anna Ólafsdóttir Björnsson.



Guðmundur Bjarnason.

Árni R. Árnason.





Fylgiskjal.

Umsögn umhverfisnefndar.


(2. maí 1994.)



    Umhverfisnefnd hefur fjallað um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings um líffræðilega fjölbreytni, 543. mál, sbr. bréf utanríkismálanefndar, dags. 8. apríl sl.     Nefndin fékk á sinn fund frá umhverfisráðuneyti Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóra og Karitas Gunnarsdóttur deildarsérfræðing. Einnig kom á fund nefndarinnar Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, en hann var fulltrúi Íslendinga á milliríkjaráðstefnum þar sem unnið var að undirbúningi samningsins.
    Með samningnum skuldbinda aðildarríkin sig til að varðveita líffræðilega fjölbreytni, vistkerfi og erfðaauðlindir (erfðaefni), jafnt og einstakar tegundir lífvera. Staðfest er að ríki hafi fullveldisrétt yfir eigin auðlindum og beri ábyrgð á að nýta þær á sjálfbæran hátt. Eitt af meginmarkmiðum samningsins er að stuðla að sanngjarnri skiptingu hagnaðar af erfðaauðlindum og aðgangi að þeim og tækni til að nýta þær. Samningurinn gerir ráð fyrir að þróunarlönd njóti aðstoðar þróaðra ríkja til að uppfylla ákvæði hans, m.a. fjárhagslegrar. Í samningnum er rík áhersla lögð á að aðildarríki verndi upprunaleg vistkerfi. Kveðið er á um að skrá skuli með skipulegum hætti lifandi náttúru til sjós og lands og ef þörf krefur skuli komið upp verndarsvæðum þar sem gerðar verði ráðstafanir til að varðveita líffræðilega fjölbreytni. Samningsaðilum ber að fylgjast vel með innflutningi tegunda og koma í veg fyrir að þær skaði innlend vistkerfi. Þá eru í samningnum ákvæði um takmörkun á meðhöndlun erfðabreyttra lífvera og erfðaefna sem geta skaðað upprunalegt umhverfi. Einnig er fjallað um líftækni. Um efni samningsins að öðru leyti vísast til greinargerðar frá umhverfisráðuneyti.
    Nefndin bendir á að æskilegt hefði verið að í greinargerð með samningnum hefði komið fram hvern kostnað umhverfisráðuneyti og önnur ráðuneyti telji líklegt að hljótist af skuldbindingum í tengslum við samninginn. Einnig hefði verið æskilegt að frumvarpinu fylgdi greinargerð um lagalegar skuldbindingar sem af samningnum leiðir, rannsóknarþörf og framkvæmdaáætlun, sbr. m.a. 7.–10. gr. samningsins, þar á meðal varðandi strandsvæði og hafsvæði innan íslenskrar lögsögu. Þá virðast tiltekin atriði varðandi einkaleyfarétt vera óljós, sbr. einkum 16. gr., sem fjallar um líftækni, svo og 22. gr. (sbr. bréf Einkaleyfastofunnar, dags. 12. október 1993). Umhverfisnefnd leggur áherslu á að umhverfisráðuneyti hafi forgöngu um að réttarstaða að þessu leyti verði könnuð hið fyrsta.
     Nefndin telur mikilvægt að umhverfisráðuneyti leggi fram á Alþingi við upphaf næsta þings ítarlega skýrslu þar sem fram komi staða Íslendinga í ljósi ákvæða samningsins og hvernig ráðuneytið hyggst á næstunni standa að framkvæmd hans. Slík samantekt ætti að geta fallið vel að nauðsynlegum undirbúningi Íslendinga vegna aðildar að samningnum. Í trausti þess að það verði gert og með vísan til framangreinds telur umhverfisnefnd æskilegt að Alþingi staðfesti sem fyrst þennan þýðingarmikla samning. Samningurinn öðlaðist gildi 29. desember sl. er 30 ríki höfðu staðfest hann, en nú liggur fyrir staðfesting 53 ríkja.

F.h. umhverfisnefndar,



Kristín Einarsdóttir,


form.