Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 13:57:26 (3658)


[13:57]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég skal viðurkenna að þegar þetta var kynnt fyrir mér á sínum tíma þá var ég nú ekki fljótur til skilnings en tókst þó að lokum að skilja það enda var það þá þýtt sem vernd svæðisrása í smáleiðurum ef ég man rétt og mér tókst loksins að skilja það en svo féll mér nú allur ketill í eld þegar það kom í ljós að það var allt saman rangt og þetta átti að vera svæðisrásir í hálfleiðurum en ekki svæðisrásir í smáleiðurum. Síðan hef ég nú ekki reynt að brjóta þetta mál til mergjar. Enda myndi það sjálfsagt hafa ofboðið mínum skilningi eftir að ég var búinn að setja mig inn í hinn skilninginn sem áður var efst á baugi. En þetta er engu að síður mikilsvert mál sem tengist alþjóðasamningum okkar og nú síðast en ekki síst GATT og við erum skuldbundin til þess að fá fram og fjallar að sjálfsögðu fyrst og fremst um vernd hugverka. Við hv. þm. Páll Pétursson erum nú miklir stuðningsmenn hugverka og ekki síður þess að það sé hægt að vernda hugverk svo menn séu ekki að stela hugverkum hver frá öðrum.