Ferill 506. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 506 . mál.


1233. Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir til að stuðla að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum í kjölfar samdráttar í þorskafla.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Efnahags- og viðskiptanefnd hefur haft frumvarp ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í kjölfar samdráttar í þorskafla á Vestfjörðum til skoðunar og m.a. farið til viðræðna við heimamenn á Vestfjörðum í því sambandi. Einnig hefur nefndin aflað gagna um það hvernig samdrátturinn dreifist á landshluta og einstök byggðarlög.
    Frumvarpið hefur sætt harðri gagnrýni, einkum fyrir tvennt. Hið fyrra er að því skuli ekki ætlað að taka til byggðarlaga alls staðar á landinu sem eru í sambærilegri stöðu hvað áhrif af þorskaflabrestinum snertir. Hið síðara er sú þrönga skilyrðing ráðstafananna við sameiningu fyrirtækja í sveitarfélögum sem sameinist öðrum sem frumvarpið byggir á.
    Engin deila er um það að sem landshluti hafa Vestfirðir verulega sérstöðu. Þeir eru hlutfallslega mjög háðir þorskveiðum og sjávarútvegur er þar alger undirstaða í einhæfu atvinnulífi. Einnig hafa þar verið miklir rekstrarerfiðleikar. Hitt er jafnljóst að á einstökum svæðum og í einstökum byggðarlögum annars staðar á landinu finnast sambærilegar aðstæður, á svæðum eða byggðarlögum sem eru hlutfallslega mjög háð þorskveiðum þar sem atvinnulíf er einhæft og erfiðleikar hafa gengið yfir. Tölur frá Byggðastofnun um hlut þorsks í þorskígildum eftir heimahöfn eru mjög athyglisverðar í þessu sambandi.
    Það er skoðun 2. minni hluta að mismunun milli jafnsettra fyrirtækja eða byggðarlaga eins og frumvarpið gerir ráð fyrir með því að binda ráðstafanirnar við einn landshluta séu ótækir stjórnsýsluhættir.
    Hvað hið síðara snertir, þ.e. ákvæði 1., 2. og 3. gr. þar sem sameining fyrirtækja er gerð að skilyrði fyrir aðstoð og ekki bara það heldur skulu hin sameinuðu fyrirtæki jafnframt standa fótum í sveitarfélagi eða sveitarfélögum sem hafa tekið þátt í einhverri sameiningu sveitarfélags, er það skoðun 2. minni hluta að þessi framsetning málsins fái ekki staðist. Það getur á engan hátt verið réttlætanlegt, svo dæmi sé tekið, að útiloka tvö fyrirtæki sem hafa sameinast og fullnægja í einu og öllu skilyrðum fyrir aðstoð á grundvelli þess eins að íbúar viðkomandi sveitarfélags hafa í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu fellt að sameinast öðrum. Einnig getur orkað mjög tvímælis að gera sameiningu fyrirtækja sem slíka að fortakslausu skilyrði en útiloka annars konar endurskipulagningu á rekstri í t.d. stóru fyrirtæki sem væri fyrir stærra en tvö eða fleiri minni fyrirtæki sameinuð. Þá er einnig orðalag frumvarpsins svo misvísandi og óljóst að ómögulegt er að fá botn í hvað fyrir flutningsmönnum, þ.e. ríkisstjórninni, vakir. Er ýmist talað um fyrirtæki eða sveitarfélög sem „ætla að sameinast“, „hafa sameinast“, „vilja sameinast“, „verða sameinuð“ eða „hyggjast sameinast“ eins og segir í athugasemd við 2. gr. Tæknilega er því frágangur frumvarpsins þannig að það hlýtur að teljast mikið metnaðarleysi af þeim sökum einum að afgreiða það óbreytt.
    Annar minni hluti telur því óhjákvæmilegt að lagfæra þessa ágalla frumvarpsins og flytur breytingartillögur í þá veru.
    Í flestum ef ekki öllum umsögnum sem nefndinni bárust kom fram það álit, sem og kom það fram í máli þeirra sem nefndin fékk til viðtals, að óhjákvæmilegt væri að breyta frumvarpinu.
    Að lokum skal það tekið skýrt fram að 2. minni hluti er hlynntur því að gripið verði til aðgerða til að aðstoða þau byggðarlög landsins, og þar með ekki síst Vestfirði, sem orðið hafa harðast úti vegna samdráttar í þorskveiðum. Annar minni hluti vill því gjarnan stuðla að því að frumvarp þetta verði lagfært þannig að hægt sé að afgreiða það með farsælum hætti.
    Verði ekki fallist á neinar breytingar er ljóst að ráðstafanirnar munu koma að næsta litlu gagni auk þess sem þær munu brjóta í bág við grundvallarreglur um jafnræði.
    Óhjákvæmilegt er að gagnrýna að stjórnarflokkarnir skuli ekki hafa verið til viðtals um lagfæringar á frumvarpinu og ekki gefið neitt færi á samráði og mögulegu samkomulagi við stjórnarandstöðuna, heimamenn á Vestfjörðum og aðra aðila um afgreiðslu þess.
    Verði ekki fallist á neinar breytingar á frumvarpinu í þá veru sem tillögur 2. minni hluta gera ráð fyrir og mælt var með í flestum viðtölum og umsögnum hjá nefndinni mun 2. minni hluti sitja hjá við endanlega afgreiðslu málsins.

Alþingi, 6. maí 1994.



Halldór Ásgrímsson,

Steingrímur J. Sigfússon,

Kristín Ástgeirsdóttir.


form.

frsm.



Jóhannes Geir Sigurgeirsson.





Fylgiskjal I.


Bréf bæjarráðs Bolungarvíkur til forsætisráðherra.


(7. apríl 1994.)



(Repró, 2 síður.)



F.h. bæjarráðs Bolungarvíkur,



Ólafur Kristjánsson.





Fylgiskjal II.


Bréf stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga til alþingismanna.


(24. mars 1994.)



(Repró, 1 síða)



Virðingarfyllst,



Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri.






Fylgiskjal III.


Þjóðhagsstofnun:

Lauslegar áætlanir um hag sjávarútvegs eftir landshlutum.


(21. mars 1994.)



(Repró, 2 síður.)




Fylgiskjal IV.


Byggðastofnun:

Hlutur þorsks í þorskígildum eftir heimahöfn fiskveiðiárið 1993–94.


(6. apríl 1994.)



(Repró, 4 síður.)





Fylgiskjal V.


Byggðastofnun:

Hlutur þorsks í bolfiskafla eftir vinnslustöðvum árin 1983–1992.


(6. apríl 1994.)



(Repró, 13 síður.)





Fylgiskjal VI.


Byggðastofnun:

Ástand og horfur í atvinnumálum á Vestfjörðum.


(Mars 1994.)



(Repró, 29 síður.)