Forkaupsréttarákvæði fiskveiðistjórnarlaga

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 13:46:17 (3780)

[13:46]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er nokkuð sérkennilegt að hlusta á framsóknarmanninn hv. þm. Guðna Ágústsson koma og deila á þessi fiskveiðistjórnunarlög sem samin eru að tilhlutan Framsfl. og vantar nú hér hv. þm. Halldór Ásgrímsson sem er formaður Framsfl. og höfundur þessara laga. (Gripið fram í.) Ég vil bara benda á það ósamræmi sem er í málflutningi hv. þm. ( GÁ: Opnaðu eyrun.) Menn eru sífellt að versla með óveiddan fisk og það er einmitt það sem við höfum líka deilt á í sambandi við þessi kvótalög. Það er sífellt verið að versla með óveiddan fisk í hagræðingarsjónarmiði. Það er ekkert tillit tekið til byggðasjónarmiða og það er það sem þarf að gerast. Það er það sem Guðni Ágústsson er að segja núna að eigi að gera, það eigi að taka tillit til byggðasjónarmiða en hann hefur bara aldrei stutt það fyrr. Og þess vegna þarf hann að standa að því að beita sér fyrir að þessum lögum verði breytt og þau verði endurskoðuð með það að markmiði að eitthvað af kvótanum sé einhvern tíma til ráðstöfunar hjá byggðarlögunum.