Málefni fatlaðra

82. fundur
Miðvikudaginn 01. febrúar 1995, kl. 15:13:24 (3741)


[15:13]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tek þetta ekkert sem persónulega gagnrýni sem þingmaðurinn sagði en þetta er ótrúlegur útúrsnúningur á því sem ég var hér að segja. Í fyrsta lagi kom þessi skýrsla 1991, í öðru lagi var verið að vinna lögin um málefni fatlaðra, þau tóku gildi 1. sept. 1992. Það var tryggður réttur geðfatlaðra í þessum lögum sem ekki var til staðar þegar var verið að vinna þessa skýrslu. Þeir áttu ekki rétt samkvæmt lögum um málefni fatlaðra áður og það var mjög mikilvægt að koma á þessum rétti.
    Ég verð að segja það til að vera sanngjörn að fyrrv. félmrh. bar hag geðfatlaðra mjög fyrir brjósti. Það væri ósanngjarnt af mér að segja annað. Og það voru sérmerkt framlög og hafa verið þessi þrjú ár og að á ákveðnu árabili yrði sérstök áhersla lögð á sérmerkt fjármagn þeim til handa. Hins vegar hefur það orðið þannig að sú mikla áhersla sem var á sambýli og uppbyggingu sambýla í þessari skýrslu hefur breyst og það hefur verið meiri áhersla á íbúðir eftir að þessi vinna fór í gang og að því leyti horfið frá áherslum. Það er rangt að segja að skýrslan hafi verið lokuð ofan í skúffu eða eitthvað annað slíkt. Auðvitað er verið að vinna með þessi mál og það veit þingmaðurinn sem fyrrv. ráðherra og þó ekki hafi verið byggð einhver ákveðinn fjöldi sambýla sem tilgreind voru í skýrslunni þá er verulega búið að leggja áherslu á málefni þessa hóps.
    Ég vil þess vegna algjörlega hafna því að það sé hægt að túlka orð mín þannig að einhverri skýrslu hafi verið stungið ofan í skúffu. Hins vegar hafa áherslur breyst í málaflokki sem er sterkur í skýrslunni og samkvæmt lögunum hefur verið stutt mjög við bakið á þessum hópi þó við getum e.t.v. verið sammála um það að í velferðarþjóðfélagi sé seint hægt að segja að nægilega vel sé gert.