Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1314, 117. löggjafarþing 506. mál: stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum.
Lög nr. 96 24. maí 1994.

Lög um ráðstafanir til að stuðla að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum í kjölfar samdráttar í þorskafla.


1. gr.

     Á árinu 1994 er ríkissjóði heimilt að veita Byggðastofnun sérstakt framlag að fjárhæð allt að 300 millj. kr. til að standa straum af víkjandi lánum til sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum sem vilja sameinast og til að styðja nýjungar í atvinnulífi, sbr. 5. gr.
     Framlag skv. 1. mgr. skal greitt eftir því sem víkjandi lán skv. 2. gr. eru samþykkt.

2. gr.

     Þar sem sveitarfélög verða sameinuð á Vestfjörðum er Byggðastofnun heimilt að veita sjávarútvegsfyrirtækjum, sem ætla að sameinast, víkjandi lán. Sama gildir um þau sjávarútvegsfyrirtæki á Vestfjörðum sem hafa sameinast á síðustu þremur árum.

3. gr.

     Forsenda fyrir lánveitingu samkvæmt lögum þessum er að sérstakur starfshópur, sem forsætisráðherra skipar, hafi gert tillögu um afgreiðslu á lánsumsóknum viðkomandi fyrirtækja. Í starfshópnum skulu vera fjórir menn, einn tilnefndur af Byggðastofnun, einn tilnefndur af fjármálaráðherra, einn tilnefndur af félagsmálaráðherra og einn skipar forsætisráðherra án tilnefningar og skal hann vera formaður starfshópsins. Starfshópurinn ræður sér til aðstoðar rekstrarráðgjafa. Kostnaður vegna vinnu starfshópsins og rekstrarráðgjafa greiðist af framangreindum 300 millj. kr.
     Starfshópurinn skal við umfjöllun um lánsumsóknir hafa náið samráð við eigendur fyrirtækja og stærstu kröfuhafa þeirra. Starfshópurinn skal stuðla að samkomulagi þessara aðila um nauðsynlega endurskipulagningu á rekstri hins sameinaða fyrirtækis. Að því loknu ákveður starfshópurinn hvort gera skuli tillögu til stjórnar Byggðastofnunar um lánveitingu. Stjórn Byggðastofnunar samþykkir eða synjar lánveitingar á grundvelli tillagna starfshópsins.
     Samþykki stjórn Byggðastofnunar tillögu starfshópsins um lánveitingu óskar hún eftir því við fjármálaráðuneytið að fá jafnhátt framlag skv. 1. gr.

4. gr.

     Víkjandi lán samkvæmt lögum þessum skulu vera verðtryggð. Lánin skulu enga vexti bera fyrstu þrjú árin. Eftir það skulu lánin bera 5% vexti.
     Lánin skulu vera afborganalaus fyrstu þrjú árin. Næstu þrjú ár skal einungis greiða vexti. Á næstu 10 árum skal greiða höfuðstól, vexti og verðbætur, enda nái skuldarar að fullnægja skilyrðum sem Byggðastofnun setur um víkjandi afborganir, þar sem m.a. er kveðið á um hagnaðar- og eiginfjárkröfur. Ef fyrirtæki fullnægir ekki þessum skilyrðum færist greiðsla hvers árs eitt ár aftur fyrir lánstímann.

5. gr.

     Af framlagi ríkissjóðs skv. 1. gr. er Byggðastofnun heimilt að veita 15 millj. kr. til að styðja við nýjungar í atvinnumálum á Vestfjörðum sem auka fjölbreytni atvinnulífs.

6. gr.

     Forsætisráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 1994.