Niðurgreiðsla og afsláttur til húshitunar

79. fundur
Mánudaginn 30. janúar 1995, kl. 15:36:52 (3636)


[15:36]
     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans. Í fyrsta lagi blasir auðvitað við, og er að hluta til svar við fsp. hv. 6. þm. Vestf., að mjög veruleg aukning hefur orðið á niðurgreiðslum til húshitunar af fjárlögum íslenska ríkisins, úr 296,4 millj. í 401 millj. Ef við tölum um útgreiddar niðurgreiðslur eru það 264 í 405 millj. þannig að við erum að tala um að það hefur orðið eitthvað á annað hundrað millj. kr. aukning ef við miðum við síðarnefndu viðmiðunina. Við erum auðvitað að tala um verulega aukningu. Mér er mætavel ljóst að ýmsar breytingar hafa orðið eins og með virðisaukaskattinn. Það breytir ekki því að það sem eftir stendur er að þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður í ríkisbúskapnum hefur orðið um að ræða verulega aukningu á útgjöldum ríkisins til þess að reyna að lækka orkukostnaðinn í landinu. Þetta er auðvitað svar við fyrirspurninni. (Gripið fram í.) Það sem hins vegar blasir við og er alveg rétt, hv. þm., er það að orkukostnaðurinn er enn þá sligandi úti á landi. Það er alveg ljóst að það þarf enn þá að gera verulegar aðgerðir. Ég hef margoft bent á það og gagrýnt það úr þessum ræðustóli að mér hefur sýnst að

Landsvirkjun hafi alls ekki tekið eðlilega á málinu. Ég viðurkenni að vísu að Landsvirkjun á við sinn vanda að stríða sem er vegna þeirra miklu fjárfestinga sem skila sér ekki og fyrirtækið þarf að standa straum af. Það breytir því hins vegar ekki að þegar við skoðum þessar tölur og skoðum það sem hefur komið fram að mati hæstv. ráðherra að það þyrfti að stórauka afslátt Landsvirkjunar til þess að hún stæði við þau markmið sem orkuverðsnefndin kom með. Það er ekki síst þar sem á skortir að við næðum viðunandi árangri til lækkunar á orkuverði. Það kemur fram hjá hæstv. ráðherra að það þyrfti nær að þrefalda afslátt Landsvirkjunar til þess að við værum búnir að ná þeim árangri sem að var stefnt. Ég vil því segja að ég tel að það sé mjög mikilvægt að núna þegar hæstv. ráðherra fer í þessar viðræður við Landsvirkjun geri hann fyrirtækinu ljóst að mjög mikið vantar upp á að fyrirtækið hafi staðið við það sem að var stefnt með tillögum orkuverðsjöfnunarnefndar í ársbyrjun 1991.