Niðurgreiðsla og afsláttur til húshitunar

79. fundur
Mánudaginn 30. janúar 1995, kl. 15:42:42 (3639)


[15:42]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Ég vil eins og fleiri þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli og koma með fyrirspurn sína. Rafhitunarkostnaður er nú talinn vera nærri tvöfalt meiri fyrir meðalheimili en upphitunarkostnaður er samkvæmt verðskrá Hitaveitu Reykjavíkur og þessi munur er að sjálfsögðu allt of mikill. Þrátt fyrir þær niðurgreiðslur sem eiga sér stað og eru vissulega allra góðra gjalda verðar er munurinn svona mikill og hann þarf verulega að minnka. Hægt er að minnka hann með því að yfirtaka skuldir Rafmagnsveitu ríkisins og Orkubús Vestfjarða og fleiri dreifiveitna en það er líka hægt að knýja Landsvirkjun til að veita meiri afslátt og það er hægt að auka niðurgreiðslur úr ríkissjóði. Allar þessar leiðir þarf sennilega að fara, ná því markmiði að jafna verðlag á þessu sviði og draga úr þessu óréttlæti.